Ásjóna Krists í angist manns

Ásjóna Krists í angist manns

Sá veruleiki sem blasti við fjórða vitringunum í leit hans að Kristi er því miður veruleiki dagsins í dag. Mönnum er misþyrmt í skúmaskotum íslenskra veitingastaða, börn myrt í pólitískum tilgangi í Keníu, ungar stúlkur frá austurhluta Evrópu seldar mansali í nafni einstaklingsfrelsis og gróðafíknar. Gegn öllu þessu ber okkur að berjast, gegn illskunni, hvaða nafni sem hún nefnist.

Þegar Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu á dögum Heródesar konungs komu vitringar frá Austurlöndum til Jerúsalem og sögðu: „Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga? Við sáum stjörnu hans renna upp og erum komnir að veita honum lotningu.“ Þegar Heródes heyrði þetta varð hann skelkaður og öll Jerúsalem með honum. Og hann stefndi saman öllum æðstu prestum og fræðimönnum og spurði þá: „Hvar á Kristur að fæðast?“ Þeir svöruðu honum: „Í Betlehem í Júdeu. En þannig er ritað hjá spámanninum: Þú Betlehem, í landi Júda, ekki ert þú síst meðal hefðarborga Júda. Því að höfðingi mun frá þér koma sem verður hirðir lýðs míns, Ísraels.“ Þá kallaði Heródes vitringana til sín á laun og grófst eftir því hjá þeim hvenær stjarnan hefði birst. Hann sendi þá síðan til Betlehem og sagði: „Farið og spyrjist vandlega fyrir um barnið og er þið finnið það látið mig vita til þess að ég geti einnig komið og veitt því lotningu.“ Þeir hlýddu á konung og fóru. Og stjarnan, sem þeir sáu austur þar, fór fyrir þeim uns hana bar þar yfir sem barnið var. Þegar þeir sáu stjörnuna glöddust þeir harla mjög, þeir gengu inn í húsið og sáu barnið og Maríu, móður þess, féllu fram og veittu því lotningu. Síðan luku þeir upp fjárhirslum sínum og færðu því gjafir, gull, reykelsi og myrru. En þar sem þeir fengu bendingu í draumi að snúa ekki aftur til Heródesar fóru þeir aðra leið heim í land sitt. Matt 2.1-12
Vitringar úr austurátt Þegar Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu á dögum Heródesar konungs komu vitringar frá Austurlöndum til Jerúsalem... Þannig hefst frásögn Matteusar guðspjallamanns af heimsókn austurlenskra lærdómsmanna til lítils barns og móður þess fyrir margt löngu. Við minnumst þessa atburðar á þrettándanum, sem samkvæmt okkar hefð er síðasti dagur jóla, en upphaf hátíðarinnar hjá kristnum systkinum okkar í rétttrúnaðarkirkjunni.

Ekki er margt vitað fyrir víst um vitringana, annað en að þeir voru frá Austurlöndum og höfðu með sér fjárhirslur á ferð sinni í leit að nýfæddum konungi. Þeir hafa verið stjarnfróðir menn og trúað því að af gangi himintunglanna mætti ráða vegferð mannkyns. Af tölu gjafanna hefur þótt líklegt að þeir hafi verið þrír, þó það komi hvergi fram í frásögninni.

Á sjöttu öld eftir Krist getur fyrst um nöfn þeirra, Kaspar, Melkíor og Baltasar. Síðar þróast mynd þeirra skýrar. Kaspar var lýst sem öldungi með hvítt skegg frá Tarsus, landi verslunarmanna, og hann hafi fært barninu gullið. Melkíor sáu menn fyrir sér sem miðaldra konung frá Arabíu og að gjöf hans hafi verið reykelsið. Um Baltasar var sagt að hann væri frá Seba, ungur maður, dökkur yfirlitum, og hafi hann komið með myrru handa barninu.

Aragrúi úlfalda mun þekja land þitt, drómedarar frá Midían og Efa og allir, sem koma frá Saba, færa þér gull og reykelsi og flytja Drottni lof.     Jes 60.6
Kóngi lotning þeim að veita Þessar myndir vitringanna eru prédikun í sjálfu sér, enda myndmálið oft eina miðlun trúarinnar á öldum fáfræði almennings og ólæsi. Með því að gefa þeim ólíkan uppruna, stöðu og aldur er boðskapurinn sá að hver kynstofn, hvert aldursskeið  og mannlífsgerð eigi að lúta undrinu mikla, Guði í heiminn borinn. Hirðarnir, sem á undan komu, dýpka myndina enn. Þar eru heimamenn á ferðinni, venjulegt fólk í venjulegri vinnu þess tíma, alls óvitandi um stjörnu á himni eða helg fræði.

Þannig eigum við okkur öll, hver sem við erum, ung eða gömul, óháð kynþætti eða þjóðfélagsstöðu, stað við fætur Jesú, stað auðmýktar og lotningar, stað endurreisnar og nægta. Vitringarnir, þeir tignu menn, féllu fram, lögðust bókstaflega flatir, og veittu litlu barni lotningu. Hirðarnir vegsömuðu Guð og lofuðu hann fyrir það sem þeir höfðu heyrt og séð. Og fjárhirslurnar opnuðust báðum hópunum, vitringunum til að gefa barninu með sér af auðæfum og visku, hirðunum og þeim fyrrnefndu einnig líf Guðs, líf í fullri gnægð í lofgjörðaranda.

Þjóðir munu stefna á ljós þitt og konungar á ljómann sem rennur upp yfir þér. Hef upp augu þín og litast um, þeir safnast allir saman og koma til þín, synir þínir koma langt að og dætur þínar verða bornar á örmum. Við þá sýn muntu gleðjast, hjarta þitt mun slá hraðar og fyllast fögnuði því að til þín hverfur auður hafsins og auðæfi þjóða berast þér.    Jes 60.3-5
Fjórði vitringurinn Til eru ýmsar gerðir af helgisögn um fjórða vitringinn. Í sögu eftir Henry Van Dyke ber hann nafnið Artaban og er hún sem hér segir í lauslegri endursögn minni:

Artaban ver vel stæður maður, en seldi allt sem hann átti svo sem ríki maðurinn í dæmisögu Jesú (Matt 13.45-46) og keypti fyrir andvirði aleigu sinnar þrjá dýrgripi. Síðan lagði hann af stað í langferð til fundar við hina vitringana og hafði ekkert með sér utan djásnin þrjú til að gefa nýfæddum konungi. Á leið sinni mætti hann manni sem fallið hafði í hendur ræningjum og lét sér annt um hann, svo sem einn miskunnsamur Samverji (Lúk 10.30-37). Fyrir hjúkrun mannsins og uppihald reiddi hann einn dýrgripinn, þriðjung aleigu sinnar, af hendi.

Kominn til Jerúsalem – og orðinn nokkuð seinn fyrir - vildi Artaban spyrja til vegar í húsi nokkru. Hitti hann þá fyrir óttaslegna móður sem þrýsti litlum dreng að brjósti sér. Barnamorð Heródesar stóðu yfir, svo sem frá greinir í Matteusarguðspjalli (Matt 2.16-18) og fékk Artaban goldið dýrgrip fyrir líf barnsins unga. Átti hann þá aðeins eitt djásn eftir til að gefa konungi þjóðanna, dýrmæta perlu.

Nú fékk vitringurinn þær fréttir að Jósef og María væru flúin til Egyptalands vegna bendingar í draumi um yfirvofandi ofsóknir (Matt 2.13-15). Fór hann þá sem leið lá til Egyptalands en fann ekki barnið tigna þrátt fyrir áralanga leit. Loks bar hann aftur til Jerúsalem, þremur áratugum og miklum þrengingum síðar. En perluna bar hann enn í belti sínu, gjöf til frelsara heimsins.

Uppþot voru í Jerúsalem við komu Artabans, sem nú var orðinn gamall maður og kominn af fótum fram, mikil ringulreið og fólksmergð -  menn leiddir til aftöku. Skyndilega var ungri stúlku hrundið að fótum hans, hlekkjaðri og hrakinni. Henni hafði verið rænt frá foreldrum sínum og skyldi seld hæstbjóðanda á þrælamarkaði. Svo fór að gamli maðurinn dró fram síðasta djásnið, perluna fögru, og keypti stúlkuna lausa.

Í sömu andrá varð jarðskjálfti og Artaban féll í ómegin. Sá hann þá ásjónu hins líflátna konungs, uppljómaða himneskri dýrð, og orð Krists hljómuðu fyrir eyrum hans: Kom þú, sem faðir minn á og blessar... Því hungraður var ég og þú gafst mér að eta, þyrstur var ég og þú gafst mér að drekka, gestur var ég og þú hýstir mig, nakinn og þú klæddir mig, sjúkur og þú vitjaðir mín, í fangelsi og þú komst til mín. Matt 25.34-36

Ljós þitt sem morgunroði Nýliðin er jólafasta og innan örfárra vikna hefst níuviknafastan til andlegs undirbúnings páskahátíðar. Orð Jesaja spámanns enduróma í orðum Jesú:

Sú fasta sem mér líkar er að leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok, það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu, hýsir bágstadda, hælislausa menn og ef þú sérð klæðlausan mann, að þú klæðir hann og firrist ekki þann sem er hold þitt og blóð. Þá brýst ljós þitt fram sem morgunroði...     Jes 58.6-8
Sá veruleiki sem blasti við fjórða vitringunum í leit hans að Kristi er því miður veruleiki dagsins í dag. Mönnum er misþyrmt í skúmaskotum íslenskra veitingastaða, börn myrt í pólitískum tilgangi í Keníu, ungar stúlkur frá austurhluta Evrópu seldar mansali í nafni einstaklingsfrelsis og gróðafíknar. Gegn öllu þessu ber okkur að berjast, gegn illskunni, hvaða nafni sem hún nefnist. Við þurfum að standa saman, kristið fólk um víða veröld, láta til okkar taka á hvern þann hátt sem í okkar valdi stendur, með fyrirbænum, fjársöfnunum, á allan hátt í orði og verki.

Í dag tökum við samskot hér í Hallgrímskirkju sem renna til Kristniboðssambandsins. Það er ekki seinna vænna að færa kristniboðinu jólagjöf, á síðasta degi jóla. Í jólabréfi frá SÍK er fjallað um mikinn ávöxt starfsins í Eþíópíu og Keníu og hvernig þúsundir manna fá ný tækifæri og vonarríka framtíð fyrir framlög íslenskra kristniboðsvina. Kristniboðunum okkar hefur nú verið komið á öruggan stað í Nairóbí og biðjum við þess og væntum að starfið geti haldið áfram innan tíðar, en sr. Jakob Ágúst Hjálmarsson fer utan eftir rúma viku til að styðja við menntun innlendra prédikara. Látum ljós okkar brjótast fram sem morgunroða, vonarstjörnu til fólks í andlegri og líkamlegri neyð.

Statt upp, skín þú, því að ljós þitt kemur og dýrð Drottins rennur upp yfir þér. Myrkur grúfir yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum en Drottinn er runninn upp yfir þér og dýrð hans birtist yfir þér.    Jes 60.1-2
Samkirkjuleg bænavika fyrir einingu kristninnar Alþjóðleg, samkirkjuleg bænavika er framundan, hefst næstkomandi sunnudag með útvarpsguðsþjónustu í Háteigskirkju og lýkur með samkomu í Neskirkju annan laugardag, 19. janúar. Hér í Hallgrímskirkju verða bænastund á mánudegi, 14. janúar, og kyrrðarstund í fimmtudagshádegi þann 17. janúar, helgaðar bæn fyrir einingu kristninnar. Um þessar mundir eru liðin 100 ár frá upphafi átta daga bænavöku með því sniði sem við þekkjum í dag, en sagan er enn lengri og ræturnar í Ameríku.

Samstarfsnefnd kristinna trúfélaga á Íslandi undirbýr bænavikuna hérlendis. Átta kristin trúfélög og samtök eiga fulltrúa í nefndinni, Aðventkirkjan, Hjálpræðisherinn, Hvítasunnukirkjan, Íslenska Kristskirkjan, Kaþólska kirkjan, Óháði söfnuðurinn og Vegurinn, auk Þjóðkirkjunnar. Ég hvet ykkur til að fylgjast með samkomum og bænastundum sem verða í öðrum kirkjum af þessu tilefni. Markmiðið með samkirkjulegu starfi er bæna- og lofgjörðareining hinnar stóru kristnu fjölskyldu, sem birtist í kærleiksverkum í anda Krists.

Nú skyldi kirkjan látin kunngjöra tignunum og völdunum á himnum hve margháttuð speki Guðs er. Þetta er Guðs eilífa fyrirætlun sem hann hefur framkvæmt í Kristi Jesú, Drottni vorum. Á honum byggist djörfung okkar. Í trúnni á hann eigum við öruggan aðgang að Guði.     Ef 3.10-12
Þú dásöm perla, dýr og skær Artaban seldi allt sem hann átti og gaf aleigu sína þeirri ásjónu Krists sem birtist honum í angist samferðamanna sinna. Gagnvart slíkum finnst okkur viðleitni hversdagsins ef til vill lítils virði. En margt smátt gerir eitt stórt og gjafirnar til náungans geta verið með svo margvíslegum hætti. Hefjum nýtt ár með því að krjúpa konungi lífsins, svo sem vitringarnir gerðu í reynd og verki, hvert okkar þar sem við erum stödd í lífsgöngunni, með þær þarfir og þær gjafir sem okkur hafa verið úthlutaðar. Við þurfum einskis með – nema Hans sem huggar, lífgar, leiðir og sannleiksbirtu breiðir (Sálmabók 89). Megi Hann vera okkur dásöm perla, dýr og skær á nýju ári svo við getum sagt með Páli postula:
Mér, sem minnstur er allra heilagra, var veitt sú náð að boða heiðingjum fagnaðarerindið um hinn órannsakanlega ríkdóm Krists og að upplýsa alla um það hvernig Guð hefur ráðstafað þessum leyndardómi sem frá eilífð var hulinn hjá Guði sem allt hefur skapað.     Ef 3.8-9