Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni, er byggði hús sitt á bjargi. Nú skall á steypiregn, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi, en það féll eigi, því það var grundvallað á bjargi.
En hver sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, sá er líkur heimskum manni, er byggði hús sitt á sandi. Steypiregn skall á, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi. Það féll, og fall þess var mikið." (Matt
Þegar ég var í framhaldsskóla vann ég um stundum á sumrin hjá þeirri skrifstofu borgarinnar sem sá um að úthluta lóðum. Þá fékk ég nasasjón af heimi þeirra fullorðnu sem sóttu um lóðir og byggingaleyfi fyrir framtíðarheimili sitt. Fólk var yfirleitt spennt þegar það sótti um, en líka stressað og ef til vill kvíðið því að húsbyggingu fylgdu miklar fjárskuldbindingar og mikil vinna var framundan. Mikil eftirspurn var eftir byggingarlóðum, iðulega fengu færri en vildu og það þótti happ að fá lóð. Sumir urðu þó fyrir vonbrigðum með lóðirnar og stundum kom fólk og skilaði fenginni lóð af því að það var allt of djúpt niður á fast, niður á bjarg sem hægt var að byggja húsið á. Engum datt í hug að leggja grunn að húsi sem ekki var byggt á bjargi.
Það skiptir máli hvar við byggjum. Það er ekki nýr sannleikur. Grunnurinn þarf að vera traustur. Þetta vissu hlustendur Jesú líka fyrir 2000 árum. Kristur notaði líkingar oft í máli sínu, líkingar úr daglegu umhverfi fólksins og þetta voru líkingar sem fólk skildi. En hver sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, sá er líkur heimskum manni, er byggði hús sitt á sandi. Steypiregn skall á, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi. Það féll, og fall þess var mikið. Ógnir náttúrunnar voru hlustendum Jesú ekki heldur framandi, stormur í eyðimörkinni gat verið lífshættulegur, öldur á Genesaretvatni ógnuðu sjómönnum og hafið mikla og ógurlega geymdi ógnir og óskapnað sem sem enginn þekkti til hlýtar. Rigningar gátu sett jarðveg af stað og þá var eins gott að hafa grundvallað hús sitt vel.
Það skiptir máli hvar við byggjum hús – undirlag og staðsetning – allt er það mikilvægt eins og við vorum svo óþyrmilega minnt á við nýlegar hamfarir í Suðaustur Asíu.
En Kristur á hér ekki í rökræðum við húsasmíðameistara, hann er að tala við breiðari hóp en svo og hann er að ræða um mikilvægi þess að byggja líf sitt á traustum grunni. Þessi texti snýst sem sagt um það á hverju við byggjum líf okkar.
Hver sem breytir eftir orðum mínum er líkur hyggnum manni er byggði hús sitt á bjargi.
Viljinn til að breyta eftir orðum Krists einkenndi líf hinna fyrstu kristnu. Og sá vilji bar ávöxt í verkum þeirra. Samfélag þeirra bar vitni um kærleiksboðskap Krists, um samhjálp og umhyggju fyrir þeim sem erfitt áttu. Í bréfum nýja testamentisins, sem skrifuð eru til fyrstu safnaðanna sjáum við hversu mikil áhersla er lögð á þessi atriði, að vitja sjúkra, að hugga sorgmædda, að aðstoða ekkjur og aðra í neyð.
En kristin kirkja er mannlegt samfélag um andlegan boðskap og manneskjan er sjálfri sér lík, metingur og flokkadrættir komu upp í sumum safnaðanna. Í borginni Korintu var söfnuðurinn við það að klofna því að safnaðarmeðlimirnir vildu kenna sig við mismunandi boðendur orðsins. Sumir sögðust fylgja Páli, aðri Apolló, enn aðrir Kefasi. Páll átelur söfnuðinn í bréfi og segir:
„Þegar einn segir: "Ég er Páls," en annar: "Ég er Apollóss," eruð þér þá ekki eins og hverjir aðrir menn? Hvað er þá Apollós? Já, hvað er þá Páll? Þjónar, sem hafa leitt yður til trúar, og það eins og Drottinn hefur gefið hvorum um sig.“ Og hann bætir við stuttu síðar
„10Eftir þeirri náð, sem Guð hefur veitt mér, hef ég eins og vitur húsameistari lagt grundvöll, er annar byggir ofan á. En sérhver athugi, hvernig hann byggir. 11Annan grundvöll getur enginn lagt en þann, sem lagður er, sem er Jesús Kristur.“
Þetta er sýnin um hina einu kirkju, kirkju Krists.
Þrátt fyrir orð Páls hefur klofningur verið hluti af sögu kristinnar kirkju. Það á bæði við um frumkristni og okkar tíma. Kirkjur eru margar og samfélög ólík. Oft er það ekki boðskapurinn sjálfur sem er svo ólíkur heldur hefðirnar og yfirbragðið. En fyrt allar kirkjur byggja á því sama, hvers vegna sameinast þær ekki?
Drauminn um sameiningu hafa margir átt og beðið fyrir. Alla síðustu öld var unnið af mikilli eindrægni að því að efla samvinnu og samstöðu ólíkra kirkjudeilda. Það starf fór fram víða um heim og á ýmsum vettvangi.
Uppsprettu starfsins má meðal annars rekja til þess að kristniboðsfélög sem störfuðu á landssvæðum sem ekki voru kristin áttuðu sig á þeim erfiðleikum sem fylgdu því þegar kristið fólk deildi sín á milli á kristniboðsakrinum, þar sem það vann þó að sameiginlegu verki – að breiða út ríki Guðs.
Margir eldhugar lögðu hönd á plóg og samvinnan var á mörgum sviðum og er enn. Grundvallarstarf fór fram á þeim vettvangi sem snýr að sameiginlegum skilningi, virðingu og samþykki á embættum og þjónustu. Þar hafa mörg skref verið tekin. Sem lítið dæmi um það má nefna að Anglikanska kirkjan á Bretlandseyjum og lútherskar kirkjur á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjum, hafa opnað dyrnar fyrir meðlimum hvorrar kirkjudeildar fyrir sig. Þetta þýðir meðal annars að íslenskir prestar Þjóðkirkjunnar geta starfað sem prestar innan anglikönsku kirkjunnar á Bretlandseyjum.
Kirkjur sem tilheyra Austurkirkjunni, til dæmis gríska og rússneska rétttrúnaðarkirkjan, hafa tekið virkan þátt í samkirkjulegu starfi og á t mum kalda stríðsins voru þau tengsl sem kirkjurnar austan tjalds höfðu við kirkjur vestantjalds ómetanleg þegar samskipti voru víða rofin.
Annar augljós styrkur samkirkjulega starfsins er hjálparstarfið, bæði þróunar og neyðarhjálp og samstaða með þeim sem þjást. Þannig studdu alþjóðleg samkirkjuleg samtök til dæmis baráttu gegn apartheid í Suður Afríku og í vinna saman að stuðningi við munaðarlaus börn á svæðum þar sem alnæmi hefur lamað heilu landssvæðin. Þau aðstoða líka fátækt fólk þriðja heimsins til sjálfshjálpar, með markvissri þjálfun og fjárframlögum svo að fólk geti komið undir sig fótunum til dæmis hafið einhvers konar atvinnurekstur.
Þessi alþjóðlegu samtök vinna með kirkjunum á hverju landssvæði og eru þannig stuðningur við það góða starf sem heimamenn vinna. Þessi styrkleiki kom skýrt fram við hamfarirnar í Suðaustur Asíu. Alþjóðahjálp kirkna hafði víðfeðmt net á neyðarsvæðum, net fólks sem þekkti vel til staðhátta og gat brugðist fljótt við.
Sjálf hef ég verið svo heppin að fá að kynnast samkirkjulegu starfi hér á landi og víða um heim. Það er mikil ögrun og reynir oft á samstarf þegar hefðir og skoðanir eru ólíkar en gleðin yfir samstarfinu er þó alltaf meiri og gefur kraft til að takast á við áskoranirnar. Í gegnum þetta starf hef ég fengið að sjá ríkidæmi þessarar hreyfingar sem vitnar um fjölbreytni í einingunni.
Einn af ávöxtum þessa samkirkjulega starfs sem við fögnum í dag er bænavikan sem jafnan er haldin síðari hlutann í janúar. Að henni standa Alkirkjuráðið eða heimsráð kirkna, world council of churches – samtök á fjórða hundrað kirkna, og kaþólska kirkjan og er beðið fyrir einingu kirkjunnar.
Á hverju ári er kirkjum á einhverju svæði falið að undirbúa bænavikuna, velja þema og ritningartexta. Í fyrra kom efnið frá kirkjum í aleppo í Sýrlandi – svæði þar sem átök hafa sett svip á mannlífið. Þaðan kom bæn um frið – undir yfirskriftinni: Minn frið gef ég yður.
Að þessu sinni kemur bænarefnið frá Slóvakíu og sem dæmi um samstarfið má nefna að það var samið af prestum frá rétttrúnaðarkirkju, lútherskri kirkju, baptistakirkju, meþódistakirkju, mótmælendakirkju, gamal-kaþólskum og kaþólsku kirkjunni.
Þar eru kirkjur nú í vexti eftir fjögurra áratuga stöðnun og þrengingar á tímum kommúnisma. Saman veltu fulltrúar þeirra fyrir sér hvernig þau gæti náð að vaxa í einingu um leið og kirkjudeildirnar vaxa hver um sig.
Þriðji kafli fyrra bréfs Páls til Korintumanna fjallar einmitt um það. Grundvöllurinn er Kristur. Hann er sá hornsteinn sem allar kirkjunar byggja á. Það sem sameinar er stærra en það sem sundrar.
Þetta hefur líka verið leiðarljós samstarfsnefndar kristinna trúfélaga sem hefur staðið að þessari viku hérlendis frá árinu 1968. Það sem sameinar er stærra en það sem sundrað og samstarfið hefur verið dýrmætt, aukið skilning okkar á trúararfinum og hvatt okkur til dáða í samstarfi. Aðild að nefndinni eiga: Aðventistar, Fríkirkjan Vegurinn, Hvítasunnukirkjan, Hjálpræðisherinn, Íslenska Kristkirkjan, Kaþólska kirkjan, Óháði söfnuðurinn og Þjóðkirkjan.
Saman skipuleggja þessir aðilar samkomur og bænastundir daglega í heila viku og verða þær haldnar bæði á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri, auk þess sem hvatt hefur verið til þess að bænavikunnar sé minnst um allt land.
Ég hvet alla til að taka þátt í þessum samverum og bænastundum. Þær eru öllum opnar og eru dýrmætt tækifæri til að kynnast bræðrum og systrum í öðrum trúfélögum en okkar eigin. Samkomurnar eru kynntar í fjölmiðlum og á vefsíðum sumra aðildarfélaga.
Þegar við gengum inn kirkjuganginn við upphaf messunnar í dag voru bornir inn tveir plankar og lagðir hér fram við altarið. Á meðan við syngjum sálminn hér á eftir verða þessir plankar lagðir þannig að þeir myndi kross, til að minna okkur á þann hornstein sem við öll byggjum á.
Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni, er byggði hús sitt á bjargi. Nú skall á steypiregn, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi, en það féll eigi, því það var grundvallað á bjargi.
Þetta er hvatningin sem við stöndum frammi fyrir í dag. Á hverju byggjum við líf okkar. Byggjum við það á orðum Krists og hvaða afleiðingar hefur það fyrir okkur. Hvað þýðir það fyrir breytni okkar, fyrir afstöðu okkar til meðbræðra og systra – fyrir afstöðu okkar gagnvart öðrum kristnum kirkjum?
Ein heilög almenn kirkja, það er framtíðarsýnin, framtíðarlandið eða kirkjan á bakvið allar kirkjudeildir sem sem byggja á orðum Krists og breyta eftir þeim. En boð Krists er það sama til okkar allra, hvar sem við stöndum, að hlýða á orð hans og boðskap og láta hann móta líf okkar og starf.
Textar: Matt.7:24-27 I Kor 3:1-23