Á hátíð ljóss og friðar

Á hátíð ljóss og friðar

Við getum líka litið okkur nær því myrkrið er víða í samfélagi okkar. Það búa ekki öll börn við mannsæmandi aðstæður. Veraldleg fátækt er því miður staðreynd hér á landi og ófriður birtist í mörgum myndum á heimilum og á götum úti. Því miður búa margir við óöryggi, fólk á öllum aldri, bæði börn og eldri borgarar og allir aldurshópar þar á milli.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
25. desember 2014
Flokkar

Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því. Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes. Hann kom til vitnisburðar, að vitna um ljósið og vekja alla til trúar á það. Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið.

Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Þau urðu ekki til á náttúrulegan hátt né af vilja manns heldur eru þau af Guði fædd. Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum. Jóh 1.1-14

Við skulum biðja: Guð, sem ert ljós í myrkri. Þetta er dagurinn sem þú hefur gjört. Dagur hinnar miklu gleði. Þú kemur á móti okkur þar sem við þreifum okkur áfram í dimmunni, og lætur okkur sjá í Jesú Kristi fagnaðarboðskap til handa heiminum öllum og ljós huggunarinnar fyrir augum okkar að eilífu. Amen.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Gleðilega hátíð ljóss og friðar. Í gærkvöldi heyrðum við frásögu Lúkasar læknis af fæðingu Jesú. Hann tengir fæðinguna við veraldarsöguna, þegar Kýreneus var landstjóri á Sýrlandi og Ágústus keisari heimsveldisins. Í dag var jólaguðspjallið lesið og þar segir Jóhannes guðspjallamaður frá á allt annan hátt en Lúkas. Hann nefnir aldrei fæðingu en talar um líf og ljós sem hann tengir við Orðið sem var í upphafi. Þetta minnir óneitanlega á sköpunarfrásögu 1. Mósebókar sem hefst á orðunum: „Í upphafi skapaði Guð himinn og jörð“.

Þegar guðspjöllin voru skrifuð höfðu höfundar þeirra vissa áheyrendur í huga. Jóhannes virðist hafa skrifað rit sitt fyrst og fremst fyrir grískumælandi áheyrendur með bakgrunn í heiðnum trúarbrögðum. Hann til dæmis úrskýrir stundum siði Gyðinga en það hefði hann sennilega ekki gert ef ritið væri eingöngu ætlað þeim.

Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð“ með þessum orðum hefur Jóhannes guðspjall sitt. Þetta gæti allt eins verið upphaf á ljóði en í samhengi textans má ljóst vera að Orðið sem var í upphafi vísar til Jesú. Ef við setjum orðið Jesús í stað Orðsins með stórum staf fáum við skýrari mynd af því sem Jóhannes talar um í guðspjalli sínu. Í upphafi var Jesús og Jesús var hjá guði og Jesús var Guð. Þarna er komin hugsunin sem fram kemur í jólasálmi Einars í Eydölum eða Heydölum eins og bærinn er líka kallaður þegar hann segir í sálmi sínum:

Fjármenn hrepptu fögnuð þann, þeir fundu bæði Guð og mann, í lágan stall var lagður hann, þó lausnarinn heimsins væri. :,: Með vísnasöng ég vögguna þína hræri. :,:

Jóhannes guðspjallamaður segir með öðrum orðum að Jesús sé Orðið með stórum staf, hið skapandi orð guðs, hans eilífa hugsun og speki í heiminn komin sem maður. Orðið varð hold, Orðið varð maður, segir Jóhannes. „Hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum“.

Guð kom í heiminn. Þetta er boðskapur jólanna. Ekki virðast menn hafa tekið því fagnandi. Jóhannes orðar það svo: „Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því“.

Ljós og myrkur, þessar andstæður eru staðreynd í heimi hér. Myrkrið sem hopar nú fyrir ljósinu þegar daginn hefur tekið að lengja er tákn alls þess sem erfitt er og ekki lífvænlegt. Það er nóg af þannig myrkri í heiminum. Í dag er okkur kunnugt um myrkur um víða veröld. Það er bæði umhugsunarefni og staðreynd að mannslífin eru lítils metin víða. Reynt er að brjóta viðleitni niður sem bætir líf fjöldans. Víða er litið á menntun stúlkna sem ógn við samfélagið en ekki til uppbyggingar þess. Þannig var yfir tvö hundruð nígerískum skólastúlkum rænt af heimavist í skjóli nætur. Þar voru á ferð fullorðnir karlar, félagar í hryðjuverkasamtökum, sem höfðu það að markmiði að koma í veg fyrir að ungar stúlkur gætu látið framtíðarvonir sínar rætast.

Stúlkurnar og foreldrar þeirra vissu um hættuna sem fylgi því að fara í skólann en vonin um að menntunin færði þeim betra líf var óttanum yfirsterkari. Því miður er þetta veruleiki margra eins og glöggt hefur komið fram hjá friðarverðlaunahafanum Malölu Yousafzai, sem talibanar skutu næstum til bana vegna baráttu fyrir menntun stúlkna. Hugrekki hennar ætti að vera okkur hvatning til að grípa til aðgerða til að tryggja örugga skólagöngu allra barna, hvar í heiminum sem þau búa.

Íslendingar taka þátt í þróunarsamvinnu sem bætir daglegt líf þúsunda, t.d. í Malawí. Á sléttunum í suðurhluta landsins hefur Hjálparstarf kirkjunnar ásamt fleirum borað eftir hreinu vatni og þar eru nú brunnar sem gefa hreint vatn. Verkefnið gefur ekki aðeins vatn heldur tíma til að bæta lífsgæðin. Nú hafa börnin, einkum stúlkurnar, sem höfðu þann starfa að ná í vatnið, tíma til að ganga í skóla í orðsins fyllstu merkingu og þannig bætt lífsgæði sín og afkomenda sinna.

Við getum líka litið okkur nær því myrkrið er víða í samfélagi okkar. Það búa ekki öll börn við mannsæmandi aðstæður. Veraldleg fátækt er því miður staðreynd hér á landi og ófriður birtist í mörgum myndum á heimilum og á götum úti. Því miður búa margir við óöryggi, fólk á öllum aldri, bæði börn og eldri borgarar og allir aldurshópar þar á milli. Ekki má heldur gleyma þeim sem leita hér skjóls, þeim sem eru á flótta frá heimalandi sínu, hælisleitendum, sem fá ekki blíðar viðtökur á flótta sínum, heldur eru þeir færðir bak við lás og slá um stund ef í ljós kemur að vegabréfið er falsað. Enn önnur birtingarmynd myrkursins í samfélagi okkar er notkun vímuefna sem getur tekið burt mennskuna og haft lamandi áhrif á fjölskyldur og vini. Þó það sé ekki stríð í eiginlegri merkingu hér á landi er ljóst að við heyjum stríð við myrkrkið. Nú býðst okkur að taka við ljósinu. Hinu sanna ljósi, sem upplýsir hvern mann. Það er í heiminn komið, hann, Jesús Kristur gengur með okkur veginn í þessu lífi. Við þurfum vilja til að sjá ljósið, sjá Jesú Krist, koma auga á hið góða, sjá mynd hans í hverju barni. Flestir vilja sjá lífið í þess bestu myndum. Vilja sjá réttlæti og kærleika ríkja. Það er hlutverk Kirkjunnar að koma þessum kærleiksboðskap á framfæri. Þar sem kirkjan er ekki bara stofnun heldur við öll sem tilheyrum henni er ljóst að áhrifa kirkjunnar gætir hvar sem einstaklingar ganga fram í nafni kærleika og friðar, í anda Jesú Krists. Leiðtogans sem meirihluti þjóðarinnar vill leitast við að fylgja. Jesús byggði brúna milli Guðs og manna. Hann var brúin. Og hann hvetur okkur til að byggja brýr með kærleikann að leiðarljósi, hlýju og mýkt. Bros, faðmlag, hlýja, jákvæðni og kærleikur getur breytt miklu í samskiptum manna.

Móðir Teresa:sagði að þau fátæku hungraði „ekki aðeins í mat, heldu eftir kærleika okkar og líka að litið sé á þau sem manneskjur. Þau hungrar í virðingu og að komið sé fram við þau eins og okkur sjálf. Þau hungrar eftir kærleika okkar.“

Íslensk kona, Tinna Isebarn er verk­efna­stjóri hjá alþjóðlegu frjálsu fé­laga­sam­tök­un­um „Global Network for Rights and Develop­ment“. Sam­tök­in komu af stað þró­un­ar- og mann­rétt­inda­verk­efn­inu „I Have a Right to Play“ (RTP) í Khartoum, höfuðborg Súd­ans árið 2013. Verk­efnið er með það mark­mið að gefa börn­um og ung­ling­um sem lifa á göt­unni tæki­færi til þess að njóta rétt­inda þeirra til þess að leika sér.

„Við gáf­um þeim tæki­færi til þess að keppa í fót­bolta og blaki í ör­uggu og mann­sæm­andi um­hverfi. Þessi börn lifa við mjög bág­ar aðstæður og mörg af þeim fengu þarna t.d. sínu fyrstu skó, bún­inga og bolta,“ seg­ir Tinna á vefmiðlinum Mbl.is.

„ Á meðan ég vann með þess­um börn­um börðust þau um at­hygli mína. Ef ég hrósaði ein­hverj­um þurftu marg­ir aðrir hrós og oft hrópuðu mörg þeirra „Tinna sjáðu mig! Sjáðu mig líka!”. Einn strák­ur snéri sig á ökla og ég sett­ist niður með hon­um til að skoða og kæla ökl­ann. Þau um­kringdu mig og þótt­ust öll vera eitt­hvað slösuð, ég gaf ein­um plást­ur á lítið sár sem hann var með og hin grát­báðu mig um plást­ur. Ég endaði með því að faðma þau öll í staðinn til að geta haldið æf­ing­unni áfram, þá myndaðist röð og einn strák­ur fór þris­var í röðina til að fá faðmlag,“ seg­ir hún. 

Já, heimsins börn þrá kærleika sem birtist meðal annars í faðmlagi og hlýju.

Jólin snúast um kærleikann. Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. (Jóh.3:16) Lausnarinn er fæddur vegna þín, til að brúa bilið milli þín og Guðs. Leyfum honum að ganga með okkur lífsveginn og gefa okkur trú til að verða til blessunar. Að við fáum dimmu í dagsljós breytt.

Jólin minna okkur á náð og sannleika hans, sem mest og best fær hjálpað okkur út úr ógöngum. Því meira sem myrkrið er, því skýrar ættum við að sjá hið bjarta Ijós, þar sem það skín. Jólin minna okkur ekki á löngu liðinn atburð, heldur benda þau okkur á hann, sem enn er lifandi Drottinn dýrðarinnar og vakir með okkur, fús að leiða hvern, sem leitar hans. Gleðileg jól, í Jesú nafni.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.