Til hamingju með hálfrar aldar afmæli kirkjunnar ykkar hér í Mosfellsdal og gleðilega hátíð.
Þegar Mosfell er nefnt kemur upp í hugann nafið Bjarni Sigurðsson sem hér var prestur eins og margir muna. Þar sem ég er alin upp á prestsheimili og hafði mikinn áhuga á kirkjunni og á fólki og mannlífi, þá vissi ég barnið oftar en ekki hvaða prestur sat hvaða stað á landinu. Bjarni á Mosfelli var nafn sem ég þekkti vel. Manninum kynntist ég þó ekki fyrr en ég kom í guðfræðideildina, en þá var hann orðinn kennari þar. Hann var leiðbeinandi minn í sérefnisritgerðinni og naut ég því meiri leiðsagnar hans en annars hefði verið. Hann var t.d. kennarinn okkar í helgisiðum og prédikunarfræði og var fyrsti kennarinn í guðfræðideildinni til að nota tæknina í kennslustund þegar hann kom með videomyndavél og tók upp þegar hann kenndi okkur helgisiðina sem var lærdómsríkt fyrir okkur nemendurna þó ekki hafi verið skemmtilegt að sjá tilburðina hjá sjálfum sér á mynd. Blessuð sé minning sr. Bjarna, sem sennilega hefur verið sóknarprestur hér þegar kirkjan hér var vígð fyrir hálfri öld.
Saga kirkjubyggingarinnar hefur verið skráð og er það merk saga og allrar athygli verð. Hvað svo sem segja má um kristnina í landinu og trúrækni landans þá er ljóst að mikill meirihluti íbúa í sóknum landsins vill eiga sína eigin kirkju. Svo er og um íbúana hér. Þegar þessi kirkja var byggð hafði kirkja ekki staðið hér í dalnum um langa hríð.
En upphaf allra kirkjubygginga má rekja til þess boðskapar er kristin kirkja hefur miðlað alla tíð. Í dag, á helgri páskahátíð, er minnst þess atburðar er markar skil í sögu mannkyns og styður við allt það er Jesús hafði sagt og gert á hérvistardögum sínum. Upprisuhátíðin minnir á sigur lífsins yfir dauðanum, sigur kærleikans yfir illskunni.
Það voru konur sem kallaðar voru til að flytja fyrst fréttina um upprisuna.
Ungar konur frá Galíleu heyrðu fréttina af munni engils og sannfærðust. Um það fjallar guðspjallstextinn sem lesinn var hér áðan úr riti Matteusar guðspjallamanns. Þannig barst boðskapurinn um upprisu Jesú um heiminn. Og við erum fólkið sem heyrum boðskapinn um upprisuna og fögnum í dag. Opnum hug og hjarta fyrir því að Kristur er lifandi. Þessum boðum fylgir frelsi til trúar, frelsi til athafna, frelsi til boðunar.
Frelsið í Kristi er raunverulegt og með þessu frelsi kemur ábyrgð, sem þarf til þess að lifa þessar nýju fréttir og til að deila þeim með öðrum, rétt eins og Maríurnar tvær gerðu þegar þær hlupu frá gröfinni á páskadagsmorgunn til lærisveinanna og deildu reynslu sinni með þeim.
Þetta er ekki þögult samfélag og því síður leynifélag. Kirkjan starfar ekki í leynum og auðvitað vitum við það. En við högum okkur stundum eins og hún sé hálfgert leynifélag og trúin einkatrú og jafnvel leynitrú, en ekki trú sem dafnar í samfélagi trúaðra. Við erum kirkja og erum kölluð til að bjóða öðrum til að vera með, vera hluti af líkama Krists. Við höfum heyrt góðu fréttina: Kristur er upprisinn.
Erum við hrædd við að trúa? Hrædd við kraft trúarinnar og þá breytingu sem hún getur fært okkur? Erum við hrædd við tengslin milli okkar lífs og lífs Jesú? Erum við hrædd við að horfast í augu við heiminn eins og hann er, því hann er langt frá því að vera eins og ríki Guðs sem Jesús boðaði?
Ef til vill erum við hrædd, en við tilbiðjum Guð sem býr yfir styrk, Guð sem huggar, Guð sem er kærleikur og hefur lofað okkur því að ótti okkar muni ekki eiga síðasta orðið. Og við höfum heyrt góðu tíðindin: Kristur er upprisinn, okkur er borgið. Þau þýða að aðstæður hafa breyst. Dauðinn er ekki sterkasta aflið. Skynfæri okkur eru fimm að tölu: Sjón, heyrn, lyktarskyn, bragðskyn og tilfinningar. Skynfæri eru til þess gerð að taka á móti hvers konar áhrifum nátendum taugakerfinu. Það er mismunandi hvaða skynfæri við notum mest. Áherslan hefur verið á sjón og heyrn, til að vega og meta kristin gildi. En hvernig fer þá blindur maður að því að trúa eða heyrnarlaus? Það er ekki að ástæðulausu að Jesús talar um annars konar blindu og heyrnarleysi, að sjáandi sjáum við ekki og heyrandi heyrum við ekki. Við höfum fleiri skynfæri og við þurfum að nota öll skynfærin til að upplifa trúna, skilja upprisuna, sem verður ekki séð með berum augum. Kirkjan reynir að höfða til sem flestra skynfæra okkar í helgihaldinu. En við skynjum hlutina og lesum úr þeim á mismunandi hátt, það fer eftir persónuleika okkar. Fyrir einum hefur dauði og upprisa Jesú skíra og ótvíræða merkingu. Fyrir öðrum hefur hún fjölbreytta merkingu og túlkanir. En hvernig svo sem menn skynja upprisuna er boðskapurinn skýr: að Kristur er upprisinn og dauði hans leiðir til nýs lífs, frá myrkri krossins til birtu upprisunnar. Þetta er sá leyndardómur sem mörgum er hulinn. En fyrir þeim sem skynja hann, leiðir hann til lífins og fyllir líf þeirra von og birtu. Frank Morrison var efagjarn lögræðingur. Hann skrifaði bók sem heitir „Who Moved the Stone“. Hann tók upp á því að grandskoða þær vísbendingar sem liggja upprisunni til grundvallar og gerði það eftir sömu aðferðum og unnið er eftir í réttarsalnum. Hann vildi vita hver útkoman yrði, þ.e. hvers konar dómur yrði kveðinn upp. Morrison hafði engan sérstakan áhuga á að sannreyna kristna trú. Þvert á móti gekk hann til verksins með það í huga að afsanna kristna trú. Þessi lögfræðingur og skynsemishyggjumaður vildi einfaldlega kveða málið niður í eitt skipti fyrir öll.
Hin ótvíræða staðreynd málsins er sú, sagði Morrison, að frá upphafi kristinnar trúar lék ekki vafi á því að gröf Jesú var raunverulega tóm. Eitthvað átti sér stað sem gerði það að verkum. Sá sem fæst við þetta mál þarf fyrr en síðar að horfast í augu við staðreynd sem ekki er unnt að útskýra eða gera út um eftir rökrænum leiðum. Staðreyndin er sú að einhvern tíma á milli þess bils sem leið frá því að Kristur dó og tímabils sem við getum ekki staðsett fyrr en sex eða sjö vikum síðar þá hafði búið um sig á meðal lítils hóps fólks sú djúpstæða vissa að Jesús hefði risið upp frá dauðum, segir Frank Morison m.a. í bók sinni.
Ekki tókst Morrison að afsanna kristna trú, enda getur kristið fólk vitnað um að páskarnir eru sigurhátíð kærleikans, þar sem sigur Krists yfir illsku, böli og dauða eru boðuð og böðuð í upprisuljósinu hans.
Um það er ekki deilt að Jesús Kristur reis upp frá dauðum. En hvernig það gerðist og hvað það þýðir deila menn enn í dag eins og þá er það gerðist. Um ástæðu þess að enn í dag er verið að minnast upprisu Jesú má gera ráð fyrir að upprisan hafi snert fleiri en konurnar sem komu til grafarinnar hinn fyrsta morgunn. Enn í dag vitnar fólk um víða veröld um að Jesús lifir og trú þeirra sé því ekki trú á dáinn mann heldur lifandi frelsara, sem hefur áhrif á líf þess er trúir.
Trúin er þess eðlis að erfitt er að sanna hana nema fyrir sjálfum sér. En það er hægt að boða hana, segja frá henni þannig að frásögnin hafi áhrif á þann er heyrir. Með boðun trúarinnar er verið að fara eftir því sem Jesús sjálfur bað um. Farið og skírið og farið og kennið sagði hann. Þess vegna skírum við börnin, felum þau hinum upprisna Drottni okkar og frelsara og kennum þeim síðan um hann, að biðja og sækja Kirkjuna. Börnin eru framtíðin. Fræðum þau og leyfum þeim að taka þátt í starfi kirkjunnar. Uppeldi til trúar er uppeldi til lífs í fullri gnægð eins og Jesús orðaði það.
Trúin er leyndardómur. Okkur hefur verið gefin hlutdeild í þeim mikla leyndardómi, fögnum og verum glöð, gleðilega hátíð. Til hamingju með afmæli kirkjunnar ykkar, í Jesú nafni. Amen.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.