Leið fjárhirðanna

Leið fjárhirðanna

Ferðalag fjárhirða til Betlehem að finna Jesúbarnið og veita því lotningu ætti að vera ferðalag okkar allra til þess að öðlast þá þekkingu sem Guð vill koma til leiðar með tilkomu Jesú inn í þessa veröld.
fullname - andlitsmynd Bolli Pétur Bollason
25. desember 2011
Flokkar

Gleðileg jól! Yður er í dag frelsari fæddur!!

Margt bendir til þess að fremur óljós skilningur hafi ríkt á Guði allt þar til Jesúbarnið leit þessa veröld. Guð forngrikkjana var fjarlægur, Guð án íhlutunar, Hann virtist skipta sér lítið af manninum, mannlegum tilfinningum og hjá Honum virtist vera litla hjálp að fá. Guð gyðinga í Gamla testamentinum þótti kröfuharður, allt að því hefnigjarn, um var að ræða Guð lögmáls og dóms er vakti og viðhélt ótta.

Síðan fæðist Jesúbarnið til þess að segja okkur að Guð er kærleikur og þess vegna varð fólk verulega undrandi í ljósi fyrrnefndra Guðsmynda. Það var því ekkert skrýtið við allar vangavelturnar um það hvort Jesús væri raunverulega sá er koma skyldi. Enn er mannkyn víst að velta því fyrir sér árið 2011. Eitt aðalhlutverk þeirrar birtingarmyndar Guðs, sem Jesúbarnið í Betlehem er, felur það í sér að leiða mannkyn til frekari þekkingar á Guði.

Það gefur auga leið að engin fræðsla skilar sér að neinu marki án íhlutunar, án tengsla, án tilfinninga, og hún skilar sér sömuleiðis afar illa þar sem einvörðungu kröfur og lögmál ríkja. Það er í það minnsta óheppileg nálgun ef fanga skal athygli nemandans. Afskiptalausir kennarar, ónæmir og tilfinningalega heftir öðlast sjaldnast farsæld í starfi sínu, það er segin saga. Ólíkt er farið með þá er sýna skjólstæðingum sínum áhuga, og finna sig frjálsa í því að deila viðhorfum og lífsskoðunum sínum með þeim. Spakur maður hafði á orði eitt sinn að góður kennari væri sá er kenndi sjálfan sig og miðlaði af lífsreynslu sinni í bland við þekkingaratriðin. Ég aðhyllist þá speki þegar um aðferðafræði í kennslu er fjallað.

Oftsinnis hef ég í fræðslustarfi með börnum og unglingum upplifað þann gríðarlega mun er ég ætla einvörðungu að telja upp blákaldar staðreyndir í tímum ellegar er ég segi sögur, lífsreynslusögur þar sem innsæi og tilfinningar fylgja. Það er óþarft að minnast á það í hvoru tilvikinu ég fæ betri áheyrn. Jesús sagði margar sögur, lífsreynslusögur.

Af mörgum góðum er jólasagan frá Betlehem hvað áhrifaríkust. Hún er saga okkar allra. Eðli hennar sýnir alltént vilja í þá átt. Það er eitthvað við hana sem laðar að, kannski er það ein af ástæðum þess að fleiri koma til kirkju á jólum en á öðrum tímum árs. Má vera að við finnum innst inni fyrir því að það sé verið að leiða okkur á sérstakan hátt til þekkingar á Guði á jólunum? Þá kemur Guð við hjartað okkar með þessari mynd af barninu snauða sem er ógnað af grimmd heimsins, holdgerðri í Heródesi konungi, er lætur m.a. myrða öll sveinbörn í Betlehem til þess að tryggja það að völd hans og auður verði ekki fyrir neinu hnjaski. Honum stóð ógn af nýfæddum konungi lífs og ljóss.

Við höfum alls enga samúð gagnvart slíkri grimmd og græðgi, en fátækt barn í köldum heimi kallar fram samúð, kallar fram þörfina fyrir að láta gott af sér leiða, þörfina fyrir að vera hluti af heild sem tekur höndum saman og hlúir að þeim sem minna mega sín. Það er aðferð Guðs kærleikans, til að leiða okkur til þekkingar á sér, að vekja upp sterkar tilfinningar, að birta okkur lífsreynslusögu er felur í sér allt litróf mennskunnar, ríkidæmi, fátækt, gleði, sorg, öryggi, ótta, stríð, frið, græðgi, gjafmildi og lengi mætti telja. Öll skilaboð sem koma fram í fæðingarfrásögninni voru skilaboð til alls heimsins, til hverrar sálar, þau eru handa öllum. Það sem englarnir sögðu fjárhirðum á Betlehemsvöllum hina fyrstu jólanótt, sögðu þeir öllum heiminum: “Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.”

Ferðalag fjárhirða til Betlehem að finna Jesúbarnið og veita því lotningu ætti að vera ferðalag okkar allra til þess að öðlast þá þekkingu sem Guð vill koma til leiðar með tilkomu Jesú inn í þessa veröld. Vissulega leggst slíkt ferðalag misvel í fólk, sumir fara fúslega af stað og ná áfangastað, upplifa dýrðina og þiggja hana, aðrir halda að þeir séu búnir að höndla sannleikann eftir það og geti bara hvílt í þeirri staðreynd, það reynist gjarnan misskilningur, einhverjir þreytast á veginum, sjá ekki tilganginn, sem betur fer verður líka fólk á vegi þeirra og leiðir þá áfram. Aðrir leggja yfir höfuð ekki af stað, nenna því bara alls ekki eða hafa sagt sjálfum sér það og öðrum að allt sé þetta nú bara plat og vitleysa. Einhverjir fá ekki þá hvatningu sem þeir þurfa, aðrir fá hana og nýta sér hana og síðan eru það þeir sem horfa einkum til þeirra sem ná ekki að fóta sig þó þeir hafi upplifað dýrðina og efast þá ennfrekar um bæði ástæðu ferðalagsins og markmið. En hvernig sem okkur hverju og einu vegnar á þessari leið sem fjárhirðarnir fóru þá hefur hún alltaf markmið og tilgang, þetta er nefnilega leiðin til frekari þekkingar á Guði, hún getur verið torsótt, hún getur jafnvel kostað blóð, svita og tár, en hún getur líka veitt þá lífsfyllingu og lífshamingju sem enginn veraldlegur hlutur kemur í staðinn fyrir.

Þegar fjárhirðarnir höfðu hitt barnið í Betlehem fengu þeir það mikilvæga hlutverk að greina frá atburðinum. Staða þeirra í samfélaginu var ekki til að styðja við trúverðugleika þeirra, fjárhirðar tilheyrðu lægri stigum þjóðfélagsins í þá tíð, en Guð valdi þá til verksins og allir sem heyrðu undruðust það er þeir sögðu þeim. Sú staðreynd rennir stoðum undir það að fæðing Jesú sýnir, svo ekki verður um villst, að mikilfengleiki ræðst ekki af því hversu mikið þú átt inn á bankabók, staða þín í þjóðfélaginu segir ekki til um hvaða manneskju þú hefur að geyma, Guð sem hefur rannsakað hjörtu og huga þekkir einkum þau gæði er koma frá innstu hjartarótum þínum. Guð kærleikans er Guð íhlutunar, Hann er ekki afskiptalaus, vilji hans er að samsama sig kjörum þínum einmitt til að sýna þér skilning, þess vegna gerðist Guð maður. Og um leið hvetur Guð kærleikans þig til að taka afstöðu, til að hlú að barninu, þessu trúarblómi sem vex allra síst í tómarúmi hlutleysis, heldur einkum í því umhverfi þar sem tekin er ákvörðun um að vökva það og fylgja því eftir.

Heilbrigð lífsskoðun er ein besta gjöf sem þú færir barninu þínu, að öllum góðum jólagjöfum sem öðrum gjöfum ólöstuðum og lífsskoðun sem er í eðli sínu kærleikur verður aldrei þröngvað upp á þig. Það er áhugavert að velta fyrir sér áhrifum fæðingarfrásögunnar á mannssálina sem einmitt opinberar góða þekkingu Guðs á mannfólkinu og hvernig ná skal til þess. Það er t.d. ekki bara eðli móðurinnar að taka umkomulaust barn í fang sér og veita því hlýju, það býr í okkur öllum, jafnvel þótt við reynum að láta sem við séum tilfinninga-og afskiptalaus.

Þá er ljóst að sársauki, sem óneitanlega einkennir fæðingarfrásöguna, situr fremur eftir í hugskoti en gleðiminningar. Guðmundur Friðjónsson skáld frá Sandi í Aðaldal kemur inn á þetta í ritgerð þar sem hann fjallar um Þingeyinginn og rithöfundinn Þorgils gjallanda. Áhugaverð ritgerð. Þar skrifar Guðmundur af sinni alkunnu snilld eftirfarandi texta og tekur tvö dæmi um áhrif frásagna: “ Kona nokkur tekur barn til fósturs, umkomulaust og örbjarga, og elur önn fyrir því. Þetta er velgerð, sem allir menn lofa, sem vita um það, sem konan gerir. En þetta er þó ekki frásögulegur atburður, sem undrun gegni. Önnur kona ber út barnið sitt og týnir því. Öllum kemur saman um það, sem þetta heyra, að þetta sé illa gert og afskaplega. Þó er þetta miklu meira illvirki heldur en hitt er góðverk. En þetta er frásögulegra verk heldur en hitt. Það veldur meiri áhrifum en góðverkið á þvílíkan hátt sem sársauki er sterkari straumur í manninum heldur en gleði.”

Samkvæmt þessu mati Guðmundar, sem er á margan hátt litað lífsvisku og sterku innsæi, þá verður Betlehemsfrásögnin flokkuð með seinna dæmi skáldsins og styður í því sambandi vel við fyrrnefnda þekkingu Guðs á mannssálinni.Ósjálfbjarga barn er hvílir í jötu við frumstæðar aðstæður sendir okkur þau skilaboð að oft stöndum við ósjálfbjarga frammi fyrir lífinu. Oft brýst það þannig fram að stundum reynum við að gera eins vel og við getum en þrátt fyrir það gengur hvorki né rekur. Það er ósjaldan þannig þegar við viljum sýna hvað mest fram á fullkomleika okkar þá koma vankantarnir hvað skýrast í ljós.

Ég sat með fjölskyldu minni um daginn og horfði á bandaríska jólamynd er ber titilinn Christmas Vacation, gömul mynd sem er í miklu uppáhaldi hjá fjölskyldunni og iðulega horfum við saman á hana fyrir jólin. Hún greinir frá fjölskylduföður sem ætlar að hafa allt svo stórkostlegt á jólunum, jólatréð skyldi vera stærst, húsið allt uppljómað þannig að nágrannar fengu ofbirtu í augun og síðan var nánast allri ættinni boðið að vera með um jólin.

Það er skemmst frá því að segja að allt fór úr skorðum, tréð brann, séríurnar sem þöktu húsið ætluðu aldrei í gang eftir að fjölskyldufaðirinn hafði nánast drepið sig á þakinu, misheppnaði bróðirinn bættist svo fyrirvaralaust í hópinn með allt sitt, og síðast en ekki síst hafði yfirmaður fjölskylduföðurins sleppt því að greiða út jólauppbótina.Þessi kvikmynd er hin besta skemmtun og grínið kom jú fram í því að löngunin eftir fullkomleikanum var sannarlega til staðar en allt fór svo á annan veg. Slíkt þema er algengt í heimi grínkvikmynda. En stefið minnir okkur líka á það að læging Guðs með því að stíga til jarðar í holdi vekur okkur til meðvitundar um að mennskan er takmörkunum háð og til þess að lifa með því þarf að tileinka sér þá kúnst að viðurkenna breyskleikann og læra af þeim afleiðingum, sem hann getur haft.

Það er ein af hliðum þeirrar þekkingar sem við megum uppgötva þegar við förum leið fjárhirða að fæðingarstaðnum. Að lifa með veikleikum, að lifa með sorgum okkar og sársauka, það gerist með því að viðurkenna, horfast í augu við, tjá sig um innstu tilfinningar, taka afstöðu og þiggja hjálp því þrátt fyrir að slík skref séu þung þá eru þau hluti af fyrrnefndum vegi í átt að dýrð Guðs, í átt að friðarljósinu í Betlehem. Amen.