Að ryðja réttlætinu braut

Að ryðja réttlætinu braut

Heimurinn þarfnast manna sem hafa hlýtt hjarta, sem lætur sig varða neyð annarra. Ef til vill hittir þú einhvern í dag sem er orðinn bitur og sár. Einhvern sem álítur að blóm kærleikans sé dautt í kulda heimsins.
fullname - andlitsmynd Gísli Jónasson
29. september 2009

Eitt afdrifaríkasta og dapurlegasta skeið í sögu íslensku þjóðarinnar er í mínum huga Sturlungaöldin. Í raun má segja að þá hafi ríkt skálmöld hér á landi. Frændur og jafnvel bræður bárust á banaspjótum. Hefndarmorð og önnur óhæfu- og ofbeldisverk voru daglegt brauð. Að lokum leiddi þetta ástand til hruns þjóðveldisins. Þjóðin missti sjálfstæði sitt og komst undir erlent vald næstu 680 árin. Það var sem það væri öllum gleymt, spakmælið forna, að með lögum skuli land byggja.

Í gamla testamentinu finnum við m.a. lögmál Ísraelsmanna, sem síðan er dregið saman í boðorðunum tíu. Þar er um að ræða löggjöf, sem ætlað var að koma í veg fyrir stjórnleysi og ofbeldi. Koma á réttlæti, lögum og reglum í þjóðfélagi þar sem skálmöld ríkti.

Ein af meginreglum lögmálsins eru orðin þekktu: Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Þessi regla hefur raunar oft verið misskilin, því hér er alls ekki um að ræða þá hvatningu til endurgjalds og hefndar, sem svo margir halda, heldur er þessi regla þvert á móti sett fram til að tryggja eðlilegt samræmi milli afbrots og refsingar. Í raun og veru er öll nútíma löggjöf og réttarfar hins vestræna heims grundvölluð á þessari meginreglu. Henni er ætlað að forða manninum frá hinum hræðilegu afleiðingum hefndarþorstans, sem við þekkjum því miður svo alltof vel, t.d. úr sögu okkar íslendinga á Sturlungaöld. Henni er ætlað að tryggja réttarríkið og forða okkur frá þeirri tilhneigingu mannsins, að borga helst alltaf tvöfallt til baka fyrir það, sem okkur þykir á okkar hluta gert. En slíkt hugarfar leiðir næstum óhjákvæmilega til þess, að ágreiningur og deilur magnast upp og verða jafnvel að óslökkvandi báli. Við þekkjum því miður vafalaust flest sorglega mörg dæmi um slíkt. Það er jú t.d. einmitt vegna slíks hugarfars, sem bílar hafa verið rispaðir á undanförnum mánuðum og það jafnvel hjá blásaklausu fólki, skorið á dekk vinnuvéla, málingu slett, rúður brotnar og mannorðsmorð framin á netinu í skjóli nafnleyndar. Menn eru sífellt að leita að einhverskonar hefnd.

Eins og ég vék að hér áðan hefur lögmálið oft verið rangtúlkað og misskilið á þann veg, að menn hafa jafnvel talið það skyldu sína, að gjalda ávallt auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Það er afdrifaríkt þegar hamslaus heift hefndarinnar tekur þannig völdin í mannlegum samskiptum og byrgir okkur sýn, þannig að menn taka að beita úrræðum, sem kenna mætti við Sturlungaöld. Réttarríkinu er ýtt til hliðar og dómstóll götunnar settur. Væri okkur ekki hollt að hugleiða til hvaða niðurstöðu slíkt upplausnarástand getur leitt fyrir íslenska þjóð, eða höfum við ekkert lært af afdrifum þjóðarinnar við lok Sturlungaaldar?

Jesús Kristur bendir á miklu ágætari leið en leið endurgjalds og hefndar, þ.e.a.s. leið sáttargjörðar, réttlætis og kærleika. Að við skulum umfram allt leitast við að sigra illt með góðu og leita allra leiða til að stuðla að réttlætinu, fremur en að sækjast eftir því, að fá persónulegum hefndarþorsta okkar svalað.

Þetta var byltingarkenndur boðskapur, eitthvað alveg nýtt, sem greindi kristna trú frá öllu öðru sem boðað var. Það er eins og menn geri sér oft ekki grein fyrir hversu byltingarkenndur boðskapur Jesú var eða vilji a.m.k. ekki horfast í augu við það. Það voru sannarlega ekki sjálfsagðir hlutir sem hann boðaði. Þvert á móti var hér um að ræða boðskap, sem margir gátu hvorki skilið né meðtekið, og þannig er það því miður raunar enn. Hinn þekkti trúarleiðtogi og erkiklerkur Írana, Ajatolla Komeni, lýsti því t.d. yfir í frægu sjónvarpsviðtali, að þennan boðskap Krists gæti hann hreinlega ekki skilið. Þetta væri í sínum huga einfaldlega óraunsætt rugl. Hann gat ekki skilið þetta með fyrirgefninguna og sáttina í boðskap Jesú. Endurgjalds- og hefndarleiðin væri að hans dómi það eina sem vit væri í.

En Jesús bendir okkur á leið kærleikans, þá einu leið sem manninum er fær til réttlátara samfélags. Hann bendir okkur á, að lögin eigi ekki aðeins að ná til hins ytra, heldur verði þau að ná til hjartans. Hann minnir okkur á mikilvægi sambands orða okkar og verka. Hvernig kærleikurinn hljóti að birtast í verki, eins og einmitt var raunin í lífi Jesú sjálfs.

Hversu margt væri ekki öðruvísi okkar á meðal, ef við hefðum lært það betur, að fylgja fordæmi Jesú og framkvæma vilja hans? Heimurinn þarfnast manna sem hafa hlýtt hjarta, sem lætur sig varða neyð annarra. Ef til vill hittir þú einhvern í dag sem er orðinn bitur og sár. Einhvern sem álítur að blóm kærleikans sé dautt í kulda heimsins. Minnstu þess þá, að við erum kölluð til að sýna náunga okkar að Guð er kærleikur. Sýna það með vinsemd, hjálpsemi og umhyggju.

Lögmálið er til þess ætlað, að benda okkur á ábyrgð okkar. Vekja okkur til lífsins. Kalla fram viðbrögð okkar og þjónustu við náungan. Það er því í raun hin hlið kærleikans. Jesús hvetur okkur til að launa illt með góðu, elska óvini okkar, biðja fyrir ofsækjendum og sýna þeim vináttu og miskunn, sem við í raun viljum alls ekki eiga að vinum. Með þessu ryðjum við réttlætinu leið inn í samfélag okkar. Þetta er leyndardómur kærleikans og það er einmitt þetta, sem Komeni, og margir með honum, eiga svo erfitt með að skilja. Þeir geta raunar alls ekki skilið, vegna þess, að þeir þekkja ekki kærleika Krists. Hafa ekki reynt hann í eigin lífi og vantar því allar forsendur til skilnings. Ég vil því ljúka þessum orðum mínum með því að segja, að það er sannfæring mín að kærleikur Krists sé lykillinn að réttlátu samfélagi. Hugarfarið verður að mótast af kærleika og fyrirgefningu Krists, svo við í verkum okkar getum rutt réttlætinu braut í samfélaginu.