Dauðafæri

Dauðafæri

Hér þarf að hefja til vegs samfélagsábyrgð, að deila kjörum saman af sanngirni með þátttöku allra.
fullname - andlitsmynd Gunnlaugur S Stefánsson
01. apríl 2018
Flokkar

Flutt 1. apríl 2018 í Heydala- og Stöðvarfjarðarkirkju

Gleðilega hátíð. Fögnum og gleðjumst. Jesús Kristur er upprisinn.

Upprisufrásásögnin í guðspjallinu er lík sögu af öðrum stórum atburði úr Biblíunni. Á Betlehemsvöllum á jólanótt. Sendiboðarnir heilsa með sömu kveðju: Verið óhræddir, skelfist eigi. Svo eru faganðartíðindin boðuð. Fæðing frelsarans, Jesús Krists, Drottins vors, í Betlehem og svo við gröfina hans í Jerúsalem: Hann er upprisinn. Í báðum atburðum biðja sendiboðarnir viðstadda að fara og segja frá því sem gerst hefur.

Það voru voru fjárhirðar á Betlehemsvöllum og alþýðukonur. Þau voru kölluð til að fara og segja frá því sem gerst hafði.
Vandfundið var á þeim tíma ótrúverðugra fólk en fjárhirðar og alþýðukonur. Þetta fólk sat lægst í stéttaskiptingu og metorðastigum. Átti að þegja og hlýða, láta lítið fyrir sér fara, vinna störfin sín í hljóði og leggja sig fram um að gera það vel.
Þessi tíðindi koma líka svo óvænt, þvert á allt þetta hefðbundna, eins og þruma úr heiðskíru lofti. Fjárhirðar dormandi um nóttina yfir kindum sínum og sorgmæddar konur sem ætla að sinna um lík látins ástvinar í gröfinni.
Þegar glöggt er skoðað er með ólíkindum, að þessir atburðir hafi valdið mestu í sögu mannsins allt fram á okkar dag. Ægivald stjórnmála með öllum sínum meðulum hefði átt að vera létt um vik að kveða þennan orðróm um fæðingu frelsarans og upprisu hans í kútinn.

Og reyndu það með öllum tiltækum ráðum, ofsóknum og manndrápum. Negldu Jesú á kross til að þagga niður í boðskapnum í eitt skipti fyrir öll. Og lærisveinarnir skildu skilaboðin í fyrstu, gáfust upp og hlupu í felur til að bjarga lífi sínu.

Á þeim tímum voru einnig margir sem stigu fram, gerðu tilkall um að vera frelsarar heimsins, og af þeim voru sagðar hetjusögur, ekki aðeins þá, heldur allt fram á okkar dag. En þessi eini, Jesús Kristur, var og er, og enginn hefur komið í stað hans og enginn hefur valdið meiru.

Það staðfesta staðreyndir og margt af því má mæla með kvörðum. Samt hefur enginn getað sannað afhverju þetta gat gerst, aðeins vegið og metið, túlkað og ályktað. En trúin svarar af einægni: Hér er Guð að verki.
Verið óhrædd, skelfist ekki, sjá ég boða mikinn fögnuð. Um alla heimsbyggðina ómar þetta núna, á þessum degi. Guð að verki með boðskap sinn um kærleika, frið og von. Hvar er þann boðskap að finna með jafn skírum hætti eins og í trúnni, ævi og lífi Jesú Krists og hvatningu hans um að fara og gjöra slíkt hið sama?

Lærisveinasamfélagið eftir upprisuna tók svo Jesú á orðinu. Vitnisburður kvennanna frá gröfinni barst út og var settur í samhengi við Jesú sjálfan, orð hans og verk. Djörfung og áræðni fyllti fólkið. Þau urðu að fara hljótt vegna ofsókna, en það spurðist fljótt út, að kristnir væru með útrétta hjálparhönd og tækju þurfandi og veikburða fólk að sér.

Algengt varð að í stað þess að bera börn út á viðavang til að deyja, þá voru þau skilin eftir við útidyr kristinna fjölskyldna af því þær tóku börnin að sér og ólu upp.

Við kritstnitöku á Íslandi var krafist að útburður barna skyldi bannaður, en andstæðingar þráuðust við, og var eftirlátið fyrst um sinn, en bannið við útburði barna á Íslandi tók svo gildi stuttu eftir kristnitöku.

Rannsóknir hafa líka leitt í ljós, að kristnir í samfélagi frumkristninnar fóru að lifa lengur en meðalaldur sagði til um. Það er skýrt út með því, að þau hafi tekið sjúka að sér, sem algengt var þá að úthýsa til að forðast smit, en kristnir söfnuðu mótefni í sinn skrokk um fram aðra vegna umgengni við veikt fólk og lifðu því lengur.

Umhyggjan fyrir lífinu og helgi þess er svo inngróin í kristinn boðskap. Engu breytir um það, þó finna megi dæmin mörg í sögunni hvernig kirkjan var misnotuð af mönnum um hið gagnstæða. Það er sorgarsaga, en vitnisburður um græðgina, miskunnarleysið og hatrið, þegar menn svífast einskis um að fá sínu fram. Það er dómur um mann en ekki Guð.

Af því að kirkjan er ekki maður sem setur sjalfan sig í stað Guðs, heldur samfélag sem á að hornsteini heilagt orð sem lifir mann og aldir af. Þetta orð opinberast í Jesú Kristi, boðskap hans og fyrirheitum. Það staðfestir upprisan.
Og er máttur til verka, máttur til endurnýjunar, máttur til vonar. Þetta orð heitir kærleikur. Það er sístætt verkefni kirkjunnar að endurnýjast af þessu orði, verða eins og brauð hreinleika og sannleika, vera fólkinu sínu til hjálpræðis.
Nákvæmlega eins og þetta orð bar sigurorð á hatrinu og dauðanum í upprisu Jesús Krists, þá hefur þetta orð berskjaldað grimmd og ofsóknir í aldanna rás, en sigrar að lyktum í mætti kærleika og vonar.

Mikil er þörf á því. Þrátt fyrir byltingar í ytri lífsháttum, tækni og samskiptum, þá stríðir fólk svo víða við ótta og kvíða, ofsóknir og hatur. Alþýðufólk þráir frið á jörð, frið í sálina, frið í hjarta sitt.

Tæpast er opnað fyrir fréttir en að sagt sé frá drápum á börnum í stríði eða fólki á flótta undan skelfingu ranglætis á jörðinni. Hvenær verður diplómötum þeirra erlendu ríkja, sem því valda, vísað úr landi?

Í stríði er ekkert heilagt, ekki einu sinni saklaus börnin. Heimspólitíkin getur ekki einu sinni sameinast um að vernda þau gegn ásælni valdsins, en lætur viðgangast að börn líði og deyi fyrir hendi opinberra stjórnvalda, svo ekki sé minnst á misskiptingu auðs og gæða á jörðinni.

Mikil gæfa er það fyrir íslenska þjóð að eiga nóg af jarðneskum gæðum, njóta ytri friðar, frelsis og eiga siðgæðisvitund um réttlæti. Því fylgir líka mikil ábyrgð.

Ætlum við einangra okkur og leyfa engum öðrum að njóta með okkur? Það gerðu frumkristnir ekki sem höfðu samt ekki úr miklu að moða og deildu kjörum opnum örmum af skorti sínum fremur en ríkidæmi? Þeir spurðu ekki um þjóðerni, litarhátt eða uppruna.

Horfum okkur enn nær og til unga fólksins á Íslandi, sem á eða þráir að eignast heimili og börn. Hvernig bjóðum við þetta fólk velkomið til fullorðinsára?

Að setja það í langtíma skuldaánauð sem ekki verður staðið undir nema með þrældómi vinnunnar myrkranna í millum eða flyja land. Á sama tíma flæða fjármunir í viðskiptalífinu manna í millum af stærðargráðum sem venjulegt fólk nær ekki utan um. Það blundar kvíði í unga fólkinu yfir skuldbindingum sem nútíminn gerir kröfu um. Hvenær ætla stjórnmálamenn segja við þetta fólk: Skelfist ekki, við höfum staðið við það sem við lofuðum.

Við erum aðeins 335 þúsund manns í einu ríkasta landi jarðar, eins og hverfi í einni stórborg, og eigum tækifæri, einhver myndi segja dauðafæri, til að byggja hér fyrirmyndarsamfélag sem hafi sanngirni að leiðarljósi.

Hér þarf að hefja til vegs samfélagsábyrgð, að deila kjörum saman af sanngrini með þátttöku allra. Huga að fjölskyldunni og setja i forgang, þarfir og velfarnað hennar, að þar gefist tími og næði til að njóta samvista í rækt við fagurt mannlíf.

Neysla vímuefna ógnar heill og farsæld á meðal unga fólksins. Það er eins og þjóðarvitund láti sér það í léttu rúmi liggja. Hér verður að rísa upp vakning til menningar sem segir nei. Dópið er ekki liðið,- samhliða öflugri hjálp fyrir þau sem líða vegna neyslunnar.
Við erum öll heilög og hvert fyrir sig einstök, hvar í flokki sem við stöndum og hvað sem við gerum. Það er skilningur sem hvílir á kristnum grunni. Fjárhirðar á Betlehemsvöllum og alþýðukonur við gröf Jesú vitna um það.

Við eigum öll sömu þrá í hjarta, að njóta lífsins í friði með samferðafólki. Ævin er stutt, en augnablikið sem er að líða eigum við saman eins og vonina um farsældina fyrir mig og þig, ástvini okkar, þjóð og jörð.

Hér ætti enginn að þurfa að skelfast eða óttast, en þráum að njóta friðar og réttlætis. Það finnum við, ef áföll steðja að, aðstæður sem enginn mannsins máttur breytir, aðeins vonin sem leitar að haldreipi sem treysta má. Þá upplýkst hve máttur ástarinnar í umhyggju er lífinu dýrmæt.

Það fann fólkið í samfélagi frumkristninnar á ofsóknartímum og lagði sig fram um að hjálpa og deila kjörum saman. Það hafa Íslendingar fundið í áföllum, bæði sem þjóð og í persónulegum aðstæðum. Þá er lifandi von í upprisu Jesú Krists frá dauðum. Von sem var, er og verða mun. Ekki aðeins þegar á móti blæs, heldur í blíðu og stríðu. Von sem boðar fallegt líf, hér og nú. Amen.