Hamingjan góða

Hamingjan góða

Svo er það nú líka þannig að lífið verður aldrei skuldbindingalaust, ef þú lítur á frelsi sem það að vera laus við allar skuldbindingar, þá ertu þræll að eilífu

Ef það er eitthvað sem ég hef haft töluverða fordóma fyrir í lífinu, þá eru það sjálfshjálparbækur. Sem er í raun mjög skrýtið vegna þess að þær geta sjaldnast talist mannskemmandi, þó að þær séu örugglega misjafnlega gagnlegar. Þetta eru líka furðulegir fordómar svona í ljósi þess að Biblían, sjálft sáðkorn trúarinnar getur hæglega flokkast undir sjálfshjálparbók, já sjálfshjálparbók í lífsleikni. Nei það eru helst þessar sjálfshjálparbækur sem boða einhvers konar allsherjar lausn á lífsgátunni eða leyndardóminn stóra að baki velgengni, sem fá mig hreinlega til að skjálfa af kjánahrolli. Rassvasa heimspeki hugsa ég með þótta þegar svona bækur ber á góma. Þess vegna var það með talsverðri blygðun sem ég dró fram bók úr stofuhillunni um síðustu helgi, sem maðurinn minn fékk í jólagjöf og ber það umbúðalausa heiti “Meiri hamingja” ég hefði sennilega ekki skammast mín meira þó ég hefði handleikið rit sem bæri nafnið Bleikt og Blátt, með þetta skreið ég undir sæng og hóf lesturinn full vantrúar og fordóma. Og þá gerðist það sem gerir lífið einmitt svo óendanlega áhugavert og lærdómsríkt að ég fékk eitt stykki blauta tusku framan í mig. Þegar ég var hálfnuð með bókina var ég svo gott sem búin að uppgötva að líf mitt byggist á stórum og varasömum misskilningi, ég Hildur Eir Bolladóttir sem hélt að ég væri svo mikill lífskúnstner er alveg á spólandi ferð í lífsgæðakapphlaupi, ég er jafnvel eins og hamstur á myllu ef út í það er farið. “Bíðið nú við” en ég sem leigi hógværa kjallaraíbúð í hverfinu, á hvíta Toyota Corolla með 1400 vél og stofusófinn minn er þrjátíu ára gamall, með kögri í þokkabót, hvernig í ósköpunum get ég verið á fullu í lífsgæðakapphlaupinu? Er ég ekki alveg á pari við Dalai Lama? Nei, ekki alveg, a.m.k. ekki samkvæmt hinum ágæta höfundi bókarinnar, Dr Tal Ben-Shahar sem er prófessor í sálarfræði við hinn virta Harvard háskóla í Bandaríkjunum. Lífsgæðakapphlaupið snýst samkvæmt hans skrifum ekki um það eitt að hlaupa móður eftir veraldlegum auði heldur liggur misskilningurinn ekki hvað síst í afstöðu okkar til nútíðar og framtíðar. Þekkirðu þessa tilfinningu að vera alltaf að búa í haginn með einum eða öðrum hætti, vegna þess að einhvern tímann á líf þitt að verða nánast fullkomið. Höfundurinn skýrir mál sitt gjarnan með matarlíkingum, kannski þess vegna sem ég hef skilið hann svona vel? Þannig talar hann um það hversu miklu það skiptir að neyta fæðu sem er bæði góð og holl, ekki bara góð eða bara holl, heldur hvort tveggja í senn, þar með sameinar þú gæði stundarinnar, nútíðarinnar en hlúir á sama tíma að framtíðinni (Dr.Tal Ben-Shahar, 2009, 32-33).

Það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég las þetta var andlit móður minnar þegar hún var að myndast við að kyngja All brani í Ab mjólk í þeirri von að heilsan myndi ekki bregðast henni í framtíðinni. Henni fannst þetta skiljanlega mjög vont, eins og að éta hey í gamalli súrmjólk en tilhugsunin um að halda heilsu var gæðum stundarinnar yfirsterkari. Ég veit ekki hvort þú skilur mig en það sem ég tók með mér úr þessari lesningu er sú staðreynd að lífsgæðakapphlaupið rænir mann fyrst og fremst möguleikanum á að lifa í jafnvægi, lífsgæðakapphlaupið snýst í grunninn um endalausan undirbúningi undir betri tíð með blóm í haga en síðan þegar blómin eru loksins sprottin þá er búið að ræna mann hæfileikanum til að finna ilminn af hamingjunni. Hamingjan felst í því að finna jafnvægið milli nútíðar og framtíðar, að borða bragðgóðan, ilmandi mat sem veitir ánægju og gleði en stuðlar jafnframt að góðri heilsu og betri framtíð nei ekki bara að tyggja söl og drekka mysu í von um að sá tími komi að maður hafi skrokk í nautasteik með Bernaisesósu. Svo er það nú líka þannig að lífið verður aldrei skuldbindingalaust, ef þú lítur á frelsi sem það að vera laus við allar skuldbindingar þá ertu þræll að eilífu, rithöfundurinn Paulo Coelho orðar þessa hugsun svo vel í bók sinni Hugarfjötur þegar hann segir að frelsi sé ekki það að vera laus við skuldbindingar heldur það, að velja það besta og skuldbindast því. Þetta er svo satt, ef þú ert á annað borð manneskja þá lifirðu í samhengi skuldbindinga, ef þú ert manneskja þá eru alltaf aðrar manneskjur í þínu samhengi sem þú ert skuldbundin og ef þú rækir ekki þær skuldbindingar, nú þá fyrst ertu fangi í eigin sálarfjötrum. Þess vegna megum við aldrei miða hamingju okkar út frá hugmyndinni um frelsi undan skuldbindingum, því sá dagur mun aldrei renna upp og ef svo óheppilega vill til að þú lifir hann þá er eins gott að vita af kirkjunni í næsta nágrenni. En hvernig er þetta með þig og nútíðina, þar sem þú situr hér á kirkjubekknum í dag og finnur fyrir lífi þínu, ertu að njóta þess? Ég veit að þetta er stór og frek spurning en hún er gríðarlega mikilvæg og ég er sjálf að velta henni fyrir mér þessa dagana, er ég alltaf að bíða eftir uppskeru erfiðisins eða hefur hver dagur að geyma stundir sem eru nærandi og eflandi. Hvað finnst þér gaman að gera? Og hversu oft lætur þú eftir þér að gera það sem þér finnst skemmtilegt og áhugavert, veitir þér lífsfyllingu? Þetta eru mikilvægar spurningar sem er lífsnauðsynlegt að spyrja sig reglulega því tíminn sjálfur er ekki falur og fæst heldur ekki að láni.

En svo er þetta líka að hluta til uppeldislegt, eins og svo margt annað, það er mikilvægt fyrir okkur sem erum í því hlutverki nú, að vera vakandi, ég er einmitt alin upp af þeirri kynslóð sem tók sér helst ekki sumarfrí og stundaði ekki líkamsrækt af því að það þótti í besta falli hégómlegt, ef einhver sást úti að hlaupa í sveitinni þar sem ég ólst upp kímdu menn og hristu hausinn, menn hlupu bara eftir villuráfandi sauðféi. Allir áttu líka að klára það sem þeir höfðu byrjað á, alveg sama hvort það hentaði þeim eða ekki, væri til gagns eða ekki, þetta voru óskráð lög eða jafnvel dyggð og námsval var fyrst og síðast miðað við möguleg störf að námi loknu. Mér finnst frásögnin af því þegar Jesús var í brúðkaupinu í Kana undirstrika þessa kenningu sálfræðingsins góða um gildi stundarinnar og jafnvægisins, með því að breyta vatni í vín var Jesús að bjarga heiðri brúðhjónanna, sem skipti máli inn í framtíðina en um leið að viðhalda gleði stundarinnar. Skilaboð sögunnar eru ekki hvað síst þau að lífið sé til þess gert að njóta þess hér og nú. Og síðan er það guðspjall dagsins í dag, dæmisagan um sáðmanninn, hvernig samræmist lífsspeki sálfræðingsins í Harvard, lífsspeki Jesú frá Nasaret sem gaf okkur lífið, lagði í raun líf sitt í sölurnar svo að við mættum lifa? Oft hef ég prédikað að líf Jesú hafi verið allt annað en þægilegt, hann átti hvergi fastan samastað, ekki einu sinni kjallaraíbúð eða sófa með kögri og hann var augljóslega mjög upptekinn maður en líf hans var engu að síður gríðarlega merkingarbært, hann átti endalaust innihaldsrík samtöl, gæðastundir þar sem hann gaf af sjálfum sér og staldraði við og það sem meira var hann skapaði guðsríki í öllum samskiptum, hvort sem var við matarborð, út á vatni eða upp á fjalli, hann tók börnin sér í faðm, talaði við þau og blessaði á meðan lærisveinarnir fylgdust óþolinmóðir með, eru ekki verkefnin ærin, mega börnin ekki bíða, gætu þeir hafa verið að hugsa. Sköpum við guðsríki í okkar samskiptum? Í guðspjalli dagsins fjallar Jesús um sáðmanninn sem sáir hinu merkingarbæra lífi í margskonar svörð, við erum hinir mörgu og ólíku móttakendur, já móttakendur Orðsins, lífsins og hvernig ætlum við að þiggja það? Ég veit ekki með þig en ég held að ég þurfi að endurskoða daglega viðtöku mína á lífinu og samræma inntak nútíðar og framtíðar. Einhvern veginn hljómar sú áskorun vel í samhengi við íslensku þjóðina sem horfir á lífið þjóta framhjá dag hvern á meðan hún skipuleggur markið stóra í tíbrá framtíðarinnar, “já þegar við verðum laus við allar okkar skuldbindingar” eins og það muni einhvern tímann gerast eða eigi að gerast, við munum auðvitað klára að greiða Icesave í fyllingu tímas en það breytir ekki þeim veruleika að við erum skuldbundin veröldinni, öðrum þjóðum, að eilífu og ef við hættum að vera það, þá erum við fyrst komin í djúpa lægð. Já lífsgæðakapphlaupið hefur öðlast nýja merkingu í mínum huga, eftir lestur bókar sem ég hafði bullandi fordóma gagnvart, hugsa sér hvað fordómar geta rænt okkur merkilegum möguleikum til þroska. Lífskúnstinn er s.s ekki sú að bíða lífið af sér þangað til “fullkomnu” dagarnir koma, hún er heldur ekki sú að lifa eins og enginn sé morgundagurinn, lífskúnstin snýst um að hlúa að nútíð og framtíð á sömu stundu. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.

( Bókin “Meiri hamingja” er eftir Dr.Tal Ben Shahar, Karl Ágúst Úlfsson þýddi, bókafélagið Undur og Stórmerki, prédikunin byggir aðallega á 2.kafla bókarinnar, Að sætta nútíð og framtíð)