Vonin á flóttamannsveginum

Vonin á flóttamannsveginum

Það eru nefnilega dýrin sem bjóða mannaguðinn velkominn í húsið sitt, þegar honum hefur verið úthýst úr gistihúsum og mannabústöðum borgarinnar. Það eru mikilvæg skilaboð til okkar á tímum þegar við erum í sífellu minnt á neyð sköpunarinnar af mannavöldum, og hvernig hin mállausu, dýrin og náttúran sjálf, þjást og líða.

Nú eru jólin komin. Kannski fannstu það á leiðinni hingað í kirkjuna, kannski var útvarpið opið og þessi merkilega þögn var spiluð á Rás 1 rétt fyrir kl. sex, á meðan þú varst að leita að bílastæði, kannski var það þegar þú heyrðir klukkurnar hringja til aftansöngs, kannski þegar þú steigst hingað inn og sást ljósið af kertunum, kannski þegar við byrjuðum að syngja jólasálmana, kannski þegar þegar við heyrðum jólaguðspjallið lesið: “En það bar til um þessar mundir”.

Jólin eru tímaferðalag í andlegum og tilfinningalegum skilningi. Þau taka okkur einhvern veginn á staði sem við höfum verið á, ekki síst tilfinningalega eða á öðrum æviskeiðum. Þau taka okkur til draumalandsins þar sem ekkert ríkir nema hið heilaga og fagra, þar sem engin hætta stafar af neinu, þar sem við þurfum ekki að óttast, þar sem við erum elskuð, þar sem við erum nógu góð.

Þrátt fyrir allt umstang, kaup, neyslu og stress, þá eru jólin trúarhátíð því þau snúast um þrá manneskjunnar eftir hinu heilaga, því sem er óvænt, öðruvísi og umbreytir stað og stund. Þráin eftir hinu heilaga býr djúpt í sál og huga og úr því djúpi spretta myndir jólasögunnar og jólaguðspjallsins, sem skapa hina heilögu stund.

Guðspjall Lúkasar, sagan af barninu við brjóst Maríu, undrun og ótti fjárhirðanna, og lofsöngur englanna, býður okkur til stefnumóts við hið heilaga þar sem tíminn nemur staðar eitt augnablik - eða kannski mætast allir tímarnir í lífi okkar í þverskurði jólaguðspjallsins. Því í einfaldleika sínum dregur jólaguðspjallið upp mynd af mannlegum aðstæðum eru flóknar og þversagnakenndar.

Um leið og Lúkas dregur ekkert undan og bregður upp mynd af mannlegu samfélagi þar sem valdhafar ráðskast með fólk, manneskjur eru fátækar, sumar á vergangi og upp á velvild ókunnugra komnar á sinni viðkvæmastu og auðsæranlegustu stund, þá sprengir hann upp þessi lögmál með himnesku ljósi sem sýnir allt á nýjan hátt.

Jólaguðspjallið er sígilt og lifir af breytingar í alþjóðastjórnmálum, stjórnsýslu, fjölskyldugerðum og fæðingarhjálp. Frummyndir þess tala til okkar í gegnum kynslóðir og aldir, þær eru sammannlegar og eiga alltaf við.

Frummyndir jólanna eru til að mynda fjárhúsið og jatan sem tjá þrá manneskjunnar eftir skjóli, næringu, hlýju og öryggi – ekki síst í eigin hjarta þar sem óleyst vandamál geta hreiðrað um sig.  Fæðing barnsins er annað frumtákn sem hittir í hjartastað. Nýfætt barn snertir strengi í brjósti og vekur þrá eftir nýju upphafi, eigin bernsku, hreinleika og sakleysi. Ljósið sem kemur inn í myrkrið talar einnig sterkt til okkar, í Betlehemsstjörnunni og englakórnum bjarta sem flytur boðskap um að við þurfum ekki að vera hrædd.

Fjölskyldan og mikilvægi hennar er einnig ein af þessum frummyndum jólanna sem er tjáð með Maríu, Jósef og barninu. Þrátt fyrir ytra óöryggi og heimilisleysi finnum við öryggi og ást í faðmi fjölskyldunnar og þeirra sem elska okkur.

Þessi tákn lifa og varðveitast kynslóð fram af kynslóð. Í þeim er sannleiksgildi helgisögunnar fólgið, frekar en á sviði textarýni eða sagnfræði.

Kristin guðfræði vinnur með jólasöguna þannig að barnið í jötunni er sjálfur Guð, sem gerist manneskja í Jesú Kristi og gengst undir öll þau krepptu og kröppu kjör sem því fylgir. Þetta er forsendan fyrir sprengikrafti jólaguðspjallsins, þar mætast himinn og jörð, hið eilífa og það sem tekur enda, allsleysi og allsnægtir. Það er þetta sem hrærir strengi hjartans og setur af stað hljómkviðu lífsins sem spannar allar tilfinningar og alla mannlega reynslu.

Og þótt engin dýr séu í sjálfu sér nefnd til sögunnar í jólaguðspjallinu, nema kindurnar á Betlehemsvöllum, sem fá ekki að koma með að jötunni til að sjá Jesúbarnið, þá hafa listamenn í gegnum söguna séð til þess að búfénaður á borð við nautgripi og asna hafa ævinlega átt sinn sess í senunni. Við sjáum það eiginlega uxann og asnann fyrir okkur þegar við heyrum jólaguðspjallið - og kannski eru þarna líka mýs, kisur, uglur, öll þessi dýr sem við þekkjum af jólakortunum. Og það er eitthvað magnað við það að gera ráð fyrir skepnum við þessar aðstæður og þennan viðburð þegar Guð verður manneskja og tekur á sig kjör og lögmál sköpunarinnar. Það eru nefnilega dýrin sem bjóða mannaguðinn velkominn í húsið sitt, þegar honum hefur verið úthýst í gistihúsum og mannabústöðum borgarinnar. Það eru mikilvæg skilaboð til okkar á tímum þegar við erum í sífellu minnt á neyð sköpunarinnar af mannavöldum, og hvernig hin mállausu, dýrin og náttúran sjálf, þjást og líða.

Skepnur eiga örugglega vísan sess í hjarta Guðs, þetta er þema sem hefur verið Frans páfa hugleikið en hann lýsti því yfir um daginn að það væri pláss fyrir besta vin mannsins í himnaríki, þegar hann vildi hugga lítinn dreng sem hafði misst hundinn sinn. Þetta er nálgun sem hittir okkur íslendinga fyrir, við skiljum mikilvægi hlýju og tryggðar sem dýrin gefa af sér í félagsskap og þjónustu. Það er ekki of djúpt í árina tekið að segja að myndir af dauðum hestum sem voru hífðir upp úr Bessastaðatjörn hafi snortið margar. Eflaust voru margir sem fundu til með þessum sterku og þokkafullu skepnum sem drápust svo að segja í alfaraleið.

Dýrin eiga sinn sess í jólasögunni og bera vott um umhyggju Guðs fyrir allri sköpuninni. Annað þema í jólaguðspjallinu sem hittir okkur fyrir í samtímanum er neyð þeirra sem hvergi heima, þeirra sem þurfa af einhverjum ástæðum að yfirgefa heimili sitt eða landið sitt og er upp á vinsemd og vináttu annarra komið.

Fjölskyldan í jólaguðspjallinu er nefnilega svolítið þannig - eins og Snorri Hjartarson dregur fram í kvæði sínu “Ég heyrði þau nálgast“ frá árinu 1966:

Ég heyrði þau nálgast í húminu, beið á veginum rykgráum veginum. Hann gengur með hestinum höndin kreppt um tauminn gróin við tauminn. Hún hlúir að barninu horfir föl fram á nóttina stjarnlausa nóttina. Og ég sagði: Þið eruð þá enn sem fyrr á veginum flóttamannsveginum, en hvar er nú friðland hvar fáið þið leynst með von ykkar von okkar allra? Þau horfðu á mig þögul og hurfu mér sýn inn í nóttina myrkrið og nóttina.

Um leið og jólin taka okkur á staðinn þar sem hið fagra, góða og fullkomn ríkir í dýrð og tign himnanna, taka þau okkur líka á sammannlegan stað þar sem við horfumst í augu við neyðina og skortinn sem systur okkur og bræður líða í heiminum.

Árið í ár var vont ár fyrir börn í heiminum, hörmulegar fréttir af fjöldamorðum í pakistönskum skóla í síðustu viku hnikkja bara á menningu þar sem börn eru ekki örugg. Börn og fjölskyldur þeirra hrekjast að heiman af mörgum ástæðum, einni þeirra kynnumst við í jólaguðspjallinu þar sem Jesúbarnið er á hrakningum í ókunnugri borg.

Barnið í jötunni fangar mannlega tilveru í öllum sínum fjölbreytileika, í neyð og viðkvæmni jarðarinnar en líka mætti og dýrð himinsins. Það viðkvæmasta af öllu er nýfætt barn og það kennir okkuar að elska vegna þess að það er ekki hægt að bregðast öðruvísi við litlu barni en að elska það.

Barnið í jötunni er sigur lífsins og sigur kærleikans í aðstæðum sem mótast af myrkri og ótta. Það er ljósið í starnlausri nóttinni, vonin á flóttamannsveginum. Barnið í jötunni kallar okkur inn í minningar um öryggi og ást, um frið á jörðu og kærleika milli manna. Við fylgjum hirðunum í Betlehem að jötu barnsins og jólin eru komin.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.