Listin, trúfrelsið og fjölmenningin

Listin, trúfrelsið og fjölmenningin

Hafir þú ekki kynnst kristinni trú eða islam, - hér mætti raunar nefna hvaða sið sem væri, það sem þú þekkir ekki, það veistu næsta fátt um og þá er giska auðvelt að læða inn alls kyns fyrirframhugmyndum. Vantrú og vanþekking er algengasta rót allra fordóma.

Predikun á aðventukvöldi í Ísafjarðarkirkju Listin, trúfrelsið og fjölmenningin Cinema Paradiso og Andrés önd berrassaður Vantrú, vanþekking og fordómar

I.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.  Amen.

Þegar margir leggjast á eitt þá verður útkoman góð.  Þar, sem hæfileikar og sköpunargáfa hvers og eins fær að njóta sín í samhljóman við aðrar manneskjur, þar verður til eitthvað stórt og fallegt.  Þetta heyrum við nú svo vel hér í kvöld þegar kórar og tónlistarfólk sameina krafta sína í að syngja inn aðventuna og skapa ákveðna stemmingu, sem kveikir í okkur þessa aðventutilfinningu, tilfinninguna fyrir því að hátíð ljóss og friðar sé á næsta leiti.

Þar sem margir leggja saman í púkk þar verður alltaf eitthvað gott til.  Við sjáum þetta líka hér í kvöld.  Hér fyrir aftan mig, uppi á kórveggnum er þetta frábæra listaverk, Fuglar himinsins, sem þið gerðuð með höndunum ykkar.  Frábært listaverk, sem vakið hefur verðskuldaða athygli.  Ísfirðingafélagið í Reykjavík og sóknarnefnd Ísafjarðar hafa gefið út jólakort með þessu verki.

Listakonan, sem fékk hugmyndina að verkinu, heitir Ólöf Nordal.  Hugmyndina sótti hún til helgisögunnar um lausnarann og lóurnar.  Hin upprunalega helgisaga er varðveitt í Bernskuguðspjalli Tómasar, sem ritað var seint á annarri öld af kristnum mönnum í Mesópótamíu.  Ritið tilheyrir svokallaðri Tómasarhefð innan apokrýfra rita Nýja testamentisins.  Þar er sagt frá því að Jesús hafi verið að leika sér með öðrum börnum á hinum helga hvíldardegi Gyðinga.  Þau stífluðu læki og síðan þegar moldin hafði blotnað þá hnoðuðu þau fugla úr leirnum.  En þá bar þar að einn strangtrúaðan siðapostula, sem endilega vildi banna þetta, því honum þótti þetta ekki samræmast reglum hvíldardagsins.

Þessi helgisaga varð brátt kunn um öll Mið-Austurlönd.  Hún rataði meira að segja inn í Kóraninn, sem er nú líklega það trúarrit þar sem lögmálshlýðni er hvað mest hampað.  Og sagan barst frá einni kynslóð til annarar.  Hún barst upp eftir allri Evrópu og var sögð á baðstofuloftinu í gamla daga þegar forfeður okkar tendruðu ljós til að vinna úr ullinni.  Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er sagan á þessa leið:

Einu sinni var Kristur að mynda fugla af leiri með öðrum börnum Gyðinga á sabbatsdegi. Þegar börnin höfðu verið að þessari iðju um hríð bar þar að einn af Sadúseum; hann var aldraður og siðavandur mjög og átaldi börnin fyrir þetta athæfi þeirra á sjálfum sabbatsdeginum. Hann lét sér þó ekki nægja ákúrurnar einar, heldur gekk hann að leirfuglunum og braut þá alla fyrir börnunum. Þegar Kristur sá hvað verða vildi brá hann hendi sinni yfir allar fuglamyndirnar sem hann hafði búið til og flugu þeir þegar upp lifandi. En það eru lóurnar og því er kvak þeirra „dýrrin“ eða „dýrrindí“ að þær syngja drottni sínum dýrð og lof fyrir lausnina frá ómildri hendi Sadúseans. Ef maður heyrir til lóunnar þetta fyrst á vorin: „Dýrrin, dýrrin“, veit það á gott; en heyri maður fyrst til hennar: „Óhú, óhú“, mun mótdrægt verða.

II.

Fuglar himins er afar vel heppnuð altaristafla.  Hún fellur vel að rýminu, flæðir yfir vegginn.  Og það er sama hvaða athafnir eru hér í kirkjunni, verkið hæfir þeim öllum.  Í kirkjuskólanum á fimmtudögum syngja börnin um hver hafi skapað fuglana áður en þau fara svo yfir í safnaðarheimilið til að skapa og búa til sínar eigin myndir.  Í messum eru fuglarnir eins og bænirnar, sem stíga frá brjóstum safnaðarbarnanna til Guðs, á tónleikum eru þeir eins hin vængjaða gáfa listarinnar, sem hefur mannsandann á flug, og við útfarir þá hugsar maður um sálir hinna látnu, sem stíga upp til Guðs.  Þetta er margræð altaristafla.

Þegar staðið er aftarlega í kirkjunni myndar verkið eina heild.  Þetta er svermur af fuglum, sem hópar sig saman til flugs.  Og síðan þegar nær er komið þá blasa við þessir 749 fuglar, sem hver um sig er einstakur og ólíkur öllum hinum, - alveg eins og við mennirnir erum.

Þegar margir leggjast á eitt þá verður útkoman góð.  Þar, sem hæfileikar og sköpunargáfa hvers og eins fær að njóta sín, þar verður til eitthvað fallegt.

III.

Helgisagan um lausnarann og lóurnar er saga með boðskap.  Hún kunngjörir mátt Jesú til að frelsa og gefa líf.  En í leiðinni gagnrýnir sagan líka blinda bókstafstrú, forræðishyggju, sem vill stjórna því hvað fólk gerir og skapar.  Kirkjunnar þjónar hafa í gegnum aldirnar iðulega fallið í þessa gryfju og orðið að sadúkeum, sem vilja banna fólki að dansa og spila.  Ég sé alltaf fyrir mér prestinn í bíómyndinni Cimema Paradiso, sem ritskoðaði allar myndir áður en þær voru sýndar í kvikmyndahúsinu, sat þarna og horfði á myndirnar og hringdi svo bjöllu ef hann sá eitthvað, sem særði blygðunarkennd hans.  Og þá voru öll heitu kossaatriðin klippt út.

Siðavanda sadúkea má finna í öllum kimum þjóðfélagsins, menn, sem í nafni trúar eða vantrúar, stjórnmálaskoðana eða einhverrar sannfæringar vilja banna og ritskoða.  Þannig hafa menn viljað banna Andrés önd af því að hann klæðist ekki neinum buxum, hann er berrassaður.  Aðrir hafa viljað banna trölla- og álfasögur af því það samræmist ekki strangri vísindahyggju.  Og núna í gær las ég það í blöðunum að varaformaður einhverra samtaka vill banna Litlu jólin í skólanum, vill banna að börnin leiki jólahelgileikinn um Maríu og Jósef, vill banna þeim að syngja sálma eins og Bjart er yfir Betlehem.  Banna, banna, banna.

Við skulum vara okkur á svona sadúkeum.  Lífið verður óskaplega leiðinlegt ef það má ekki lengur lengur flytja góðar helgisögur,  lesa þjóðsögur og segja ævintýri.

IV.

Trúfrelsi þarf að ríkja á Íslandi.  Það var baráttumál allra hugsandi manna á 17. og 18. öld.  Trúfrelsi er ekki frelsi frá allri trú.  Það er misskilningur.  Heldur er trúfrelsi frelsi til trúar, frelsi til að trúa því, sem stendur hjarta manns næst, já, frelsi til að trúa því sem manni sýnist og hegða sér í samræmi við sína innri sannfæringu.  Á tímum fjölmenningar og fjölhyggju er enn ríkari þörf en áður á því að trúfrelsi ríki.

Fordómar nærast undantekningalítið á vanþekkingu.  Hafir þú aldrei kynnst svertingjum þá er ef til vill ekki svo erfitt að telja þér trú um að þeir séu svona og hinsegin.  Hafir þú ekki kynnst kristinni trú eða islam, - hér mætti raunar nefna hvaða sið sem væri, það sem þú þekkir ekki, það veistu næsta fátt um og þá er giska auðvelt að læða inn alls kyns fyrirframhugmyndum.  Vantrú og vanþekking er algengasta rót allra fordóma.

Við þurfum að standa vörð um íslenskan sið, trú og menningu.  Og við þurfum líka að hjálpa nýbúum að gera sína menningu sýnilega.  Leyfa en ekki banna, frelsi en ekki höft.  Við þurfum kristilegt umburðarlyndi og siðgæði.  Ef við viljum eyða fordómum þá eigum við að hafa trú og siði sýnilega.  Virðing fyrir trú og skoðunum annarra er alltaf byggð á þekkingu en ekki ritskoðun.

Og lítið svo til Fugla himinsins, nýju altaristöflunnar.  Sjáið hvað fjölbreytileikinn er fallegur.  Hver fugl er það með sínu nefi, hver einstaklingur á sínum forsendum.  Þannig starfaði Jesús Kristur og kenndi; að hver maður væri dýrmæt sköpun Guðs.  Og þannig vill Þjóðkirkjan líka vinna, í anda hans, sem er ljós heimsins.

Guð blessi þig með ljósi Krists. Veri hjarta þitt brennandi, kirkjan ljómandi, myrkrið flýi jörð. Guð gefi okkur öllum gleðilega aðventu.  Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda.  Amen.