Lífið í Þríhnjúkageimi

Lífið í Þríhnjúkageimi

Að eiga trú og finna sig vera Guðs barn stækkar veruleikann og setur líf manns í samhengi, í skorður, á braut, á veg, sem liggur til . . .
fullname - andlitsmynd Örn Bárður Jónsson
25. desember 2011
Flokkar

Ræðuna er hægt að hlusta á með því að smella hér.

Á aðventunni horfðum við hjónin á stórkostlegan þátt í Sjónvarpinu um eldvirkni á Íslandi. Vísindamenn leituðust við að útskýra gosið sem varð í Eyjafjallajökli 2010 og leituðu m.a. svara í Þríhnjúkagíg. Myndin ber heitið Leyndardómur eldfjallsins (sýnd 19. des. 2011). Í henni er lýst einstökum leiðangri inn í Þríhnjúkagíg sem er eini staðurinn í heiminum þar sem hægt er að komast inn í eldfjall. Leiðangursmenn hafa fundið þar merk gögn um hvernig íslensk eldfjöll virka. Stærð gígsins, hellisins, hefur greinilega mikil áhrif á þau sem þangað hafa farið.

Sagan um leit mannsins að svörum við tilvistarspurningum er heillandi. Vísindamenn verja tíma sínum og miklum fjármunum í leit að svörum við öllu milli himins og jarðar. Fréttir af nýjum uppgötvunum vekja mig alltaf upp með jafn skemmtilegum hætti. Í fyrra fannst t.a.m. sól í fjarlægu sólkerfi sem er mörgum milljón sinnu stærri en sólin okkar. Það tæki farþegaþotu á 900 km hraða á klst 1100 ár að fara einn hring um þessa sól.

Fyrr í þessum mánuði var sagt frá því í fréttum að ný jörð, Kepler-22, hefði fundist í fjarlægu sólkerfi. Sagt er að alheimurinn þenjist enn út. Við fáum víst seint að kynnast lífinu á Kepler-22 þar sem meðalhitinn er um 20°á Celcíus. Hún er í 600 ljósára fjarlægð. Í fréttinni var talað um nýja jörð.

Heimurinn þenst út og víddir þekkingarinnar stækka.

Í Opinberunarbókinn er ekki aðeins talað um nýja jörð heldur líka nýjan himinn. Þar segir: „Og ég sá nýjan himin og nýja jörð því að hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð voru horfin og hafið var ekki framar til.“ (Op 21.1) Þessi nýi himinn og nýja jörð munu ekki finnast af geimkönnuðum nútímans heldur er í Biblíunni vísað til þess að allt muni í einhverri fjarlægri framtíð farast og verða til að nýju fyrir mátt Guðs. Hvort það veður eftir milljón ár, fyrr eða síðar, veit enginn nema Guð einn. Í texta Opinberunarbókarinna birtist hin ítrasta upprisutrú alls sem er, allt sem fyrir finnst, alls sem hefur verið til og verður til. Allt mun það hverfa. En það mun aftur verða til fyrir mátt Guðs sem skapar allt að nýju. Vísindin eiga sínar kenningar um að allt muni farast. En getur verið að þau segi minna um að allt rísi upp að nýju? Um hinn trúarlega skilning á heimsslitunum orti (þýddi) sálmaskáldið Sigurbjörn Einarsson og sagði:

Guð er Guð, þótt veröld væri eigi, verður Guð, þótt allt á jörðu deyi. Þótt farist heimur sem hjóm og eimur, mun heilagt streyma nýtt líf um geim, Guðs á degi.

Og nú er ný sól runnin upp yfir okkur. Stystur dagur er að baki og nú birtir á ný og sólin hækkar á lofti hænufet á dag þar til hún lýsir allan sólarhringinn á komandi sumri. Lífið er undur.

Heimsslit verða einhvern tímann. Um það eru vísindin og trúarbrögðin sammála að ég tel. Enda þótt heimsslit séu langt undan – eða það skulum við í það minnsta vona – þá höfum við upplifað það sem þjóð að tilvera okkar var skekin, þ.e.a.s. hin félagslega tilvera. Hrunið er félagslegt fyrirbrigði sem varð af manna völdum. Allt er á hverfanda hveli. Þjóð okkar er í tilvistarkreppu og kirkjan er í sömu kreppu líka enda skarast þjóð og kirkja að miklum meirihluta. Hvað er til ráða? Hvernig mun kirkjunni reiða af í íslensku samfélagi á næstu áratugum, kirkjunni í Evrópu, í heiminum?

Skv. nýjustu talningum eru 2.180 milljónir manna kristnir eða einn af hverjum þremur í heiminum. Engin ein trúarbrögð hafa aðra eins fylgni. Kristnum mönnum fjölgar víða í heiminum þrátt fyrir þrengingar og mótlæti eins og t.d. í Kína þar sem um 60 milljónir teljast vera kristnir. Þeim hefur fjölgað gríðarlega síðustu áratugi eða eftir byltinguna 1949. Í arabaheiminum þar sem bylting hefur átt sér stað – eða ólgar enn – eru kristnir menn uggandi um sinn hag.

Þjóðfélagsbreytingar og framgangur islamista ógnar stöðugleika sem var í mörgum þessara ríkja þrátt fyrir brogað stjórnarfar og kann að valda því að kristnir menn flýi þessi lönd. Hér á landi er allt annað uppi á teningnum. Fólk fer úr landi á efnahagslegum forsendum en ekki trúarlegum. Og fólk yfirgefur Þjóðkirkjuna, sumt af trúarlegum ástæðum en annað af siðferðilegum hvötum og jafnvel af vandlætingu sem í sumum tilfellum segir meir um þann sem fer en kirkjuna sem slíka. Mörgum finnst illa hafa verið haldið á vissum erfiðum úrlausnarefnum af hálfu kirkjunnar á sviði sálgæslu og að kirkjan hafi verið svifasein í að umfaðma minnihlutahópa sem sætt hafa mismunun. Það er vont að horfast í augu við þau mistök. „Kirkja sem útilokar getur ekki talist heilög“, segir í ályktun indverskra kirkna á nýliðinni aðventu sem berjast fyrir viðurkenningu stéttleysingja þar í landi. Prófsteinar kirkjunnar eru allstaðar, hér á landi og úti um allan heim.

Erum við heilög, almenn kirkja? Hvað felst í þeirri yfirlýsingu hinnar postullegu trúarjátningar? „Heilög“ merkir frátekin, helguð, blessuð af Guði og „almenn“ merkir að hún er opin öllum án mismununar. Orði almenn á latínu er kaþólsk og því erum við kaþólsk kirkja í þessum skilningi orðsins.

En kirkja Krists verður ekki aðeins fyrir búsifjum af eigin völdum, innanfrá, hún þarf líka að sæta kúgun í mörgum löndum og nú í arabaheiminum. Gleymum ekki heldur aðstæðum fólks í Pelestínu, þrengingum sem fók af ýmsum trúarbrögðum verður fyrir þar í landi. Ég sá í sjónvarpi viðtal við fjárhirði í Pelestínu sem gætt hefur hjarðar sinnar í 60 ár en nú eru Ísraelsemenn smátt og smátt að gera út af við búskap hans með órétti og ofbeldi og lúmskum þvingunum. Við skulum fagna því að Íslendingar hafa viðurkennt palestínsku þjóðina og vilja vinna með henni að fullu sjálfstæði sem þjóð meðal þjóða.

Kjarninn í jólaguðspjalli Jóhannesar er að Guð gerðist maður: Orðið varð hold, orðið, spekin, viskan, mátturinn – Guð sjálfur – varð manneskja. Guð hefur vitjað þessa heims, hann hefur í Kristi tekið utan um heiminn, mannkynið, allt líf. Þar með er heimurinn helgaður, heilagur, frátekinn.

Það sem er hvað undursamlegast við kristna trú og kristna guðfræði er að hvort tveggja stækkar veruleikann og þenur hann út. Skilningur á eðli trúarinnar þenst út eins og alheimurinn. En þetta er ekki sjálfgefið lögmál. Veldur sá er á heldur, segir í máltækinu. Sem einstaklingar getum við þrengt það sem á að ver vítt og umfaðmandi. Fordómar sækja að hverri manneskju en köllun Guðs er að við vinnum saman og hugsum stórt. Hvernig getum við hugsað í sem allra víðustum skilningi um lífið og tilveruna, verið opin á sem víðastan hátt og kærleiksríkastan?

Svarið er einfalt en ég ætla þó að svara með spurningu sem minnir mig á manninn sem spurði Gyðing: Hvers vegna svara Gyðingar öllum spurningu með annarri spurningu? Og Gyðingurinn svaraði: Hvers vegna ekki?! Svarið við spurningu minni er því sett fram í spurnarformi: Getur verið að við finnum hina stóru vídd hugsunar og tilvistar með því að gefa gaum að því sem Guð segir í Orði sínu um hið stóra samhengi? Getur trúin dafnað í tómarúmi? Þarfnast hún ekki jarðsambands og himintengingar líka? Getur trúin þrifist sem innri vangaveltur í einrúmi og þá sem algjört einkamál? Getur hún þrifist nema í samtali, samtali við Guð og menn? Verður trú sem ekki glímir við texta og orð, við hugmyndir og heimspeki – trú sem á ekki samtal við aðra – annað en stefnulausar vangaveltur eins og korktappi í brimróti án marks og miðs, án leiðarsteins og stjarna?

Formáli Jóhannesarguðspjalls er einn af merkari textum sem veröldin á. Hann er reyndar jólaguðspjall jóladags. Jóhannes lætur sig engu varða tíma eða sögu, atburðarás eða staðhætti, þegar hann talar um kjarna kristindómsins. Hann fer allt aðra leið en Matteus og Lúkas sem báðir segja sögu með atburðarás, rómantíska sögu sem auðvelt er að muna. Það var líka aðferð Jesú. En Jóhannes fer aðra leið. Hann talar á heimspekilegum nótum. Hann stækkar veruleikann, fer í örfáum orðum aftur fyrir upphaf alls sem er og til þess tíma er Jesús kom fram á jörðu og segir: Og „Orðið varð hold“ eða m.ö.o.: Sá sem skapaði heiminn er orðinn einn af okkur. Guð er ekki lengur fjarlægur eins og deus ex machina - guð úr gangverkinu – sem stígur niður eins og helgarpabbi og er svo horfinn. Nei, hann er kominn til að vera. Og hann er hér. Við finnum afl Guðs, hans milda afl, sem ætíð birtist í elsku og miskunn, fyrirgefningu og náð – og skýrast í ósjálfbjarga barni.

Jóhannes hefði örugglega fagnað uppgötvunum vísindanna um 125 milljarða vetrarbrautir og alheim sem talinn er vera 13,7 milljarða ára gamall. Hann kunni að stækka veruleikann og þess vegna eru orð hans í NT með þeim máttugri sem þar er að finna.

Kristur eilífðarinnar, „fæddur eigi gjörður, samur föðurnum“ varð maður, maðurinn Jesús frá Nasaret. Trúarbrögðin leita Guðs með því að varpa upp á himininn hugmyndum sínum um Guð. Í kristninni er þessu alveg öfug farið: Guð kemur og birtir okku sannleikann. Hann kom í tíma og rúmi, birtist fólki af holdi og blóði, gladdist og grét með fólki, leið sjálfur og dó loks á krossi – og reis upp í dýrð. Þetta er allt skráð í sögunni sem staðreyndir sjónarvotta. Hann var ljós heimsins og hefur kveikt ljósið í okkur og gert okkur að heilli jólaaséríu, stærstu ljósaséríu heimsins, raðtengdum ljósum, sem þiggja allan kraft og elsku frá honum og himni hans. Við eigum að lýsa. Á aðventunni lýsa mörg ljós, líka hjartaljós sem sýna elsku í verki og rétta út hendur öðrum til líknar og hjálpar.

Hvernig virkar tilveran? Hvernig er umhorfs inni í henni? Getum við farið inn í tilveruna og skoðað uppbyggingu hennar? Vísindamenn leggja leið sína inn í fjall til að leita skilnings á eðli eldfjalla. Þríhnjúkagígur er opinberunarstaður þeirrar visku sem vísindamenn leita að. Hvar er Þrínhjúkagígur trúarinnar? Hvar finnum svör við tilvistarspurningum okkar, spurningum um hinstu rök og tilgang? Neskirkja er stór og Hallgrímskirkja enn stærri og til eru meira að segja stærri kirkjur úti í hinum stóra heimi. En kirkjan er ekki bara hús, hún er veruleiki sem er stærri en nokkurt jarðneskt hús. Hún er andlegt hús, mikill víðgelmir sem rúmar alla og þar heyrist viska aldanna. Kirkja Krists á jörðu er einn stór andlegur Þríhnjúkageimur og þar liggja svörin. Þau finnast í Orði Guðs, í helgihaldinu, í trú fólksins, vonum þess og þrám, í lofsöng fólks, röddum barna og fullorðinna. Þríhnjúkar kirkjunnar eru Faðir, Sonur og Heilagur andi, kenningin um Guð sem sprengir hugsunina sem hugurinn rúmar ekki því hún er of stór fyrir mannsins litla heila sem þó er undursamlegasta smíð alls hins skapaða heims. Heilinn þinn er merkilegasta fyrirbrigði á jörðu. Og þessi hugur mannsins, þessi undrasmíð, getur leitt manninn burt frá skapara sínum – hugsaðu þér! – burt í hugsun og afstöðu en það breytir ekki huga Guðs sem aldrei mun brjóta í bága við sjálfan sig og sitt innsta eðli, elskuna. Afneitun og firring mannsins breytir ekki ást Guðs á manninum. Guð leitar mannsins með logandi ljósi, jólaljósi. Hann leitar þín til að gera tilveru þína heila í víðustum skilningi þess orðs.

Að eiga trú og finna sig vera Guðs barn stækkar veruleikann og setur líf manns í samhengi, í skorður, á braut, á veg, sem liggur til frelsunar og eilífs lífs.

Jólin koma eins og ljósið langt og mjótt sem smýgur í gegnum dimmuna. Ljósið leitar samfélags, leitar meira ljóss, leitar tengingar, raðtengingar. Kirkjan er Þríhnjúkageimur. Séra Friðrik Friðriksson orti um kirkjuna og sagði m.a.:

Hún lýst er upp með ljósi, sem lýsir út um heim, í nákalt niðamyrkrið og næturskuggans geim. Á ljós það lýðir stefna sem líkn og sannleik þrá, þar rúm er öllum reiknað, sem ratað þangað fá.

Yfir landið ganga nú veðrin hörð en þau koma ekki í veg fyrir að jólin komi. Jólin koma hvorki í pósti né með flugi, í bíl eða lest. Þau koma eftir öðrum leiðum og tengingum sem ná til hugar og ekki síst hjartans. Í Þríhnjúkageimi trúarinnar eru merki og tákn sem hugur og hjarta nema og ekki hvað síst á þessum árstíma. Þau merki sem við skynjum eru af völdum Guðs og þau boða að Kristur „er og var og kemur“. Hann er frá eilífð til eilífðar.

Gleðileg jól, í Jesú nafni, gleðileg jól!

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda.

Amen.