Vandinn að elska

Vandinn að elska

Frá ómunatíð hafa átök og deilur verið hluti af lífi okkar hér á jörðu og sama hve langt við náum, sama hve miklar framfarir verða stöndum við mannfólkið enn þá frammi fyrir vandanum að velja rétt, að lifa í friði og að vera hvert öðru náungi. Við getum vel elskað, en við getum líka orðið syndinni að bráð og gefist upp fyrir illskunni. „Elskum hvert annað því að kærleikurinn er frá Guði kominn“ segir í Fyrsta Jóhannesarbréfi.

Predikunartextar:1 Mós 4.1-16, 1 Jóh 4:7-11, Lúk 10:23-37.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Þeir Róbert og Mark fæddust sama dag 1968 á sömu sjúkrastofnun. Þeir bjuggu í sama bæ og í sama hverfinu á Norður Írlandi. Þeir áttu þó ekki eftir að ganga í sama skóla, eða keppa með sama íþróttaliðinu, þeir áttu aldrei eftir að verða vinir. Róbert tilheyrði kaþólskri fjölskyldu, sem vildi sameinað Írland, en fjölskylda Marks var mótmælendatrúar og vildi að Norður Írlandi yrði áfram hluti af Bretlandi. Og þess vegna voru þeir Mark og Róbert óvildarmenn frá fæðingu. Þeir og fjölskyldur þeirra áttu eftir að deila harkalega sín á milli, þeir áttu eftir að hata hvorn annan og að lokum berjast á banaspjótum.

Í fyrsta Jóhannesarbréfi er skrifað: „Elskum hvert annað því að kærleikurinn er frá Guði kominn“

Ungur kristinn Palestínumaður hefur orðið að flýja heimkynni sín og setjast að sem flóttamaður í Bandaríkjunum. Vegna þess að hann á sér einum og marga óvildarmenn í heimalandi sínu. Hann flúði ofríki Ísraelsmanna, skæruhernað Hamas samtakanna og hatur fjölskyldu og vina sem höfnuðu honum vegna samkynhneigðar hans.

Árið 1960 fygldu 4 bandarískir alríkislögreglumenn hina 6 ára gömlu Ruby Bridges í skólann í marga mánuði. Ruby þessi var fyrsta svarta stúlkan til þess að ganga í grunnskóla hvítra í heima sínum. Á hverjum degi hrópaði æstur múgur hatursorðum að Ruby, vegna þess eins að hún var svört.

Frá ómunatíð hafa átök og deilur verið hluti af lífi okkar hér á jörðu og sama hve langt við náum, sama hve miklar framfarir verða stöndum við mannfólkið enn þá frammi fyrir vandanum að velja rétt, að lifa í friði og að vera hvert öðru náungi. Við getum vel elskað, en við getum líka orðið syndinni að bráð og gefist upp fyrir illskunni.

„Elskum hvert annað því að kærleikurinn er frá Guði kominn“ segir í Fyrsta Jóhannesarbréfi.

Frásagan um bræðurna Kain og Abel sem við heyrðum í dag opinberar djúpstæðan vanda sem við mannfólkið glímum við, sama vanda og sögurnar af Róbert og Jack, unga palestínumanninn og Ruby Bridges vitna um, þ.e. vandinn að lifa saman í sátt, í friði og í kærleika. Í frásögu 1. Mósebókar hampar Guð, Abel yngri syni Adams og Evu, en ekki hinum eldri Kain. Og vegna þess reiddist Kain og fylltist öfund í garð yngri bróður síns. Og Drottinn sagði við Kain: „Hví reiðist þú […]? Er ekki svo að þú getur verið upplitsdjarfur ef þú gerir rétt? En gerir þú rangt þá liggur syndin við dyrnar? Hún girnist þig en þú getur sigrast á henni.“ En Kain var uppfullur af reiði og öfund, kannski var hann ekki með sjálfum sér. Og hið illa og eyðandi afl, sem fylgir því ástandi sem Biblían og kristin trú kalla synd, lá við dyrnar og beið þess að Kain opnaði!

Tökum eftir því að Kain hafði val, hann gat staðið gegn hinum eyðandi mætti syndarinnar og „sigrast á henni“ með Guðs hjálp. Eða gefist upp fyrir eigin reiði, lokið upp dyrunum og leyft syndinni taka yfir. Á hverjum degi stendur fólk frammi fyrir þessu vali, Mark og Róbert höfðu val, þeir sem ofsækja unga Palestínumanninn hafa val, venjulega fólkið og foreldrar hvítu skólabarnanna sem hrópaðu hatursorðum að Ruby litlu höfðu val.

Í Fyrsta Jóhannesarbréfi er skrifað: „Elskum hvert annað því að kærleikurinn er frá Guði kominn og hver sem elskar er barn Guðs og þekkir Guð. Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð því að Guð er kærleikur. Í því birtist kærleikur Guðs til okkar að Guð hefur sent einkason sinn í heiminn til þess að hann skyldi veita okkur nýtt líf. Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar. Og fyrst Guð hefur elskað okkur svo mikið þá ber okkur einnig að elska hvert annað.“ Guð elskar okkur og kallar okkur til þess að elska aðra. Guð elskaði Kain og Abel og kallaði þá til að elska. Og þar sem kærleikurinn fær að ríkja, þaðan víkur allt hatur og öll illska.

Kain hafði um tvennt að velja hann gat valið að standa gegn hinu illa og elska bróður sinn, eða að gefast upp fyrir illskunni og gangast henni á hönd. Kain valdi að ganga illskunni á hönd, fylltur reiði og öfund megnaði hann ekki að sjá Abel bróður sinn, hann sá aðeins óvin, hann megnaði ekki að elska, eins og Guð elskaði hann. Kain glímdi við þann vanda að sjá ekki bróður sinn, hann sá ekki náunga sinn og hann gaf sig illskunni á vald og fremur en að auðsýna kærleika. Syndin girntist hann, og hann gaf sjálfan sig syndinni á vald.

Sagan af Kain og Abel, er nefnilega ekki einstök saga hún er saga sem endurtekur sig aftur og aftur í mannkynssögunni, á fjölmörgum stöðum á hún sér stað núna. Við glímum öll við sama vanda og Kain, okkur er tamt að missa sjónar á kærleikanum og sjá aðeins okkur sjálf og eigin hag. Við getum orðið illskunni að bráð og látið undan eyðandi mætti hennar í stað þess að standa stöðug í kærleika Guð og sigrast á syndinni.

Frásaga Biblíunnar af þeim bræðrum Kain og Abel opinberar náungavanda okkar mannanna, hún opinberar vanda okkar að lifa í kærleika við samferðafólk okkar hér á jörðu. Okkur er tamt að aðgreina fólk og flokka eftir virði þess og gagnsemi. Sagan opinberar það sem samtími okkar vitnar um í stríðsátökum sem geysa nú um stundir um alla veröldina þar sem að hatri og illsku er mætt með meiru hatri og meiri illsku. Vítahringurinn heldur áfram og blóð Guðs barna hrópar áfram upp til Guðs af jörðinni.

Í sögunni felst líka áskorun til okkar, sem köllum okkur kristin. Áskorun um að standa með Guðs hjálp gegn hinu illa og með því góða. Kristin trú kallar okkur til þess mæta illskunni í heiminum og í okkur sjálfum með kærleika Guðs, sem streymir í gegnum okkur. Í Guðspjalli dagsins afgreiðir Jesús „náungavandann“ með dæmisögunni um Miskunnsama Samverjann. Jesús kennir okkur að allt fólk er verðugt elsku okkar, hann kennir okkur að allt fólk og allt sem Guð hefur skapað er þess verðugt að við réttum því hjálparhönd á degi neyðarinnar.

Það er vandasamt að lifa saman í kærleika og friði. Það er vandasamt að elska en, Guð þráir að við mættum læra að elska. Guð þráir að við, fólkið sem hann hefur skapað læri að lifa saman. Guð þráir að þú og ég mættum sjá allt fólk sem bróður eða systur, sem náunga sem er verðugur elsku okkar. Guð þráir að við elskum hvert annað, því að kærleikurinn er frá honum kominn.

Þrátt fyrir kærleiksleysið sem við sjálf tökum þátt í eða sjáum aðra sýna, upplifum við einnig aftur og aftur kraftaverk, eins og kraftaverkið um Samverjann sem sá neyð náunga síns og hjálpaði honum. Samverjinn sýndi náunga sínum kærleika, hann gafst ekki upp fyrir illskunni, hann stóðst og elskaði. Í stóru og smáu á hverjum degi og á öllum tímum ákveðjur fólk með Guðs hjálp að elska, líka þegar það er erfitt. Í kirkju í Norður Írska bænum Armagh situr hópur fyrrum óvildarmanna og ræðir um fyrirgefninguna, um nýja framtíð fyrir Norður Írland, framtíð sem grundvallast á kærleika og sátt – þau ætla ekki að gefast upp fyrir illskunni. Í fyrradag gerðust þrjúþúsund Íslendingar heimsforeldrar Unicef, þau völdu að elska.

Í textum okkar í dag heyrum við um tvo menn sem stóðu frammi fyrir mikilvægu vali annar valdi hið illa, en hinn valdi að elska. Kain varð illskunni að bráð, hann stóð ekki gegn henni, en Samverjinn úr dæmisögu Jesú valdi að vera verkfæri kærleika Guðs í heiminum, hann valdi að miðla áfram kærleika Guðs! Guð þráir að við, fólkið sem hann hefur kallað, miðli blessun hans og kærleika áfram í heiminum. Og um fordæmi Samverjans segir Jesús við okkur: „Farið og gjörið hið sama“ – verið náungum ykkar náungi og elskið hvert annað, eins og Guð elskar ykkur! Guð gefi okkur styrk til þess að standast og velja að elska!

Dýrð sé Guð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir, alda amen.