Jólagjöfin bezta

Jólagjöfin bezta

Við viljum láta hið ytra endurspegla fegurð og helgi jólanna, því hreinsum við allt í kringum okkur, tökum til, skreytum og lýsum upp skammdegið með okkar fegurstu ljósum. Allt á þó að vera aðeins endurskin af kærleika í okkar brjósti sem komið er með kærleiksljósi barnsins sem lagt var í jötu á fyrstu jólanótt. Jólafriðurinn var úti. Svo er oft með jólin. Þau fjara út, eða jafnvel koma varla í huga okkar. Þau ná ekki að lifa eftir eftirvæntingu okkar. Við náum jafnvel ekki að sjá ljósið eða taka við því. Jólin geta einmitt bent okkur á myrkrið í kringum okkur, hinn andlega skort.
fullname - andlitsmynd Óskar Ingi Ingason
25. desember 2011
Flokkar

25. desember 2011.  Jóladagskvöld.

Kvennabrekkukirkja.

Jóhannesarguðspjall 1:1-14.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.  Amen.

Gleðileg jól, kæru vinir, systur og bræður í Kristi!

Nú eru heilög jól.  Hátíð ljóss og friðar.  Við höfum fagnað fæðingu frelsarans á jólanótt og átt vonandi öll góðar stundir nú á jóladag, mörg í faðmi fjölskyldunnar, önnur kannski langt frá ástvinum.

Og hingað erum við komin í hús Drottins.  Í kertaguðsþjónustu.

Jólin eru heilög.  Við eigum okkur flest ef ekki öll fallegar minningar um jól og sérstakar hugmyndir um hvernig þau eiga að vera.  Hátíð fjölskyldunnar.  Hátíð barnsins í hverju og einu okkar.  Á jólum verðum við öll sem börn og tökum á móti hátíðinni með tilhlökkun og einlægni.  Á jólum eru allir góðir og öll vopn lögð til hliðar.  Fræg er sagan úr fyrri heimstyrjöldinni, frá Ypres í Belgíu er hermenn bandamanna og þýskir hermenn lögðu niður vopnin á aðfangadagskvöld, sungu sálma saman, spiluðu fótbolta og skiptust á gjöfum.  Allt hófst með er þjóðverjar sungu „Heims um ból“ og kveiktu á ljósum í skotgröfum sínum.  Bandamenn svöruðu með enskum sálmasöng og friður komst á.  Sá friður stóð á jóladag og var sjálfsprottinn og breiddist út um nágrennið.  Hún sýnir okkur kraft jólaboðskapsins og hvernig við eigum að taka honum. Jólin er hátíð trúarinnar og vonarinnar, hátíð kærleikans.

Við viljum láta hið ytra endurspegla fegurð og helgi jólanna, því hreinsum við allt í kringum okkur, tökum til, skreytum og lýsum upp skammdegið með okkar fegurstu ljósum.  Allt á þó að vera aðeins endurskin af kærleika í okkar brjósti sem komið er með kærleiksljósi barnsins sem lagt var í jötu á fyrstu jólanótt.

Það er þetta kærleiksljós í hjarta okkar sem er ástæða þess að við fáum gjafir á jólum, og ástæða þess að við gefum gjafir.  Jólagjafir eru afmælisgjafir til jólabarnsins.  Barnsins sem er nálægt í hans minnstu bræðrum og systrum.  Og það eru við þegar við erum hluti af því ljósi sem kom í heiminn.  Og við færum það áfram og gefum þeim sem á þurfa á að halda.

Jólin er fjölskylduhátíð.  Og við erum öll ein fjölskylda.  Það skildu hermennirnir við Ypres í styrjöldinni sem átti að enda allar styrjaldir.  Við erum börn Guðs, systur og bræður, elskuð börn okkar himneska Föður.  Því er enginn einn á jólum.  Jafnt í myrkri sem ljósi, í gleði sem sorg, í faðmi ástvina sem einmannleika, í ríkidæmi sem fátækt.  Því er barnið nefnt í jötunni kallað Immanúel, Guð er með okkur, fjölskyldu sinni.  Þannig eru jólin og eiga að vera.  Heilög jól.

En í Ypres fréttu yfirmenn hersins hvað hefði gerst og gripu strax inn í og skipuðu árás.  Jólafriðurinn var úti.  Svo er oft með jólin.  Þau fjara út, eða jafnvel koma varla í huga okkar.  Þau ná ekki að lifa eftir eftirvæntingu okkar.  Við náum jafnvel ekki að sjá ljósið eða taka við því.  Jólin geta einmitt bent okkur á myrkrið í kringum okkur, hinn andlega skort.  Og ef andi jólanna koma virðist hann vara alltof stutt.  Þannig er lífið.  Þannig er fátækt okkar.  Ljósið virðist enda í styttri tíma en kertið litla, slokknar jafnvel strax.  Það er mannanna mein.  Það er heimsins þrautamein.

Og hvað er þá til ráða?  Gefast upp?  Vitringarnir þrír og hirðarnir komu til að finna konung konunganna en fundu ungbarn reifað og lagt í jötu.  Gáfust þeir upp er frá leið?  Það vitum við ekki.  En barnið óx og dafnaði við kærleika foreldra sinna.  Og það varð frelsari manna, sem sigraði dauðann, synd og allt illt.  Hans vegna þurfum við ekkert að óttast.  Því sagði engillinn á Betlehemsvöllum við hirðana: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.“  En þrátt fyrir að engillinn bætti við: „Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“ og það stóðst, að þá er líklegt að þrátt fyrir hrifningu í fyrstu hafi með tímanum komið efi og vantrú.  Hvað þá er áratugirnir liðu.  Þeir voru í svipaðri stöðu og við, þrátt fyrir allt.  Sú staða er það ástand sem á svo óvinsælan hátt er kallað synd og hefur ekkert með verk að gera í raun.  Heldur að samband okkar við barnið, einlægnina, ljósið, trúna, vonina og kærleikann er ekki eins og á að vera.  Samband okkar við Guð er fátæklegt.

Þá reynir á ljósið í okkur og gjafir þess, trú von og kærleika.  Vilt þú láta það vaxa og gjafir þess?  Viltu láta þær þroskast og ná vaxtarfyllingu sinni?  Verða fullorðið?  Rétt eins og barnið í jötunni.  Viltu trúa, vona og elska?  Þrátt fyrir fátækt þína og okkar í þessum efnum?

Það var einmitt þess vegna sem Sonurinn eini kom í heiminn, að gera heilt það sem var brotið, að hnýta slitinn þráð.  Að hjálpa okkur að efla trú, von og kærleika.  Að gera okkur heil.  Að hjálpa okkur að ná sáttinni og friðnum, að láta draum okkar rætast og þrá verða að veruleika.  Því að við þurfum hjálp.  Hjálpin er hans.  „Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Þau urðu ekki til á náttúrulegan hátt né af vilja manns heldur eru þau af Guði fædd.

 Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.

Við skulum því ekki ýta jólunum frá okkur sem ævintýri.  Því boðskapur jólanna er sannur og okkur lífsnauðsynlegur.  Skjól í kaldranalegum heimi.  Vörn okkar og skjöldur.  Við skulum taka við ljósinu og efla trú okkar, von og kærleika með ástundun bænarlífs, leita Guðs orðs og vera öðrum ljós.  Þannig eigum við ávallt gleðileg og heilög jól

Frú Guðrún Guðmundsdóttir frá Melgerði orðað boðskap jólanna vel er hún segir í jólakvæði sínu um jólagjöfina beztu og við látum það vera lokaorðin hér:

Jesús er kominn jólagleði að veita.

Jesús er kominn skugga í ljós að breyta.

Friður og náð hans færa gleði mesta,

frelsi hans það er jólagjöfin bezta.

Gleðileg jól, til þess er þreyttur grætur,

til þess, er oft á daprar vökunætur,

til þess er verður þjáning við að stríða,

til þess, er fátækt veldur sárum kvíða.

Gleðileg jól, með geisla í hvern skugga.

Gleðileg jól, er alla megi hugga.

Og hjarta hverju helgur veitist friður,

Því hjarta, er í auðmýkt Drottinn biður.

Guð gefi okkur öllum gleðileg jól og sönn.

         Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda.  Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.  Amen.