Hallgrímur Pétursson - þriðji hluti

Hallgrímur Pétursson - þriðji hluti

Við sáum í síðasta pistli að lífsbaráttan hafði verið hörð hjá þeim Guðríði og Hallgrími á Suðurnesjum. Og þó að umskipti hafi nú orðið frá Suðurnesjaárunum, vildi gæfan þó ekki brosa við þeim hjónum í einkalífi.
fullname - andlitsmynd Þórhallur Heimisson
07. apríl 2014

Við sáum í síðasta pistli að lífsbaráttan hafði verið hörð hjá þeim Guðríði og Hallgrími á Suðurnesjum.

Og þó að umskipti hafi nú orðið frá Suðurnesjaárunum, vildi gæfan þó ekki brosa við þeim hjónum í einkalífi.

Elsta barn þeirra, Eyjólfur, komst reyndar til fullorðinsára. En önnur börn sem þeim fæddust á þessum árum, dóu ung. Þekktast þeirra er Steinunn, en hún andaðist á 4. ári l649. Var hún einstaklega skýrt barn og yndi föður síns, og orti Hallgrímur ljóð eftir hana af frábærum innileika og dýpt. Lætur það engan ósnortinn sem það les.

Þannig minnist Hallgrímur dóttur sinnar Steinunnar:

Næm, skynsöm, ljúf í lyndi, lífs meðan varstu hér, eftirlæti og yndi ætíð hafði ég af þér, í minni muntu mér; því mun ég þig með tárum þreyja af huga sárum, heim til þess héðan fer.

Félagslega efldist vegur séra Hallgríms á Hvalsnessárunum. Er hans getið á prestastefnum, sem Brynjólfur biskup efndi til á Þingvöllum og meðal annars nefndur í dóma, en vafalaust hefur biskup vandað val manna til þeirra starfa. Brynjólfur vísiterar Hvalsnes l7. ágúst l646. Er þá risin þar ný kirkja, sem Hallgrímur bersýnilega hefur haft frumkvæði að, að koma upp. Góðæri og mikil aflabrögð voru yfirleitt á Suðurnesjum þessi ár. Er engin ástæða til að ætla annað en Hallgrími hafi búnast bærilega á Hvalsnesi. Skilar hann staðnum vel á sig komnum í hendur næsta prests, séra Gísla Pálssonar.

Árið l65l flytjast séra Hallgrímur og fjölskylda hans að Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Vinur Hallgríms, Árni bóndi Gíslason á Ytra-Hólmi, hafði um það meðalgöngu við Saurbæjarsóknarmenn, að þeir óskuðu eftir að fá Hallgrím. Var því síðan komið á framfæri við biskup og höfuðsmann um veturinn og séra Hallgrími veitt embættið 8. apríl.

Ári síðar vísiteraði biskup Saurbæ. Fóru þá fram vitnisburðir og bar prestur sóknarmönnum og sóknarmenn prestinum vel söguna.

Var nú hafið farsælasta tímabilið í ævi Hallgríms Péturssonar. Er ekki að efa, að viðbrigðin, sem nú urðu á ævikjörum hans, leystu úr læðingi allt það sem best var í fari Hallgríms og skáldskap. Út á við er líf hans viðburðalítið, og fer engum þjóðsögum af þessum hluta æviskeiðsins. En á næsta áratug eða rúmlega það verða Passíusálmarnir til og vafalaust meginþorrinn af ágætustu verkum Hallgríms. Árið l656 yrkir hann Samúelssálma, en árið l659 lýkur Hallgrímur Passíusálmum.

Ári síðar semur hann guðfræðiverkið Diarium, og í maí l66l sendir hann Ragnheiði Brynjólfsdóttur biskups Passíusálmana og sálminn um dauðans óvissan tíma, „Allt eins og blómstrið eina“. Sá sálmur hefur um aldir síðan verið sunginn yfir moldum flestra Íslendinga.