Stein fyrir stein

Stein fyrir stein

Smám saman reis kirkjan, stein fyrir stein, gömlu steinarnir svartir, enda veðraðir í gegn um aldirnar og litaðir af sóti frá reykháfum borgarinnar og annarri mengun, en nýhöggnir steinarnir voru hreinir og ljósgulleitir, líkt eggjarskurn. Kirkjan reis aftur, súlurnar mikilfenglegu, útveggirnir og síðast hvolfþakið mikla.
fullname - andlitsmynd Anna Sigríður Pálsdóttir
01. september 2008

“Látið uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús til heilags prestdóms, til að bera fram andlegar fórnir fyrir Jesú Krist, Guði velþóknanlegar.” I.Pt.2:5

Á síðastliðnum vori fór Dómkirkjukórinn í söngferð til Þýskalands ásamt kórstjóra sínum Marteini H. Friðrikssyni dómorganista. Ferðinni var heitið til borgarinnar Dresden, þar sem kórinn hélt tónleika í Frúarkirkjunni við góðar undirtektir og söng þar einnig í sunnudagsmessuunni. Við prestar Dómkirkjunnar fórum með í þessa ógleymanlegu ferð. Margs er að minnast úr ferðinni, það var stórfengleg upplifum að hlýða á kórinn syngja á tónleikunum í Frúarkirkjunni og það snerti okkur djúpt að heyra kórinn syngja fyrir utan bernskuheimili Marteins organista í borginni Meisen sem er í nágrenni Dresden.

Það sem stendur þó upp úr í minningunni er sjálf Frúarkirkjan. Hún var reist á fyrstu þremur áratugum átjándu aldar, byggð úr sandsteini, undurfagur minnisvarði um byggingastíl baroquetímans. Grunnmynd kirkjunnar er gríski krossinn sem er jafnarma. Fjögur horn mynda réttan ferning og á hverju horni er inngangar. Hátt og tignarlegt hvolfþak rís til himins og efst trjónir logagylltur kross. Kirkjan hefur verið nefnd steinklukkan, vegna þess að hún minnir á gríðarlega volduga kirkjuklukku. Þessi stórbrotna kirkja, ásamt öðrum sögulegum byggingum við bakka árinnar Elbu, skapa undurfagra borgarmynd, svo fagra að borgin hefur verið nefnd Flórens við Elbu. Frúarkirkjan stóð af sér styrjaldir liðinna alda, jafnvel þegar aðrar nálægar byggingar féllu. En í lok síðari heimstyrjaldarinnar, nánar tiltekið þann 13. febrúar árið 1945, þegar Bandamenn gerðu gríðalega harða loftárás á Dresden, þá féllu sprengjur á kirkjuna. Fyrst í stað virtist sem kirkjan mundi standa eftir árásina, þó að hún hafi laskast, en eldar loguðu eftir sprenguregnið og um hádegi þann 15. febrúar horfðu íbúar borgarinnar agndofa á þennan mikla helgidóm hrynja til gunnar. Ekkert stóð eftir nema hluti af veggnum þar sem altarið hafði verið og eitt hornið, eða einn inngangurinn, allt annað var í rúst. Í 45 ár eftri þennan hildarleik, dreymdi íbúana borgarinnar um að endurreisa kirkjuna. En Dresden lenti, eins og kunnugt er, í Austur-Þýskalandi eftir stríðið því landinu var skipt. Þar var alþýðulýðveldi sem laut stjórn Sovétríkjanna. Lítið var gert í því að endurreisa forn menningarverðmæti, sem höfðu fallið í stríðinu, þar með er talin Frúarkirkjan.

En á hverju ári, þann 13. Febrúar, tendruðu íbúar borgarinnar lifandi ljós og komu þeim fyrir í rústum kirkjunnar. Ljósunum fylgdi þögul bæn um frið í heiminum og sameiningu þýsku ríkjanna. Sá draumur varð að veruleika og landamærin milli ríkjanna opnuðust 1989-90. Fljótlega eftir sameininguna varð til hreyfing sem vann markvisst að því að safna fé til endurbyggingar kirkjunnar. Með innlendum framlögum og erlendri hjálp, meðal annars frá “Dresden Trust” í Bretlandi og “Friends of Dresden” í Bandaríkjunum, tókst að safna fé til að hefja endurbyggingu á þessum mikla helgidómi.

Rústirnar voru hreinsaðar af mikilli nákvæmni, allt heillegt var varðveitt, steinar, uppistöður, brot úr súlum, skraut af veggjum og með nútíma tækni var hægt að finna steinunum og brotunum stað í nýbyggingu kirkjunnar.

Smám saman reis kirkjan, stein fyrir stein, gömlu steinarnir svartir, enda veðraðir í gegn um aldirnar og litaðir af sóti frá reykháfum borgarinnar og annarri mengun, en nýhöggnir steinarnir voru hreinir og ljósgulleitir, líkt eggjarskurn. Kirkjan reis aftur, súlurnar mikilfenglegu, útveggirnir og síðast hvolfþakið mikla.

Saman mynda steinarnir stórfenglega heild og kirkjubyggingin ber í sér minningar aldanna, minningar sem greiptar eru í svörtu veðruðu steinana og nýtt minni sem birtist í nýhöggnu ljósgulu steinunum. Gamlir og nýjir steinar mynda fallega heildarmynd, annarsvegar veðraðir, máðir steinar og aðrir ósnert af mengun, veðri og vindum, þetta eru “lifandi steinar”. Ef eitthvað hefur einhverntíma minnt mig á versin úr Fyrra Pétursbréfi, þá er það þessi endurbyggði helgidómur, reistur Guði til dýrðar, tákn um hugrekki, von og einlæga bæn um frið í heimi.

* * *

Þegar inn í kirkjuna er komið, blasir við óvanaleg fegurð, óvanaleg að því leiti að allt er þar máluð afar björtum litum, nánast of skærum litum. Litadýrðin vekur með manni viðbrögð, rétt eins og þegar maður sér unga fallega stúlku með of mikinn andlitsfarða. Og maður spyr sig ósjálfrátt: “Af hverju svona sterkir litir, logagylltur, ljósblár, skærbleikur og vængir englanna nánast eins og roðagull?” Aðeins á örfáum stöðum í kirkjunni, þar sem eru súlur eða skreytingar sem hafa staðið þegar kirkjan hrundi, þar er ekki málað. Hluti af altaristöflunni, sem sýnir Jesús á bæn í Getsemanegarðinum, varðveittist nánast óskemmd. Sá hluti myndarinnar er alls ekki málaður. Ein súlan sem heldur uppi þakinu og andlit englanna sem er efst á þeirri súlu varðveittist einnig, og er heldur ekki málað. Allt annað er málað í þessum sterkum, björtum litum.

Frá Dómkirkjunni í Dresden. Mynd: Árni Möller

Litirnir eru nýjir, þess vegna eru þeir svona bjartir, þeir eru ómengaðir af sóti frá kertunum og óhreinindum, nákvæmlega sömu litum og kirkjan var máluð með upphaflega, rétt eins og aðrar kirkjur sem byggðar voru á blómaskeiði baroquetímans. En í aldanna rás hafa ósandi kertin og óhreinindi brugðið slæðu yfir litina, skyggt þá og gert þá gráleita og óskýra. Menn hafa vanist því að horfa á þá þannig og voru farið að trúa því að þannig ættu þeir að vera. Þess vegna skera þessir björtu litir í augun, ómenguð litadýrðin.

* * *

Kirkjan okkar, sem byggð er á hinum lifandi steini sem hafnað var af mönnunum, Jesú Kristi, er byggð upp af lifandi steinum, gömlum og nýjum og umfram allt litríkum steinum. Hinir lifandi steinar varðveita litróf lífsins, sumir eru farnir að tapa lit sínum, farnir að fölna og sumir þykja of litríkir og of áberandi. En allir eru þeir hluti af sköpun Guðs og allir eiga þeir að hafa sinn stað í hinum margþætta, mikilfenglega helgidómi sem hin lifandi kirkja er. Þegar breytingar verða í kirkjunni okkar þá gersti það oft að menn líta á breytingarnar eins og skæru litina á veggjum og skreytingum Frúarkirkjunnar. Breytingarnar skera þá í augun og þeir gleyma því að eitt sinn voru allir litirnir í kirkjunni bjartir og skýrir, þeir gleyma því að einmitt þessir björtu hreinu litir minna okkur á að það er nauðsynlegt að hreinsa burt óhreinindin og sótið sem skyggir á gömlu litina.

Eitt það merkilegasta sem fannst grafið í rústum Frúarkirkjunnar í Dresden, er krossinn sem hafi verið efst á hvolfþakinu mikla. Heill var hann, þó undinn og laskaður, enda var fall hans mikið. Hann er svartur, enda höfðu eldtungurnar sleikt hann. Krossinn prýðir nýja ljósaaltari kirkjunnar, framhjá honum ganga allir sem vilja tendra ljós og biðja fyrir ástvinum sínum, þeir sem vilja biðja fyrir friði í þessum heimi okkar. Þegar krossinn fannst í rústunum þá var hann tákn um það sem gerist þegar mennirnir missa sjónar á því sem er mikilvægast í lífinu, lífið sjálft. En þar sem hann stendur í dag er hann tákn um það sem mennirnir geta áorkað þegar þeir standa saman og vinna Guði til dýrðar.

Efst á toppi hvolfþaks kirkjunnar trjónir nú logagyltur kross, nákvæm eftirmynd krossins sem féll niður þegar kirkjan hrundi. Þessi nýji kross er gjöf frá Bretum, einn af smiðunum sem vann að endurgerð krossins, er sonur orustuflugmanns sem stýrði einni af flugvélunum sem báru sprengjurnar sem varpað var á Frúarkirkjuna.

Guð gefi að þessi logagyllti kross fái að veðrast í aldanna rás, þar sem hann er nú, á hvolfþaki Frúarkirkjunnar. Guð gefi að litirnir inni í kirkjunni megi mást og skyggjast á eðlilegan hátt í aldanna rás og Guð gefi að við gleymum aldrei þessum sterku björtu litum sem prýða endurreista kirkjuna, því að þeir eiga að minna okkur á hin fjölbreyttu litbryggði mannlífsins, litadýrð allra lifandi steina kirkjunnar í heiminum.