„Nú er hagkvæm tíð, nú er hjálpræðisdagur“

„Nú er hagkvæm tíð, nú er hjálpræðisdagur“

Upphaforð pistilsins sem lesinn var hér áðan voru þessi: Nú er hagkvæm tíð, nú er hjálpræðisdagur. Þessi orð eru hugsuð sem inngangur að þeim orðum sem ég les nú úr gamalli homilíu.
fullname - andlitsmynd Sigurður Sigurðarson
04. mars 2003
Flokkar

Þegar þér fastið, þá verið ekki daprir í bragði, eins og hræsnarar. Þeir afmynda andlit sín, svo að engum dyljist, að þeir fasta. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín. En nær þú fastar, þá smyr höfuð þitt og þvo andlit þitt, svo að menn verði ekki varir við, að þú fastar, heldur faðir þinn, sem er í leynum. Og faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.

Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela. Safnið yður heldur fjársjóðum á himni, þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela. Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera. Matt 6.16-21

Upphaforð pistilsins sem lesinn var hér áðan voru þessi: Nú er hagkvæm tíð, nú er hjálpræðisdagur. Þessi orð eru hugsuð sem inngangur að þeim orðum sem ég les nú úr gamalli homilíu.

„Hvernig gæti ég valið þau orð, sem væru fremur viðeigandi upphaf ræðu minnar á hinni mestu og helgustu föstutíð en þessi orð sem Kristur mælir fyrir munn postulans. Nú er hagkvæm tíð, nú er hjálpræðisdagur. Þó að aldrei renni upp sú tíð sem ekki er rík af guðlegum gjöfum og við höfum alltaf auðveldan aðgang að miskunn Guðs fyrir náð hans, þá ættu samt hugir okkar að hrærast af einn meira afli til þess á þessum tíma að sækjast eftir því að vaxa andlega.

Það er vegna þess, að þegar sá dagurinn sem við vorum endurleyst á nálgast, er hann okkur hvatning til þess að sækjast eftir því að framganga í guðrækni og dyggðum svo að við megum með hreinum huga og líkama fagna þeim leyndardómi sem af öllum ber og felst í helgri píslargöngu frelsaran.

Raunar getur slíkur leyndardómur gert kröfu til þess að við rifjum stöðugt upp og tilbiðjum án afláts og leitum nærveru Guðs með því móti sem hæfilegt er á páskahátíðinni. Samt er slík dyggð fáum gefin, og vegna veikleika manna er þungbær iðkun milduð, og vegna þess að viðfangsefni lífsins krefjast margvíslega athygli okkar verða hjörtu hinna helguðu jafnvel flekkuð af ryki heimsins.

Þessa vegna mín elskuðu, hefur forsjón Guðs séð okkur fyrir fjörutíu daga íhugunartíma þegar við eigum að eignast á ný hreinleika sálarinnar." ( úr homilíu Leos 1., lausl. Þýðing)

Þessi orð eru úr 1500 ára gamalli predikun, og ef við íhugum til hvers hún sé þessi fasta sem nú er framundan þá þarf svo sem ekki að segja mikið fleira. Hún er til þess að við vöxum andlegum vexti, hristum ryk heimsins af sálum okkar og verðum viðbúin að fagna leyndardómi endurlausnar okkar í dauða og upprisu Jesú Krists.

Orðin úr Jesaja og Guðspjallið sem hér voru lesin eiga það sameiginlegt að fjalla um þóknanlega föstu. Það er sú fasta sem vekur með okkur kærleika og ábyrgð gagnvart hinum þurfandi og fasta sem ekki er til að ganga í augun á mönnum heldur er í leynum frammi fyrir honum sem er í leynum. Til þess, að slíkar hvatningar og orð predikunarinnar fornu sem ég vitnaði í hafi nokkra merkingu fyrir okkur, þurfum við að hafa gert upp við okkur hvar fjársjóður okkar er.

Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera. Hin andlegu viðfangsefni föstunnar hljóta því að krefja okkur nokkurs uppgjörs um lífsafstöðu okkar alla. Við tölum réttilega um að það sé margt sem truflar hina andlegu iðkun okkar í veröldinni í dag. Í daglegu lífi okkar erum við krafin um ákvarðanir og viðbrögð og viðfangsefnin óhjákvæmilegu krefjast athygli okkar. Um þetta deilum ekki.

En tökum þá eftir því, að um þetta sama talar kristinn predikari á 5. öld. Maðurinn er samur við sig þrátt fyrir margvíslegar breytingar í lífsháttum hans. Spurningarnar, sem hver maður verður að takast á við og svara, eru svo margar þær sömu um aldaraðir.

Þó að umfjöllun um efnahagsmál verði æ fyrirferðameiri og næstum sýnist að manngildi sé metið eftir eign og efnalegum umsvifum, þá hefur það ekki breyst, að þegar við hvert og eitt gerum í huganum upp líf okkar og liðna tíð komumst við ekki hjá því að svara spurningunni um hvar okkar raunverulegi fjársjóður sé.

Þegar við leitumst við að svara þeirri spurningu leitum við jafnvel að tilgangi lífs okkar og réttlætingu strits okkar. Er þetta eftirsókn eftir vindi eða hefur það gildi og merkingu? Það er ekki síst þessi spurning sem fastan og efni hennar leggur okkur á hjarta. Það kann að vera sársaukafullt að takast á við þessa spurningu og mjög erfitt mitt í öllum þessum viðfangsefnum lífsins sem kalla á athygli okkar.

En hvað eigum við þá að gera, hvernig eiga föstuiðkanir okkar að vera? Það eru rúm 30 ár síðan ég á miðju sumri hitti eldri mann, sem kvartaði sáran yfir því, að ekki væri gert hlé á dagskrá sjónvarpsins meðan verið væri að lesa passíusálmana í útvarpinu. Þarna voru föstuiðkanir hans og annarra truflaðar að hans mati. Athygli hans var krafist úr annarri átt en átti að vera. Hann stóð skyndilega frammi fyrir vali um hvort hann slökkti á sjónvarpinu eða útvarpinu meðan passíusálmarnir voru lesnir, og það val var honum greinilega erfitt. Þekkjum við ekki öll slíka hluti úr okkar eigin fari? Þá skulum við líka minna okkur sjálf á, að það fastar enginn í neinum skilningi nema hann hafi tekið ákvörðun um það. Enginn tekur ákvörðun um að fasta nema að hann sjái með því eitthvert markmið framundan.

Predikarinn gamli, sem ég vitnaði í, sagði að markmið föstunnar væri að hreinsa sálina, dusta ryk heimsins af henni. Eins og nú hagar til í samtíð okkar tel ég að til þess að þrengja þetta markmið aðeins væri öllum hollt að nota einn föstutíma til þess eins að svara spurningunnni um hvar fjársjóður manns er og gera það af alvöru og án undansláttar. Það kann að leiða til nokkurs sársauka í bili, sársauka sem þó kemur yfir hvern og einn fyrr eða síðar.

En það leiðir líka til þess að hjartað eignast skjól og sitt heima þar sem það getur hvílt í skarkala hins kröfuharða heims, sem þyrlar upp ryki sínu í sífellu. Það verður líka til þess að hvert og eitt okkar getur bent öðrum á það af meiri vissu og sannfæringu hvar sé að finna þann fjársjóð sem hvorki mölur eða ryð eyðir.

Slík andleg iðkun leiðir líka til þess að við vöxum andlega til skilnings á tilgangi lífs okkar, sem við megum vita að hefur eilífan tilgang og eilíft mikilvægi fyrir þann kærleika Guðs sem opinberast okkur í dauða og upprisu Drottins. Þá vöxum við líka til þess að þrá nærveru Guðs og óttumst hann einan en ekki menn.

Sigurður Sigurðarson er vígslubiskup í Skálholti. Þessi prédikun var flutt í morgunmessu í Skálholti 4. mars 2003. Lexía: Jes. 58.5-8; pistill: 2. Kor. 5.20b-6.2; guðspjall: Matt. 6.16-21.