Heimsóknir skólabarna og fræðsla á aðventu

Heimsóknir skólabarna og fræðsla á aðventu

Þær raddir vekja furðu mína sem gagnrýna skólayfirvöld fyrir að þiggja boð sóknarkirknanna um að börnin fái að koma í það hús hverfisins sem sérstaklega er helgað og vígt fyrir kristilegar athafnir og fræðslu.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
09. desember 2016

Mikið er rætt og ritað um skólaheimsóknir á aðventunni á samfélagsmiðlum. Það hefur verið árlegt umræðuefni á þessari öld eins og auglýsingarnar um heppilegar jólagjafir. Það er alla vega ljóst að jólin hafa áhrif hvort sem fólk telur sig trúað eða ekki, kristið eða annarrar trúar. Fyrir þremur árum var ég á ráðstefnu í Busan í Suður-Kóreu í nóvember mánuði. Mér skilst að fjórðungur landsmanna játi kristna trú. Þar, nokkrum vikum fyrir jól, var búið að setja upp jólatré með ljósum við stræti og torg og fleira skraut sem minnti á hátíð ljóss og friðar. Þannig hefur þessi hátíð kristinna manna áhrif um víða veröld jafnvel þó meirihluti fólksins sé ekki kristinnar trúar. Mér er til efs að hátíðir annarra trúarbragða nái hugum fólks svo víða.

Við þráum ljós og birtu hér á norðurslóðum í skammdeginu. Jólaljósin eru kærkomin á þessum árstíma. Þær raddir vekja furðu mína sem gagnrýna skólayfirvöld fyrir að þiggja boð sóknarkirknanna um að börnin fái að koma í það hús hverfisins sem sérstaklega er helgað og vígt fyrir kristilegar athafnir og fræðslu. Samfylgd fólksins í landinu og kristinnar trúar hefur varað í 1000 ár og verður svo á meðan foreldrar bera börn sín til skírnar. Jólaljósin lýsa veginn til hátíðarinnar sem í hönd fer og börn jafnt sem fullorðnir eiga rétt á því að vita hvers vegna hátíðin er haldin. Það er hluti af almennri þekkingu að vita það og gerir börnin læsari á samfélagið þegar fram líða stundir. Þar fyrir utan má minna á allar bókmenntirnar sem hafa trúarlega eða Biblíulega skírskotun sem ekki skilst ef fólk hefur ekki innsýn í þann hugarheim. Slíkar bækur eru gefnar út enn á íslenskri tungu, sumar nú fyrir þessi jól.

Kirkjunnar fólk er ekki að þvinga börn eða annað fólk til að mæta í kirkju. Hér er um tilboð að ræða sem mjög margir nýta sér og margir foreldrar þakka fyrir. Ég er sannfærð um að Guð elskar allt fólk en þvingar engan til að endurgjalda þann kærleik. Mörg eru þau sem sýna þann kærleik í verki ekki hvað síst á aðventunni og jólunum með því að sækja þá fjölmörgu viðburði sem boðið er upp á í söfnuðum landsins og með því að hugsa til þeirra sem þurfa á vinarbragði að halda. Takk þið öll sem þjónið kirkjunni með einum eða öðrum hætti um land allt. Takk þið sem þiggið þjónustuna og njótið framlags samferðafólksins.