Í morgun var messa í húsnæði Alkirkjuráðsins í Genf til að marka Alþjóðaviku bæna fyrir réttlátum friði í Palestínu og Ísrael. Skömmu áður en hún hófst bárust fréttir af fólskuverkum á alþjóðlegu hafsvæði – Ísraelar réðust á skip sem var hluti skipaflota er freistaði þess að flytja hjálpargögn til Gaza svæðisins. Samkvæmt fréttum hafa tíu fallið og margir særst. Í skipunum voru meðal annars fulltrúar frá kirkjum sem starfað hafa með Palestínumönnum.
Árásin ítrekar enn frekar nauðsyn aðgerða til að stuðla að réttlæti og friði fyrir botni Miðjarðarhafs.
Kynslóðir flóttamanna Fyrir rúmum aldarfjórðungi sat ég í stofu palestínskrar fjölskyldu í Gaza og hossaði yngsta fjölskyldumeðlimnum, litlum dreng. Þau voru flóttamenn; faðirinn, móðirin og börnin voru öll fædd í flóttamannabúðum í Gaza. Þau voru afkomendur Palestínumanna sem flýðu til Gaza í stríði Ísraela og Palestínumanna árið1948. Öll dreymdi þau um betra líf, um menntun og atvinnu. Og um að snúa heim.
Ég var í Gaza í fylgd prests grísku rétttrúnaðarkirkjunnar á staðnum sem starfaði með Kirknaráði Miðausturlanda. Hann sýndi mér hjálpar- og þróunarstarf á vegum Alkirkjuráðsins á þessu litla og fjölmenna landssvæði. Ég man að í flóttamannabúðum voru holræsi opin, en ég man líka hve fólkið var elskulegt og gestrisið.
Þéttbýlasta svæði heims Gaza svæðið er þéttbýlasta svæði heims. Það er aðeins 41 km á lengd og 6 – 12 km breitt, alls 350 ferkílómetrar. Á þessu litla landsvæði býr nú tæplega 1,5 milljón manns. Þriðjungur þeirra býr í flóttamannabúðum og um tveir þriðju eru skilgreindir sem flóttamenn.
Ég velti því fyrir mér hvað hafi orðið um fjölskylduna sem gaf mér velvild og næringu kvöldstund árið 1984. Hvað varð um litla drenginn sem sat í fangi mínu, svo sáttur og áhyggjulaus, umvafinn ást fjölskyldu sinnar. Fékk hann að læra? Að vinna? Kastaði hann steinum í hermenn þegar Intifada hófst? Hvernig var það að vaxa upp við sífellda ógn og hernám? Varð hann fyrir byssuskoti? Lenti hann í fangelsi? Lifir hann enn? Hann er ekki þrítugur enn ef hann lifir. Skildi hann búa í Gaza – ætli fjölskyldan hafi lifað af árásir Ísraela við upphaf árs 2009?
Við þessu á ég engin svör en ég veit að fyrir flesta flóttamenn í Gaza hefur ástandið bara versnað. Þeir búa ennþá í flóttamannabúðum en það hefur þrengt mjög að þeim.
Risavaxið fangelsi Umferð um landamæri Gaza var aldrei án eftirlits en fjöldi Gazabúa vann í Ísrael í áratugi og vistir voru fluttar landleiðis. Ísraelar settu á viðskiptabann og lokuðu landamærunum fyrir þremur árum í kjölfar þess að Hamas samtökin náðu völdum í kosningum í Gaza. Síðan hefur Gaza verið kallað risastórt fangelsi. Fjölmörgum hjálparstofnunum, bæði Flóttamannastofnun SÞ, Rauða krossinum og fjölda annarra samtaka hefur verið meinað að flytja margskonar hjálpargögn til Gaza, enda segja Ísraelar að Gazabúar líði engan skort. Eigi að síður er það staðreynd að þar þurfa menn að komast af á fjórðungi þess sem flutt var inn til svæðisins árið 2005 og hjálpar- og mannréttindasamtök hafa lýst ástandinu sem hættulegu heilsufari og lífi. En Ísraelar bera líka fyrir sig öryggishagsmuni. Því skýtur skökku við að meðal þeirra nauðsynja sem Flóttamannastofnun SÞ hefur verið meinað að flytja inn eru ljósaperur, kerti, eldspítur, bækur, hljóðfæri, litir, föt, skór, teppi, kaffi, súkkulaði og sjampó.
Réttlæti og friður - Alþjóðleg bænavika Þarna er hvorki réttlæti né friður. Á Vesturbakkanum og í Gaza eru mannréttindi brotin daglega og Palestínumenn búa við niðurlægingu og stöðuga röskun á daglegu lífi. Þeir komast ekki á akra til að afla lífsviðurværis, börnum er gert erfitt að komast í skóla, fullorðnum til vinnu; smátt og smátt er verið að skera á alla möguleika á mannsæmandi lífi og dæma fólk til fátæktar.
Alkirkjuráðið hefur starfað meðal Palestínumanna í áratugi og stutt kirkjurnar á staðnum. Lengi var lögð áhersla á margs kyns þróunaraðstoð, læknisþjónustu, þjálfun og menntun en síðari árin einnig með því að senda fólk frá öðrum löndum til að starfa meðal Palestínumanna og hjálpa þeim við daglegt líf á svæðum þar sem öryggi og mannréttindum er ógnað.
Dagana 29. maí - 4. júní stendur yfir bænavika fyrir friði í Palestínu og Ísrael. Bænavikan er á vegum Alkirkjuráðsins og er hvatning fyrir kirkjurnar til að biðja og iðja; til að biðja fyrir og með kirkjunum í Palestínu, til að kynna sér ástandið á Vesturbakkanum og Gaza, til að segja frá því og til að þrýsta á um aðgerðir til friðar. Friður verður ekki án réttlætis. Og fólkið á Vesturbakkanum og í Gaza býr ekki við réttlæti.