Jarðtenging og mannamót

Jarðtenging og mannamót

„Varist falsspámenn!“ Þeir hafa víst alltaf verið til, en blómstra helst þegar fyrrgreindur boðskapur er virtur að vettugi, þegar jarðsambandið hefur rofnað, þegar þú eltir kindina á tölvuskjánum en ekki á fjöllum, þegar óskilyrt samhjálpin er gerði fólk styrkara í harðindunum forðum er orðin að aðhlátursefni nútímamannsins og hann fussar, ég á mig sjálfur,

Dear friends from abroad, the young people from Estonia, Finland and Germany and from Iceland! Welcome to Þönglabakki in Þorgeirsfjörður, which is an old Churchplace and an area where people lived hunting fish and breeding sheeps, this was a place where people needed to work hard and support each other. Nobody has lived here since the year 1944. The life of people here before is a great sermon and a lesson for modern people who now try to understand the circumstances, but often with no success because our comfort has made this life in the past too remote in our minds. But fortuneatly this event today is to remind us on that and that we should be grateful to our forefathers who didn´t give up despite of difficult weather and land. May God bless the memory of them and let it be an encouragement for us to face the modern life and it´s demandings.

Hér á undan ávarpaði ég ungmenni, sem eru hingað komin frá Finnlandi, Þýskalandi og Eistlandi og hafa dvalið hér á landi í 10 daga ásamt íslenskum ungmennum frá Akureyri í kirkjumiðstöðinni við Vestmannsvatn. Þau eru sem sagt þátttakendur á fjölþjóðlegu æskulýðsmóti, sem stutt er myndarlega af ungmennaáætlun Evrópusambandsins, starf sem hefur gengið mjög vel í nokkur ár og er ávöxtur samstarfs þeirra félaga sr. Svavars Alfreðs Jónssonar sóknarprests í Akureyrarkirkju og sr. Ortwin Pflaging sem er þjónandi prestur í Bochum í Þýskalandi. Yfirskrift mótsins er“ European Youth and the Icelandic Forces of Nature“ eða Evrópsk ungmenni og kraftar íslenskrar náttúru“ og hefur vinnan verið leidd af eiginkonu minni Sunnu Dóru Möller æskulýðsfulltrúa í Akureyrarkirkju. Ungmennin hafa skoðað óbeislaða náttúru Íslands, einnig skoðað og fræðst um virkjanir hér á landi og í ljósi þeirrar reynslu haldið vekjandi umhverfisþing. Þar sem þetta verkefni er byggt á kirkjulegum grunni hefur einnig verið fjallað um Guð og sköpunina og Guð í sköpuninni og vangaveltur færðar í orð um náttúruöflin og guðfræði eða vistguðfræði eins og það er víst kallað. Mót þetta hefur gengið ákaflega vel til þessa og senn líður að lokum og heimför nálgast. Það fer sannarlega vel á því að ljúka þessum ungmennaverkefni á guðsþjónustu hér úti í guðsgrænni náttúrunni í Þorgeirsfirði og í örstuttu upphafsávarpi mínu til þeirra hér áðan kom ég inn á það að líf fólks, sem hér bjó áður var sterk prédikun inn í nútímann, þar sem það þurfti að komast af við frumstæðar og krefjandi aðstæður, þar tókst manneskjan heldur betur á við krafta íslenskrar náttúru til þess að hafa ofan í sig og á. Og fyrst ég er byrjaður að fjalla um þau er ræktuðu Fjarðagrundir forðum daga, þá er ekki úr vegi að vekja athygli á ættarmótum í Höfðahverfi nú í sumar, þar sem niðjar Fjarðabænda og annarra bænda frá nærliggjandi dölum upphefja upprunann og treysta tengslin. Stutt er jú síðan afkomendur hjónanna Sigrúnar Jóhannesdóttur frá Melum í Fnjóskadal og Kristins Indriðasonar frá Miðvík komu saman í Höfða, en Sigrún hefði orðið 120 ára 18. júlí síðastliðinn. Í Höfða var vissulega mikið um dýrðir, afkomandi Sigrúnar og nafna var m.a. fermdur rétt fyrir mót og minningu þeirra Höfðahjóna sannarlega haldið vel á lofti. Eins geri ég ráð fyrir að minningu þeirra hjóna í Dal Hólmfríðar Björnsdóttur frá Nolli og Ingólfs Benediktssonar frá Jarlsstöðum verði sómi sýndur þegar afkomendur þeirra koma saman um verslunarmannahelgi næstu, en Hólmfríður hefði orðið 100 ára á þessu ári, fædd 8. apríl 1912. Og hér við þessa guðsþjónustu í dag er viðstaddur fjöldi afkomenda Valgerðar Jóhannesdóttur á Lómatjörn, dóttur Guðrúnar Sigríðar Hallgrímsdóttur og Jóhannesar Jónssonar Reykjalín frá Kussungsstöðum í Fjörðum, en eins og margir kannast við hér þá var Jóhannes sonur sr. Jóns Reykjalín, sem var prestur á Þönglabakka. Lómtirningar halda sitt ættarmót þessa helgi, sem fram fer m.a. á Lómatjörn í Grýtubakkahreppi. Þess má geta að kvennasönghópurinn Fjörðurnar, sem hér syngur svo fagurlega fyrir okkur og með okkur undir stjórn Arnhildar Valgarðsdóttur, er einvörðungu skipaður afkomendum sr. Jóns Reykjalín. Nú er ég búinn að gera stutta grein fyrir margvíslegum mótum í Laufásprestakalli. Það sem þessi mót eiga sameiginlegt að mínu mati, þ.e.a.s. hið fjölþjóðlega æskulýðsmót og ættarmótin í Grýtubakkahreppi, er það markmið að við lærum að kannast við hvert annað, að við fræðumst um uppruna hvers annars, áttum okkur hvaðan við komum, hvert við erum að fara, hvað við erum og tileinkum okkur þá list að skilja hvert annað, það er mikilvægt. Ég verð óneitanlega var við það að íslendingar eru ekki einvörðungu stoltir af fögru landi sínu, náttúru og náttúrudemöntum eins og Fjörðum, heldur líka af forfeðrum sínum, sem börðust fyrir tilveru sinni, lögðu sig í margvíslega hættu við að sækja björg í bú. Ég er þó ekkert að segja það að forfeður okkar hafi verið gallalausir, alls ekki, en þeir lifðu sannarlega ólíka tíma og við ólíkar aðstæður, sem mótuðu þá til þess vegar að þeir litu ekki á lífið sem sjálfsagðan hlut, voru í takt við tölvulausan raunveruleika, skynjuðu gang náttúrunnar og voru í meiri nánd við moldina í hinu aldna bændasamfélagi. Svona til að gefa þessum vangaveltum ennfrekar líf vitna ég í minningarorð um fyrrnefnda Guðrúnu Hallgrímsdóttur húsfreyju á Kussungsstöðum, fædd í Hléskógum í Höfðahverfi. Þar má t.a.m. finna þessi orð: „Búskapurinn í Fjörðum var erfiður. Plássið afskekkt og vetrarríki mikið, en mest allar tekjurnar þurftu að koma frá búinu, sem aldrei var stórt. Efnahagur þeirra hjóna mun og hafa verið þröngur lengi vel framan af, en ávallt voru þau fremur veitandi en þurfandi, enda var bóndinn nýtinn og hygginn búhöldur, og húsfreyjan dugleg með afbrigðum, ráðdeildarsöm og nýtin, og prýðilega verki farin. Og á öðrum stað í minningarorðunum segir: „Nákunnugur maður kvað svo að orði nýlega við þann er þetta ritar að hann hefði ekki séð jafn myndarlegan og siðprúðan barnahóp og þann, sem Guðrún sáluga fóstraði á Kussungsstöðum, þótt ýmislegt kynni að hafa skort af því, sem nútíminn girnist og geldur oft háu verði. En þar var hver ánægður með sitt: börnin með „gullin“ sín og hin margháttuðu hjálparstörf og húsfreyjan með hópinn. Og þannig liðu dagarnir og árin, erfið að vísu en tilgangsrík og sigurinn mikill er af hólminum var gengið.“ „Varist falsspámenn“ hljómar eins og þruma inn í þennan heiðskíra fjörð og þetta afslappaða andrúmsloft sem á sér stað í fornum kirkjugrunni. Þú varst kannski að velta himninum dreyminn fyrir þér um leið og þú tyggðir strá eða hlýddir á randaflugusuðið, má vera að þú hafir verið að hugsa um gönguna yfir hálsinn eða Húnasiglingu nema það hafi verið heillandi kaffi, sem er framundan, útbúið af hressilegum liðsmönnum ferðafélagsins Fjörðungs, og þá vaknar þú allt í einu upp við raust klerksins, sem mælir fram orð Krists, „Varist falsspámenn.“ Kristur kallar okkur tilbaka úr draumheimum, já vertu viðbúinn raunveruleikanum, hann er þarna líka. Varla er það þó stór sök að gleyma sér um stund í heilnæmri náttúru við guðsþjónustu úti í óbyggðum, en þessi orð hljóma jafnvel ekki síður þegar við dottum undir stýri mannlegs siðferðis. „Vakið og biðjið.“ Ég tel forfeður okkar hafa verið töluvert stöðuga á siðferðissvellinu. Hvað fær mig til að halda því fram. Jú, það er þessi jarðtenging, sem ég kom inn á áðan, þú fórst með fé í orðsins fyllstu merkingu, þú þurftir virkilega að hafa fyrir matnum þínum, þú horfðir ekki á tölur á skjá heldur eltir þær um fjöll og fyrnindi, það var þetta jarðsamband, sem svo alltof margir hafa misst og reika því í lausu lofti þar til þeir þurfa að reka sig á og detta aftur niður á jörðina t.d. við að heyra eftirfarandi boðskap: „Varist falsspámenn!“ Þeir hafa víst alltaf verið til, en blómstra helst þegar fyrrgreindur boðskapur er virtur að vettugi, þegar jarðsambandið hefur rofnað, þegar þú eltir kindina á tölvuskjánum en ekki á fjöllum, þegar óskilyrt samhjálpin er gerði fólk styrkara í harðindunum forðum er orðin að aðhlátursefni nútímamannsins og hann fussar, ég á mig sjálfur, ef þessi gerir þetta ekki fyrir mig, þá geri ég ekki þetta fyrir hann, hvað varðar mig um fjöll, hvað varðar mig um fólk. Ég hef alveg trú á nútímanum og nútímamanninum, hann getur gert alveg magnaða hluti, honum eru allir vegir færir, en þegar hann lítur svo á að þeir séu honum alveg færir, hann þurfi enga hjálp, hvorki frá náunga né hvað þá almætti, þá fyrst festir hann sig í drullupolli og spólar og spólar og kemst ekkert áfram. Stærsta einkenni falsspámanna er sjálflægni, þeir þekkjast alltaf á henni, sannir hirðar bera umhyggju fyrir skjólstæðingum sínum og jafnvel meiri umhyggju en fyrir sjálfum sér, úlfar eru hins vegar drifnir áfram af sjálflægum hvötum til þess að fullnægja þörfum sínum og græðgi. Það sem falsspámenn kenna er ekki það hvað þeir geta gefið öðrum, heldur hvað þeir geta fengið út úr hlutunum handa sjálfum sér. Sjálflægni hefur því miður verið mjög fyrirferðamikið fyrirbrigði í sögunni og það dregur ekki úr henni með tímanum, þvert á móti. Eitt af því sem hægt er að gera til að sporna gegn henni er að halda mannamót á borð við æskulýðs-og ættarmót og að vera í tengslum yfir höfuð við annað fólk augliti til auglitis, vera því innan handar á gleðistundum sem sorgarstundum, já vera í tengslum, vera í tengslum við náttúruna, átta sig á hvaðan verðmætin koma, sem gjaldmiðlar vísa á og svo er það mikilvægi þess að minna sig reglulega á uppruna sinn hvort sem hann er sæll eða sár, því hann er og verður okkur ævinlega þáttur til að læra af ellegar til að tileinka okkur. Það er þekkt í söfnuðum sem og reyndar víða annarsstaðar að upp komi fjárhagsvandi margvíslegur. Í sókn einni í nágrannalandi myndaðist gjá á milli klerks og safnaðar vegna fjármála og launakostnaðar. Þegar báðir aðilar höfðu fengið að rasa út stóð öldungurinn, sá er miðlaði málum, upp og sagði: Gefið leiguliðanum launin sín og látið hann fara. Þar hefur öldungar hugsað til Orðsins í Jóhannesarguðspjalli, þar sem segir: „Sá sem er leigður og hvorki er hirðir né á sauðina, hann flýr og yfirgefur sauðina þegar hann sér úlfinn koma og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim. Enda gætir hann sauðanna aðeins fyrir borgun og er ekkert annt um þá.“ Það er víst þannig að enginn getur lifað á loftinu, fáir geta sinnt verkum sínum af nokkru viti ef veraldlegar áhyggjur þjaka þá, en æðstu gæðin og launin eru samt sem áður fólgin í því að ná að opna hugi æskulýðs og fullorðins fólks fyrir þeim sannleika, sem m.a. birtist í varnaðarorðum frelsarans í dag, er talar inn í friðsælt og gefandi samfélag, þar sem andi Guðs og andi ósérhlífni og samhjálpar forfeðra ríkir,„Varist falsspámenn. Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá.“ Amen.