Við hjónin fórum að velta fyrir okkur grein í Fréttablaðinu þann 14. október sl. eftir Pawel Bartoszek, þar sem því er haldið fram að kirkjan sé ekki leiðarljós í siðferðisefnum. Nú yrði það hrokafullt af okkur að halda því fram að hún sé það á sama hátt og það getur falið í sér sama hroka að halda því fram að hún sé það ekki. Það virkar víst aldrei vel þegar við alhæfum um sérstök mál og stofnanir í samfélaginu.
Við veittum því athygli í umræddri grein að spurt var hvort að Þjóðkirkjan, eða önnur trúfélög væru marktæk þegar kemur að því að vísa veginn í siðferðisefnum, trúleysingjanum fyndist það ekki, en hver yrði þó að gera það upp við sig. Það virðist vera þannig í allri í umræðuhefð í dag að það skortir samtal og samstarf þvert á allar línur og gildir einu hvort um er að ræða pólitíska umræðu eða trúarlega. Hvers vegna finnst okkur ekki mark takandi á hvert öðru? Kirkjan hefur lagt ýmislegt gott á siðferðislegar vogaskálar í gegnum tíðina, það hafa trúleysingjar líka gert, stjórnmálamenn, pistlahöfundar og ótalmargir aðrir. Er staðan orðin þannig í dag að við erum svo upptekin af baráttunni um eigin málstað að við erum hætt að geta átt samtal og samvinnu um það sem leiðir til heilla? Þegar kemur að almannaheill, þurfum við að tala saman. Þegar við iðkum gott samskiptasiðferði, eigum við samtal og spyrjum áður en við staðhæfum, skiptumst svo á skoðunum. Þá göngum við ekki út frá því sem vísu að allir séu á sömu skoðun, en lítum á hvert samtal sem tækifæri til að læra nýja hluti, vinnum þannig á því sem aðgreinir okkur og finnum það sem tengir okkur saman.
Fjölbreytileiki í skoðunum á að vera tækifæri en ekki hindrun. Þó erum við ekki að taka upp hanskann fyrir skoðanir sem meiða manneskjuna eða koma í veg fyrir að hún lifir lífi í fullri gnægð. Slíkar skoðanir eru ekki í anda kirkjunnar né nokkurs annars. Þó ber okkur að varast þá hættu sem gætir í ákveðinni miðstýringu þegar kemur að skoðanafrelsi. Það takmarkar frelsið til að ákveða hvað er okkur og börnunum okkar fyrir bestu og styður við þá þróun að gera einstaklinga og stofnanir tortryggilegar í samfélaginu í dag. Það getur ekki verið vænlegt að reyna að miðstýra því hvað er rétt og rangt í siðferðislegum, trúarlegum og pólitískum málum. Það gerir ekkert annað en að auka á flokkadrætti og draga skýrari línur á milli einstaklinga og hópa í samfélaginu. Á þann hátt eykst aðgreining frekar en dregur úr henni, en sá úrdráttur ætti að vera markmið í allri umræðu. Það er ekki nóg að einstaklingar séu tortryggðir heldur er jafnvel grafið undan trúverðugleika heillrar stéttar eins og sjá má í athugasemdum netmiðla t.d. að mönnum flökri við það eitt að heyra prest nefndan á nafn vegna þess að til eru kirkjunnar þjónar, sem brjóta af sér. Við vitum að í öllum stéttum samfélagsins er fólk sem brýtur af sér siðferðislega, þótt það starfi undir boðskap, sem leiðbeinir í allt aðra átt. Ófáir hafa heyrt um vegpresta, sem benda á leiðina en fara hana ekki sjálfir. Slíkt verður vissulega tortryggilegt, en það á við um okkur öll og kirkjan er ekki einvörðungu prestar. Við vinnum að góðu siðferði saman, kirkjan vill verða samferða í þeim málum, leiðtogi hennar Jesús Kristur ákvað ekki fyrir neinn hvað hann vildi verða, hann nefnilega spurði, hann spurði þann veika fyrst hvort hann vildi verða heill og síðan fylgdi hann honum eftir. Það gefur auga leið að Jesús sjálfur studdi ekki við ofbeldi né nokkuð annað það sem grefur undan trausti hér á jörð. Það er einmitt þess vegna sem sumir vilja trúa því, sem hann segir og það er hlutverk kirkjunnar þjóna sem og annarra að koma því til leiðar. Eitt er þó verra en allt annað og það er þegar þjónar kirkjunnar vinna myrkraverk í skjóli þess boðskapar, sem kirkjan vill rækta og vitna um. Það er öllum ljóst. Við viljum ekki slíka þjóna, en það er aðeins eitt sem hægt er að gera til þess að burtreka svoleiðis ósóma og það er að upplýsa og vinna saman að því að gera veruleikann opnari og standa ekki í vegi fyrir því með því að alhæfa á neikvæðan hátt um vettvang er vill í eðli sínu vel. Mesti lærdómur okkar og stærsta tækifæri okkar í dag er að reyna að mætast á miðri leið og eyða samfélagsmeinum. Það krefst þess að við reynum að skilja fjölbreyttan bakgrunn okkar. Það hefur sjaldan verið talað eins mikið um siðbót samfélagsins okkar eins og eftir hið veraldlega hrun, sem var ekki síður andlegt. Erum við á réttri leið í þeirri umræðu eða sökkvum við dýpra og dýpra á hverjum degi niður í skotgrafahernað og mannskemmandi umræðu? Gleymum því ekki að kynslóðir framtíðarinnar fylgjast náið með umfjöllun fullorðinna á netinu og læra það sem fyrir þeim er haft. Ábyrgðin er okkar sem og valið. Það er einlæg skoðun okkar hjóna að við eigum að velja það sem styrkir okkur og eflir í samtali, í skoðunum og í lífinu almennt. Reynslan til þessa sýnir að niðurdrepandi samtal litað tortryggni hefur fleytt okkur heldur stutt. Hvernig væri að láta á nýja umræðuhefð reyna og öllu jákvæðari?