Þrefalda kærleiksboðorðið

Þrefalda kærleiksboðorðið

Og því má ekki gleyma að þegar kemur að okkur sjálfum erum erum við oftar en ekki hörðustu dómararnir. Myndin af Jesú kallast þar á við myndina af okkur sjálfum. Já, hvað sjáum við þegar við lítum spegilmynd okkar? Er það manneskja sem stenst ekki hinar hörðustu kröfur? Af hverju þurfa kröfurnar að vera svo harðar? Eru það ekki skilaboð dagsins að við eigum að slaka á, í þeim efnum? Leyfa okkur að vera þær manneskjur sem við erum, með ákveðina breyskleika en um leið svo mikla möguleika á að vaxa og gera gott.

Í síðasta tímanum nú á fimmtudaginn, þegar fermingarnámskeiði var að ljúka, sat ég með tveimur hópum í stofunni hjá Toshiki Toma, presti innflytjenda. Toshiki hefur ásamt samstarfsfólki sínu unnið með fólki sem hefur leitað hælis hér á Íslandi og er á flótta undan ofríki í sínu heimalandi og á þar jafnvel yfir sér dauðadóm.


Hvernig leit hann út?

 

Í þessum tíma ræddi hann um þá mynd eða öllu heldur þær myndir sem við höfum af Jesú. Toshiki sýndi þeim myndir frá ýmsum stöðum og tímum sem litu sannarlega ekki út fyrir að vera af sama manninum – en eru það nú samt. Við vitum jú ekki hvernig Jesús leit út. Hann hefur því verið málaður með afar ólíkum hætti. Í mörgum eldri kirkjum á Íslandi er hann afar norrænn á að líta ef svo má segja, ljós yfirlitum með þetta síða slétta hár og snyrtilegt skegg. Þannig var hann á Biblíumyndunum sem ég fékk í sunnudagaskólanum í gamla daga.

 

Sunnar á hnettinum er hann með dekkra yfirbragð. Toshiki sýndi myndir frá Afríku þar sem Jesús er hörundsdökkur og loks tilgátumynd sem fræðimenn settu saman, byggða á því hvernig útlit fólks var almennt á þessu svæði á þeim tíma sem Jesús var uppi. Þar er hann svarthærður og samanrekinn.

 

Fyrir mér er það svo sem ekkert vandmál ef listamenn hafa dregið upp myndir af Jesú í anda þess sem þeir höfðu sjálfir fyrir augunum dags daglega. Hitt er þó verra þegar nafn hans er notað til að viðhalda einhvers konar óréttlæti.

 

Og þá enn verra jafnvel ef skilaboðin eru þau að við eigum öll að vera einhvern vegin steypt í sama formið. Þannig hefur nafn hans verið misnotað í gegnum tíðina oft með hörmulegum afleiðingum.


Tvær sögupersónur

 

Já, hverfum þá aftur á bak til daga Jesú Krists. Í guðspjallinu sem hér var lesið birtist okkur mynd þótt hún sé aðeins tjáð með orðum. Eins og svo oft, já eins og á okkar dögum, blasa andstæðurnar við og þá er gott að hafa í hug hversu gjörn við erum að gera Jesú að talsmanni okkar hugmynda og jafnvel útlits.

 

Já, þarna mæta okkur tveir einstaklingar: Annars vegar var það faríseinn. Hann var talsmaður lögmálsins, er dómharður og fastur á sínu. Menn af þeirri stétt voru vandir að virðingu sinni og eins gott því þeir lifðu í þeirri trú að Guð héldi á réttlætisvoginni og dæmdi þá hart sem kynnu að misstíga sig í lífsins dansi.

 

Og svo var það konan, þessi sem sögð var vera bersyndug. Hún var alveg hinum megin á skalanum. Ef við hefðum verið upp á þessum tíma og hefðum viljað eignast volduga vini þá hefði verið miklu klókara að tala við faríseann en þessa konu sem hafði þennan ömurlega stimpil – bersyndug.  Og hvað gerir hún? Hún hleypur til Jesú kærleika og sem kallar fram iðrun og ósk um fyrirgefningu. Hinn er ískaldur og yfirvegaður, maður sem þarf ekkert að þiggja.

 

Já, þessar tvær manneskjur mæta Kristi í guðspjalli dagsins. Önnur er brotleg en kærleiksrík, hin er réttlát að eigin mati og finnur ekki hjá sér hvöt til þess að opna hjarta sitt í auðmýkt.


Kærleiksboðorðið

 

Af hverju ratar þessi frásögn á síður ritningarinnar? Jú, vegna þess að viðbrögð Krists eru svo ólík því sem við hefðum mátt vænta af slíkum manni. Hvers vegna bandaði hann ekki frá sér hinni syndugu konu eins og siðir og reglur gerður ráð fyrir? Hvernig gat hún staðið uppi með sigurkransinn í höndunum en ekki hinni háttprúði farísei?

 

Þessir valkostir senda okkur beint inn í kviku kristinnar trúar. Það er þetta sem Kristur vill sýna okkur þegar hann mætir þessu ólíka fólki. Og allt verður einhvern veginn öfugt í höndum hans. Hinni bersyndugu er tekið opnum örmum en hinn réttláti fær áminningu. Áminninguna útskýrir hann í dæmisögunni þar sem við erum minnt á það að ekkert okkar er né verður fullkomið. Við nálgumst ekki Guð á jafnréttisgrunni heldur komum við fram fyrir hann með skuldir okkar og syndabagga.


Þess vegna svaraði Jesús á þennan hátt þegar hann var inntur eftir því hvert boðorðanna væri merkilegast. Þá dró hann þau saman í þessa setningu sem við köllum tvöfalda kærleiksboðið: 


„Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“ (Mt. 22)


Hér er einmitt horft til hjartalagsins - rétt eins og frásögn þessi ber með sér. Hvar slær þessi kjarnavöðvi okkar? Ef sláttur hans er réttur þá þarf engin boð og engin bönn. Kærleiksrík manneskja sem lætur sér annt um Guð og náungann gerir að eigin ósk og frumkvæði það sem er rétt.


Þrefalda kærleiksboðorðið

 

Um leið erum við hvött til þess að hugsa okkur tvisvar um áður en við fellum dóma um systkini okkar. Okkur er jú hætt til að dæma og fordæma þau sem bera ef til vill synd sína utan á sér eins og konan gerði. Þar kemur þó allt út á eitt í augum Guðs því við höfum hvert og eitt okkar skuld sem við ekki getum greitt. En þegar við opnum hjarta okkar fyrir Guði þá tekur hann við okkur.

 

Í þessu samhengi blasir það við að við erum öll jöfn frammi fyrir Guði. Játningin og fyrirgefningin haldast í hendur. Og af fyrirgefningunni spretta góðir ávextir. Við eigum að ganga fram fordómalaust hvert við annars hlið og minnast þess að Guð tekur okkur opnum örmum er við nálgumst hann í kærleika og auðmýkt.


Og því má ekki gleyma að þegar kemur að okkur sjálfum erum erum við oftar en ekki hörðustu dómararnir. Myndin af Jesú kallast þar á við myndina af okkur sjálfum. Já, hvað sjáum við þegar við lítum spegilmynd okkar? Er það manneskja sem stenst ekki hinar hörðustu kröfur? Af hverju þurfa kröfurnar að vera svo harðar? Eru það ekki skilaboð dagsins að við eigum að slaka á, í þeim efnum? Leyfa okkur að vera þær manneskjur sem við erum, með ákveðina breyskleika en um leið svo mikla möguleika á að vaxa og gera gott.

 

Í tímanum hjá Toshiki teiknuðu fermingarbörnin sjálf svo myndir af Jesú og ég gægðist yfir öxl þeirra til að sjá hvert þau voru að fara. Viti menn, þar birtust líka fjölbreyttar myndir af alls kyns gaurum ef svo má segja. Sumir voru einhvers konar ofurhetjur, aðrir pattarlegir karlar með hring í eyra.

 

Hitt skiptir þó mestu máli sem er myndin sem Guð hefur að okkur. Í augum Guðs erum við dýrmæt hvert og eitt okkar og þannig eigum við líka að koma fram hvert við annað. 


Þannig verður þetta boðorð sem Jesús flutti í raun þrefalt. Já, við eigum að elska Guð, náungann og okkur sjálf.