Gleði og friður í nærveru Guðs

Gleði og friður í nærveru Guðs

Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd.

Þessi orð úr Filíppíbréfinu (sjá Fil 4.4-7) hafa lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Ekki það að mér lánist að fara eftir þeim hverja stund en það er vissulega markmiðið. Svona langar mig að vera: Glöð og ljúflynd. Mig langar að vera fagnaðarboði, flytja frið og gleðitíðindin um nánd Guðs; að nærvera Guðs í lífi mínu verði augljós öllum sem hitta mig. Lykillinn að gleðinni og ljúflyndinu er nefnilega gefinn í þessum orðum sem birta veruleika trúaðrar manneskju: Að Drottinn er í nánd – Guð þinn er sestur að... (sjá Jes 52.7-10).

Gleðin er gjöf Vegna þess að Guð er ekki bara gestur í lífi mínu heldur heimamaður, sestur að hjá mér, nær mér heldur en börnin sem ég hef borið undir belti get ég verið glöð. Í sjálfri mér á ég ekki þetta glaðlyndi. Það er gjöf, náðargjöf, nærverugjöf frá jólabarninu, Jesú Krist, sem er Drottinn minn og frelsari. Vegna hans þarf ég ekki að vera hugsjúk um neitt. Vegna þess að hann fæddist inn í minn veruleika þarf ég ekki að láta áhyggjur eða kvíða buga mig. Guð er hér og ég get talað við hann um allt.

Í því samtali verður gleðin og ljúflyndið til – og friðurinn, friður Guðs sem er æðri öllum skilningi. Friður er ástand, staða sem ekki verður skýrgreind á vitsmunalegan hátt og verður ekki komið á í mannlegum mætti. Ef það væri hægt væri heimurinn kannski aðeins friðsamlegri. En friður er andleg staða, yfirnáttúrulegt ástand sem aðeins Guð fær skapað að fullu. Það er þessi friður sem varðveitir hjarta mitt og hugsanir þegar ég fel mig friðarhöfðingjanum, þegar ég opna fyrir nærveru Jesú Krists í lífi mínu.

Eina vandamálið er skortur á Guði Uppáhaldsútvarpsmaðurinn minn heitir Guðbjörn og hann starfar á kristilegu útvarpsstöðinni Lindinni. Hann er svo blátt áfram og skemmtilegur og um daginn heyrði ég hann segja að eina vandamálið í lífi okkar væri skortur á Guði. Skortur á Guði er orsök alls þess sem hrjáir okkur. Mér finnst þetta ekki bara vel sagt heldur finn ég líka að það er satt. Þegar ég gleymi nærveru Guðs í lífi mínu týni ég niður gleðinni og ljúflyndið hleypur frá mér, friðurinn verður víðs fjarri.

,,Ef þú smælar framan í heiminn þá smælar heimurinn framan í þig” orti Megas af nokkurri kaldhæðni (árið 1979 á plötunni Drög að sjálfsmorði). En málið er ekki svona einfalt. Innantómt smæl mun aldrei vekja annað en hol viðbrögð heimsins. Brosið þarf að ná til augnanna og eiga sér grunn í hjartanu, í því djúpi trúarinnar sem leyfir nærveru Guðs að streyma óhindrað inn og áfram, út til náungans.

Friður fæðingarinnar Og nú er Drottinn sannarlega í nánd, hann sem ,,er og var og kemur, hinn alvaldi” eins og segir í fyrsta kafla Opinberunarbókar Jóhannesar. Á jólum fögnum við fæðingu frelsarans Jesú Krists, hans sem er ,,ímynd hins ósýnilega Guðs... fyrri en allt og allt á tilveru sína í honum”. ,,Í honum þóknaðist Guði að láta alla fyllingu sína búa og láta hann koma öllu í sátt við sig, öllu bæði á jörðu og himninum með því að semja frið með blóði sínu úthelltu á krossi” (Kól 1.15-20). Sáttargjörðin, friðaryfirlýsingin varð þegar við fæðingu Jesú, sem ,,var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur” (Fil 2.6-7.

Þannig eru líka jólin hátíð friðþægingarinnar, ekkert síður en páskarnir. Í holdtekningunni, eins og það heitir á guðfræðimáli, þegar Guð varð maður kom hann sjálfur á sátt á milli sín og mannkyns. Getnaður, fæðing, líf, dauði og upprisa Jesú Krists er allt hluti af sömu heildarmynd, mynd kærleika Guðs til okkar, mynd nærveru Guðs inn í líf okkar, mynd sáttargjörðar og vináttu hins alvalda, hans sem ,,er og var og kemur”.

Að faðma Jesú í trú Sá boðskapur breytist ekki með tíðaranda og tískusveiflum. Þess vegna syngjum við af hjarta fallega 19. aldar sálminn hans Helga Hálfdánarsonar (númer 69 í sálmabók þjóðkirkjunnar):

Upp, gleðjist allir, gleðjist þér, í Guði vorum fagna ber, vort hjálpráð nú er nærri.

Í 2. erindinu finnum við trúarreynsluna tala:

Burt, hryggð, úr allra hjörtum nú, kom heilög gleði, svo í trú vér Jesú faðmað fáum...

Er þetta ekki fallegt! Að heilög gleði komi svo við fáum að faðma Jesú í trú. Það liggur við að ég biðji ykkur um að gera eins og börnin sem ég hitti á hverri aðventu hér í kirkjunni, að leggja arma saman eins og jötu fyrir lítið barn og finna nálægð og kærleika Guðs í fangi okkar. Ef sú innri hugsýn trúarinnar veitir ekki heilaga gleði fyrir anda Guðs þá veit ég ekki hvað.

Í þriðja erindi sama sálms erum við minnt á ,,þann frið sem gleðin heims ei jafnast við”. Í mínum huga er heilaga gleðin og himneski friðurinn samfléttuð kærleika Guðs og nærveru. Ekkert fær staðið án hins. Það er nærvera Guðs sem birtist í kærleiksgjöf hans þegar hann gaf sjálfan sig, heiminum til lífs, mér og þér til lífs, sem færir okkur sanna gleði og sannan frið. Leyfum okkur að meðtaka þá nærveru núna í nánd jóla. Leyfum okkur að fyllast tilhlökkun eins og börnin sem lengir eftir heilagleika og hátíð með ástvinum sínum, ekki síður en gjöfum og góðum mat. Gefum eftirvæntingu barnsins rúm í lífi okkar, væntum gleði, friðar og ljúfrar nærveru Drottins á jólum og að jafnaði.

Gleðilega hátíð, kæru vinir.