Markaðurinn í musterinu

Markaðurinn í musterinu

En við verðum alltaf að vaka á verðinum, gæta þess að þessi gildi falli ekki í gleymsku, að þau verði ekki falskt yfirborð og látalæti. Þau verða að skjóta rótum í hjartanu og móta hugarfarið.

Kæri söfnuður Til hamingju með daginn, kirkjudag Árbæjarkirkju. Það er mér sérstök ánægja að ávarpa  ykkur  á þessum degi því ég á góður minningar tengdar þessum söfnuði  og þessari sókn.  Hér átti ég heima í þrjú ár, en þá var áður en kirkjan var byggð. Yngri dóttir mín Sólveig er skírð í gömlu torfkirkjunni í Árbæjarsafni og það var yndisleg stund. Faðir minn skírði hana og hann vígði einnig þessa kirkju. Amma Sólveigar og nafna, sem hér er stödd í dag, hélt dóttur minni undir skírn og langamman spilaði á litla orgelið. Þá vil ég líka nefna að báðir prestarnir hér hafa verið nemendur mínir, þannig að ég þykist eiga dálítil ítök hér.

Kjarni þess sem ég vil segja við ykkur í dag er þessi: Því meira sem maður les í guðspjöllunum og kynnir sér rannsóknir á þeim því meiri verður aðdáunin á Kristi, predikunum hans, lífi og starfi – þetta er mín reynsla og margra annarra. Dýptin og viskan í dæmisögunum og frásögnunum kemur því betur í ljós sem maður íhugar þær. Þetta á í raun og veru við um biblíuna alla, ef hún er lesin á réttan hátt. Oft hefur mér fundist það sláandi hvernig þessir eldgömlu textar lifna við og verða nútímalegir. Tökum dæmi af pistlinum sem lesinn var hér áðan úr bréfi Páls postula :

 „Lifum svo að sæmd sé að því, því nú er dagur kominn, en hvorki í ofáti né ofdrykkju, hvorki saurlífi né svalli, né með þrætum eða öfund. Íklæðist heldur Drottni Jesú Kristi og leggið ekki þann hug á jarðnesk efni að það veki girndir. (Róm 13. 11-14).
Á þessi bréfkafli ekki erindi beint inn í umræðuna í þjóðfélagi okkar í dag?

*

Guðspjall dagsins miðar við upphaf  jólaföstu, fyrsta sunnudag í aðventu, þegar kristnir menn búa sig undir fæðingarhátíð frelsarans – búa sig undir komu hans. Þá er sagan um innreið hans í borgina helgu rifjuðu upp – og hún er einnig tekin til umræðu á Pálmasunnudag.

Borgarbúar fögnuðu þegar Jesús reið á asnanum inn í Jerúsalem. Það var friðartákn af hans hálfu. Ef hann hefði ætlað sér að vinna borgina, ná henni á vald sitt, hefði hann verið í fullum hertygjum og riðið gæðingi með lærisveinana sér til beggja handa sem herforingja og fólkið sem fylgdi honum hefði verið grátt fyrir járnum, fótgöngulið, einbeitt í því að brjóta alla mótspyrnu á bak aftur og krýna Jesú sem sigurkonung. Hann hefði getað tekið völdin úr höndum spilltra presta og farísea og rekið rómverska ráðherra úr landi. Hefði það ekki verið flott að fá  kristið fyrirmyndarríki fyrir botni Miðjarðarhafs strax þá – fyrir næstum tvö þúsund árum?

En í stað þess að hertaka borgina þá fer Jesús rakleiðis inn í helgidóm staðarins – inn í bænahúsið. Þar er Guð á sérstakan hátt til viðtals við þjóð sína, þar mætist himininn og jörðin, himneskir herskarar og kirkjan í heiminum.

Guðspjallamaðurinn segir svo frá: „Hann rak út alla sem voru að selja þar og kaupa, hratt um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna og mælti við þá: „Ritað er: hús mitt á að vera bænahús en þið gerið það að ræningjabæli.“ (Mt 21. 12-14)Og í beinu framhaldi er sagt frá því að: „Blindir og haltir komu til Jesú í helgidóminum og hann læknaði þá.“ (Mt 21.14-15)

Hann var sem sagt kominn til að hreinsa musterið því hann vissi að bænahúsið var miðstöð hinnar helgu borgar -  hann lét aðrar stofnanir þessarar höfuðborgar Ísraels í friði. Þetta var forgangsröð hans og hún sýnir hvers eðlis boðskapur hans er. 

Í forgarðinum þar sem allir máttu vera, bæði gyðingar og útlendingar, var ekki hægt að biðjast fyrir vegna fyrirgangsins og  hávaðans í víxlurunum og kaupmönnunum. Þeir fyrrnefndu voru að breyta erlendum gjaldeyri í peninga sem skattheimtumenn musterisins tóku gilda og þeir síðarnefndu höfðu gert forgarðinn að markaði með fórnardýr, ekki síst dúfurnar sem voru algengustu fórnardýrin. En fólkið mátti ekki taka með sér dúfurnar að heiman og varð að kaupa þær á uppsprengdu verði af kaupmönnunum sem margir hverjir voru þarna vegna skjótfengins gróða. Þeir okruðu á fólkinu, álagningin var meiri en tíföld.

Þeir sem ekki höfðu aðgang að innsta rými helgidómsins fengu ekki frið til að biðjast fyrir forgarðinum. Það var þetta sem Jesú gramdist mest og það voru því engar vöflur á meistaranum. Hann ruslaði þeim út og gerði það svo eftirminnilega að börnin sem nærstödd voru  hrópuðu: „Hósanna syni Davíðs.“ Þó tóku undir fagnaðaróp foreldra sinna frá því fyrr um daginn þegar Jesú kom inn í borgina á asnanum. Þá ofbauð faríseunum og sögðu við Jesú. „Heyrir þú hvað þau segja?“

Jesú hafði svarið á reiðum höndum. Hann fann það í sálmabókinni sinni, Davíðssálmunum, sem eru líka í okkar biblíu  og auðvitað þekktu farísearnir það líka, en það er úr áttunda sálminum og hljóðar svo:

Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina. Þú breiðir ljóma þinn yfir himininn. Af munni barna og brjóstmylkinga hefur þú gert þér vígi til varnar gegn andstæðingum þínum, til að stöðva fjandmenn og hefnigjarna. (Sl 8. 1-3)
Hver getur sigrað þann sem gerir sér dýrðarsögn af munni barna og brjóstmylkinga?

Þetta er upphafið að predikun Jesú í musterinu í Jerúsalem og þegar henni var lokið voru æðstu prestarnir og farísearnir staðráðnir í að láta taka hann af lífi, en þorðu það ekki að svo komnu máli vegna þess að fólkið skynjaði að þarna var spámaður að tala.

Jesú fór fyrst inn í musterið vegna þess að hann vissi að þar var hjarta borgarinnar. Hann leit ekki einu sinni við beinhörðu gullinu í bönkunum, hann fór ekki út á torgið til að ná athygli fjölmiðlana og ekki upp í stjórnarráðið. Hann fór inn í musterið vegna að fjársjóðurinn er hjörtun sem trúa. Í annari predikun hafði hann einmitt lagt áherslu á þetta. „Því hvar sem fjársjóður þinn er þar mun og hjarta þitt vera.“ (Mt.6.21)

*

Umræðan í þjóðfélaginu snýst um efnahagshrunið orsakir þess og afleiðingar og bestu leiðir til þess að byggja aftur upp atvinnu- og efnahagaslíf sem tryggir öryggi og velferð okkar sem einstaklinga og þjóðar. Álitamálin eru mörg og slæmu fréttirnar koma hver heftir aðra eins holskeflur. Sérfræðingar og stjórnmálamenn og ýmis konar álitsgjafar eru ekki sammála, enda tala þeir oft út frá ólíkum forsendum. En það er öllum ljóst að söfnuðurinn, þjóðarsamkoman, þjóðarheildin þarf að endurfæðast, eignast nýtt líf og nýja trú á framtíðina, íklæðast hertygjum ljóssins - og boðskapur  þessa helga dags í upphafi aðventu er að sá mun koma sem rekur víxlarana og arðræningjana úr helgidómnum.

Hin kristnu grunngildi hafa skilað sér til þjóðarinnar þrátt fyrir allt. Þau hafa gegnsýrt menninguna og viðhorft fólks hvers til annars, eflt umhyggjuna fyrir börnunum og þeim sem standa höllum fæti, fyrir  fjölskyldunni, vinnufélögum og nágrönnum. En við verðum alltaf að vaka á verðinum, gæta þess að þessi gildi falli ekki í gleymsku, að þau verði ekki falskt yfirborð og látalæti. Þau verða að skjóta rótum í hjartanu og móta hugarfarið.

Varið ykkur á víxlurunum og dúfnasölufólknu að það smeygi sér ekki inn í musterið ykkar!

Það er kirkjudagur Árbæjarkirkju. Börnin í sunnudagaskólanum, þið sem syngið í messunni og þjónið hérna, prestarnir – og söfnuðurinn allur – þið eruð fjársjóðurinn og það er til ykkur sem Kristur er að koma. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.