Predikun við innsetningu forseta Íslands

Predikun við innsetningu forseta Íslands

Við verðum því sem þjóð að velta því fyrir okkur hvort breytinga er þörf á núverandi stjórnarskrá og þá hverjar. Við þurfum að velta því fyrir okkur hvort hér á landi eigi áfram að vera sú samfylgd þjóðar og kirkju, sem verið hefur einn af grundvallarþáttum í menningu og siðferði þjóðarinnar um aldir.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
01. ágúst 2012
Flokkar

Prédikun flutt í Dómkirkjunni 1. ágúst 2012. Innsetning forseta Íslands. Mt. 7:24-27.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Við erum saman komin hér í Dómkirkjunni í Reykjavík í dag við 5. embættistöku forseta Íslands, herra Ólafs Ragnars Grímssonar, 5. forseta lýðveldisins. Fyrir 68 árum þegar lýðveldið var stofnað ríkti gleði í hjörtum Íslendinga þrátt fyrir dimmu og vonleysi stríðsins. Dagurinn var dagur frelsisins, framtíðarinnar og landsins. Eldri Íslendingar muna vel eftir þessum fagnaðardegi og muna jafnvel hvernig veðrið var þennan tímamótadag. „Það rigndi mikið“ sagði kona mér sem fór á vörubílspalli úr Borgarfirðinum til Þingvalla 17. júní 1944.

Það skiptast á skin og skúrir í lífinu sem náttúrunni. Dæmisagan sem Jesús sagði og var lesin frá altarinu áðan minnir okkur á það. Jesús hafði brýnt fyrir áheyrendum sínum að dæma ekki, að biðja, leita og knýja á, að ganga inn um þrönga hliðið og að varast falsspámenn, þegar hann sagði dæmisöguna um húsin tvö og byggingu þeirra. Hann minnir á að hver sem breytir eftir orðum hans sé hygginn eins og maður sem byggir hún sitt á bjargi og hver sem ekki breytir eftir orðum hans sé heimskur eins og maður sem byggir hús sitt á sandi.

En eins og allar dæmisögur bendir sagan á annað og meira en í fyrstu virðist. Hún fjallar um lífið og hvernig við lifum því. Hún fjallar um trúna og hvernig við notum hana. Hún fjallar um Jesú og kirkjuna hans. Hún minnir á að við þekkjum ekki fyrirfram þau illviðri sem geta mætt okkur í lífinu. Í henni leggur Jesús áherslu á að ef við viljum byggja okkur traust líf skulum við reisa það á óhagganlegum kletti, sem ekki sígur undan þó á hann rigni eða í móti blási. Við getum því litið til þessarar sögu þegar við hugsum persónulega um líf okkar og lífsstefnu. Við getum líka litið til þessarar sögu þegar við íhugum þjóðfélag okkar og hvernig við viljum hafa það. Undanfarið hefur okkur gefist gott tækifæri til þess að hugsa um þann grundvöll sem við viljum byggja á sem þjóðfélag vegna umræðunnar um stjórnarskrána. Það var gefandi að fylgjast með vinnu stjórnlagaráðs. Þökk sé tækninni fyrir að það var hægt. Það var einnig gott að fylgjast með því mikla framtaki þegar hundruð voru kölluð saman til þjóðfundar. Þar velti fólk fyrir sér grunninum og þar skoruðu hátt hugtök eins og heiðarleiki, jafnrétti, lýðræði, réttlæti, sjálfstæði. Hugtök sem auðvelt er að vera sammála um að eigi að vera stoðir íslensks samfélags. Kirkja og þjóð hafa átt samleið um langan aldur. Boðskapur kirkjunnar er boðskapur kristinnar trúar, en sá boðskapur hefur mótað hugmyndir okkar Íslendinga um mann og heim. Í stjórnarskrá lýðveldisins er sagt að hin evangeliska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi, og skuli ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.

Stjórnarskrá er samfélagssáttmáli og það þarf að ríkja um hana sátt. Henni er ætlað það hlutverk að vera bjarg sem þjóðfélagið byggir á. Við verðum því sem þjóð að velta því fyrir okkur hvort breytinga er þörf á núverandi stjórnarskrá og þá hverjar. Við þurfum að velta því fyrir okkur hvort hér á landi eigi áfram að vera sú samfylgd þjóðar og kirkju, sem verið hefur einn af grundvallarþáttum í menningu og siðferði þjóðarinnar um aldir. Við getum sennilega öll verið sammála um að í stjórnarskránni sé getið meginstoða í skipun samfélagsins, svo sem skilgreiningu ríkisvalds og mannréttinda, þar á meðal trúfrelsis.

Á fundi kirkjuráðs í júní síðastliðnum var minnt á tillögu Alþingis um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þar var samþykkt ályktun sem „minnir á að hin evangelísk lúterska þjóðkirkja er einn mikilvægasti grunnþáttur samfélagsins, opin, lýðræðisleg almannahreyfing sem heldur uppi þjónustu og mannræktarstarfi um landið allt, opinber og lögbundin stofnun sem myndar ramma um trúarhefð meirihluta þjóðarinnar, einstaklinga, fjölskyldna og heimila, og heldur utan um mikilvæga arfleifð og minningu og menningu samfélagsins“. Í ályktuninni var einnig minnt á að „Í vaxandi fjölmenningu hefur þjóðkirkjan stuðlað að virðingu og skilningi milli trúarbragða og menningarheima. Þjóðkirkjan er auk þess einn mikilvægasti menningarmiðill í landinu og gegnir lykilhlutverki gagnvart þeim veiku í samfélaginu og sem samstarfsaðili við þau sem vinna að réttlæti og friði í heiminum“.

Í vor hitti ég margt forystufólk trúarbragðanna hér á landi í móttöku í biskupsgarði. Þau hafa hist reglulega síðastliðin sex ár. Mér fannst áberandi gleðin yfir samfundunum og virðingin fyrir trúarskoðunum. Og ég hugsaði að það væru færri vandamál í heiminum og fleiri friðarstundir ef alls staðar væri svona gott samfélag fólks. Ólíkar skoðarnir og mismunandi trúarskoðanir þurfa því ekki að vera vandamál ef vilji er til samtals og samveru. Með það í huga samþykkti kirkjuráð einnig í ályktun sinni að í „samfélagi þar sem æ fleiri trúarhreyfingar, trúarhættir og trúarhugmyndir hasla sér völl og kalla til áhrifa felst menningarlegur og samfélagslegur styrkur í því að hafa opna og rúmgóða þjóðkirkju sem stendur vörð um grundvallargildi á traustum stoðum sögu og menningar. Kirkjuráð tók einnig undir orð norsku stjórnarskrárinnar þar sem segir að: „Allir þegnar ríkisins skulu njóta frelsis til trúariðkunar“, en í Noregi er Þjóðkirkja eins og hér. Þar er eins og í núverandi stjórnarskrá okkar kveðið á um stuðning ríkisins og að „öll trú- og lífsskoðunarfélög skuli njóta stuðnings með ámóta hætti“.

Mikilvægt er að undirbúa allar byggingar vel þannig að þær standi á föstum grunni. Það á við um húsbyggingar sem og uppbyggingu hvers konar. Eins og fjölskyldur vilja byggja líf sitt og heimili á traustum grunni eins þarf þjóðfélagið og stofnanir þess að standa traustum fótum. Réttarfarslega, fjárhagslega samfélagslega, atvinnulega, lýðræðislega, hugarfarslega. Eitt aðalatriðanna varðandi húsbyggingar er að hafa þekkingu á framkvæmdinni og eðli hennar. Það sama á við í einkalífi og opinberu lífi. Líf okkar þarf að byggja á þekkingu, sem býr til skilning, umburðarlyndi og öryggi. Líf okkar þarf líka að byggja á von því maður sem á enga von hefur á engu að byggja.

Í dæmisögunni um húsin tvö segir Jesús við áheyrendur sína: „Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni, er byggði hús sitt á bjargi. Nú skall á steypiregn, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi, en það féll eigi, því það var grundvallað á bjargi“.

„Guðs kirkja er byggð á bjargi, en bjargið Jesús er“, segir sr. Friðrik Friðriksson í sálmi. Undanfarin ár hafa stormar blásið og regnið steypst á Þjóðkirkjuna. Hún stendur þó enn. Hún stendur vegna þess að hún er byggð á bjargi. Hún er byggð á Jesú Kristi. Hún byggir á honum sem sagði: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu“. Og í krafti þessa valds sendi hann lærisveina sína út í heiminn til að skíra og kenna. Hvernig svo sem okkur tekst til sem höfum fengið það hlutverk að leiða Kirkjuna, þá stendur hún. Ekki vegna okkar heldur hans sem sagðist vera „vegurinn, sannleikurinn og lífið“. Hann er sá sem leiðir Kirkjuna, hann er leiðtogi lífs okkar flestra, því við höfum játað í votta viðurvist að við viljum leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins. Leiðtogi er sá sem leiðir. Leiðtogi er fyrirmynd. Leiðtogi stjórnar með valdi sem honum er fært en ekki áskapað.

Það er mikið talað um í nútímanum að það vanti sterkan leiðtoga. Jesú er sá sterki leiðtogi sem við getum fylgt, leitað til, fundið styrk hjá og leiðir til úrbóta. Hann „sér til þess, að færa leið ég finni fyrir skrefið hvert á lífs míns braut“. Og það á við bæði í einkalífi okkar sem og í starfi og þjónustu allri. Og þó góðu verkin séu gulls í gildi eru þau haldlaus ef þau eru ekki unnin af trú og trausti til Drottins sem gefur okkur af kærleika sínum til að vinna þau. Þannig verkar hinn guðlegi máttur í gegnum mennina enda hefur Guð engar hendur hér í heimi nema hendur okkar barnanna sinna. Auðmjúk hlýðni við boð Guðs er nauðsynleg hverjum þeim er vill kallast kristinn einstaklingur. Þar er sá klettur er við getum byggt dómgreind okkar á, metið hvað er rétt, hvað er við hæfi, hvernig við komum fram við hvert annað. Á þessu byggist traustið til einstaklinga og stofnana.

Samleið þjóðar og kirkju hefur verið farsæl um aldir. Samfélag kirkju og forseta hefur verið gefandi frá fyrstu tíð. Megi svo áfram vera. Til hamingju herra Ólafur Ragnar Grímsson með fimmtu embættistöku þína. Megi þér, eiginkonu þinni og fjölskyldu allri vel farnast, í Jesú nafni. Amen.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.