Hvernig má þetta verða?

Hvernig má þetta verða?

Getur verið að við séum bara orðinn of þreytt til að vaka? Það er þekkt fyrirbrigði hér í þessu landi að til þess að geta keppt við náungann í þeim skilningi að geta leyft sér allan þann veraldlega munað, sem í boði er, að þá verðum við að koma sveitt og þreytt heim á kvöldin, í þreytunni uppgötvum við að það eru börn á heimilinu, sem biðja í orði sem og á borði um líkamlega og andlega næringu.

Postularnir sögðu við Drottin: Auk oss trú!

En Drottinn sagði: Ef þér hefðuð trú eins og mustarðskorn, gætuð þér sagt við mórberjatré þetta: Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum, og það mundi hlýða yður.

Hafi einhver yðar þjón, er plægir eða hirðir fénað, segir hann þá við hann, þegar hann kemur inn af akri: Kom þegar og set þig til borðs? Segir hann ekki fremur við hann: Bú þú mér kvöldverð, gyrð þig og þjóna mér, meðan ég et og drekk, síðan getur þú etið og drukkið.Og er hann þakklátur þjóni sínum fyrir að gjöra það, sem boðið var? Eins skuluð þér segja, þá er þér hafið gjört allt, sem yður var boðið: Ónýtir þjónar erum vér, vér höfum gjört það eitt, sem vér vorum skyldir að gjöra. Lk. 17.5-10

Hvað er trú? Við heyrðum í Hebreabréfinu góða skilgreiningu á hugtakinu trú. Þar segir: “Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá. Margir hafa velt þessu hugtaki fyrir sér, það hefur verið skeggrætt í gegnum aldirnar og ýmsir góðir spekingar hafa reynt að varpa ljósi á þetta stóra hugtak, sem í raun gerir okkur öll svo smá þegar við stöndum frammi fyrir því.

Ekki ómerkari menn sögunnar en Ágústínus kirkjufaðir hafa látið orð eins og þessi frá sér fara: “Reyndu ekki að skilja svo þú megir trúa, heldur trúðu því þú getur skilið.”

Við getum séð Albert Einstein fyrir okkur strjúka á sér hökuna með spekingslegum svip og mæla eftirfarandi fleyg orð: “Hver er tilgangurinn með lífi mannsins eða skepnanna? Sá sem getur svarað þessari spurningu er trúaður.”Og sjálfur Leo Tolstoj varpar fram eftirfarandi staðhæfingu: “Trúin er orka lífsins.”

* * *

Þetta eru allt góðir þankar og að baki býr andríkur hugur og eflaust einhver trú, en hún verður svo sem ekki mæld eins og margur skarpur maðurinn hefur haldið fram. Ágústínus leggur augljósa áherslu á trú sem forsendu skilnings, Einstein leggur áherslu á trú sem tilgangsvaka og Tolstoj beinir sjónum að trú sem orku, öll þessi kjarnaatriði hafa tengst trúarhugtakinu um aldir alda.

Oft erum við of upptekin af því að reyna að skilja eitt og annað, algengt er að gerðar séu óraunhæfar kröfur í þeim efnum og stöðugt erum við að heimta áþreifanleikann, en eins og við vorum að ræða saman í fermingarfræðslunni nú í nýliðinni viku, að þá er það alls ekkert alltaf hægt. Svo er það spurningin hvort við værum eitthvað bættari með það?

Við fermingarbörnin ræddum í því sambandi um lærisveininn Tómas, sem krafðist þess að fá að snerta Jesú upprisinn, annars myndi hann ekki trúa.

Þegar Jesús hafði birst honum sérstaklega og sýnt honum naglaförin og síðusárið kraup Tómas í auðmýkt með trúarjátningu á vörum, þá sagði Kristur í guðspjalli Jóhannesar, sem ávallt má hafa í huga: “Þú trúir, af því að þú hefur séð mig. Sælir eru þeir, sem hafa ekki séð, en trúa þó.”

Þessi sterka löngun til að skilja alla skapaða hluti er vissulega nauðsynleg og þekkingarleit er af hinu góða, en sú leit þarf að vera raunhæf, að öðru leyti er gott að hvíla í trúnni, sem svarar á margan hátt þeim spurningum, sem við berum fram við því sem við munum ekki og eigum ef til vill alls ekkert að bera skilning til.

Spurningar um tilganginn eru mjög áleitnar í samfélagi nútímans og þá er ég einkum og sér í lagi að vísa í vestrænt samfélag, því önnur samfélög þekki ég minna. Það er oft talað um hið vestræna samfélag sem neyslusamfélag, velferðarsamfélag með margvíslega velferðarsýkingu. Sú lýsing er ekkert fjarri lagi. Það er staðreynd, en um leið er nauðsynlegt að hafa fulla trú á því samfélagi og biðja þess bót og betrun.

* * *

Tökum land eins og Ísland, sem virðist eiga nóg af öllu, almenningur fær reyndar mismikið upp í hendurnar og þrátt fyrir að fjársjóðurinn sé þarna og flestir vinna eins og þrælar, sumir vinna reyndar til þess að gleyma, enn aðrir til þess að halda ákveðnu stolti sbr. alkinn sem heldur því fram að hann sé ekki alki, af því að hann er ekki búinn að glata vinnunni sinni, þrátt fyrir þetta allt að þá þurfum við samt að tala um misskiptingu í þessu þjóðfélagi, öryrkjar, eldri borgarar, ákveðnir hópar, sem eru ekki að komast í gegnum mánuðinn.

Á meðan borgar íslenski auðkýfingurinn einhverjum viðbrenndum poppurum 35 milljónir króna fyrir að spila í áramótapartýinu sínu. Það sér það hver heilvita maður að það er ekkert eðlilegt við þetta ástand í allri þeirri velferð, sem er auglýst hér og þá helst rétt fyrir kosningar. Þegar við lifum í slíku landslagi og í ákveðnum mótsögnum að þá verða tilvistarspurningarnar enn áleitnari og við þurfum að svala ennfrekar hinum andlega þorsta, þar sem lindin er og verður Jesús Kristur, Kristur sem segir við okkur þegar velferðarblindan er alveg að fara með okkur, vaknið, vakið og biðjið.

Getur verið að við séum bara orðinn of þreytt til að vaka? Það er þekkt fyrirbrigði hér í þessu landi að til þess að geta keppt við náungann í þeim skilningi að geta leyft sér allan þann veraldlega munað, sem í boði er, að þá verðum við að koma sveitt og þreytt heim á kvöldin, í þreytunni uppgötvum við að það eru börn á heimilinu, sem biðja í orði sem og á borði um líkamlega og andlega næringu.

Við finnum þau ósjaldan fyrir framan heimilistölvuna, þar sem mörg börnin eyða drjúgum tíma dagsins og meðtaka endalaus skilaboð, sem fjalla sjaldnast um trú, heldur miklu fremur vonleysi og flest það sem vinnur gegn henni, netheimurinn er að verða og er orðinn kærkominn vettvangur fyrir þá, sem vilja koma annarlegum boðum og jafnvel kenndum á framfæri og börnin okkar eru því miður ekki varin gegn því, það er svívirðilegt.

Mennskan er svo sérkennileg að því leytinu til að við sækjumst oftar en ekki í það neikvæða sem lífið býður upp á fremur en það jákvæða. Ég hef hins vegar fulla trú á manneskjunni að hún geti með Guðs hjálp og einurð unnið gegn slíkri áráttu.

* * *

Í því samhengi er umræðan um kristni í skólum og opinberum stofnunum sérstæð. Tómið og afstöðuleysið gagnrýnir slíkt harðlega, af því að það veit að slík boðun og fræðsla gerir gagn og finnur sig vanmáttugt í því að bjóða upp á eitthvað annað í staðinn, því þar er gripið í tómt, af því að það er ekki á neinum grunni að byggja.

Þegar tómið er komið út í rökræðuþrot, sem er alvarlegt því ef það trúir á eitthvað að þá eru það rök, þá talar það um val og frelsi og að þegar einstaklingur í opinberum stofnunum er dreginn út úr hinu kristilega samhengi innan veggja skólans, að þá er verið að setja merkimiða á einstaklinginn, hann sé gerður öðruvísi.

Tómið, sem innifelur afstöðuleysi, ætti að einbeita sér fremur að öllum þeim misvitru skilaboðum, sem barnið meðtekur t.a.m. í netheimum, þar er m.a. boðskapur sem glæðir illskuna lífi, kristinni trú er fyrirmunað að glæða slíkt lífi, fyrir það fyrsta kom Kristur til jarðarinnar til þess að vinna gegn vélabrögðum djöfulsins og þá innifelur kristnin náð, miskunn, fyrirgefningu, réttlæti, sannleika, hún hefur eitthvað innihald, hún segir ekki bara að barnið verði að velja, hún kemur með tilboð, sem skilur okkur ekki eftir í lausu lofti, heldur knýr okkur til afstöðu.

Í annan stað er það deginum ljósara að það að vera þáttakandi í samfélagi sem gerir alls konar kröfur, kröfur til neyslu, kröfur til ákveðins “lífsstandards”, kröfur til vinnu, kröfur til útlits, kröfur til þessa og hins, tæmir hugann, það verður ekki rúm fyrir andlega þanka, það verður ekki rúm fyrir trú og þegar tilvistarspurningar sækja á stendur allt tómt, enginn ákveðinn grunnur til þess að byggja á og afstöðulaust tómarúm býður sem áður ekki upp á neitt.

Góður Guð og margþætt reynsla mannanna segir okkur að það sé afar mikilvægt að velta trúnni og fylgifiskum hennar fyrir sér, ekki bara á efri árum þegar fólk fer t.a.m. að spá í endanleika sinn hér á jörðu, heldur ekki hvað síst fyrr á lífsleiðinni, því við lifum jú í hverfulum heimi. Trú er eins og íþróttir forvarnarvinna.

Við erum alltaf að takast á við viðfangsefni, sem spyrja ekki um niðurstöður vísinda eða heyra undir skilning manneskjunnar, það eru viðfangsefni sem spyrja um trú. Við þekkjum mörg afleiðingar þess þegar fólk, og þá er ég að tala um fólk í blóma lífsins, sem virðist hafa allt til alls í hinu svokallaða velferðarsamfélagi, er ekki að höndla þau huglægu viðfangsefni, sem hér um ræðir og trúin býðst til að svara.

Þar höfum við þungar tilvistarspurningar, sem gjarnan er reynt að halda í skefjum með doðavaldandi eitruðum lyfjum, er valda ennfrekara tómi og tilgangsleysi og einstaklingurinn stendur hreinlega á hengibrún, það sem er t.d. mjög alvarlegt er að við horfumst í augu við háa sjálfsvígstíðni ungs fólks á þessu landi okkar, sem er oftar en ekki afleiðing þunglyndis og þess konar alvarlegra og lífshættulegra sjúkdóma, sem má vinna með á þann hátt að miðla ákveðnum boðskap er breytir hugarfari, er breytir sýn einstaklingsins á lífið, sem vekur lífssýn er felur í sér ríkari tilgang og fyllingu.

Það er hins vegar afar vandasöm meðferð og getur hæglega gert illt verra ef slíkt er unnið í einhverjum öfgum eða undarlegheitum. Með slíkri faglegri og eðlilegri meðferð geri ég heldur ekki lítið úr þætti nauðsynlegra lyfja, sem fagmenn því tengdu kunna betri skil á en þær starfsstéttir, sem vinna einkum með viðtalstækni. Þessar stéttir verða þó allar að vinna vel saman og gefa skýr skilaboð sín á milli svo þeim sé treyst af skjólstæðingum og þeim er að þeim standa.

* * *

Viðtalsmeðferðir byggjast á margan hátt á sjálfsskoðun. Það að aðhyllast tómið er einn þátturinn í því að forðast sjálfsskoðun, það forðast að horfa á sitt líf með gagnrýnum augum, enda er tómið alltaf að benda á aðra, segja hvað aðrir eru hættulegir og þar er boðun trúar síður en svo undanþegin.

Það er því ljóst og segir sig sjálft að það er ögrandi, krefjandi og á margan hátt erfitt að fást við trúnna, því hún fer fram á það, að við skoðum okkur sjálf, við viðurkennum breyskleika okkar og rannsökum tilurð hans. Guð er spegill.

Mikil vinna, það er ekkert víst hvort við séum alltaf tilbúin til þess að fara út í þá vinnu t.a.m. þegar við erum alltaf svona upptekin við annað, en gleymum því ekki að það er verið að tala um mannbætandi vinnu, sem kennir okkur að horfa ekki á lífið sem sjálfgefið, sem eykur vellíðan innan um annað fólk, eykur vellíðan á vinnumarkaði og opnar augu okkar fyrir því að það er ekki dyggð að vinna fram eftir alla daga, heldur er það dyggð að kunna að skipuleggja sig betur og gera það með það að markmiði að eiga rýmri tíma með fjölskyldunni, sem kallar ætíð á tilfinningalega næringu og áhuga.

Tolstoj talar svo um orkuna, kraftinn og það rímar við orð Jesú í guðspjalli dagsins, þar sem trú eins og mustarðskorn getur haft þau áhrif að mórberjatré rifni upp með rótum og festi rætur í sjónum og á öðrum stað í helgri ritningu er talað um að trúin flytji fjöll, sá kraftur sem trúin felur í sér er jafnframt æðri okkar mannlegum skilningi og í því ljósi getur krafan um skilning einmitt truflað þann bjarta og jákvæða áhrifamátt, sem trúin býr yfir.

En trúin krefst ræktunar og það staðfestir guðspjallið á þessum drottins degi þar sem postularnir koma til lærimeistara síns í bænahug og óska eftir öflugri trú. Viðbrögð Jesú lágu ekki í neinum hókus pókus sveiflum, Kristur er ekki ævintýraálfur, sem gefur þér þrjár óskir. Jesús benti lærisveinum sínum á það í raun og veru að trú kviknar fyrir tilstuðlan ræktunar, þar sem vinna og þrautsegja skiptir máli, vinna sem við getum unnið með fólkinu okkar, vinna sem spyr ekki um laun að dagsverki loknu.

Frækorn leggur grunninn og springur út sem mórberjatré, lítið egg verður að stóru og litríku fiðrildi eftir jafn litríkt umbreytingarferli, þannig er trúin líka, hún er Guðs góða gjöf, sem þarf skilyrði, þar sem hún þrífst og í því samhengi höfum við stóru hlutverki að gegna, þar getum við reynst virkilega nýtir þjónar.

Og öllu þessu er fylgt eftir með ræktun, sú ræktun fer m.a. þannig fram að við séum tilbúin að gera meira en skyldan kallar okkur til að gera. Áfram skulum við fjalla um trúnna, velta henni fyrir okkur, gefa boðun hennar þá merkingu að um heillastarf sé að ræða en ekki ítroðslu og níðingsskap, áfram skulum við skilgreina hana, áfram skulum við hlusta á kjarngóðar skýringar spekinganna, en umfram allt skulum við heyra þau orð, sem sjálfur Jesús Kristur færir okkur í skilnaðarræðu sinni, er hann horfir til upprisunnar og hvetur til krefjandi trúar.

“Trúið mér, að ég er í föðurnum og faðirinn í mér.”

Amen.