Leiðarþing Kjalarnessprófastsdæmis ber nú upp á tveggja ára afmælisdegi hrunsins sem hefur breytt svo miklu í lífi okkar allra. Svo miklar eru þær breytingar að við erum farin að draga markalínur frá þeim örlagaríku októberdögum 2008, rétt eins og við gerum með aldamótaár eða jafnvel styrjaldir. „Fyrir og eftir hrun“ segjum við og vísum til þess að ekki aðeins breyttist efnahagurinn okkar, gengi krónunnar, staða bankanna og annað sem því tengdist. Hugarfar okkar hefur líka tekið miklum stakkaskiptum, bæði til góðs og ills. Vissulega erum við gædd meiri auðmýkt nú en þá og fólk leitar annarra verðmæta en það gerði „fyrir hrun“. Reiðin er hins vegar mikil og ofbeldið hefur náð nýjum hæðum, nú síðast þegar kirkjugrið voru rofin við alþingsissetningu og næsta dag voru ráðamenn eltir með bareflum og steinkasti.
Í kirkjunni tölum við líka um tímana „fyrir og eftir hrun“. Sá siður hefur reyndar tíðkast lengi innan kirkjunnar að horfa til baka til annarra tíma. Fortíðarhyggja hefur loðað við okkur, sem er sjálfsagt viðbúið í ljósi þess að kirkjan getur litið til baka og fundið þar betri tíma – hærri þjóðkirkjuaðild, öruggari stöðu, meira rými á hinu opinbera sviði og minni gagnrýni. Sé horft til þessara þátta hefur kirkjan á Íslandi aldrei gengið í gegnum erfiðari tíma, aldrei í sögunni.
Máttur, kærleikur og stilling
Kirkjan okkar hefur hins vegar oft gengið í gegnum erfiðleika og þess sjást skýr merki í ritningunni. Við þurfum ekki að leita langt yfir skammt til þess að finna hvatningu og leiðsögn á þessum tímum. Í morgun rakst ég á þessa biblíutilvitnun:
Því að ekki gaf Guð okkur anda hugleysis heldur anda máttar og kærleiks og stillingar (2Tím.1.7)Þessi orð tala til mín nú á tímamótum og þeim vil ég deila með ykkur kæru fundarmenn. Þetta er vegarnesti postulans til leiðtoga safnaðar sem horfir fram á nýja tíma. Þótt ekki hafi þeir tímar boðað undanhald og samdrátt heldur vöxt og sókn, biðu aðrar hættur handan við hornið. Innri sundrung og ofsóknir að ógleymdri þeirri hættu að menn villist frá vegi fagnaðarerindisins. Og ef það er gert, þá stendur kristinn söfnuður ekki lengur undir nafni.
Þessi tilvitnun á erindi til okkar sem hingað erum komin til mikilvægrar umræðu. Sören Kierkegaard segir í óði sínum til hinnar sístæðu endurtekningar að hugleysinginn kjósi að dvelja í liðnum tíma, þar sem athafnir hans hafa engin áhrif og því óþarfi að taka afstöðu til nokkurra mála. En Guð gefur okkur ekki anda hugleysis, Guð gefur okkur anda máttar og kærleika og stillingar.
Nú reynir á allt þetta þrennt.
Þegar postulinn talar um anda máttar talar hann ekki um mátt þess sem ræður og getur tekið ákvarðanir að eigin geðþótta. Kristnir menn hugsa ekki um valdið sem takmörkuð gæði þar sem máttur eins felur í sér vanmátt annars. Það er öðru nær. Máttur okkar er máttur þjónustunnar sem við eigum öll að taka okkur á hendur og leiða samfélagið áfram í þeim anda. Kirkjan á að virkja mátt þjónustunnar í verkum sínum, svo að starf hennar einkennist af lýðræði og ríkri umhyggju fyrir þeim sem henni er ætlað að sinna. Þá verður hún ekki aðeins öflugri að innan frá séð – heldur getur hún einnig trónað upp úr þeirri lágkúru sem einkennt hefur íslenskt samfélag á svo mörgum sviðum þar sem menn berjast um völdin uns allir sitja eftir sárir.
Þegar postulinn talar um anda kærleika talar hann ekki um kærleikann til hins liðna þar sem allt er bjart og gott í minningunni. Hann talar ekki um kærleikann til þess falska öryggis sem býðst innan þeirra veggja sem við stundum reisum í kringum okkur. Þeir veggir geta verið af ýmsum toga: framandlegt helgihald, flóknar reglugerðir, óskiljanlegt orðalag, þunglamalegt embættiskerfi. Ekkert af þessu á að vera andlag kærleika okkar.
Kærleikurinn á að beinast að Guði sem kirkjan þjónar og samfélaginu sem hún vill efla og leiða. Þegar árekstrar verða, þegar við skynjum það að við sinnum ekki þeirri þjónustu sem okkur er ætlað að gera þurfum við að spyrja okkur hvort við erum á réttri leið. Nú sem aldrei fyrr er tíminn til þess og nú ber okkur, ekki að ríghalda í það sem eitt sinn var – heldur þvert á móti, að gagnrýna það og spyrja okkur, hvort það nýtist sem brú eða hvort það er í raun hindrun.
Loks er það andi stillingarinnar. Stilling er margslungið orð og mætti leiða af því lýsingarorðið stilltur, sem felur vitaskuld í sér hlýðni og jafnvel undirgefni. Jú, hlýðin eigum við að vera og undirgefin því sem við eigum að þjóna. Auðmýktin og hófsemin forða okkur frá öfgunum sem greina lesti frá dygðum. En hér mætti einnig nota orðið staðfesta. Staðfestan þarf að einkenna hegðun okkar ef við viljum raunverulega hafa áhrif því sá sem staðfastur er, lætur ekki ytri truflun raska sér, stundarhrifningu eða augnarbliks mótlæti. Ef menn hafa sýn á það hvert leiðin á að liggja þá fylgja menn þeim stíg áfram.
Árið þrjú
Kæru félagar. Í dag hefst árið þrjú eftir hrun og við erum reynslunni ríkari. Við söfnumst hér saman til leiðarþings og við skynjum það að kirkjan okkar má þola meiri mótbyr en dæmi eru um á síðari tímum. Sumt hefur þó sannarlega farið betur en á horfðist. Þótt úrsagnir hafi verið margar ber þó að fagna því að þeir eru vafalaust tugfalt fleiri sem fengið hafa eyðublaðið í hendurnar en völdu að vera áfram hluti af þjóðkirkjunni.
Við ættum ekki bara að spyrja okkur hvers vegna sumir hafa yfirgefið kirkjuna. Við megum líka spyrja: Hvers vegna situr þetta fólk áfram?
Vegna hvers er það og þrátt fyrir hvað?
Ef til vill er það ekki alltaf vegna þess sem við höfum gert eða erum að gera, heldur vegna þess sem við getum gert.
Ef til vill hefur þetta fólk væntingar til okkar, því það þekkir kristna trú og veit hversu vel hún reynist á örlagatímum. Það er mátturinn, kærleikurinn og staðfestan. Þessir eiginleikar eiga að vera okkur leiðarljós og hvatning og þá geta runnið upp tímar þar sem kirkjan verður þrátt fyrir allt sterkari og sannari en hún var „fyrir hrun“.
Ávarp við upphaf leiðarþings Kjalarnessprófastsdæmis