Ps 32:1-7; 1. Jóh. 1:5-10; Lúk. 7:36-50.
Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Nýtt tímabil er hafið. Sumarið er að kveðja og haustið að heilsa. Nú er allt að fara í gang eftir sumarið og vetrarstarfið hafið í skólum, kirkjum og félögum. Í dag, 1. september hefst tímabil sköpunarverksins í kirkjunni og börnin streyma í sunnudagaskólann. Svo má líka geta þess að kirkjan tekur þátt í að vekja athygli á átakinu „Á allra vörum“. Þetta árið er áherslan á Eitt líf – forvarnir og fræðslu vegna vímuefnaneyslu ungmenna. Þátttaka þjóðkirkjunnar felur í sér að kirkjuklukkum landsins verður hringt inn í fyrramálið kl. 7:15. Með þessu vilja forsvarskonur átaksins hrinda úr vör átaki ársins undir heitinu Vaknaðu þar sem óvenjulegt er að kirkjuklukkunum sé hringt svo snemma dags.
Mörg eigum við góðar minningar af sunnudagaskóla æsku okkar. Það er dýrmætt að börnin og fjölskyldur þeirra eigi þess kost að eiga saman ókeypis gæðastund í kirkjunni sinni þar sem sagðar eru sögur sem fjalla um það hvað það er að vera manneskja. Söngvar sem gleðja og bænir sem kenna auðmýkt og virðingu fyrir því sem æðra er.
Undanfarið hafa umhverfis- og loftslagsmál verið meira í fréttamiðlum en oft áður. Greta Thunberg lagði á sig langa sjóferð til New York á sólarknúinni skútu því hún fylgir orðum sínum eftir með verkum og vill sýna gott fordæmi til að draga úr kolefnisfótsporinu. Tilgangur ferðar hennar er að tala á alþjóðlegri ráðstefnu um loftslagsmál þegar leiðtogafundur Sameinuðu þjóðanna verður haldinn í New York eins og kunnugt er.
Þessi unga sænska stúlka hefur svo sannarlega hreyft við almenningi og ráðamönnum heimsins varðandi aðgerðir í loftslagsmálum. Fjölmiðlar hafa fjallað um baráttu hennar og áhrifin hafa ekki látið á sér standa. Ungt fólk um allan heim hefur vaknað til vitundar um að aðgerða er þörf ef ekki á illa að fara fyrir jörðinni okkar og lífinu á henni.
Ráðamenn heimsins hafa líka látið til sín taka varðandi málefnið og nýlegur fundur norrænu ráðherranefndarinnar sem haldinn var hér á landi nýverið fjallaði um loftslagsmálin. Á fundinum var samþykkt sú sýn fyrir Norðurlöndin að þau verði sjálfbærasta svæði í heimi eftir 10 ár. Ráðherrarnir voru sammála um að aðgerðir væru mikilvægari en orð.
Almenningur, ráðamenn, fjölmiðlar. Þegar allir taka höndum saman er von til þess að árangur náist.
Skemmst er að minnast ferðar hóps fólks á jökulinn Ok sem einu sinni var. Þar var minnisvarði afhjúpaður hvar á stendur meðal annars: „Við vitum hvað er að gerast og hvað þarf að gera. Aðeins þú veist hvort við gerðum eitthvað.“
Já, jökullinn er farinn og fleiri munu fylgja með í óminnisdjúpið ef ekkert verður að gert.
Tímabil sköpunarverksins.
Frá 1. september til 4. október fagna kristnir um allan heim tímabili sköpunarverksins. Sum okkar biðja, sum okkar vinna verkefni, önnur eru talsmenn, segir á heimasíðu verkefnisins. Kirkjan okkar tekur þátt í þessu verkefni þriðja árið í röð. Reyndar framlengjum við tímabilið og endum það á virkri þátttöku á ráðstefnunni Artic Circle Assembly sem haldin er árlega um miðjan október. Kirknasamtök víða um heim hafa lagt áherslu á umhverfismálin um margra ára skeið enda virðist mannkynið hafa villst af leið í ráðsmannshlutverkinu svo nauðsynlegt er að stilla kúrsinn upp á nýtt.
Það er góð sagan um viðhorf tveggja manna sem stóðu saman og horfðu á skóginn. Eftir þögla stund sagði annar: Mikið er þetta falleg sjón. Hinn sagði: Hversu mikið skyldi ég hafa upp úr því að selja öll þessi tré.
Því miður virðist svo vera sem mannkynið hafi víða um heim horft á Guðs góðu sköpun út frá gróðasjónarmiði en ekki sem samverkamenn skaparans við að gera lífið gott og fallegt.
Þurrkar, skógareldar og náttúruhamfarir af völdum úrhellis nær og fjær á síðustu misserum hafa ekki farið fram hjá neinum. Þörfin á aðgerðum til þess að draga úr og bregðast við ofhlýnun jarðar og breytingum á loftslagi er knýjandi. Vísindamenn í mörgum greinum náttúruvísinda telja óyggjandi að framundan sé hörmungatíð verði ekki stefnt markvisst að þeirri umbreytingu lífs- og framleiðsluhátta sem Parísarsáttmálinn frá 2015 kallaði eftir. Stund sannleikans er runninn upp í umhverfismálum. Nú er það okkar allra, hvar sem við stöndum, og ekki síst stjórnvalda og forystufólks í atvinnulífi, að breyta með orðum og athöfnum lífsmáta okkar samfélaga þannig að hann þjóni lífinu á jörðinni og lífríkinu í allri sinni fjölbreytni.
Viðhorf, skiptir það máli? Viðhorf til manna og málefna. Greta Thunberg hefur breytt viðhorfi fólks, sérstaklega ungs fólks til umhverfismála. Hún hefur vakið þá hugsun meðal ungdómsins víða um heim að ekki sé nóg að hver og einn líti í eigin barn þegar loftslagsmálin eru annars vegar. Það þarf meira til. Ráðamenn heimsins þurfa að vakna til vitundar um að ákvarðanir þeirra varðandi málaflokkinn skipta sköpum fyrir framtíð lífs á jörðu.
Undanfarið hafa borist fréttir af mismunandi skoðunum fólks á því hvað skuli vera á matseðli mötuneyta grunnskóla í höfuðborginni. Einn borgarfulltrúinn lýsti þeirri skoðun sinni að borgarfulltrúar ættu að byrja á sjálfum sér og breyta mataræði í mötuneyti Ráðhússins áður en þeir breyttu mataræði barna í skólum. Umræðan um loftslagsvána hefur leitt til umræðu um mataræði. Enda er það svo að ræktun og framleiðsla matar felur í sér kolefnisfótspor sem er mismunandi mikið eftir því hvað er ræktað.
Það er gott að líta á allar hliðar þess vanda er mannkyn stendur frammi fyrir, en það er ekki gott að vekja kvíða og vonleysi meðal fólks. Ekki hvað síst á þetta við um börnin sem þurfa að fá að heyra vonarríkan boðskap og alast um við eins mikið öryggi og hægt er.
Í guðspjallinu sem lesið var frá altarinu áðan er dregin upp kunnugleg mynd þar sem fólk kemur saman og matast. Frásögumaður er ekki að velta fyrir sér hvað er borið á borð heldur er sjónum beint að konu einni sem truflar samkvæmið með nærveru sinni. Gestgjafinn er farísei segir í textanum. Gestgjafinn er sem sagt guðhræddur maður sem hefur kynnt sér lögmálið og leitast við að lifa eftir því í hvívetna. Konan, sem virðist vera boðflenna í húsi hans er sögð vera bersyndug. Hvað þýðir það? Það getur þýtt að samferðafólk hennar hefur dæmt hana fyrir hátterni sem ekki er talið samrýmast siðuðu samfélagi. Mennirnir dæma en hvað gerir Jesús? Ekki er að sjá að Jesús hafi rekið konuna á dyr þegar hún kom grátandi til hans og smurði fætur hans. Húsráðandi er kynntur með því sem hann hugsar en konan með því sem hún gerir.
Það er dæmigert fyrir Jesú eins og margar frásagnir gefa til kynna, að taka upp hanskann fyrir þessa konu. Hann leit alltaf á manneskjuna sem fullgilda jafnvel þó samfélagið hneykslaðist á henni eða hallmælti henni. Alltaf gat hann fundið eitthvað sem var gott eða jákvætt í fari viðkomandi og því sem öðru er hann fyrirmynd okkar.
Í guðspjallinu kemur fram að Jesús sagði við konuna: „Syndir þínar eru fyrirgefnar.“ Fyrirgefning er merki um það að nýtt tækifæri hefur gefist. Tækifæri sem boðar breytingu á lífi, breytingu til batnaðar.
Við getum litið svo á að mannkyni hafi hlotnast fyrirgefning, það er að segja hafi fengið nýtt tækifæri til að bregðast við aðsteðjandi vanda. Umræðan um loftslagsvána er komin á það stig að viðurkennt er að aðgerða er þörf. Við hefðum þurft að bregðast fyrr við en fyrst svo er ekki þá höfum við fengið nýtt tækifæri til að láta hendur standa fram úr ermum til bjargar jörðinni og lífinu.
Það eru tvö ár síðan tímabilið frá 1. september og fram í október er helgað sköpuninni í kirkjunni okkar. Tímabili sköpunarverksins tíðkast víða í kirkjum heimsins. Næstu vikurnar eru söfnuðir þjóðkirkjunnar hvattir til að vinna með umhverfi og náttúru í helgihaldi sínu og með því að gera starf sitt umhverfisvænt og sjálfbært með ýmsu móti. Nú þegar hafa nokkrir söfnuðir og starfsstöðvar á vegum kirkjunnar fengið viðurkenningu á grænni leið vegna umhverfisstarfs. Í dag er fyrsti sunnudagaskóli vetrarins og börnin fá kærleiksbókina sína og eru frædd um sköpunina og ábyrgð okkar á henni og umhverfi okkar.
Um miðjan þennan mánuð verður helgun lands í Skálholti þar sem söfnuðum og starfsstöðvum þjóðkirkjunnar gefst tækifæri til að kolefnisjafna starf sitt og sjá andlegu víddina í varðveislu lands og náttúru – að vera ráðsmenn sköpunarverksins. Í Skálholti verður einnig haldin ráðstefna um trú og umhverfismál með aðkomu fólks úr ýmsum starfsstéttum víðs vegar að úr heiminum, sem tekur síðan þátt í norðurslóðaráðstefnunni í Hörpu og prédikar í kirkjum á höfuðborgarsvæðinu um miðjan október eins og tíðkast hefur undanfarin ár.
Söfnuðir þjóðkirkjunnar sem og prestar hennar eru hvött til að láta til sín taka á sviði umhverfismála framtíðinni til heilla. Á heimasíðu kirkjunnar má finna ýmislegt um þennan málaflokk undir heitinu græna kirkjan.
Jesús sagði við bersynduga konuna: „Syndir þínar eru fyrirgefnar“. Það þýðir, þú hefur fengið nýtt tækifæri í lífinu. „Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði“ sagði hann einnig við hana. Það þýðir, nýttu það tækifæri til að lifa betra og farsælla lífi sjálfri þér til handa og samferðafólkinu til heilla. Þú hefur sýnt að þú hefur gott hjartalag, nýttu það þér og samferðafólki þínu til góðs. Stjórnaðu lífi þínu, þá verða mörk þín virt.
Nýtt tækifæri, ný von. Trú á að verkefnið vinnist. Við þurfum á trú að halda núna þegar við erum í kapphlaupi við tímann um að snúa vörn í sókn í loftslagsmálum. Hitastigið er orðið óbærilegt víða um heim með afleiðingum sem ógna jörðinni og öllu sem á henni lifir.
Jesús sýnir kærleika í verki. Um það fá börnin í sunnudagaskólanum að heyra í vetur. Fá að heyra um kærleiksboðskapinn sem er undirstaða góðs lífs og fallegs mannlífs. Undirstaðan fyrir trú sem gefur ný tækifæri og nýja sýn á alla hluti. Látum þann boðskap ekki fram hjá börnunum fara, þeim til farsældar og náunga þeirra til heilla.
Guð gefi öllum jarðar börnum þekkingu, visku, trú, von og kærleik til að finna til ábyrgðar sinnar gagnvart sköpuninni og kraft til að bregðast við aðsteðjandi vanda.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Prédikun flutt í Grafarvogskirkju við upphaf barna- og æskulýðsstarfs kirkjunnar (útvarpað á Rás eitt)