Farsæld eða Hagsæld?

Farsæld eða Hagsæld?

Í dag stöndum við frammi fyrir þeirri spurningu hvort við viljum vera hagsæl þjóð eða farsæl þjóð. Við stöndum á ákveðnum byrjunarreiti og höfum þar af leiðandi tækifæri til að móta framtíðina, það er stórkostlegt tækifæri, nú höfum við val um að stuðla að hamingju hvers annars, nýtum okkur það.
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
11. febrúar 2009

Kirkjan hefur tveimur meginhlutverkum að gegna í þjóðfélaginu, annars vegar á hún að veita því siðferðilegt aðhald og beita til þess siðfræði Jesú Krists. Hins vegar á hún að vera sálgætir og beita til þess mannskilningi Jesú Krists. Hvort tveggja fylgist ætíð að, en nú bregður svo við að nýjar aðstæður kalla á enn ríkari sálgæslu af því að tíðarandinn sem svo margir hafa treyst á, hefur brugðist. Lífsgildi sem töldust eftirsóknarverð eru ekki lengur í boði og samfélagið þarf að endurmeta afstöðu sína og endurskoða skilning sinn á hugtökum eins og hamingju og farsæld.

Að vísu lýsa þessi tvö hugtök ekki endilega sama viðfangsefninu, af því að það er ekki endilega víst að farsæll maður sé alltaf hamingjusamur. Að mati frumspekingsins Aristótelesar er farsæld æðsta takmark mannsins og ég er í raun sannfærð um að þegar siðfræði Jesú Krists er tekin saman þá sé það líka takmark hennar. Hin kristna siðfræði miðar að farsæld.

En hvert er höfuðeinkenni á farsælu fólki?

Heimspekingurinn Páll Skúlason segir að það sé þegar fólk stuðlar að hamingju annarra. En það er ekki alltaf þægilegt eða auðvelt að stuðla að hamingju annarra, þvert á móti krefst slíkt markmið eiginleika eins og þolinmæði, auðmýkt, æðruleysi og gjafmildi. Með öðrum orðum þá krefst farsældin fyrirhafnar.

Jesús Kristur er farsælasta manneskja sem gengið hefur á þessari jörð en samt var enginn dagur þægilegur í hans lífi. Hann átti ekki hús og ekki hest, hann var alltaf að bregðast við annarra þörfum og hann var alltaf heiðarlegur þó það kostaði stundum talsvert og í lokin líf hans. Ég veit ekki hvort Jesús var alltaf hamingjusamur en hann var alltaf farsæll.

Við höfum flest lifað í býsna þægilegu samfélagi í liðnum árum en það hefur ekki alltaf verið farsælt. Við höfum ekki sett þarfir náungans í forgrunn, sérstaklega ekki þarfir hinna vanmáttugu, barnanna okkar, öryrkja og aldraðra. Við höfum svo sannarlega ekki verið þolinmóð, það er nóg að líta á umferðarmenninguna eða röðina í Bónus eða afstöðuna gagnvart innflytjendum í atvinnulífinu til að sjá það.

Og okkur hefur líka skort auðmýkt, því miður hefur hrokinn verið undirliggjandi í afstöðu okkar gagnvart ákveðnum þjóðfélagshópum, gagnvart náttúrunni, gagnvart stríðshrjáðum þjóðum, þar á ég t.d við innrásina í Írak og líka gagnvart ákveðnum störfum, sérstaklega ákveðnum umönnunarstörfum, einmitt þar sem velferð þeirra sem minna mega sín, hefur legið undir.

Okkur hefur líka skort æðruleysi, því óttinn hefur rekið okkur áfram í þjónustu við óþolinmóðan tíðarandann, hugtakið gerviþarfir hefur orðið til sem afsprengi þessa ótta og ekki að ófyrirsynju. Sá sem er farsæll lifir ekki alltaf þægilegu lífi.

Í dag stöndum við frammi fyrir þeirri spurningu hvort við viljum vera hagsæl þjóð eða farsæl þjóð. Við stöndum á ákveðnum byrjunarreiti og höfum þar af leiðandi tækifæri til að móta framtíðina, það er stórkostlegt tækifæri, nú höfum við val um að stuðla að hamingju hvers annars, nýtum okkur það.