Hvað blasir við?

Hvað blasir við?

Situr ekki þjóðin löskuð eftir? Hún hefur vissulega fengið að kenna á ýmsum lögmálum með ónotalegum hætti. Ekki neitum við því, en sannarlega voru þar aðrir guðir að verki sem teymdu menn áfram á bindinu niður í öldudal kreppu og himinhárra skulda. Ekkert í ritningunni mælti með því háttarlagi sem komið hefur okkur þangað sem við erum.

Nú standa spjótin á kirkjunni. Hvað þeir hljóta að kætast sem hafa lengi hugsað henni þegjandi þörfina! Hvert árið líður þar sem ógæfuskýin hrannast upp. Sá sem stæði fyrir utan kirkjuna og þekkti hvorki starf hennar né boðskap gæti haldið að gagnrýnin beindist að gráðugum auðhring sem vildi sölsa undir sig allt og alla og skila engu aftur. Hvað á annars að halda þegar menn setjast niður í nafni mannréttinda til þess að setja kirkjunni skorður? Nei, víst má ætla að boðskapurinn sé hættulegur börnum okkar, og eru þau nú ýmsu vön – fáeinum músarsmellum frá hroða og lágkúru.

Hvað er að óttast?

Já, hvað er það sem menn óttast? Hvert er það tjón sem þjóðin burðast með eftir að hafa nánast verið í uppeldi hjá þessari stofnun frá landsnámsöld? Það eru engar ýkjur. Kirkjan sinnti uppeldismálunum. Barnalærdómurinn var á hendi prestanna. Háskólinn á rætur sínar í prestaskólanum á Bessastöðum sem stofnaður var á grunni skólanna í Skálholti og á Hólum. Það var ekki fyrr en í byrjun 20. aldar sem kirkjan afhenti þetta verðuga verkefni til veraldegra yfirvalda. Já, menning okkar hefur nú heldur betur verið illa stödd eftir að hafa sótt uppfræðslu sína til kirkjunnar í níu aldir og gott betur.

Þó var þessi litla og fátæka þjóð ríkari að menningarverðmætum en nokkru öðru.

Og svo þegar áratugirnir liðu, þótti það sjálfsagt að skóli og kirkja ynnu áfram náið saman. Kristnifræðikennslan í höndum presta. Fermingarfræðslan ríkur þáttur af starfi ungmenna. Heimsóknir í kirkjur á hátíðum og jafnvel fræðsla um helga texta sem standa eins og kennileiti á ferð okkar um árið. Nú vilja menn setja kirkjunni stólinn fyrir dyrnar. Ef skólinn á að vinna með kirkjunni, hvað? á þá ekki að opna dyrnar fyrir stjórnmálahreyfingum eða þá bara sölumönnum utan að götu?

Einhver hlýtur þó að horfa í kringum sig og spyrja hvernig þessari litlu þjóð ríði af eftir þessi afskipti sem hafa staðið yfir í heilt árþúsund. Hvað segja kannanir og hvað getum við lesið út úr tíðarandanum?

Dæmigerð dæmisaga

Áður en við reynum að svara þeim stóru spurningum skulum við ekki gleyma textunum sem hér voru lesnir. Þetta er afskaplega dæmigerð dæmisaga eins og þær koma fyrir í Nýja testamentinu. Hún hefst á spurningu, eins og þær margar. Skrýtin spurning – kannske. Hvað er málið með sjö? Er ekki nóg að segja bara, „já“ einu sinni ef einhver segir: „fyrirgefðu“, nú eða eins og nútímamenn og nútímabörn gera oftar: „sorrí“.

Nei, spámaðurinn Amos talar um að Guð fyrirgefi í þrígang og ef til vill hefur Pétur viljað ganga lengra hafandi lært sitthvað af samfélagi sínu við Krist. Talan sjö það sem við köllum heilagar tölur. Hún felur í sér eitthvað sem er fullkomið og þarf enga viðbót. Sköpunarsagan segir frá sjö dögum og Guð blessaði hinn sjöunda dag. Þá var allt fullkomið. Hví skyldi fullkomin fyrirgefning því ekki vera sjöföld?

Með svari sínu bendir Kristur á það að fyrirgefningin á sér í raun engin takmörk. Og af hverju gerir hann það? Til þess að minna okkur á að fyrirgefa náunganum sem brýtur gegn okkur? Jú, en ekki síður til þess að minna okkur á það að Guð á himnum er sífellt tilbúinn að umbera veikleika okkar og breiskleika. Það hafði Kristur gert í mörgum öðrum dæmisögum – einmitt þegar hann talaði um himnaríki. Það snýst svo mikið um það að endurheimta það sem glatast hafði og virtist að eilífu horfið. Glataði sonurinn sem sólundaði ættarauðnum í mislukkaðri útrás mætti opnum faðmi föður síns þegar hann sneri aftur heim. Hirðirinn sem týndi einum sauði skildi alla hina eftir uns hann fann þennan eina. Og konan sem fann ekki eina talentu af hundrað hætti ekki að leita þar til hún hafði fundið þessa einu. Þá hélt hún mikla veislu.

Hvað segir þetta okkur sem fyllum flokk kristinna manna? Jú, við getum misstigið okkur alveg skelfilega en Guð er sífellt tilbúinn að gefa okkur annað tækifæri og taka við okkur að nýju. Við getum gleymt okkur og hrasað á leiðinni. Ekki einu sinni, ekki sjö sinnum, heldur miklu oftar. Og Jesús segir við okkur – það er aldrei svo komið að þú getir ekki litið í eigin barm og iðrast af heilum hug, bætt ráð þitt, bætt fyrir það sem þú hefur gert og Guð er alltaf tilbúinn að taka við þér. Þetta er boðskapurinn. Þegar við horfum upp til Guðs þá mætir hann okkur með þessum skilaboðum.

Í miðju krossins

En kristin trú snýst ekki aðeins um það að horfa upp á móti skapara okkar. Krossinn okkar er ekki bara með lóðréttum ás. Nei, á honum eru líka armar sem benda út til beggja átta og þeir minna okkur á það að við eigum jafn mikið að horfa í kringum okkur á náunga okkar. Þetta tvennt verður aldrei aðskilið. Við segjum ósatt ef við játum trú okkar á Guð en elskum ekki náungann. Tvöfalda kærleiksboðorðið segir okkur að ástin til Guðs og ástin til náungans eru ekki tvær aðskildar kröfur til kristinna manna, heldur í raun hið sama. Þetta hangir allt saman. Við fyllumst kærleika til þeirra sem í kringum okkur standa þegar við af heilum hug játumst Guði.

Þess vegna verður boðskapur dæmisögunnar dæmigerðu svo strangur. Þjónninn hafði aldrei iðrast með þeim hætti sem honum bar. Orð hans voru innantóm. Hann gat vissulega dregið upp angur sitt og ónot yfir stöðu sinni og háum skuldum – en hann var ófær um að setja sig í spor annarra. Þegar röðin kom að því að hann átti sjálfur að endurgjalda það sem honum hafði verið gefið, þá sýndi hann enga eftirgjöf. Hann var jafn óbifanlegur og hann óttaðist að húsbóndinn yrði.

Lykilþættir í boðskap Krists

Já, kæru vinir. Þetta er dæmigerð dæmisaga. Hún geymir lykilþætti í boðskap Krists, sem við leyfum okkur að kalla fagnaðarerindi. Þar stöndum við sjálf í miðjunni. Já, við erum þarna í brennipunktinum, í miðjum krossinum og ásarnir ganga allt út frá okkur. Einn vísar niður á þann stað sem við erum á. Sú staða er ekki alltaf góð. Í efnahagnum er hún hreint ómöguleg, þessa dagana ekki satt, með ferlegum afborgunum og himinháum skuldum. Þar kann þó margt annað að vega upp á móti sem mölur og ryð ekki grandað. Staða þjónsins í sögunni var skuld í talentum. Við skuldum sjálfsagt öll nokkrar slíkar – en við eigum líka margar talentur og því megum við ekki gleyma. Já, orðið hafa enskir tekið úr þessum textum Biblíunnar og nota það yfir hæfileika mannsins: „Talent“. Við eigum öll náðargáfur og ef við horfum til þeirra í einbeitni finnum við ríkidæmi okkar sem ekkert fær tekið frá okkur.

Biblían talar um náðargjafir og þær geta verið af ýmsum toga – en öll höfum við eitthvað sem við getum unnið með, ræktað og margfaldað. Talenturnar eru orkustöðvarnar sem búa í hjarta okkar, stundum óvirkjaðar árum og áratugum saman, engum til gagns og allra síst okkur sjálfum.

Á einum stað lýsir Kristur því háttarlagi þjóns að grafa talenturnar í jörð. Það eigum við ekki að gera. Við eigum að nýta þær. Við eigum að deila þeim með öðrum því þær eru svo ólíkar þeim lífsgæðum sem lúta takmörkum í tíma og rúmi – að þær vaxa bara þegar þeim er úthlutað sem víðast. Já, þegar við göngum fram með örlæti okkar, umhyggjuna okkar, réttlætiskenndina og kærleikann – þá rýrna ekki þeir þættir. Þeir margfaldast.

Margföldun orkunnar

Við sem þjónum hér í Keflavíkurkirkju upplifum þetta á hverjum degi. Við erum svo blessuð að hér, allt í kringum okkur er fólk sem er ríkt að náðargáfum og vill miðla þeim áfram. Hvað starfið hérna hefur vaxið eftir því sem þessi hópur hefur vaxið og stækkað! Alla daga vikunnar fáum við heimsóknir frá sjálfboðaliðum sem leggja okkur lið með höndum sínum, með hugan um og hjartanu. Súpan sem við njótum hér að lokinni messu er framreidd af þessu fólki og veitingamaður hér í bænum eldar hana ofan í okkur án nokkurs endurgjalds.

Við horfum niður fyrir okkur og hugleiðum hvar það er sem við stöndum. Við horfum upp og finnum þar þennan takmarkalausa kærleika sem Guð sendir okkur. Við horfum í kringum okkur og skynjum það að við sjálf getum miðla kærleika til annarra.

Allt mjög dæmigert, leyfi ég mér að segja.

Afleiðingar samstarfsins

Og þetta hefur kirkjan boðað þjóðinni í allar þessar aldir kynslóð eftir kynslóð. Situr ekki þjóðin löskuð eftir? Hún hefur vissulega fengið að kenna á ýmsum lögmálum með ónotalegum hætti. Ekki neitum við því, en sannarlega voru þar aðrir guðir að verki sem teymdu menn áfram á bindinu niður í öldudal kreppu og himinhárra skulda. Ekkert í ritningunni mælti með því háttarlagi sem komið hefur okkur þangað sem við erum.

Nei, þegar við horfum á þjóðina okkar eftir sambúðina við kirkjuna sjáum við gerólíka mynd en ætla mætti miðað við boðskap hins háa mannréttindaráðs. Við sjáum þjóð sem þekkir vart öfgatrú. Þjóð sem er jákvæð í garð þeirra margbreytilegu tilbrigða sem mannlegt samfélag geymir og á að hampa. Þjóð sem er opin fyrir nýjum uppgötvunum á sviði vísinda og fræða og hefur engan áhuga á því að blanda því saman sem eykur þekkinguna á efnisheiminum og hinu sem bindur hana tryggðarböndum við skapara sinn og frelsara.

Jájá, spjótin standa á þjóðkirkjunni og svo verður sjálfsagt áfram. En á meðan kirkjan á þennan boðskap og flytur hann í sinni tærustu mynd þarf enginn að hafa áhyggjur af henni og enginn þarf að hafa áhyggjur af þeim sem heyrir Guðs orð og varðveitir það í hjarta sínu.