Prestastefna 2021 sett

Prestastefna 2021 sett

Í dag er presta- og djáknastefnan sett með óvenjulegum hætti en ekki nýstárlegum því við erum orðin vön því að funda í gegnum fjarfundabúnað.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
31. ágúst 2021

Vígslubiskupar, prestar, djáknar og gestir.  Meira en tvö ár eru frá því síðasta hefðbundna prestastefna var haldin.  Hún fór fram 30 apríl - 2. maí 2019 og var haldin í Áskirkju í Reykjavík. 

Í dag er presta- og djáknastefnan sett með óvenjulegum hætti en ekki nýstárlegum því við erum orðin vön því að funda í gegnum fjarfundabúnað. Í fyrra varð ekkert af stefnunni sökum heimsfaraldursins og á þessu ári geisar faraldurinn enn um heiminn og því þurfti að finna nýjar leiðir til að koma henni á.  Eins og fram hefur komið í pósti fer hún fram með prestum og djáknum í hverju prófastsdæmi fyrir sig auk þess sem emerítar funda með biskupi.  Samtals verður stefnan því á tíu stöðum á landinu.  Fundirnir byrja strax á morgun og verður lokið eftir fimm til sex vikur.  Vænti ég þess að eiga hreinskiptar og opnar samræður við ykkur í ykkar héruðum um þau mál sem brenna á ykkur og okkar kirkju. 

Meginefni stefnunnar bæði í fyrra og núna átti að vera skírnin.  Einn fyrirlestur flutti okkur Haraldur Hegstad í apríl s.l. en hann er í forsvari fyrir norræna skírnarverkefnið sem við höfum haft tækifæri til að taka þátt í í gegnum fjarfundabúnað.

Ég þakka þeim sem undirbúið hafa þessa stefnu með mér en þar fara fremst í flokki biskupsritari sr. Þorvaldur Víðisson og fulltrúar stjórnar prestafélagsins sem og starfsfólk Biskupsstofu. 

Heimsfaraldur

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að faraldur hefur geisað um heiminn.  Covid 19 sjúdómurinn hefur haft mikil áhrif á kirkjustarfið enda fer þjónusta og starf kirkjunnar að mestu leyti fram í samfélagi manna.  Ég vil þakka prestum, djáknum, organistum, kirkjukórum, kirkjuvörðum og öðru starfsfólki kirknanna fyrir þolinmæði, hugmyndaauðgi, kraft og dug á þessum erfiðu tímum.  Þið hafið verið lausnamiðuð og opin fyrir því að finna og reyna nýjar leiðir til boðunar og þjónustu.  Reglur hafa breyst mjög oft og ekki alltaf gott að átta sig á hvernig beri að túlka þær á vettvangi kirkjunnar.  Oftar en ekki höfum við á biskupsstofu fengið svör við spurningum okkar hjá embætti landlæknis eða ráðuneyti heilbrigðismála áður en upplýsingabréfin hafa verið send út.  Þau eru nú orðin 30.  Það fyrsta var sent út 29. febrúar 2020 og það síðasta í dag. 

Breytingar

Miklar breytingar hafa verið á Biskupsstofu frá síðustu prestastefnu.  Stofan flutti úr húsnæði kirkjmálasjóðs á Laugaveginum í leiguhúsnæði í Katrínartúni 4 en það húsnæði var aldrei hugsað sem framtíðarhúsnæði.  Nú er nefnd á vegum embættisins að skoða möguleika á framtíðarhúsnæði fyrir þessa þjónustustofnun þjóðkirkjunnar.  Starfsfólki á biskupsstofu hefur fækkað um einn tug eða svo á árinu og oftar en ekki hefur starfsfólkið unnið heima vegna takmarkana á covid tímanum.  Undanfarin ár hafa allar prestsstöður verið auglýstar með viðbótarskyldum og hafa þær verið virkjaðar að einhverju leyti.  Viðbótarsamkomulag við ríkið og ný lagasetning í kjölfar þess hefur kostað gríðarlega vinnu bæði starfsfólks og kirkjuþingsfólks.  Allt þetta hefur skapað mikið álag á marga og vil ég þakka öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóg fyrir gott og óeigingjarnt starf í þágu þjóðkirkjunnar.  

Fjármál

Eins og kunnugt er breyttist fjárhagslegt fyrirkomulag þjóðkirkjunnar við gildistöku viðbótarsamkomulagsins við ríkið.  Sjóðir kirkjunnar voru lagðir niður og nú er einn ársreikningur gerður fyrir þjóðkirkjuna í heild.  Sá fyrsti sem gerður var, var fyrir árið 2020 og sýndi mikinn halla á rekstrarárinu.  Sex mánaða uppgjör þessa árs sýnir að hallinn verður umtalsvert minni í ár ef síðari hluti ársins verður með sama hætti og sá fyrri.  Ljóst er að nokkurn tíma tekur að koma jafnvægi á fjármál þjóðkirkjunnar og sýnist mér að það náist ekki nema með sölu fasteigna sem ekki eru taldar gefa af sér til lengri tíma litið og með fækkun starfa þar sem því verður við komið. Þá verður að meta með þeim sem best til þekkja hvort að hægt sé að fækka störfum, endurskipuleggja og hagræða. Kirkjuþing hefur síðasta orðið í þeim efnum enda er það á ábyrgð þess að stjórna fjárstreymi til hinnar biðjandi, boðandi og þjónandi kirkju.

Byggðastefna

Þjóðkirkjan hefur hingað til haldið úti byggðastefnu sem gengur út frá því að fólk njóti þjónustu hennar í nærsamfélaginu.  Með bættum samgöngum og fjarskiptum hefur verið hægt að hafa meiri samvinnu milli presta og starfsfólks safnaðanna.  Stækkun prestakallanna er þróunarverkefni sem tekur tíma að móta á hverjum stað fyrir sig.  Þegar lagt er upp í þann leiðangur hefur biskupafundur leitast við að ná samstöðu meðal heimafólks um að leggja málið fyrir kirkjuþing.  Þegar sameiningin hefur verið samþykkt á kirkjuþingi hefur verið fundað með hlutaðeigandi og farið yfir sameiningarferlið eftir ákveðnu skipulagi sem sent hefur verið til fundarfólks fyrir fundinn.  Einnig hefur starfsfólk biskupsstofu og vígslubiskupar farið til fundar við fólkið í kirkjunni þar sem þess er óskað. 

Sérþjónusta kirkjunnar

Á þessu ári var nafni fjölskylduþjónustu kirkjunnar breytt í fjölskyldu- og sálgæsluþjónusta kirkjunnar.  Hún er nú til húsa á neðri hæð í safnaðarheimili Háteigskirkju. Hún er hluti af sálgæslustarfi kirkjunnar og þjónar öllu landinu.  Til hennar getur hver sem er leitað sem þarfnast ráðgjafar vegna vanda í samskiptum eða vilja finna nýjar lausnir. 

Sem fyrr sinnir fjölskyldu- og sálgæsluþjónustan handleiðslu fyrir presta, djákna og aðra sem starfa á vegum kirkjunnar.  Í einstökum tilfellum er boðið upp á einstaklingshandleiðslu.  Félagsráðgjöfunum Elísabetu Bertu Bjarnadóttur og Rannveigu Guðmundsdóttur er þakkað áralangt starf á fjölskylduþjónustunni sem og Benedikt Jóhannssyni sálfræðingi.  Nýtt starfsfólk er boðið velkomið til starfa, félagsráðgjafarnir Andrea Baldursdóttir og Guðrún Kolbrún Otterstedt og sr. Vigfús Bjarni Albertsson sem veitir starfinu forstöðu.

Þann 25. febrúar á þessu ári opnaði Skjólið í kjallara Grensáskirkju í Reykjavík.  Forsaga þess máls nær til ársins 2016.  Í apríl mánuði það ár vorum við biskupsstofufólk í kynnis- og fræðsluferð í Boston.  Við heimsóttum  m.a. University Lutheran Church þar sem Kathleen O´Keefe Reed prestur safnaðarins og Jayms Battaglia starfsmaður tóku á móti okkur og kynntu fyrir okkur starf safnaðarins á meðal stúdenta og kennara á háskólasvæðinu.  Jafnframt kynntu þau starfsemi gistiskýlis sem söfnuðurinn rekur.  Þessi kynning hreyfði við tilfinningum mínum og þrá eftir því að Kirkjan mín geti komið að því að „létta bróður böl og bæta raunir hans“ eins og Sigurbjörn Einarsson biskup orðar svo fallega í sálmi sínum „Þú Drottinn átt það allt“.  Nefnd undir forystu Ragnheiðar Sverrisdóttur djákna vann að málinu eftir að kirkjuráð samþykkti að styrkja verkefnið.  Eftir ýmsar vangaveltur, kynningar og vinnu var niðurstaðan að dagsetrið, sem hlotið hefur heitið SKJÓLIÐ yrði fyrir konur og væri í húsnæði þjóðkirkjunnar í kjallara Grensáskirkju sem áður hýsti Tónskóla þjóðkirkjunnar og Fjölskylduþjónustu kirkjunnar.  Einnig var þess farið á leit við Hjálparstarf kirkjunnar að hjá þeim yrði vettvangur verkefnisins og starfið unnið undir merkjum þess. Skjólið er opið frá kl. 11 – 15 fimm daga vikunnar og veitir Rósa Björg Brynjarsdóttir Skjólinu forstöðu.

Samkiptamál

Samskiptamál hafa komið inn í starf biskupsstofu með miklum þunga undanfarin ár. Samskipti við þjóðina m.a. í gegnum fjölmiðla landsins eru mikilvægur þáttur til að efla traust til þjóðkirkjunnar og upplýsa um mikilvægt starf hennar.

Kirkjuvarpið er komið til að miðla þekkingu, boðun og köllun kirkjunnar til landsmanna. Hlaðvarpsveröld kirkjunnar er biðjandi, boðandi og þjónandi. Í hlaðvarpsveröld hennar er fjölbreytt efni og haldið verður áfram að auka við efnisúrval á komandi vetri af krafti.

Fréttabréf biskups Íslands hóf göngu sína síðasta vetur og verður framhald á. Þá mun nýtt app þjóðkirkjunnar líta dagsins ljós á haustmánuðum. Því er m.a. ætlað að halda skipulega utan um víðfeðma dagskrá kirkjunnar um land allt. Leiðbeina fólki hvar næsta kirkja er,  leiðin að henni og hvar áhugaverða dagskrá er að finna miðað við þarfir og áhugasvið, svo eitthvað sé nefnt. Kirkjan er í sókn!

Samskiptamál, markaðsmál og ímyndarmál hafa eflst og munu halda áfram að eflast í breyttri veröld sem kallar á þjóðkirkju á frjálsum markaði trúar og lífsskoðanna. Þjóðkirkjan hefur einstakt erindi – það vitum við öll. Nú er lag á að láta það heyrast sem víðast.

Stefnumótunarvinna

Þegar farið er inn á heimasíðu þjóðkirkjunnar blasir við glaðleg mynd hvar á stendur Stefnumótun þjóðkirkjunnar og í blöðrum fyrir ofan fólkið sem prýðir myndina eru setningar sem minna á hlutverk og þjónustu kirkjunnar.  Ein þeirra er “Öflugt æskulýðsstarf byggir framtíð kirkjunnar.”  Æskulýðsstarfið er eitt þeirra mála sem 96 manna fundur þjóðkirkjufólks vildi sjá sem áherslumál þjóðkirkjunnar.  Það er brýnt að hjálpa söfnuðum til að efla barna- og æskulýðsstarf.  Það er meðal annars gert með leiðtogaþjálfun.  Leiðtogaskóli þjóðkirkjunnar útskrifar árlega 15-20 ungmenni.  Unglingarnir hittast í tvo vetur á um þriggja vikna fresti og er námsefni af ýmsum toga. Biblíusögur eru kenndar, frætt er um kristið gildismat, rætt um hlutverk leiðtoga sem fyrirmynda. Þá er farið yfir ýmsar reglur kirkjunnar eins og siðareglur vígðra sem óvígðra þjóna kirkjunnar. Lögð er áhersla á jákvæðni, vináttu og traust. Einnig er farið í ýmsa leiki sem margt má læra af.   

Kirkjuþing unga fólksins er vettvangur ungs fólks til áhrifa í kirkjunni.  Það er haldið ár hvert og er hlutverk þess að ræða stöðu og hlutverk ungs fólks í þjóðkirkjunni og í samfélagi kirkna um heim allan.  Á kirkjuþingi 2017 var samþykkt þingsályktun um hlutdeild unga fólksins í kirkjustarfi. Þingið ályktaði að fylgja skuli eftir, hvað íslensku þjóðkirkjuna varðar, ályktun tólfta þings Lúterska heimssambandsins frá árinu 2017 um þátttöku unga fólksins í stjórn aðildarkirkna sambandsins. Miða skal við að ungt fólk, þ.e. sem er á aldrinum sextán til þrjátíu ára, sé að jafnaði minnst tuttugu hundraðshlutar þeirra innan hverrar skipulagsheildar þjóðkirkjunnar sem hverju sinni taka bindandi ákvarðanir, semja áætlanir, skipuleggja starfsemi og hafa kosningarétt. Verði því eigi við komið að tryggja hlutdeild unga fólksins samkvæmt framanskráðu skal veita fulltrúum þess eðlilegan rétt til áheyrnar, málfrelsis og framlagningar tillagna. Kirkjuþingið beindi  því til biskups Íslands, forsætisnefndar kirkjuþings og kirkjuráðs að fara yfir eigið skipulag og starfsemi, svo og   nefndarskipan   til að ná þessum markmiðum.    

Á næsta ári verður kosið til kirkjuþings næstu fjögurra ára og hvet ég presta og djákna til að benda ungu fólki á að gefa kost á sér til setu á kirkjuþingi.  Jafnframt bið ég presta og djákna að vekja áhuga öflugs kirkjufólks á öllum aldri í sínu nærumhverfi á kirkjuþinginu sem nú hefur fengið meiri ábyrgð og fleiri verkefni en áður.

Handbókin

Í þessum mánuði fékk ég afhent handbókarefni úr fórum Helgisiðanefndar og Handbókarnefndar sem unnið hafði verið á 20 ára tímabili 2000 – 2020.  Í samþykktum um innri málefni þjóðkirkjunnar segir um hlutverk handbókarinnar: “Handbók kirkjunnar er einingarband og vitnisburður um samstöðu í tjáningu trúar og siðar á grundvelli játninga evangelísk-lúterskrar kirkju. Handbók kirkjunnar veitir leiðbeiningar um guðsþjónustu og helgihald. Messan og helgiathafnir kirkjunnar endurspegla í senn hefð kirkjunnar og endurnýjuð form sameiginlegrar tilbeiðslu almennrar kirkju.” Í þeim segir einnig:  “Prestar skulu að jafnaði fylgja textaröðum kirkjuársins samkvæmt Handbók kirkjunnar í þeirri röð sem biskup Íslands mælir fyrir um.”

Það gefur augaleið að á tuttugu ára ferli hefur verið unnið mikið og þarft verk.  Formaður handbókarnefndar Kristján Valur Ingólfsson fyrrum vígslubiskup í Skálholti hefur haldið utan um vinnu handbókarnefndar síðast liðin ár. Hann hefur nú sett skjalið inn á vefsíðu og í dag sent ykkur slóð á efnið,  ásamt leiðbeiningum um hvernig og hvar skuli koma á framfæri athugasemdum.

Mörg eru álitamálin sem helgisiðanefnd og handbókarnefnd undirnefnd hennar hefur fjallað um.  Þau eiga við um form athafnanna og eins um atriði á borð við tvítölu-fleirtölu (við-vér, okkur-oss, okkar-vor) og tungutak beggja kynja o.s.frv. Eins voru períkópurnar sérstakt vandamál og var ákveðið að skipa sérstaka períkópunefnd sem hefur skilað þremur endurskoðuðum textaröðum sem nú þegar má finna á heimasíðu kirkjunnar.  Það þarf að bera upp á prestastefnunni handbókina þegar teknar hafa verið til greina athugasemdir ykkar en það verður ekki gert á þessu ári heldur á prestastefnu á næsta ári sem vonandi getur farið fram með hefðbundnum hætti.  Hins vegar verða períkópurnar bornar upp við slit þessarar prestastefnu sem væntanlega verður í nóvember næstkomandi.

Vísitasíur

Kórónaveirufaraldurinn setti strik í reikninginn við vísitasíur síðasta eina og hálfa árið.  Hlé var gert á yfirstandandi vísitasíu í Vesturlandsprófastsdæmi í mars 2020 en var fram haldið í byrjun júní á þessu ári.  Enn á ég þó eftir að vísitera sóknir og söfnuði í Dalaprestakalli.  Vísitasíu í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi sem stóð yfir árið 2018 lauk ekki fyrr en í júní á þessu ári.  Vil ég þakka próföstum, prestum, djáknum og öðru kirkjufólki fyrir þeirra framlag, þjónustu og góðar móttökur.

Nokkuð hefur verið um það að erfitt hefur verið að ná í presta til þjónustu á sumarleyfistímanum.  Borið hefur á að sumarleyfi nágrannapresta hafi verið tekin á sama tíma.  Vil ég hvetja prófasta til að tryggja örugga prestsþjónustu á sínum svæðum og jafnframt hvetja þá presta sem ekki eru bundnir af því að taka sumarleyfin yfir hásumarið að horfa til annara tímabila ársins verði því við komið.  Bið ég ykkur um að hafa þetta í huga í framtíðinni.

Trú fyrir jörðina

Umhverfisstarf þjóðkirkjunnar hefur verið umtalsvert undanfarin ár.  Kirkjuþing 2019 samþykkti þrjár þingsályktanir um umhverfismál.  Um úttekt á prestssetra-og kirkjujörðum vegna endurheimtar votlendis og skógræktar, um orkuskipti í samgöngum á vegum starfsfólks kirkjunnar og um kolefnisjöfnun ferðalaga á vegum kirkjustjórnarinnar.  Þetta eru allt verðug verkefni sem hefur verið unnið með og í frá kirkjuþinginu 2019. 

Sífellt fleiri söfnuðir eru á grænni leið og nú þegar hafa 19 söfnuðir fengið titilinn grænn söfnuður. 

Tvær ráðstefnur hafa verið haldnar í Skálholti í aðdraganda norðurslóðaráðstefnunnar Artic circle.  Sú fyrri sem haldin var í október 2019 bar yfrskriftina Trú í þágu jarðar.  Biskupar og aðrir trúarleiðtogar frá Norðurlöndum, Bandaríkjunum og Kanada áttu fund með fræðimönnum, listamönnum og aðgerðarsinnum í loftslagsmálum ásamt fulltrúum frá umhverfissamtökum.  Á ráðstefnunni var ræddur þáttur trúar, andlegra viðhorfa og trúarlegrar sannfæringar í að takast á við loftslagsvá og hnignun vistkerfa.

Í fyrra var svo haldin Alheimsráðstefnan Faith for Nature – Multi-Faith Action/ Trú fyrir jörðina – Fjöltrúarlegar aðgerðir.  Vegna heimsfaraldursins var brugðið á það ráð að hafa ráðstefnuna í streymi og var hún haldin í Skálholti og streymt þaðan út um víða veröld.  Á fimmta hundrað einstaklingar frá 58 löndum skráðu sig til beinnar þátttöku í ráðstefnunni en óbeinir þátttakendur voru fleiri. Á meðal þeirra voru shamanar frá Kanada og Grænlandi; biskupar af Norðurlöndunum og frá Norður- Ameríku, Bosníu Hersegóvínu, Filipseyjum, Vatíkaninu, Kenía; leiðtogar pygmía frá Austur-Kongó og frumbyggja í Amazon-skóginum; imam frá Nígeríu og íslamskir fræðimenn frá Katar; kennari frá sjálfbærnisþorpi í Indlandi og prófessorar úr Evrópu og frá Bandaríkjunum.

Trúarsamfélög um heim allan eru mikilvægir gerendur í þeirri djúpstæðu umbreytingu sem verða þarf til þess að forða yfirvofandi loftslagsvá og mæta öðrum áskorunum í umhverfismálum. Andleg gildi móta lífshætti meira en 80% jarðarbúa. Meira en helmingur allra skóla í heiminum er rekinn af trúfélögum. Til samans framleiða trúfélög fleiri rit og bækur en nokkur annar aðili og teljast þriðji stærsti hópur fjárfesta í heiminum.

Markmið ráðstefnunnar var að sameina ólíkar trúarstofnanir, lífskoðunarfélög og trúarbrögð um heim allan til aðgerða sem tryggt geta heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna framgang. Stofnun bandalags um trú í þágu jarðar innan vébanda Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (e. Faith for Earth Coalition) var meðal umfjöllunarefna á ráðstefnunni.

Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna  lýsti viðburðinum sem sögulegum.  Fyrirhugað var að kynna ályktun ráðstefnunnar á umhverfisþingi Sameinuðu þjóðanna, sem halda átti í febrúar í ár en þinginu var frestað vegna heimsfaraldursins.

Einnig minni ég á komandi Tímabil sköpunarverksins sem þið hafið fengið upplýsingar um í bréfi sem sent var nýlega og hvet ég ykkur til að þakka fyrir grósku sumarsins og lofa gjafir jarðar í uppskerumessum nú í september.

Vígslur og tilfærslur

Frá því síðasta prestastefna var haldin fyrir rúmum tveimur árum hafa þessir prestar  hlotið vígslu:

Mag. Theol. Inga Harðardóttir, var vígð 26. maí 2019 til þjónustu sem prestur við íslenska söfnuðinn í Noregi.  

Mag. Theol. Jónína Ólafsdóttir var vígð 11. ágúst 2019 til þjónustu sem prestur í Dalvíkurprestakalli, Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi.

Mag. Theol. Helga Kolbeinsdóttir var vígð 25. ágúst 2019 til þjónustu sem prestur í Digranesprestakalli í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra.

Mag. Theol. Jarþrúður Árnadóttir var vígð 15. september 2019 til þjónustu sem prestur í Langanes- og Skinnastaðarprestakalli frá 1. september 2019.

Mag. Theol. Alfreð Örn Finnsson var vígður 15. september 2019 til þjónustu sem prestur í Austfjarðaprestakalli með aðsetur á Djúpavogi, Austurlandsprófastsdæmi frá 1. nóvember 2019.

Mag. Theol. Benjamín Hrafn Böðvarsson var vígður 15. september 2019 til þjónustu sem prestur í Austfjarðaprestakalli, Austurlandsprófastsdæmi frá 1. október 2019.

Mag. Theol. Dagur Fannar Magnússon var vígður 15. september 2019 til þjónustu sem prestur í Austfjarðaprestakalli með aðsetur í Heydölum, Austurlandsprófastsdæmi frá 1. nóvember 2019.

Mag. Theol. Aldís Rut Gísladóttir var vígð 22. september 2019 til þjónustu sem prestur í Langholtsprestakalli í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra frá 1. september 2019.

Cand. Theol. Bryndís Svavarsdóttir var vígð 17. nóvember 2019 til þjónustu sem prestur í Patreksfjarðarprestakalli í Vestfjarðaprófastsdæmi.

Mag. Theol. María Gunnarsdóttir var vígð 17. nóvember 2019 til þjónustu sem sóknarprestur í Laufásprestakalli í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi.  

Mag. Theol. Ingimar Helgason var vígður 17. nóvember 2019 til þjónustu sem sóknarprestur í Kirkjubæjarklaustursprestakalli í Suðurprófastsdæmi frá 15. nóvember 2019.

Mag. Theol. Sindri Geir Óskarsson, var vígður 1. desember 2019 til þjónustu sem héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi.

Mag. Theol. Þóra Björg Sigurðardóttir, var vígð 1. mars 2020 til þjónustu sem prestur í  Garða- og Saurbæjarprestakalli frá 1. apríl 2020.

Mag. Theol. Pétur Ragnhildarson, var vígður 1. mars 2020 til þjónustu sem prestur í Guðríðarkirkju og Fella- og Hólakirkju í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra.

Mag. theol. Guðrún Eggerts Þórudóttir var vígð 27. september 2020, til þjónustu sem sóknarprestur við Ólafsfjarðarprestakall í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi.

Mag. theol. Margrét Lilja Vilmundardóttir var vígð 7. mars 2021, til þjónustu sem prestur við Fríkirkjuna í Hafnarfirði.

Mag. theol. Sigurður Már Hannesson var vígður 7. mars 2021, til þjónustu sem prestur við Kristilegu skólahreyfinguna.

Mag. theol. Snævar Jón Andrésson var vígður 2. maí 2021 til þjónustu sem sóknarprestur í Dalaprestakalli í Vesturlandsprófastsdæmi.

Frá síðustu prestastefnu hafa þessir djáknar hlotið vígslu:

Daníel Ágúst Gautason var vígður 15. september 2019 til þjónustu sem djákni í Grensássókn, Fossvogsprestakalli í  Reykjavíkurprófastsdæmi vestra.

Steinunn Þorbergsdóttir var vígð 15. september 2019 til þjónustu sem djákni í Breiðholtsprestakalli í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra.

Anna Hulda Júlíusdóttir var vígð 1. mars 2020 til þjónustu sem djákni í Eldriborgararáði í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra og eystra.

Jóhanna María Eyjólfsdóttir var vígð 1. mars 2020 til þjónustu sem djákni í Áskirkju í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra.

Skipanir í embætti

Við sameiningu prestakalla voru skipuð í embætti

Séra Pálmi Matthíasson, sóknarprestur í Bústaðaprestakalli.  Hann var skipaður sóknarprestur í Fossvogsprestakall í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra frá 1. júní 2019.

Séra Jón Ármann Gíslason, sóknarprestur í Skinnastaðaprestakalli, var skipaður sóknarprestur í Langanes – og Skinnastaðaprestakalli við sameiningu þeirra prestakalla frá 1. júní 2019.

Séra Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, sóknarprestur í Kolfreyjustaðarprestakalli, var við sameiningu Djúpavogs-, Eskifjarðar-, Heydala-, Norðfjarðar- og Kolfreyjustaðarprestakalla skipaður sóknarprestur í Austfjarðaprestakalli, Austurlandsprófastsdæmi frá 1. september 2019.

Aðrar skiparnir eru:

Séra Erla Björk Jónsdóttir, héraðsprestur í Austurlandsprófastsdæmi var skipuð prestur í Austfjarðaprestakalli í Austurlandsprófastsdæmi frá 1. september 2019.

Séra Þráinn Haraldsson, prestur í Garða- og Hvalfjarðarstrandarprestakalli var skipaður sóknarprestur í sama prestakalli frá 1. september 2019.

Séra Magnús Björn Björnsson, prestur í Digranesprestakalli var skipaður sóknarprestur í Breiðholtsprestakalli í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra frá 16. september 2019.

Við sameiningu Breiðholtsprestakalls og Fella- og Hólaprestakalls þann 22. nóvember 2019 varð séra Magnús Björn prestur í hinu sameinaða Breiðholtsprestakalli.

Séra Eva Björk Valdimarsdóttir, héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra var skipuð prestur í Fossvogsprestakalli í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra frá 1. október 2019.

Séra María Ágústsdóttir, héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra var skipuð prestur í Fossvogsprestakalli, frá 1. október 2019.

Séra Gunnar Einar Steingrímsson var skipaður sóknarprestur í Laufásprestakalli í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi frá 1. nóvember 2019.

Séra Ninna Sif Svavarsdóttir, prestur í Selfossprestakalli var skipuð sóknarprestur í Hveragerðisprestakalli í Suðurprófastsdæmi frá 1. desember 2019.

Þann 1. janúar árið 2020 breyttust reglur þannig að nú er ráðið í stöður.  Eftirfarandi voru ráðin:

Séra Helga Kolbeinsdóttir, settur prestur í Digranes- og Hjallasóknum  var ráðin prestur í  Digranesprestakalli í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra frá 1. janúar 2020. 

Séra Arnaldur Arnold Bárðarson, settur sóknarprestur í Eyrarbakkaprestakalli var ráðinn sóknarprestur í Eyrarbakkaprestakalli í Suðurprófastsdæmi frá 1. febrúar 2020.

Séra Sigrún Óskarsdóttir var ráðin fangaprestur þjóðkirkjunnar frá 1. mars 2020.

Séra Sindri Geir Óskarsson, settur héraðsprestur í  Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi var ráðinn sóknarprestur í Glerárprestakalli í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi frá 9. mars 2020. 

Séra Gunnar Jóhannesson, settur sóknarprestur í Þorlákshafnarprestakalli í Suðurprófastsdæmi var ráðinn prestur í Selfossprestakalli í sama prófastsdæmi frá 1. apríl 2020. 

Séra Jónína Ólafsdóttir, settur sóknarprestur í Dalvíkurprestakalli var  ráðin prestur í Garða- og Saurbæjarprestakall í Vesturlandsprófastsdæmi frá 1. apríl 2020.

Séra Jóhanna Gísladóttir, settur sóknarprestur í Laugarlandsprestakalli í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi var ráðin sóknarprestur í sama prestakalli frá 1. apríl 2020.

Séra Sigríður Munda Jónsdóttir, sóknarprestur í Ólafsfjarðarprestakalli var ráðin sóknarprestur í Þorlákshafnarprestakall í Suðurprófastsdæmi frá 1. maí 2020.

Séra Jón Ásgeir Sigurvinsson var ráðinn héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra frá 1. júní 2020.

Séra Sigfús Kristjánsson, verkefnastjóri á Biskupsstofu, var ráðinn prestur Íslendinga í Danmörku frá 1. ágúst 2020.   

Séra Sigríður Kristín Helgadóttir var ráðin sóknarprestur í Breiðabólstaðarprestakalli í Suðurprófastsdæmi, frá 1. september 2020.

Séra Jónína Ólafsdóttir, prestur í Garða og Saurbæjarprestakalli, Vesturlandsprófastsdæmi, var ráðin sóknarprestur í Hafnarfjarðarprestakalli í Kjalarnessprófastsdæmi, frá 1. desember 2020.

Séra Hans Guðberg Alfreðsson prestur í Garðaprestakalli, Kjalarnessprófastsdæmi var útnefndur prófastur í Kjalarnessprófastsdæmi frá 1. desember 2020.

Lausn frá embætti

Nokkrir prestar fengu lausn frá embætti frá síðustu prestastefnu.

Séra Elín Salóme Guðmundsdóttir, fékk lausn frá embætti prests í Patreksfjarðarprestakalli, Vestfjarðaprófastsdæmi frá 1. júlí 2019.

Séra Bolli Pétur Bollason, fékk lausn frá embætti sóknarprests í Laufásprestakalli Eyjafjarðar-og Þingeyjarprófastsdæmi frá 1. september 2019.

Séra Ingólfur Hartvigsson, fékk lausn frá embætti sóknarprests í Kirkjubæjarklaustursprestakalli, Suðurprófastsdæmi frá 1. september 2019. 

Séra Gunnlaugur Stefánsson, fékk lausn frá embætti sóknarprests í Heydalaprestakalli, Austurlandsprófastsdæmi frá 1. nóvember 2019.

Séra Sjöfn Jóhannesdóttir, fékk lausn frá embætti sóknarprests í Djúpavogsprestakalli, Austurlandsprófastsdæmi frá 1. nóvember 2019.

Séra Sigurður Rúnar Ragnarsson, fékk lausn frá embætti sóknarprests í Norðfjarðarprestakalli, Austurlandsprófastsdæmi frá 1. nóvember 2019.

Séra Flóki Kristinsson, fékk lausn frá embætti sóknarprests í Hvanneyrarprestakalli, Vesturlandsprófastsdæmi frá  1. júní 2020.

Sr. Gunnlaugur Garðarsson fékk lausn frá embætti sóknarprests í Glerárprestakalli, Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi frá 31. janúar 2020.

Sr. Önundur Björnsson fékk lausn frá embætti sóknarprests í Breiðabólstaðaprestakalli, Suðurprófastsdæmi, frá 31. júlí 2020. 

Sr. Þórhildur Ólafs fékk lausn frá embætti prests í Hafnarfjarðarprestakalli, Kjalarnessprófastsdæmi frá 30. nóvember 2020.

Sr. Geir Waage fékk lausn frá embætti sóknarprests í Reykholtsprestakalli, Vesturlandsprófastsdæmi, frá 31. desember 2020.

Andlát

Frá síðustu prestastefnu hafa þessi kvatt:

Séra Ólafur Jens Sigurðsson, fyrrum sóknarprestur í Ingjaldshólsprestakalli Vesturlandsprófastsdæmi, lést 11. júní 2019.

Séra Ólöf Ólafsdóttir, fyrrum prestur á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Skjóli, lést 10. júlí 2019.

Sr. Ingþór Indriðason Ísfeld, fyrrum prestur Íslendinga í Vesturheimi lést 8. júlí 2020.

Séra Stefán Lárusson, fyrrum sóknarprestur í Oddaprestakalli, Suðurprófastsdæmi, lést 25. janúar 2020.

Séra Einar Guðni Jónsson, fyrrum sóknarprestur í Kálfafellsstaðarprestakall, Suðurprófastsdæmi, lést 4. apríl 2020.

Séra Elín Salóme Guðmundsdóttir  prestur í Patreksfjarðarprestakalli Vestfjarðaprófastsdæmi lést 14. ágúst 2020.

Séra Egill Hallgrímsson sóknarprestur í Skálholtsprestakalli, Suðurprófastsdæmi, lést 9. júní 2021.

Séra Sigurjón Einarsson, fyrrum prófastur í Skaftafellsprófastsdæmi og sóknarprestur í Kirkjubæjarklaustursprestakalli, lést 23. júlí 2021.

Guðrún Kristín Þórsdóttir, djákni, lést 11. maí 2021.

Frú Sumarrós Lillian Eyfjörð Garðarsdóttir, ekkja séra Birgis Snæbjörnssonar, fyrrum sóknarprests í Akureyrarprestakalli og prófasts í Eyjafjarðarprófastsdæmi, lést 11. nóvember 2019.

Frú Katrín Eyjólfsdóttir, ekkja sr. Braga Friðrikssonar, fyrrum sóknarprests í Garðaprestakalli og prófasts í Kjalarnesprófastsdæmi, lést 4. júní 2021.

Frú Ingibjörg Sigurðardóttir ekkja sr. Eggerts Ólafssonar, fyrrum sóknarprests í Kvennabrekkuprestakalli og prófasts í Dalaprófastsdæmi, lést 28. júlí 2021.

Frú Margrét Hagalínsdóttir, ekkja sr. Sigurðar Kristjánssonar fyrrum sóknarprests í Ísafjarðarprestakalli og prófasts í Ísafjarðarprófastsdæmi , lést 17. júlí 2021.

Við þökkum Guði fyrir trúa þjónstu þeirra í kirkju Krists og biðjum Guð að helga minningu þeirra og blessa ástvini þeirra. Lútum höfðum í hljóðri bæn.

Nýtt umhverfi

Þjóðkirkjan gengur nú í gegnum miklar breytingar hvað skipulag varðar.  Prestaköllin hafa stækkað, samvinna aukist, embættismenn ríkisins horfið, ráðningartími presta ekki bundinn við ákveðinn árafjölda, samið um kaup og kjör, tekist á við fjárlagahalla og breytt viðhorf til margra hluta.  Margt brennur á prestum og djáknum og sóknarnefndir glíma við skert framlag til sóknanna.  Margrar spurningar eru fram bornar en svörin ekki alltaf á reiðum höndum.  Við bætum vonandi úr því á fundum okkar í prófastsdæmunum. 

Það sem mestu máli skiptir er þó erindi kirkjunnar okkar sem sífellt er nýtt og færir okkur birtu og von.  Við skulum ekki missa sjónar á því erindi sem okkur er falið að koma á framfæri hér í heimi.  Það er frumskylda okkar og aðalatriði hvað sem skipulagi, stefnumótun, fjármálum og öðru veraldarvafstri við kemur. 

Ég þakka ykkur trúa þjónustu í kirkju Krists og bið Guð að gefa ykkur kraft og djörfung til góðra verka.

Göngum með gleði til samtals á þessari prestastefnu þó hún fari fram með óvenjulegum hætti.   Göngum með gleði til þjónustunnar í kirkju Krists. 

Bræður og systur.  Megi vinátta okkar styrkjast og samheldni okkar aukast. 

Prestastefna Íslands árið 2021 er sett.