Hvað er á hvíta tjaldinu?

Hvað er á hvíta tjaldinu?

Einstaklingur eða þjóðfélag sem hefur enga fyrirmynd, hvorki mark né mið er illa á vegi statt. Er hugsanlegt að megin ástæða efnahagsshrunsins sé sú að tjald allt of margra var orðið autt eða þá þakið blekkingarmyndum? Hvað var og er á hvíta tjaldinu?
fullname - andlitsmynd Örn Bárður Jónsson
28. maí 2009

Nýlega sat ég fund í fögrum sal þar sem við augum blasti hvítt tjald yfir sviðinu. Tjaldið er eins og allir vita ætlað til þess að varpa á það myndum. Og sem ég horfði á þetta auða tjald sá ég í því tákn um tilvist okkar sem einstaklinga og þjóðar. Sál okkar er sem salur og þar er líka hvítt tjald. Og það sem við setjum á tjaldið er það sem við tilbiðjum eða fylgjum í lífinu. Við vörpum þangað okkar háleitustu gildum og vonum. „Því hvar sem fjársjóður þinn er þar mun og hjarta þitt vera“, sagði hinn vitrasti.

Hvað er á hvíta tjaldinu þínu? Er þar mynd hins hæsta eða bar eitthvað jarðneskt sem er ekki þess virði að setja allt sitt traust á? Eða er þar kannski ekki neitt, tjaldið autt? Kristin trú og reyndar einnig Gyðingatrú og islam staðhæfa að við séum sköpuð í Guðs mynd. Við höfum vissa eiginleika sem sjálfur guðdómurinn hefur. Við hugsum, höfum tilfinningar og vilja, getum skynjað tímann sem núið, hið liðna og það sem ókomið er. Við getum skráð söguna. Og svo getum við líka skapað! Fleira mætti telja til en guðsmyndin er þarna. Hún er reyndar spillt í öllum mönnum, bjöguð og óskýr eins og þegar snjór eða aðrar truflanir er á sjónvarpsskjánum. Til þess að viðhalda þessari mynd sem best þurfum við að hafa á sálartjaldinu skýra og tæra mynd hins fullkomna, mynd Guðs. Ef við höfum ekkert heilbrigt tákn til að fylgja, ekkert á hvíta tjaldinu, enga Guðs mynd til að sækja okkur kraft í, þá erum við í slæmum málum. Einstaklingur eða þjóðfélag sem hefur enga fyrirmynd, hvorki mark né mið er illa á vegi statt. Er hugsanlegt að megin ástæða efnahagsshrunsins sé sú að tjald allt of margra var orðið autt eða þá þakið blekkingarmyndum? Hvað var og er á hvíta tjaldinu? Autt tjald í þjóðarsalnum er tjald án guðsmyndar og þegar guðsmyndina vantar, hefur maðurinn enga verðuga fyrirmynd, hann verður maður án myndar - hann verður ómynd.

Salómon konungur var spakur maður. Við hann er kennt rit sem nú er aftur prentað með í íslensku Biblíunni eftir tveggja alda hlé. Það ber heitið Speki Salómons. Þar ræðir hann um hversu sorglegt það er þegar menn dást að fegurð himins og jarðar, verða hugfangnir að náttúrufyrirbrigðum en draga ekki þá sjálfsögðu ályktun að að baki öllu sé einhver hugsandi hönnuður, skapandi máttur, eilífur Guð. (Sp Sal 13.1-9) Sumir samtímamenn Salómons settu á tjald sitt margt fagurt en ekki hið eina verðuga.

Á kórvegg Neskirkju er krossmark, tákn þess sigurs sem Kristur vann. Krossmarkið setur líf okkar í tiltekið samhengi. Krossmerkið er tákn á vegg, mynd á tjaldi, sem áhorfandinn speglar sig í og gefur lífi hans inntak og hinstu merkingu.

Tjald í sal, kórveggur kirkju, gafl þjóðar, sálargafl. Hvað er á hvíta tjaldinu?