Jólaguðspjallið hlýtur að vera frægasta óléttusaga sem nokkurn tíma hefur verið sögð.
Óvenjuleg fæðingarfrásögn
Jú, víst eru þær margar nákvæmari sögurnar af
fæðingum, þessu kraftaverki móður náttúru sem tryggir viðgang lífs og komu nýrra
kynslóða. Slíkar frásagnir lýsa sterkum tilfinningum, kvíða, sárum verkjum og stundum
hamingju í æðsta veldi. Slíkt er þó fjarri því sjálfgefið. Stórir atburðir sem þessir,
snerta okkar innstu taugar bæði í gleði og sorg.
Fólk man ýmis atvik, stór og smá af slíku tilefni,
sem svo eru rifjuð upp jafnvel áratugum síðar. Eftir fæðingu frumburðar okkar
hjóna tók ég upp símann og sagði tíðindin. Enn fæ ég ekki skilið hvernig
tengdamamma gat verið komin inn á fæðingarstofuna nánast á því andartaki sem
mér fannst ég leggja frá mér símtólið. Klukkan var eitthvað að ganga sex um
morguninn og hún var í Hafnarfirðinum þegar ég hringdi – við auðvitað á
Landspítalanum. Og vel að merkja, árið var 1991 og öll símtöl fóru fram um
fastalínur. Ég hefði ekki viljað mæta henni á Reykjanesbrautinni.
Yfirvegaður Lúkas
Ég vil alls ekki vera leiðinlegur, svona á stærstu
hátíð kirkjunnar, en þegar við lesum jólaguðspjallið verður ekki annað sagt en
að sú óléttu- og fæðingarsaga sé óvenjuleg svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Sagan segir fátt af því sem kann að vekja mesta forvitni okkar en staldar þvert
á móti við atvik sem fæstir hefðu eytt í, miklu púðri.
Þessar frásagnir sem ganga í fjölskyldum og vinahópum
myndu örugglega ekki hefjast á orðunum: „Það var á dögum Ólafs Ragnars Grímssonar,
þegar Jóhanna Sigurðardóttir var forsætisráðherra að við áttuðum okkur á því að
það voru síðustu forvöð að senda frá okkur skattaskýrsluna.“
Hver myndi byrja svona, þegar lýst er fjölgun í
fjölskyldu? Ég tala nú ekki um ef í ljós hefði komið að svo mikið hefði verið
að gera fæðingardeildinni að verðandi foreldrar hefðu bara drifið sig í
húsdýragarðinn til að koma krílinu í heiminn? Frá þessu væri bara greint svona
í lokin, eins og það væri næstum því bara eðlilegur hlutur.
Já, Lúkas er yfirvegunin uppmáluð. Sagt er að hann
hafi verið læknir svo mögulega hefur fæðing barns ekki verið honum mikið
tiltökumál. Hann byrjar það minnsta á upptalningu á landstjórum og endar auðvitað
á hjarðmönnum úti í haga. Við heyrum ekkert af legvatni, hríðum og útvíkkun. Lét
María, Jósef fá það óþvegið, þarna í hita leiksins? Og hversu glöð voru þau, fyrst
allt gekk vel um síðir? Það er nú fjarri því sjálfgefið, eins og allir vita.
Fyllt í eyður
Já, fæðing er stórmál og sú sem Lúkas segir, leyfir
okkur að geta í eyðurnar og fylla upp í það sem vantar. Það hafa síðari kynslóðir
gert og skortir ekkert á ímyndunaraflið og sköpunargáfuna í þeim efnum. Þar eru
öll svið listarinnar meðtalin. Nú á aðventunni komu nemendur í fjórða bekk Melaskóla
hingað í kirkjuna og settu söguna á svið með eftirminnilegum hætti. Mér var
tjáð að stúlkunum hefði þótt mest varið í að fá leika Maríu sem átti líka
lokaorðin í helgileiknum: „Guð gefi okkur öllum gleðileg jól!“ Bláklæddar
Maríur fluttu þá kveðju af slíkri innlifun að undir tók í helgidómum.
Og hér komum við saman á helgum jólum og minnumst þessarar
frásagnar í enn eitt skiptið. Við brjótum heilann um hana eins og svo margir
aðrir hafa gert. Mögulega eru það einmitt eyðurnar í sögunni og ólíkindin sem
gefa henni enn meiri töfra. Þannig er Biblían og þannig er trúin. Þetta upphaf
hins Nýja testamentis, atburðurinn sem við miðum tímatal okkar við, er engin
tæmandi upptalning. Þar er nóg pláss eftir fyrir stórar spurningar.
Andstæður
Já, og hversu ótrúlegar eru þær andstæðurnar í
sögunni. Þarna eru þeir, Ágústus keisari og Kýreníus landstjóri sem réðu örlögum
þegna sinna – og svo fátækir hjarðmenn. Við sjáum fyrir okkur dýrin í dimmu fjárhúsinu
– og bjartan englaherinn. Og þar er sungið um dýrðina í upphæðum – og friðinn á
jörðu. Mesta andstæðan og stærsti leyndardómurinn birtast okkur loks í
hvítvoðungnum. Þar mætir okkur mynd hins æðsta og máttugasta. Þar er Guð í
allri sinni dýrð – og í öllum sínum veikleika, sem nýtt líf, gróandi og vöxtur
en um leið svo umkomulaust og veikburða. Á þessu æviskeiði kann manneskjan í
rauninni aðeins eitt – sem er að vekja kærleika hjá þeim sem næst standa. Þetta
er birtingarmynd Guðs í þessari sögu.
Svona er þá kannske Guð
Við getum staldrað við þessa þætti og hugsað með
okkur – svona er þá kannske Guð? Guð mætir okkur í sögu sem færir okkur ýmis tíðindi
sem við hefðum ekki endilega lagt eyrun við, en lætur ósagt um margt sem við hefðum
viljað heyra meira af. Guð birtist okkur sem nýfætt barn – í senn fullkomið og
algerlega vanmáttugt. Guð opinberar sig fátækum hirðingjum sem sitja úti í
haga. Og við stöndum eftir með boðskapinn, brjótum heilann, fyllum í eyður,
spurningum er ósvarað og mögulega áttum við okkur á því að á sumum sviðum
tilverunnar erum við sjálf eins og nýfætt ungviði.
Og þar leynast töfrar trúarinnar. Hún er ekki fyrirlestur
þar sem við sitjum þögul hjá og hlustum. Hún er miklu líkari samtali við góðan
hlustanda. Hann grípur ekki fram í, bíður ekki í ofvæni eftir að koma sínum
sjónarmiðum að, heldur gefur okkur svigrúm til að bregðast við sjá, tjá og
túlka það sem við höfum fengið að skynja.
Þannig verður fæðingarsagan réttnefnd sköpunarsaga. Boltinn er hjá okkur. Listamenn umfaðma frásöngina í töfra, tóna, liti og leik. Börnin tjá þetta og túlka.
Maríurnar úr Melaskóla stigu fram í bláa möttlinum
sínum og fylltu út í þetta rými með jólakveðju sinni. Við gerum slíkt hið sama:
„Guð gefi okkur öllum gleðileg jól!“