Sólarmessa

Sólarmessa

Í dag ætlum við að skoða hvernig sólin og sólargeislarnir eru okkur lifandi tákn um nærveru hins mikla Guðs. Sunnudagur þýðir sólardagur. Það er dagurinn, sem við öðrum dögum fremur lofum skapara ljóss og lífs. Nýr dagur þýðir ný sólarupprás. Ný birta. Nýtt líf.

Nú fór hann í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gjörði svo mikið veður á vatninu, að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: Herra, bjarga þú, vér förumst.

Hann sagði við þá: Hví eruð þér hræddir, þér trúlitlir? Síðan reis hann upp og hastaði á vindinn og vatnið, og varð stillilogn.

Mennirnir undruðust og sögðu: Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum. Mt. 8:23-27

“Ég boða yður mikinn fögnuð”. Það voru orð engilsins á jólanótt. Og hér stend ég í dag og boða ykkur þennan sama fögnuð. Kristin kirkja flytur fagnaðarerindi. Það er hlutverk hennar og tilgangur. Kirkjuklukkurnar kalla okkur til samfélags - til að heyra og meðtaka gleðiboðskapinn svo hann umbreyti lífi okkar og við göngum út í hið daglega líf með blessun Guðs til allra. “Veistu það – hefur þú heyrt það – að Drottinn er hinn eilífi Guð, sem skapað hefir endimörk jarðar?” sagði texti Jesaja spámanns!

Það er ótrúlegt, en satt, að það er hinn alvaldi, eilífi Guð, sem kallar okkur til samfélags við sig.

Í dag ætlum við að skoða hvernig sólin og sólargeislarnir eru okkur lifandi tákn um nærveru hins mikla Guðs. Sunnudagur þýðir sólardagur. Það er dagurinn, sem við öðrum dögum fremur lofum skapara ljóss og lífs. Nýr dagur þýðir ný sólarupprás. Ný birta. Nýtt líf.

Blessuð sólin elskar allt, allt með kossi vekur. Haginn grænn og hjarnið kalt hennar ástum tekur.

Geislar hennar út um allt eitt og sama skrifa á hagann grænan, hjarnið kalt: Himneskt er að lifa. Táknmál þessa ljóðs Hannesar Hafstein er sterkt: Sólin elskar allt og kyssir jörðina með geislum sínum, sumar og vetur, - og jörðin veitir þessari ást viðtöku! Það er fagnaðarefni á Ísafirði ( Flateyri) og mjög víða á landinu okkar, þegar sólardagurinn kemur, þegar sólin nær að skína á okkur og sveipa okkur birtu sinni og hlýju. Við bíðum sólargeislanna með eftirvæntingu og þiggjum ást sólarinnar.

Sólin er mikilvægari í lífi okkar en við hugsum að jafnaði út í. Það er gott að láta morgunsálmana og hin margvíslegu sólarljóð minna okkur á þetta. Guðmundur Ingi Kristjánsson orti mörg slík, t.d. þetta: “Ó, sólskin, glaða sólskin, þú vekur von og kæti og vanga mína kyssir með indæl fyrirheit.”

Sólargeislarnir bera okkur blessun Guðs: Hlýju, gleði, birtu og líf. Sólargeislarnir eru kossar Guðs. Í vetrarmyrkri og kulda skrifar sólin með geislum sínum á harðan klakann: “Himneskt er að lifa”. Orðin minna okkur á gjafir skaparans. Sá Guð, sem gefur okkur sólina og lífið, hefur einnig gefið okkur kærleikann. En það er ekki alltaf himneskt að lifa. Það eru ekki allir dagar sólskinsdagar.

Í Ísafjarðarkirkju: (Samfélag okkar hér á Ísafirði hefur fengið að finna fyrir því undanfarna daga að sorgin knýr dyra. Jarðarfarirnar hafa verið fleiri en guðsþjónusturnar. Myrkur hefur skollið á í lífi margra. Þess vegna er það sérstakt gleðiefni að barn er borið til skírnar í dag. Emil Ágúst er okkur tákn um sólskin Guðs, sem gefur nýtt líf og nýja birtu. Í ungbarninu sem borið er til Jesú til að þiggja blessun hans, birtist okkur opinn kærleiksfaðmur hins almáttuga Guðs. Ný von.)

Kirkjan kallar okkur til samfélags á sunnudegi, sólardegi, til að bera okkur boðskapinn um nærveru Guðs, birtu og kærleika, hjálp og blessun.

Sérhver guðsþjónusta er listaverk, málað með kærleiksgeislum Guðs, byggt upp með orði Guðs, ákveðnu stefi Biblíutextanna, sálmum og bænum. Og við erum hluti af þessu listaverki sunnudagsguðsþjónustunnar.

Í dag, á 4. sunnudegi eftir þrettánda, berst okkur þessi sterki boðskapur um hinn mikla Guð og skapara, sem hefur allt vald á himni og jörðu. Guð kraftaverkanna. “Veistu þá ekki, hefur þú ekki heyrt, að Drottinn er hinn eilífi Guð, sem skapað hefur endimörk jarðarinnar og veitir kraft hinum þreytta og gnógan styrk hinum þróttlausa”?

Það var þessi Guð kraftarins, sem var um borð í bátnum hjá hræddum lærisveinum, sem urðu vitni að því, þegar Jesús hastaði á vindinn og vatnið, svo að það varð stillilogn. Og þó að þeir hefðu áður orðið vitni að alls konar kraftaverkum, þá undruðust þeir.

Þannig líður okkur einmitt, þegar Guð opinberar okkur mikilleik sinn. Frammi fyrir almáttugum, kærleiksríkum Guði finnum við svo vel hve vanmáttug og allslaus við erum. Við finnum líka, hve trú okkar er lítil. Í vanmætti okkar og veikleika megum við leita hjálpar hjá hinum almáttuga Guði, eins og lærisveinar Jesú gerðu. Og þegar við verðum vitni að kraftaverkum hans, þá undrumst við.

Fátt er betur til þess fallið að sýna okkur mikilleik Guðs, en sólin og sköpunin sem sólin afhjúpar, lífið, sem sólin kemur til leiðar. Sólargeislarnir bera okkur birtu og hlýju – og þeir flytja blessun Guðs.

Ég sé fyrir mér forsíðu á bók, sem ég las af áfergju á yngri árum. Myndin sýnir dreng á hnjánum með upplyftum höndum móti sólu. Bókin ber nafn drengsins og heitir: Bláskjár. Sagan er ævintýri um fegurð og grimmd í mannlífinu. Aðalstef hennar er fólgið í lotningu forsíðumyndarinnar, sem býr innra með mér sem predikun fyrir lífið allt. Drengurinn var ólánsbarn, sem lenti í höndum sígauna, flökkumanna, sem rændu börnum. Hann var lokaður inni í helli og fékk aldrei að fara út á daginn þegar bjart var. Í hellinum var flökkustúlka, sem varð vinur Bláskjár. Hún bjó við aðrar lífsreglur og fékk að fara út á daginn. Hún sagði Bláskjá frá sólinni, þessu mikla undri. Og það varð hans heitasta þrá að komast út og sjá sólina. Og það gerðist. Bláskjár þekkti þá enn ekki Guð, en þegar hann upplifði undur sólarupprásar, féll hann á kné og lyfti höndum móti sólu í undrun, lotningu og þakklæti.

Þessi mynd af Bláskjá er mér sem fyrirmynd í dimmum og sorgfullum heimi. Lífið er fullt af ræningjum í margs konar merkingu: Hættum og sjúkdómum, slysum og sorgum, illsku, fátækt og böli. En sól Guðs skín. Kærleiksgeislar Guðs umlykja okkur. Þeir minna okkur á mikilvægi orða Páls postula: “Skuldið ekki neinum neitt nema það eitt að elska hver annan”..

Í dag er bænadagur að vetri. Við erum minnt á að biðja hvert fyrir öðru. Við eigum sameiginleg bænarefni sem bræður og systur á jörðinni - og í söfnuðinum - og hvert um sig eigum við okkar persónulegu bænarefni.

Í Flateyrarkirkju:

Mig langar að nefna Kvenfélagið Brynju sem sérstakt fyrirbænarefni í dag. Þessar fáu konur í þessu litla kvenfélagi vinna fórnar- og kærleiksstarf. Við getum hjálpað þeim við það í dag með því að kaupa sólarkaffi í Félagsbæ nú á eftir.

Við erum rík. Við eigum mikil gæði. Við búum að vísu í köldu landi, þar sem sólin mætti skína oftar, en við eigum mikla hlýju og mikið sólskin í margvíslegum skilningi. Og við eigum almáttugan, kærleiksríkan Guð. Föllum á kné í undrun, lotningu og þakklæti. Biðjum þess að líf okkar verði sólargeislar hans. Amen

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen