Hugarfar samsteypunnar

Hugarfar samsteypunnar

Trúin sér það sem við getum ekki skilið, að eini endanlegi atburðurinn sem orðið hefur á jörðinni er sigur Krists yfir öllum atburðum.
fullname - andlitsmynd Jóna Hrönn Bolladóttir
27. september 2009
Meðhöfundar:
Bjarni Karlsson
Flokkar

I

„Úr djúpinu ákalla ég þig Drottinn!” (Davíðssálmur 130)

Þekkir þú þetta ákall? Kannast þú við þann stað sem hér er lýst? Hefur þú upplifað þig í djúpi sorgar og einsemdar og þekkir neyðina þegar ekkert er eftir nema ákallið á Guð? Enginn óskar þess að þurfa að svara þessu játandi.

Það er mikil reynsla að upplifa heilt þjóðfélag sökkva í djúp sorgarinnar. Flest höfum við áður ýmist upplifað það sjálf eða þekkt til einstaklinga sem þarna hafa verið staddir, en okkar kynslóð hefur ekki lifað það fyrr með sama hætti og nú að þjóðfélagið í heild gangi á vit sorgarinnar. Við tengjum gjarnan sorgina einkum við ástvinamissi en það eru til svo miklu fleiri sorgarefni sem jafnvel getur verið flóknara að vinna sig út úr. Þá segi ég ekki sárara heldur flóknara.

Íslenskt samfélag syrgir nú framtíð sína og sjálfsmynd. Við héldum að við værum að byggja upp glæsta efnahagslega framtíð fyrir börnin okkar og tryggja öryggi okkar og þeirra sem eftir koma. Foreldrar með börn á öllum aldri glöddust í hjarta sínu yfir því að geta afhent afkomendum sínum ríkara og tryggara samfélag en þau sjálf höfðu heilsað þar sem tækifærin væru óendanleg. Við hlógum stolt að svari stúlkubarnsins sem blaðamaðurinn spurði hvað hún ætlaði að gera þegar hún yrði stór, en hún svaraði: „Ég ætla að gera eitthvað sem ekki er búið að finna upp!” Þetta var Ísland, þetta var hin bratta og bjarta kynslóð hinna nýju tækifæra. Það eina sem truflaði okkur var undirliggjandi vitneskja um aukna stéttaskiptingu sem einkum var tengd fjárhagslegri stöðu manna. Munurinn á milli ríkra og fátækra var orðinn stjarnfræðilegur og það var sárt. En við þoldum það vegna þess að við héldum að allir væru samt að græða. Svo kom í ljós að allir voru allan tímann að tapa.

Þegar sorgin slær má búast við öllum viðbrögðum. Við erum svo ólík. Sum okkar bregðast hart við áföllum og sýna reiði, önnur leita inn á við með reiði sína og ganga í gegnum djúpa dali. Sumir verða sinnulausir og láta reka á reiðanum. Eða þá sinnuleysið og reiðin birtist í því að fólk brýtur á hagsmunum annarra með því að svíkja og stela, fyrst allt er hvort eð er orðið eitt alsherjar svindl. En blessunarlega eru viðbrögð flestra á þann veg á endanum að þau staðnæmast til þess að skoða skemmdirnar og skaðann og vega og meta í hverju hið raunverulega tap sé fólgið og hvar sé von að sjá og verðmæti sem ekki séu farin fyrir bí.

II

Í sögu dagsins (Matteusarguðspjall 11. kafli) kemur Jesús gangandi inn í ringulreið áfalls. Staðan var vonlaus í Betaníu og ásökun Mörtu á Jesú er svo óþægilega heiðarleg: „Ef þú hefðir verið hér væri bróðir minn ekki dáinn!” Sagan lýsir því hvernig Jesús fetar sig inn í ástandið, ef svo má að orði komast, og tekur inn að hjarta sínu þá neyð sem uppi er. Og við sjáum trú Mörtu skína eins og perlu í for þjáningarinnar er hún ber fram ásökun sína og trú í sama ávarpinu: „Ef þú hefði verið hér væri bróðir minn ekki dáinn. En einnig nú veit ég að Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um.”

- „Ef þú hefðir!” segir sorgin og reiðin, „En einnig nú veit ég” segir sorgin og trúin. Reiðin hugsar í þátíð, traustið er alltaf hér. Og Jesús svarar: „Bróðir þinn mun upp rísa.“ Marta segir: „Ég veit að hann rís upp í upprisunni á efsta degi.“ Og ég heyri hana segja þetta með pirringi. Ég heyri hana segja Jesú að hlífa sér við ódýru guðsorðagjálfri, hana varði ekkert um upprisu dauðra í komandi eilífð því bróðir hennar sem hún elskar er dáinn. Þá gerist það að Jesús stígur inn í núið með vinkonu sinn, horfir í augu hennar og mælir: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?“

- Ég er! Segir Guð.

Hér er komið hið helsta og fremsta einkenni þess Guðs sem Biblían kynnir; Ég er. Reynslan af Guði er alltaf hér og nú en reynsla reiði og kvíða er ætíð í fortíð eða framtíð. Þar er ekkert nú, engin andrá.

Trúir þú þessu? Spyr Jesús Mörtu þar sem þau staðnæmast í skarkala og glundroða sorgarinnar. Þarna standa þau líkt og í logninu í miðju auga stormsins og allt er á hvínandi ferð í kringum þau. „Trúir þú?” Spyr hann. Hún segir við hann: „Já, Drottinn. Ég trúi að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn.“ Og ég held að hún hafi verið hissa í röddinni; „Já, Drottinn. Ég trúi!”

III

Framhald þessarar sögu er þannig að fleiri bætast í hópinn, María systir Mörtu og Lasarusar kemur ásamt fjölda vina og vandamanna sem komnir eru til að hugga þær eftir bróðurmissinn, og þegar Jesús sér Maríu gráta og þau hin gráta sem með henni eru þá kemst hann við og spyr: Hvar hafði þið lagt hann?” Þau svara: Komdu og sjáðu. „Þá grét Jesús” segir orðrétt í guðspjallinu og er það styðsta en um leið eitt mikilvægasta versið í allri Biblíunni. „Þá grét Jesús” Guðs sonur fetaði veg samlíðunarinnar. Hann deildi kjörum með samferðafólki sínu. Sorg þeirra og missir gekk honum inn að hjarta.

Svo stendur hann úti við gröfina ásamt öllum hinum. - Gröfin bíður okkar allra, segjum við gjarnan. Gröfin eignast okkur öll á endanum. Höfum hugfast að í Jóhannesarguðspjalli er alltaf talað um kraftaverk Jesú sem tákn. Verkin sem hann vann voru tjáning þess að kraftar Guðs ríkis væru að verki í Jesú og að með honum litu nýir lífmöguleikar dagsins ljós. “Takið steininn frá!” skipar Jesús en Marta bregst við með andköfum: „Drottinn, það er komin nálykt af honum, það er komið á fjórða dag.“

Í aðdraganda sögunnar er frá því greint að Jesús hafði fengið boðin um að koma til Lasarusar meðan hann enn var á lífi, en hann hafði frestað för sinni meðvitað. Frá sjónarmiði vina hans var hann seinn, en sjálfur var hann á tíma. Jesús segir við hana: „Sagði ég þér ekki: Ef þú trúir munt þú sjá dýrð Guðs?“ Nú var steinninn tekinn frá. En Jesús hóf upp augu sín og mælti: „Faðir, ég þakka þér að þú hefur bænheyrt mig. Ég vissi að sönnu að þú heyrir mig ávallt en ég sagði þetta vegna mannfjöldans sem stendur hér umhverfis til þess að fólkið trúi að þú hafir sent mig.“ Að svo mæltu hrópaði hann hárri röddu: „Lasarus, kom út!“ Hinn dáni kom út vafinn líkblæjum á fótum og höndum og með sveitadúk bundinn um andlitið. Jesús segir við fólkið: „Leysið hann og látið hann fara.“

IV

Í okkar mennsku augum er enginn atburður jafn endanlegur og dauðinn. Marta og María höfðu sjálfar búið bróður sinn í gröfina og kaldur veruleiki dauðans hafði níst þær inn að beini. Lasarus var dáinn og nú var komið á fjórða dag og Marta var raunsæ er hún aðvarði Jesú: „Það er komin nálykt af honum.”

Táknið sem Jesús vann á Lasarusi er yfirlýsing þess að enginn atburður á jörðu er endanlegur. Ekkert er endanlegt á jörðu. Hér er engra niðurstaðna að vænta. „Lasarus, kom út!“ hrópaði Jesús. Og hinn dáni kom út vafinn líkblæjum á fótum og höndum og með sveitadúk bundinn um andlitið. - „Leysið hann og látið hann fara.“

Trúin sér það sem við getum ekki skilið, að eini endanlegi atburðurinn sem orðið hefur á jörðinni er sigur Krists yfir öllum atburðum.

Með fullu raunsæi hljótum við að hugsa eins og Marta að nú er bráðum komið ár frá hruninu mikla. Þjóðarlíkaminn liggur vafinn í gröf sinni og daunn vonleysisins hefur fyllt vit margra. Okkur þykir sem allt sé orðið um seinan, en tíminn er á Guðs valdi.

Við vitum ekki hvaða mein lagði Lasarus í gröfina en við förum nærri um hvað það er sem fellt hefur Íslenskan þjóðarlíkama og úr hverju þeir vafningar eru gerðir sem bundnir eru um hendur hans og fætur. Við trúðum á sérhagsmunina og treystum því að hver væri sjálfum sér næstur. Það er okkar mein. Við misstum sjónar á almannaheill, varðveittum ekki lýðræðið en gerðumst hugsunarlausir neytendur. Það er okkar sorg. Í raun má segja að sjúkdómur þjóðarlíkamans sé trúin á séreignina. Og nú horfum við á börnin okkar, kynslóðina sem á að erfa landið og við sjáum þau fjötruð, vafin í skuldbindingar og kvaðir sem þau muni vart fá risið undir.

Kristin trú er ein alsherjar mótmæli við þessu viðhorfi. Trúin á hinn upprisna er andóf við þrældómi í öllum sínum myndum. Kristur Jesús stendur úti fyrir gröfinni og hrópar inn í myrkur angistar og uppgjafar: “Komdu út!” Frelsari heimsins tekur ekki þeirri niðurstöðu fyrir hönd barnanna okkar að þau séu fjötruð. Hann hafnar þeirri ósvinnu að nokkur lifandi manneskja leyfi sér að líta á vaxandi kynslóð frá sjónarhóli vonleysis og uppgjafar. Komdu út! hrópar hann.

V

Við höfum með allt of lítilli gagnrýni tileinkað okkur hugarfar samsteypunnar. Sú hugsun að verðmætum skuli fyrir alla muni safna í stað þess að dreifa þeim hefur orðið að trúarjátningu heillar menningar. Séreignin hefur orðið hið helgasta vé en almannahagur lotið í lægra haldi.

Ég man þegar ég var barn heima á prestsetrinu í Laufási að foreldrar mínir töluðu um það alveg skírt við okkur að við ættum ekkert í prestsetrinu eða landinu heldur værum við bara ábúendur á jörð ríkisins. Þetta olli mér stunum öryggisleysi og ég varð býsna meðvituð sem barn um það hvað væri þó þrátt fyrir allt yfirráðasvæði okkar, þótt við ættum ekkert. Öll önnur börn í skólanum mínum bjuggu í húsum og á landi sem var í eigu foreldra þeirra. Í Laufásnum vaxa safarík ber og við systkinin vorum dugleg að fara að tína og bera björg í bú, enda var mikið sultað og soðin saft. Stundum gramdist mér er ókunnugt fólk stöðvaði bílinn sinn uppi á þjóðvegi og hélt upp í Ásinn til þess að tína ber án þess að hafa fyrir því að spyrja föður minn leyfis, og ég velti fyrir mér hvort pabbi væri slík skapluðra að þora ekki að stöðva þetta háttarlag. Einhverju sinni fylltist ég slíkri reiði er ég sá þetta að ég ætlaði að rjúka út og skamma fólk sem lagst var milli þúfna og gæddi sér á berjum. Ég gleymi aldrei þeirri lexíu sem ég fékk við það tækifæri hjá föður mínum er hann með miklum þunga gerði mér ljóst að berin í Ásnum yxu þar ekki af mínum völdum heldur Guðs og að öllum væri Guðvelkomið að njóta þeirra. Þau væru þarna bara handa fólki.

Gegn hugarfari samsteypunnar teflir trúin á Guð fram hugarfari hins frjálsa manns. “Ég er Drottinn guð þinn sem leysti þig úr ánauð, þú skalt ekki aðra guði hafa.”

Í stað þess að lúta valdi megum við hlýða kalli.

Í stað þess að safna í ótta megum við deila gæðum af rausn.

Í stað þess að tilbiðja séreignina megum við opna augun fyrir þeirri staðreynd að enginn á neitt en öllum er okkur lífið gefið. Séreign er ekki annað en mælieining til þess hönnuð að auðvelda dreifingu gæða, því sannleikurinn er sá að gæði lands og sjávar, fegurð og ríkidæmi tilverunnar er okkur öllum gefið af góðum Guði. Því er það argasta ósvinna sem enginn má láta sér um munn fara að börnin okkar séu fædd til ánauðar. Þau eru fædd til frelsis og til ríkidæmis. Sjálf eru þau auðurinn mesti og við skulum láta þau vita að þau eiga ásamt öllum öðrum fiskinn í sjónum, hitann í jörðinni, fallvötnin í tign sinn og afl þeirra, hið bjarta víðerni landsins með fjöllum, fjörðum og jöklum, grundir og tún, vegi og skóla, vatnið og lagnakerfi landsins, rafmagnið og leiðslurnar, sjúkrahús og kirkjur, söfn og hafnir, torgin í borg og bæjum, húsin öll og hvað eina annað. - Allt þetta á þessi þjóð hvað sem formlegu eignarhaldi líður. Og forréttindi þessa alls eru þau að við skulum öll vera saman, að við skulum í raun vera samferða og eiga hvert annað að.

Nú þykir mörgum orðið seint. Þá er tíminn fyrir Íslenskan þjóðarlíkama að hlýða kalli Guðs, að hann rísi á fætur úr hinu daunilla hugarfari samsteypunnar og að við svo leysum hann og látum hann fara.