Megrunarlausi dagurinn

Megrunarlausi dagurinn

Megrunarlausi dagurinn er í dag. Dagurinn á að fá fólk til að hugsa hvað virkilega skiptir máli í lífinu enda auðvelt að festast í þráhyggju um eigið útlit, línur, föt, stíl, eignir og upphefð. Dagurinn er andsvar við öfgaáherslum markaðssamfélagsins um æsku og útlitsdýrkun. Könnun sem birt var fyrir nokkru sýndi að yfir 90% kvenna í Bretlandi líta ekki sáttar í spegilinn.
fullname - andlitsmynd Guðni Már Harðarson
06. maí 2008

Megrunarlausi dagurinn er í dag. Dagurinn á að fá fólk til að hugsa hvað virkilega skiptir máli í lífinu enda auðvelt að festast í þráhyggju um eigið útlit, línur, föt, stíl, eignir og upphefð.

Dagurinn er andsvar við öfgaáherslum markaðssamfélagsins um æsku og útlitsdýrkun. Könnun sem birt var fyrir nokkru sýndi að yfir 90% kvenna í Bretlandi líta ekki sáttar í spegilinn.

Baðvog,,Þú verður að líta vel út”, er ógnarsterk krafa, ég fletti um daginn tímaritinu Nýju lífi, sem telja verður hófstillt kvennablað, þegar ég var búin að fletta 16 blaðsíðum höfðu 12 myndir af ofurmódelum birst mér í formi ilmvatns og tískuauglýsinga. Engu að síður er Nýtt líf blað sem tekur á mörgum samfélagsmeinum og birtir árlega fjölda góðra viðtala, um sorgir og sigra, sem hjálpað hafa mörgum.

Skilaboð markaðssamfélagsins eru lúmsk og síast jafnvel inn án þess að við gerum okkur grein fyrir því.

Dagurinn í dag, snýr að sjálfsmynd og aðalatriðum. Hvað skiptir mestu máli í lífinu?

Forsetafrú á gamals aldri var spurð hvort hún vildi breyta einhverju í lífi sínu ef hún fengi tækifæri til. ,,Þegar ég hugsa til baka, velti ég því ekki fyrir mér hvers vegna ég eignaðist ekki meiri pening, hví ég tók ekki fleiri háskólagráður, eða af hverju ég ég lét ekki oftar blása á mér hárið. En mikið vildi ég að ég hefði oftar notið þessa að finna blómailm, að ég hefði oftar faðmað þá sem ég elska og að ég hefði oftar borðað rjómaís.”

Kristin trú beinir sjónum okkar að því sem raunverulega skiptir máli þegar allt kemur til alls.

Kristin trú hvetur þig til að líta í spegilinn með sömu augum og Jesús Kristur sér þig. Líttu í spegilinn og sjáðu sjálfa(n) þig og fólkið í kringum þig með sömu augum og Guð s sér þig. Sem óendanlega dýrmæta persónu, einstakling sem skiptir máli. Jesús lítur ekki á þig og segir: ,,Heyrðu hún er að byrja fá hrukkur, þetta er agalegt!”. Hann lítur ekki á mittismálið og segir: ,,Bíddu við, hér er ekkert sixpakk. Nú yfirgef ég hann, hann er að fá ístru.”

Jesús Kristur, horfir á þig af því að þú átt líf, þú skiptir máli og getur látið gott af þér leiða, óháð líkamlegu atgervi og limaburði.

Danski heimspekingurinn Sören Kirrkegaard skrifaði einu sinni: ,,Þegar þú fæddist grést þú á meðan ástvinir þínir glöddust, lifðu lífinu þannig að þegar þú yfirgefur þennan heim að þá gleðjist þú á meðan þínir nánustu gráta.”

Er þetta ekki kjarni málsins? Þín verður ekki saknað fyrir það hversu smart þú varst í tauinu, þín verður ekki minnst vegna BMW-jeppans og fólk mun ekki gráta þig sökum þess að þú náðir alla þína daga að vera í kjörþyngd.

Nei, Guð gefi að fólk sakni okkar sökum þess að við gengum á Guðs vegum, við þráðum að láta gott af okkur leiða og okkur tókst að horfa á fólkið í kringum okkur með augum Guðs.

Kristið líferni snýst um að koma kærleikanum í verk, að horfa á heiminn með augum Jesú, að biðja fyrir þeim sem fara í taugarnar á okkur, biðja fyrir þeim sem jafnvel þola okkur ekki, hugsa þannig fallega til þeirra, sigra illt með góðu. Við eigum að gráta með grátendum, fagna með fagnendum. Reiðast þegar Jesú hefði reiðst. Þegar við lesum guðspjöllin er margt sem reitir Jesú til reiði, fátækt, mismunun, kynþáttahatur, manngreinarálit og ójafnrétti.

En til þess að við skiljum þetta til fulls verðum við að lesa um Jesú og hvernig hann horfði á fólk, hvernig augum hann lítur á þig. Það gerum við ekki nema með því að lesa guðspjöllin og lesa í Biblíunni. Hvernig væri að nota megrunarlausa daginn til að nærast duglega af andlegri fæðu Guðspjallanna og fá sér svo nokkra af sálmum Davíðs í eftirrétt?

Byggt á prédikun fluttri í Léttmessu í Árbæjarkirkju á megrunarlausa daginn 2007.