Hvar er presturinn geymdur?

Hvar er presturinn geymdur?

Í fjölmennum sem fámennum sóknum landsins er boðið upp á fjölbreytt starf fyrir alla aldurshópa. Kappkostað er að mæta einstaklingnum þar sem hann er staddur í lífi sínu hvort heldur í sorg eða gleði. Í Árbæjarsöfnuði þar sem undirritaður er prestur er boðið upp á starf hvern einasta dag vikunnar frá átta á morgnana og langt gengið á kvöld.
fullname - andlitsmynd Þór Hauksson
28. september 2009

Fimm ára gutti var spurður hvað hann ætlaði að verða þegar hann yrði stór.  Sá stutti var ekki lengi að hugsa sig um og sagði.”Prestur.”  Aðspurður hvers vegna prestur.  “Jú” sagði sá stutti.   “Þá þarf ég bara að vinna á sunnudögum í klukkutíma.”   Eða þegar litla stúlkan sem var að koma heim úr sunnudagaskólanum sagði við foreldra sína.  “Hvar er presturinn geymdur fram að næsta sunnudagaskóla?”  Reyndar þarf ekki börnin til að hugsa og láta út úr sér sem að framan greinir.  Fullorðnir leyfa sér að hugsa og segja slíkt hið sama, sem dæmi: “presturinn skrifar prédikun alla vikuna sem hvort sem er fáir hafa nennu til að hlusta á.”  Það fyndna er að þeir fullorðnu sem segja að það séu fáir sem láta sjá sig í messuhaldi kirkjunnar eru sjaldan eða aldrei með þessum hinum “mörgu” en hafa allt um það að segja.

Það er mikið rætt þessa dagana um munin á réttu og röngu.  Við vitum að það er margt í samfélagi okkar á röngunni og líka margt á réttunni - þannig er það á öllum tímum.  Sagt er að það er ómögulegt að kynna sér til hlýtar hvoru megin línu við stöndum, réttu eða röngu megin.  Það má með sæmilega góðri samvisku taka undir það.  Það er einhvern veginn “auðveldara” að vera á röngunni þótt við vitum að það er ekki rétt.   

Mig langar til að upplýsa í þessu greinarkorni um starf Þjóðkirkjunnar.  Kirkjan hefur undanfarin misseri ekki farið varhluta af niðurskurði þeim sem þjóðfélagið hefur þurft að gangast undir.  Þrátt fyrir það ákvað sóknarnefnd Árbæjarkirkju ásamt prestum hennar að láta ekki undan síga heldur standa fast á því að draga ekki úr tilboðum um starf fyrir unga sem eldri safnaðarmeðlimi.  Ef eitthvað er, þá er starfið bætt um leið og hagrætt er eftir föngum.

Staðreyndin er sú að kirkjan hvar í sveit hún er sett er skipuð einstaklingum eins og djáknum, æskulýðsfulltrúum, öldrunarfulltrúum, kirkjuvörðum, sóknarnefndarfólki, organistum, kórstjórum, kórmeðlimum, sjálfboðaliðum, prestum, vel menntuðu fólki í öllum stöðum sem er meira en tilbúið til að taka þátt í öflugu starfi innan kirkjunnar og bjóða þér lesandi að vera með.   

Í fjölmennum sem fámennum sóknum landsins er boðið upp á fjölbreytt starf fyrir alla aldurshópa.  Kappkostað er að mæta einstaklingnum þar sem hann er staddur í lífi sínu hvort heldur í sorg eða gleði.  Í Árbæjarsöfnuði þar sem undirritaður er prestur er boðið upp á starf hvern einasta dag vikunnar frá átta á morgnana og langt gengið á kvöld.  Varlega má áætla að á hverri viku fari um kirkjuna vel á annað þúsund manns ungir sem aldnir.  Nú kann einhver að hugsa með sér að presturinn hafi nú farið fram úr sjálfum sér. 

Auðvelt er að sjá á heimasíðu Árbæjarkirkju www.arbaejarkirkja.is eða www.kirkjan.is starfið sem boðið er upp á í söfnuðum landsins. Má í þessu efni einnig benda á tengil prófastdæmisins sem Árbæjarsöfnuður tilheyrir www.kirkjan.is/eystra.   Nær hver einasti söfnuður landsins er með heimasíðu þar sem auðvelt að sjá hvaða starf er í boði.   Það er engin afsökun að vera á “röngunni” hvaða starf kirkjan býður upp á þegar aðgangur að starfinu og upplýsingar liggja fyrir svo auðveldlega.   Það hefur stundum verið sagt að starf kirkjunnar sé best varðveitta leyndarmál samfélagsins.  Lesandi góður, láttu á það reyna að taka skrefið til kirkjustarfsins í kirkjunni þinni. Presturinn og annað starfsfólk kirkjunnar vinnur ekki bara á sunnudögum heldur og alla hina dagana líka með fólki sem lætur sig náungann varða í raunum og gleði.