„. . . hef ég til þess rökin tvenn“

„. . . hef ég til þess rökin tvenn“

Jónas Hallgrímsson var e.t.v. ekki trúarskáld en hann var trúað skáld og gat túlkað og tjáð kristna hugsun á djúpstæðan hátt. Náttúran og umhverfi okkar er tákn um Guð sem öllu stýrir. Það sögðu rök skynseminnar Jónasi Hallgrímssyni.
fullname - andlitsmynd Einar Sigurbjörnsson
06. desember 2007

Hugleiðingar um tvær vísur Jónasar Hallgrímssonar

Á þessu ári eru liðin 200 ár frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar og hefur þess verið minnst með mismunandi hætti víðs vegar um landið. Í kringum afmælisdaginn sjálfan 16. nóvember, sem jafnframt er Dagur íslenskrar tungu, ákvað ég að rifja upp kynni mín við ljóð Jónasar og fyrir mér urðu lítlar vísur sem ég minnist ekki að hafi vakið athygli mína áður. Önnur vísa er Jólavísa sem Jónas mun hafa ort um jólin 1844 eða síðustu jólin sem hann lifði. Hin vísan er Sólhvörf sem dagsett er 22. desember 1844. Þessar vísur Jónasar vöktu hjá mér ákveðnar hugrenningar sem mig langar til að deila með öðrum.

Jólavísa Jónasar Jólavísan hljóðar á þessa leið:

Jólum mínum uni ég enn, og þótt stolið hafi hæstum Guði heimskir menn hef ég til þess rökin tvenn að á sælum sanni er enginn vafi.

Í þessari litlu vísu lýsir skáldið áhyggjum sínum af vaxandi guðleysi um sína daga. Heimskir menn hafa stolið hæstum guði segir skáldið. Þarna vísar það í 14. Davíðssálm sem hefst á orðunum: „Heimskinginn segir í hjarta sínu: Enginn guð!“

Þessari heimsku hafnar Jónas enda telur hann sig hafa til þess tvenn rök að ekki sé nokkur vafi á „sælum sanni“. Sá blessaði sannleikur vísar annaðhvort til tilvistar Guðs, Guðs sjálfs eða til Jesú Krists sem sannleikans (sbr. Jóhannesarguðspjall 1.18 og 14.6). Rökin tvenn sem hann hefur fyrir þeim blessaða sannleika vísa augsýnilega til þeirrar kenningar hefðbundinnar guðfræði og heimspeki um að Guð birtist mönnum með tvenns konar hætti eða að tvenn rök væru til fyrir tilvist hans. Önnur rökin voru þau sem skynsemi manna var talin geta greint og tóku til þeirra vísbendinga sem mannlífið og heimurinn í heild birta um höfund sinn og skapara. Hin rökin voru rök trúarinnar út frá birtingu Guðs í Jesú Kristi.

Í Mynstershugleiðingum eru rökin tvenn nefnd annars vegar hin almenna opinberun og hins vegar hin sérlega opinberun. Hin almenna opinberun er almenn „af því að hún veitist jafnt öllum mönnum“. Hin sérlega opinberun er sérleg eða sérstök af því að hún er „takmörkuð [...] innan viss tíma og vissra staða, og er að sönnu ákvörðuð til að verða birt öllum mönnum, en getur samt ekki orðið það, nema smátt og smátt.“

Jónas játast þessum tvennum rökum. og það er honum til huggunar og styrktar á jólum að vita þau rök halda.

Skynsemisrökin

Skynsemisrökin eru Jónasi hugleiknari en trúarrökin miðað við ljóð hans og ritgerðir. Hann efast aldrei um að náttúran ber vitni skapara sínum. Í grein sinni „Um eðli og uppruna jarðarinnar“ sem birtist í Fjölni 1835 greinir hann frá hugmyndum liðinna spekinga um tilurð heimsins. Þar nefnir hann sköpunarsögu Fyrstu Mósebókar fegurstar og háleitastar allra hugmynda um uppruna jarðar. Er hann síðar gerir grein fyrir hugmyndum vísinda samtíma síns um uppruna jarðar nefnir hann þann árekstur sem geti virst vera milli sköpunarsögu Biblíunnar og vísindanna. Vísindin leiða óðum í ljós að heimurinn hefur orðið til á löngu tímaskeiði en Biblían virðist gera ráð fyrir að hann hafi orðið til á einni viku fyrir um 6000 árum. Hljóti þá ekki sá sem játast vísindalegri heimsmynd að afneita Guði? Jónas svarar því neitandi.:

Ritningin segir að í upphafi skapaði guð himin og jörð og því mun öngvum koma í hug að neita; en hún talar ekkert um hvunær upphaf tímans hafi verið eður hvað við hafi borið frá upphafi og til þess tímabils þá jörðin var eyði og tóm og guð lét ljósið skína í myrkrunum og greindi vötnin að frá þurrlendinum svo hún yrði byggileg að nýju.

Síðan bætir hann við:

Öllum lærðum guðfræðingum ber nú líka saman um að frásagan um sköpunarverkið sé í rauninni hugmynd einhvurs austurlandaheimspekings um uppruna jarðarinnar og er hún að vísu svo háleit að enginn mundi vilja missa hana úr biblíunni. Hvað öflum náttúrunnar og eilífu lögmáli viðvíkur þá sjá menn einnig við nákvæmari íhugun að þau reyndar eru in endanlega mynd er oss auðnast að sjá vilja guðs og hina eilífu skynsemi í; en hjá sjálfum guði er engin umbreyting né umbreytingarskuggi svo guðrækileg skoðun hlutanna hlýtur, ekki síður en heimspekilegar rannsóknir, að leiða menn á þá sannfæringu að lögmál náttúrunnar sé eilíft og óumbreytanlegt.

Í framhaldinu ræðir Jónas um aðlögunarlögmálið eða það hvernig þekking manna bæði á sviðum vísinda og trúar aðlagast þekkingarstigi manna. Til að útskýra þetta tekur hann dæmi af þyngdarlögmálinu:

Tökum sem dæmi þyngdina. Í fyrstunni kemur hún oss fyrir sjónir eins og almennt lögmál fyrir hlutina hér á jörðu; við nákvæmari ígrundun sjá menn að hún er aðdráttarkraftur allra skapaðra hluta sín á milli; enn fremur að hún er sá aflfjötur sem tengir saman alheiminn og loksins birtist hún oss sem sá guðlegi vilji er viðheldur hnattakerfum heimsins í sínu fagra og undrunarverða sambandid. Hér höfum við hafið oss smátt og smátt frá einni skoðun til annarrar háleitari og komum þar eins og annars staðar til þeirrar ályktuunar að upphaf allra hluta sé guð. (Leturbr. J.H.)

Það er rétt hjá Jónasi að meirihluti lærðra guðfræðinga um daga hans útskýrði sköpunarsögu fyrstu Mósebókar ekki bókstaflega. Menn voru frekar á því að vikan væri ekki vika í bókstaflegum skilningi enda einn dagur hjá Drottni sem þúsund ár. Nægir að vitna í Mynstershugleiðingar í því sambandi en Jónas átti hlutdeild í þýðingu þeirra. Þar segir um sköpunina á þessa leið:

Á sex dögum skapaði Guð himininn og jörðina og hafið og allt það sem í þeim er (2. Mós. 20, 11). Þú getur mælt þessa daga, eins og þú vilt, á stuttan eða langan mælikvarða. Eitt augabragð er ekki of stutt handa þeim, sem í upphafi skóp alla hluti með eintómu boði sínu, og eflaust hefir á elztu tímum heimsins gjört marga ummyndun í einu vetfangi, eins og hann optlega hefir síðan gjört, og eins og hann á hinum síðustu tímum mun gjöra hina miklu ummyndun (1. Kor. 15, 52). En þykist þú í lögun jarðarinnar, þeirri sem nú er, finna merki langvinnra umbyltinga, þá láttu það ekki vera þjer til ásteytingar, því orðið „dagur“ getur líka merkt langt tímabil; einn dagur er hjá Drottni sem þúsund ár, og þúsund ár sem einn dagur (2. Pjet. 3,8). Hvernig ættum vjer að geta mælt dagana meðan ljósin voru ekki til á himinhvolfinu, til að gera mun á deginum og nóttinni, meðan sólin stóð ekki þar, sem hún stendur nú, til að drottna yfir dögum jarðarinnar (1. Mós. 1,14.16)? Fjöll hrærðust ákaflega og hófust upp, en dalir sigu niður, jörðin bærðist í innýflum sínum, hafið gekk upp á löndin og fjell út aptur, þoka og myrkvi hjúpuðu jörðina og dreifðust aptur, þangað til hinn sjöundi dagur rann, hið sjöunda af hinum sjö ákvörðuðu tímabilum, þá var regla komin á rás hlutanna, þá varð ró og kyrrð; „Guð hvíldist eptir verk sín.“

Mynstershugleiðingar komu fyrst út 1839 og 1841 kom út þýðing Jónasar á Stjörnufræði eftir prófessor G.F. Ursin. Í formálanum segir hann:

Ég fyrir mitt leyti gleðst af að skoða himininn til fróðleiks og yndis og huggunar og tek fúslega undir með Addison:

Festingin víða, hrein og há og himinbjörtu skýin blá og logandi hvelfing ljósum skírð! þið lofið skaparans miklu dýrð; og þrautgóða sól! er dag frá degi Drottins talar um máttarvegi, alltaf birtir þú öll um lönd almættisverk úr styrkri hönd.

Kvöldadimman þá kefur storð, kveða fer máni furðanleg orð um fæðingaratburð, heldur hljótt, hlustandi jarðar á þöglri nótt; og allar stjörnur, er uppi loga alskipaðan um himinboga, dýrleg sannindi herma hátt um himinskauta veldið blátt.

Og þótt um helga þagnarleið þreyti vor jörð hið dimma skeið, og öngva rödd og ekkert hljóð uppheimaljósin sendi þjóð, skynsemi vorrar eyrum undir allar hljómar um næturstundir lofsöngur þeirra, ljóminn hreinn: „lifandi Drottinn skóp oss einn.“

Höfundur ljóðsins Addison hét Joseph Addison (1672-1719) og var enskur lærdómsmaður og stjórnmálamaður. Hann stofnaði ásamt fleirum tímaritið Spectator 1711 og þar birtist ljóðið „The spacious firmament on high“ 1712. Ljóðið er útlegging á 19. Davíðssálmi versunum 2-5 þar sem segir:

Himnarnir segja frá Guðs dýrð, festingin kunngjörir verkin hans handa. Hver dagur kennir öðrum og hver nótt boðar annarri speki. Engin ræða, engin orð, ekki heyrist raust þeirra. Þó berst boðskapur þeirra um alla jörð og orð þeirra ná til endimarka heims.
Náttúran öll boðar og birtir að einn er skapari allra hluta. Náttúran öll í háu og lágu er lofsöngur um þann hinn mikla skapara alls. Undir þetta tekur Jónas

Trúarrökin

En hvað með trúarrökin? Það er vissulega dýpra á þau en skynsemisrökin í ljóðum Jónasar og ritgerðum og ég játa það að ég er ekki kunnugur bréfum hans og veit því fátt um það sem þar kann að leynast. Hlutdeild Jónasar í þýðingu og útgáfu Mynstershugleiðinga segir út af fyrir sig nokkuð um hversu hann játaðist hinni sérlegu opinberun Guðs. Samkvæmt henni er Guð heilög þrenning, gerðist sonur Guðs maður í Jesú Kristi og loks greiðir dauði og upprisa Jesú Krists mönnum veg til eilífs lífs fyrir trúna.

Hin vísan sem Jónas orti um jólaleytið 1844, Sólhvörf, sem er ort 22. desember 1844 tjáir trúarrökin með greinilegum hætti. Vísa þessi er dýrt kveðin, dróttkvæð, og er á þessa leið:

Eilífur Guð mig ali einn og þrennur dag þenna! lifa vil eg, svo ofar enn eg líti sól renna. Hvað er glatt sem hið góða guðsauga? kemur úr suðri harri hárrar kerru, hjarðar líkn og jarðar.

Í þessari litlu vísu er tjáð djúp kristin hugsun. Í upphafi felur Jónas sig eilífum Guði sem er heilög þrenning. Íhugunin í sálminum fæðist af því samspili náttúru og trúar sem blasir við um jólin. Vetrarsólhvörf merkja að skammdegið er að víkja fyrir rísandi sólu. Jónasi er það örugglega fróun þegar skammdegisþunglyndi þjáir hann. En hann lítur ofar en skynsemin ein sér og þar blasir við að sólhvörfin eru tákn um hvörf í lífi mannkyns alls. Út frá jólasögunni birta sólhvörfin eilífan Guð sem þrenningu. Ofar sólunni skín því önnur sól, hið eilífa guðsauga er kemur úr suðri. Sú sól er konungur hinnar sköpuðu sólar – harri hárrar kerru. Þessi konungur sólarinnar er Jesús. Hann er frelsari mannanna og náttúrunnar í heild – hjarðar líkn og jarðar. Þar með túlkar trúin sólhvörfin út frá Jesú Kristi og treystir því að myrkrið sem heldur mannkyni í fjötrum þjáningar og ranglætis, illsku og vonleysis hlýtur að víkja fyrir komu hinnar sönnu sólar sem er yfirboðari þeirrar jarðnesku sólar er breytir gangi sínum um vetrarsólhvörf.

Jónas Hallgrímsson var e.t.v. ekki trúarskáld en hann var trúað skáld og gat túlkað og tjáð kristna hugsun á djúpstæðan hátt. Náttúran og umhverfi okkar er tákn um Guð sem öllu stýrir. Það sögðu rök skynseminnar Jónasi Hallgrímssyni. Rök trúarinnar kunngjöra að Guð stýrir öllu til góðs og hans gæska og viturleg stjórn muni um síðir ljúkast upp fyrir hugskotssjónum okkar.