Finnst þér lítið gerast?

Finnst þér lítið gerast?

Hvað getur þú gert varðandi hin stóru vandamál? Hvernig mun okkur takast að komast út úr erfiðleikum okkar sem einstaklingar og þjóð? Hver leggur okkur lið? Hverjir eru vinirnir? Hverjir hjálpa í raun? Hvað get ég gert í mínum aðstæðum?

Hvað getur þú gert varðandi hin stóru vandamál? Hvernig mun okkur takast að komast út úr erfiðleikum okkar sem einstaklingar og þjóð? Hver leggur okkur lið? Hverjir eru vinirnir? Hverjir hjálpa í raun? Hvað get ég gert í mínum aðstæðum? Gagnast mitt litla framlag? Þessar spurningar og fleiri eru viðfangsefni ræðunnar sem flutt var í Neskirkju sunnudaginn 7. febrúar. Þú getur lesið hana hér fyrir neðan og hlustað á hana með því að smella hér.

Alla daga vikunnar eru vaktaskipti á sjúkrahúsum landsins um morgunn, miðjan dag og síðla kvölds. Læknar, hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar ásamt her af öðru starfsfólki, leggja sig fram í von um að geta læknað og líknað; vísindamenn ganga að verkum sínum á rannsóknarstofum og í háskólum í von um að leysa gátur, finna lausnir og uppgötva nýja hluti; bátar fara á sjó með línu eða net sem lögð eru í sjó í von um afla; mæður og feður vakna og sinna börnum sínum í von um að þau dafni og komist til manns; börn ganga í skóla til að læra að lesa og skrifa, unglingar til náms í framhaldsskólum eða vinnu í von og trú á framtíðina; prestar heimsækja sjúka, sinna syrgjendum, semja líkræður, skrifa prédikanir í von og trú um að fólk skynji að Guð hefur ekki yfirgefið sköpun sína, þeir þjóna fólki einnig á gleðistundum; fólk hittist í félögum, klúbbum og reglum til að efla sjálft sig og láta gott af sér leiða; fólk puðar við að rita bækur, æfa leikrit og tónlist til að efla anda landans; í bönkum er fólk við störf og í ráðuneytum og á Alþingi í von um betri hag og heim; bifreiðastjórar flytja vörur og menn og flugmenn þeyta fólki og vörum landshorna á milli svo að allir fái sitt daglega brauð og komist heim til sinna; bændur gefa fé sínu og mjólka kýrnar til að fæða okkur og klæða; þau sem eru í atvinnuleit sinna sínum verkefnum í von um vinnu og þau sem eru komin á eftirlaun huga að fjölskyldunni og eigin heilsu í von um að dagarnir verði góðir og margir. Um allt land er fólk að störfum, fólk sem lifir í trú, fer á fætur í þeirri trú að dagurinn muni gefa af sér eitthvað gott, að sáning góðra verka gefi uppskeru.

Svo lengi sem jörðin stendur skal hvorki linna sáningu né uppskeru, frosti né hita, sumri né vetri, degi né nóttu.

Svo mælti Drottinn í eftir að flóðið mikla hafði eytt nánast öllu og frá er sagt í 1. Mósebók (8.22).

Lífið heldur áfram.

Jesús talar til fylgjenda sinna og hann tekur dæmi af lífinu, hinu daglega lífi sem allir þekktu og þannig kom hann boðskap sínum til skila. Bóndinn sáir í von um uppskeru. Hann ræður ekki hverju fræi en hann gerir það sem í hans valdi stendur. Hann sáir. Sumt fellur á götuna, annað í grýtta jörð og enn annað meðal þyrna en sumt fellur í góða jörð. Þannig er lífið. Það heppnast ekki allt en sumt heppnast vel. Guð fylgir sínu starfi eftir. Hann leiðir það fram sem við þörfnumst. Þessi staðfasta trú á trúfesti Guðs er víða í Biblíunni og hún er mjög sterk í GT. Þar eru margir af fegurstu textum veraldar.

[Innskot: Sjá hljóðupptöku.]

Jesaja spámaður var mikið skáld, talsmaður Guðs, undursamlega hagur maður í orðsins iðju. Heyrum aftur orð úr lexíu dagsins:

Eins og regn og snjór fellur af himni og hverfur ekki þangað aftur fyrr en það hefur vökvað jörðina, gert hana frjósama og gróandi, gefið sáðkorn þeim sem sáir og brauð þeim er eta, eins er því farið með orð mitt sem kemur af munni mínum, það hverfur ekki aftur til mín við svo búið heldur kemur því til leiðar sem mér þóknast og framkvæmir það sem ég fel því.

Mögnuð orð. Hér er fullyrt að orð Guðs vinnur sitt verk. Er ekki gott að heyra þessi orð? Er það ekki styrkjandi að fá fullvissu um að Guð gefst aldrei upp og að hann er í verki með okkur?

Nýlega skírði ég barn ungra foreldra. Móðir barnsins fermdist hér í Neskirkju fyrir örfáum árum og nú vildi hún færa barnið sitt Guði og himni hans, vígja það eilífðinni, biðja Guð að setja fingrafar sitt á brjóst þess og enni. Mér hlýnaði um um hjartarætur þegar ég skírði barnið og skynjaði að sáning foreldra foreldranna og ástvina, sáning kirkjunnar í barna- og unglingastarfi og í fermingarstarfinu hafði borið ávöxt. Guð er alltaf að gleðja mann og staðfesta það að hann er með í verki þegar unnið er í trú og von.

[Innskot og ávarp til fermingarbarna]

Boðskapurinn í textum dagsins er einfaldur: Ekki gefast upp, haltu áfram að sinna þínum góðu verkum og þú munt uppskera árangur! Guð hefur lofað því!

[Innskot um þau sem sá illgresi í akur mannlífsins. Sjá hljóðupptöku.]

Páll postuli trúir okkur fyrir því að hann, þessi öflugi boðberi trúarinnar, hafi verið hamlaður á einhvern hátt. Hann hafði flein í holdi sínu, sjúkdóm, ávana, eitthvað sem minnti hann stöðugt á að hann var ekki herra sjálfs síns, hann var ekki uppspretta trúarinnar heldur Guð á himnum sem sagði við hann:

„Náð mín nægir þér því að mátturinn fullkomnast í veikleika.“

[Innskot um það sem lífið kennir okkur. Sjá hljóðupptöku.]

Líf hans var stöðug barátta. Hann hafði upplifað ótrúlega hluti, verið hrifinn upp í himinhæðir, fengið opinberanir og djúpa andlega reynslu. En hann mátti ekki miklast af því heldur muna að Guð er uppspretta alls hins góða en ekki maðurinn.

Við erum öll mörkuð einhverri hömlun sem minnir okkur á ófullkomleika, vankunnáttu og takmarkaðan skilning okkar á lífinu og tilverunni. Við vitum svo fátt en það sem við vitum nægir okkur til góðra verka. Guð sér um afganginn. Við skiljum ekki kristna trú nema að örlitlu leyti en það sem við vitum er samt nóg. Þar með eigum við samt ekki að láta þekkingu okkar nægja heldur sækjast eftir meiri skilningi. Kristin trú er ekki flókin. Hún er fólgin í því að treysta Jesú Kristi og kærleika hans.

Jesús vill að við vinnum verk okkar af trúmennsku og í trú á að erfið okkar muni bera ávöxt.

En hann er ekki einungis að tala um venjulega vinnu, hann er að tala um það að við breiðum út orð Guðs. Hann er að uppörva boðbera fagnaðarerindisins v.þ.a. sæðið í sögunni er Guðs orð.

Guðs orð er við fyrstu sýn boðskapurinn um Guðs ríkið. Á þeim tíma sem Jesús flutti þessi orð var Biblían ekki til sem slík. Reyndar voru til bækur Gyðinga sem þeir höfðu ritað í gegnum aldirnar, handritavafningar úr pappír eða bókrollur. Nýja testamentið varð ekki til fyrr en löngu eftir daga Jesú. Hvað á hann þá við þegar hann segir að sæðið sé Guðs orð? Hann vitnar þar með í hina breiðu túlkun á Guðs orði sem er í raun allt ráð Guðs, öll sú opinberun, kenning og túlkun sem hann boðaði um verk Guðs á jörðu. Orðið hans er ekki bara bókstafur, frásagnir af samskiptum Guðs og mannfólks í gegnum aldirnar, fréttaflutningur af kraftaverkum Jesú og ræðum hans, heldur allt hið góða sem Guð boðar, hið góða líf sem byggir á boðorðum Guðs og speki aldanna, iðni og trúmennska, orðheldni, varúð, hófsemi og miskunnsemi, svo nokkur dyggða dæmi séu nefnd.

Trúin er ekki síður sýnd í verki en orði. Jakob postuli segir trúna ónýta og dauða án verkanna (Jak 2.20) . . .

[Innskot um námskeið sem hefst innan tíðar og fjallar um Jakobsbréf í NT]

. . . og sr. Hallgrímu segir sálina líflausa án bænar er hann yrkir (Pass 4.22-23):

Andvana lík til einskis neytt er að sjón, heyrn og máli sneytt. Svo er án bænar sálin snauð, sjónlaus, köld, dauf og rétt steindauð.

Í dag er hvíldardagur kristinna manna, sunnudagur, Drottinsdagur, upprisudagur, sigurdagur og við erum lánsamt fólk því sjálfur herra himins og jarðar hefur leitt okkur í helgidóm sinn. Hann nærir okkur, hvetur og uppörvar. Við höfum öll verk að vinna. Ísland þarfnast okkar, heimurinn þarfnast verka okkar og framlags.

Í hverju getur framlag okkar verið fólgið?

Framlag okkar er það að sá í trú, sá með góðum verkum og ennfremur að sá orði Guðs, sannleikanum um lífið. Við stöndum sem þjóð frammi fyrir stóru verkefni. Hvernig mun okkur reiða af?

Við náum marki ef við gerum öll það sem er rétt, hvert á okkar stað, í okkar stétt og stöðu, á heimili, vinnustað, í samskiptum við náungann, í bæn okkar til Guðs.

Við þurfum að endurreisa Ísland í anda réttlætis og sannleika, en um leið í anda kærleika og miskunnar. Við erum öll breyskar manneskjur og skulum muna það að það er Guð sem kveður upp hinstu dóma. Um leið megum við vera viss um að hann dæmir réttláta dóma, er miskunnsamur og kærleiksríkur, fullur náðar og friðar.

Allt sem við vitum um kristna trú er komið af orði Guðs, úr hinni helgu bók, Biblíunni. Við getum ekki trúað án þess að vitnisburðurinn sé varðveittur af mönnum og fluttur áfram. Í frumkristni var boðskapurinn varðveittur í munnlegri geymd en svo kom að því að hann var skrifaður niður. Enginn getur trúað nema hann heyri eða lesi enda segir postulinn í 10. kafla Rómverjabréfsins:

„Trúin kemur þannig af því að heyra. Og það sem heyrt er byggist á orðum Krists.“ (Rm 10.17)

Heimurinn lifir ekki án þessa boðskapar, lifir ekki án Biblíunnar. Hið íslenska Biblíufélag er elsta félag landsins. Þar er unnið alla daga að því að tryggja landsmönnum aðgang að Orðinu og ennfremur að því að hjálpa öðrum þjóðum að búa til ritmál og eignast þannig Orðið á sinni tungu. Styrkjum þetta góða starf, þessa mikilvægu sáningu.

[Nefna samskot fyrir Biblíufélagið]

Biblían er orð Guðs. Hún er fræbanki okkar. Þaðan kemur boðskapurinn. Lesum þessa bók, tökum úr henni handfylli af fræjum á hverjum morgni og höfum með okkur út í daginn til sáningar í samtölum við samferðafólk okkar. En gerum að á þann hátt að fólk fari ekki í baklás. Boðum orðið af kænsku og í kærleika og virðingu fyrir þeim sem heyra.

[Ræðunni lauk með sögu af gömlum manni, Elzeard Bouffier, og iðju hans. Sjá hjóðuptöku]

- - - Textar dagsins: Lexía: Jes 55.6-13 Leitið Drottins meðan hann er að finna, ákallið hann meðan hann er nálægur. Hinn guðlausi láti af breytni sinni og illmennið af vélráðum sínum og snúi sér til Drottins svo að hann miskunni honum, til Guðs vors því að hann fyrirgefur ríkulega. Mínar hugsanir eru ekki yðar hugsanir og yðar vegir ekki mínir vegir, segir Drottinn. Eins og himinninn er hátt yfir jörðinni eru mínir vegir hærri yðar vegum og mínar hugsanir hærri yðar hugsunum. Eins og regn og snjór fellur af himni og hverfur ekki þangað aftur fyrr en það hefur vökvað jörðina, gert hana frjósama og gróandi, gefið sáðkorn þeim sem sáir og brauð þeim er eta, eins er því farið með orð mitt sem kemur af munni mínum, það hverfur ekki aftur til mín við svo búið heldur kemur því til leiðar sem mér þóknast og framkvæmir það sem ég fel því. Já, þér skuluð fara burt fagnandi og örugg verðið þér leidd af stað. Fjöll og hæðir ljósta upp fagnaðarópi frammi fyrir yður og öll tré á sléttunni klappa saman lófum. Í stað þyrnirunna skal kýprusviður vaxa og myrtusviður í staðinn fyrir netlur. Þetta verður Drottni til dýrðar, ævarandi tákn sem aldrei skal afmáð.

Pistill: 2Kor 12.2-9 Ég þekki kristinn mann. Fyrir fjórtán árum var hann hrifinn burt allt til þriðja himins. Hvort það var í líkamanum eða utan líkamans veit ég ekki. Guð veit það. Og mér er kunnugt um að þessi maður var hrifinn upp í Paradís og heyrði ósegjanleg orð sem engum manni er leyft að mæla. Hvort það var í líkamanum eða utan líkamans veit ég ekki. Guð veit það. Af slíku vil ég hrósa mér en af sjálfum mér vil ég ekki hrósa mér nema þá af veikleika mínum. Þótt ég vildi hrósa mér væri ég ekki frávita því að ég væri að segja sannleika. En ég veigra mér við því til þess að enginn skuli ætla mig meiri en hann sér mig eða heyrir. Og til þess að ég skuli ekki ofmetnast af hinum miklu opinberunum er mér gefinn fleinn í holdið, Satans engill, sem slær mig til þess að ég skuli ekki líta of stórt á mig. Þrisvar hef ég beðið Drottin þess að láta hann fara frá mér. Og hann hefur svarað mér: „Náð mín nægir þér því að mátturinn fullkomnast í veikleika.“ Því vil ég helst hrósa mér af veikleika mínum til þess að kraftur Krists megi taka sér bústað í mér.

Guðspjall: Lúk 8.4-15 Nú var mikill fjöldi saman kominn og menn komu til Jesú úr hverri borg af annarri. Þá sagði hann þessa dæmisögu: „Sáðmaður gekk út að sá sæði sínu. Og þá er hann sáði féll sumt hjá götunni og varð fótum troðið og fuglar himins átu það upp. Sumt féll á klöpp. Það spratt en skrælnaði af því að það hafði ekki raka. Og sumt féll meðal þyrna og þyrnarnir spruttu einnig og kæfðu það. En sumt féll í góða jörð, óx upp og bar hundraðfaldan ávöxt.“ Að svo mæltu hrópaði Jesús: „Hver sem eyru hefur að heyra hann heyri.“ En lærisveinar hans spurðu Jesú hvað þessi dæmisaga þýddi. Hann sagði: „Ykkur er gefið að þekkja leynda dóma Guðs ríkis, hinir fá þá í dæmisögum að sjáandi sjái þeir ekki og heyrandi skilji þeir ekki. En dæmisagan þýðir þetta: Sæðið er Guðs orð. Það er féll hjá götunni merkir þá sem heyra orðið en síðan kemur djöfullinn og tekur það burt úr hjarta þeirra til þess að þeir trúi ekki og verði hólpnir. Það er féll á klöppina merkir þá sem taka orðinu með fögnuði er þeir heyra það en hafa enga rótfestu. Þeir trúa um stund en falla frá á reynslutíma. Það er féll meðal þyrna merkir þá er heyra en kafna síðan undir áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins og bera ekki þroskaðan ávöxt. En það er féll í góða jörð merkir þá sem heyra orðið og geyma það í göfugu, góðu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi.