Gjafir vitringanna

Gjafir vitringanna

“Þrátt fyrir kaldhæðnina, að þá snertir grunntónn þessarar smásögu O. Henry við okkur öllum, því þarna er verið að tala um það að sérhver fórnargjöf skilgreinir merkingu gagnkvæmrar elsku, að því ógleymdu að hún minnir á þá stóru fórnargjöf, sem Guð hefur gefið heiminum öllum í Jesú Kristi, krossfestum og upprisnum.”

Mt. 2.1-12

Þau voru nýgift og jólin á næsta leyti.  Fjárráð voru mjög lítil, satt best að segja voru þau bláfátæk.  Hún ákvað að láta klippa fallega síða hárið sitt og selja það til hárkollugerðar, til þess að geta fjárfest í fallegri jólagjöf handa nýbökuðum eiginmanni.  Það var gullkeðja, sem hann hafði lengi langað til að eignast, og á hana gat hann hengt dýrmætt gullúrið sitt, sem var sannkallaður ættargripur. Á sama tíma seldi hann ættargripinn, til þess að geta keypt litríkt hárskraut í þetta líka síða og fallega hár eiginkonu sinnar, sem var hins vegar það dýrmætasta, sem hún átti.

Hún fórnaði hárinu fyrir hann, hann fórnaði ættargripnum fyrir hana. Þau eignuðust bæði ómengaðan huga hvors annars, sem var stærri gjöf en flest annað. Djúp einlægni stóð á bak við þessar gjafir hjónanna úr kaldhæðnislegri smásögu bandaríska rithöfundarins O. Henry, öðru nafni William Sidney Porter. Höfundurinn sá skrifaði gjarnan um líf venjulegs fólks í New York og var kunnur fyrir óvænt sögulok í smásögum sínum.

Í lok sögunnar, sem ber yfirskriftina “gjafir vitringanna” segir O. Henry: 

“Hérna hef ég kynnt fyrir ykkur tvö fávís börn, sem hafa á mjög svo óviturlegan hátt fórnað mestu fjársjóðum heimilisins. En þegar upp er staðið væri hægt að segja við nútímaspekinga, að af öllum gjöfum, sem gefnar eru, þá eru þessar hvað viturlegastar.  Þær eru það allsstaðar. Þær eru vitringarnir.”

Þrátt fyrir kaldhæðnina, að þá snertir grunntónn þessarar smásögu O. Henry við okkur öllum, því þarna er verið að tala um það að sérhver fórnargjöf skilgreinir merkingu gagnkvæmrar elsku, að því ógleymdu að hún minnir á þá stóru fórnargjöf, sem Guð hefur gefið heiminum öllum í Jesú Kristi, krossfestum og upprisnum.

Vitringarnir tveir frá honum O. Henry, leiða okkur áfram eins og stjarnan  og staðnæmast við sögu vitringana, sem er guðspjall þessa síðasta dags jóla.  Í þeirri sögu var hins vegar um þrjá vitringa að ræða, sem eru iðulega taldir þrír vegna þriggja gjafa, sem þeir báru til Betlehem, þar sem þeir ætluðu að vitja hins nýfædda konungs og veita honum lotningu sína.

Það má vel vera að þeir hafi haft sama hugarfar og nýgiftu hjónin í sögu O. Henry, það er hins vegar torvelt að rannsaka huga þeirra og hjörtu í sögulegu ljósi, enda ekki mikið vitað um þessa ágætu menn. Vörpum samt hér dálitlu ljósi á þá, með fáeinum atriðum, sem dregin hafa verið fram um uppruna þeirra og sögu.

Þeir voru stjörnuspekingar og í samhengi guðspjallsins koma þeir fram sem spekingar er rýndu í hegðun stjarnanna með það fyrir augum að stór atburður átti eftir að eiga sér stað. Í Babýloníu dafnaði stjörnuspeki og því ekki fjarri lagi, að þeir hafi komið þaðan.  Þar að auki vissu þeir ekki hvar Jesúbarnið átti að fæðast og því nokkuð ljóst að þeir hafi ekki verið Gyðingar sjálfir. Þeir virtust sömuleiðis illa upplýstir um mál Ísraels á þessum tíma.

Þessar vangaveltur um uppruna og aðkomu vitringana beinir sjónum að þeirri ljúfu staðreynd að hjálpræðisverk Guðs, hjálpræðissagan er fyrir alla og saga vitringana leggur ekki síst áherslu á það að kristnin býður alla velkomna að jötunni, þar sem hinn nýfæddi konungur liggur. 

Í því ljósi eru allir velkomnir að hinu kristna samfélagi, saga vitringanna birtir nefnilega með svo skýrum hætti hið sterka einkenni jólafrásagnarinnar, sem er sú staðreynd að henni er ætlað að tala til alls fólks, alls heimsins, óháð stöðu hvers og eins, óháð  trúar og lífsskoðunum fólks.

Þá birtir ferðalag vitringana sömuleiðis nokkuð, sem við öll eigum sameiginlegt og það er þetta vandrataða ferðalag sem lífið er og það er leitin, leitin að tilgangi, leitin að sannleika, trúarleit. Slíkri leit sérðu allsstaðar bregða fyrir, hvort sem þú opnar Morgunblað eða Fréttablað, hvort sem þú opnar kirkjuvef eða vantrúarvef. 

Þegar horft er til þessa stóra einkennis fæðingarfrásögunnar, sem felst í því að hún vill tala til alls heimsins, þá styður það um leið við þá björtu sýn að allir vinni saman að því að leita og finna.  Þess vegna er kirkjan fyrir það fyrsta samfélag.

Við leitum hvorki né finnum saman ef við sitjum í sitthvoru horninu, ef við gröfum undan málflutningi náungans og vinnum að því að gera hann tortryggilegan til þess eins að upphefja eigin málflutning, það sést oftar en ekki í gegnum slíkt. Þá eru það ævaforn sannindi þegar við stöndum í þeirri trú að við höfum höndlað sannleikann, þá erum við hvað fjærst honum. 

Guð kemur okkur sífellt á óvart í því sambandi, það reyndu vitringarnir á langri ferð sinni, þeir töldu víst að nýfæddan konung væri að finna í höll Heródesar konungs. Svo var nú ekki, heldur við eins ókonunglegar aðstæður og hægt var að hugsa sér í bænum Betlehem.

Það er fremur köld mynd, sem við höfum þar en um leið upplifum við hlýjan hug þeirra, sem næst Jesúbarninu stóðu. Köld mynd, hlýr hugur, ekki ósvipað smásögunni góðu eftir O. Henry. Þetta kallar fram hugsanir í þá veru, að þegar við upplifum harðan, kaldan, þungbæran veruleikann, þá snertir það oft á einhvern leyndardómsfullan hátt við dýpstu hjartarótum, og birtir á svo magnaðan hátt heilar og einlægar tilfinningar, sem við höfum kannski aldrei áður getað almennilega sýnt.

Án þess að vilja gera lítið úr velsæld sem slíkri í víðustum skilningi þess hugtaks, að þá var hún merkileg kenningin, sem heyrðist í einu boðinu nú um jólin, þar sem enn bar á góma umræðan um stöðu kirkju og kristni hér á landi. Þar kom fram samanburður við ríki eins og Spán og einn boðsgesta, sem þekkti vel til, tjáði sig um stöðuna þar.

Á Spáni er Katalóníuhérað mjög vel stætt og blómlegt hérað í það minnsta hvað efnahag snertir. Þar gætir töluverðrar andstöðu í garð kirkju og kristni. Hins vegar er það einkennandi við efnaminni héröð Spánar, að þar leitar fólk mun meira eftir þjónustu kirkjunnar og mun meiri jákvæðni ríkir í garð hennar og þess boðskaps, sem hún flytur.

Með öðrum orðum má spyrja:

Gleymum við Guði þegar gnægð veraldargæða er fyrir hendi?  Verður Guð okkur ljósari þegar að þrengist? Má vera að meinlætamenn fyrr og nú hafi rétt fyrir sér með því að neita sér um heimsins lystisemdir, til þess að komast í nánari kynni við guðdóminn? 

Klerkur spyr sig hér í prédikunarstólnum og í útvarpi allra landsmanna um leið og hann klappar velferðarístrunni. Við skulum samt halda því til haga í ljósi reynslunnar, að þegar þung lífsreynsla bankar upp á, hrynja allar varnir, sem við erum stöðugt að byggja upp gagnvart umhverfi okkar, varnir sem verða okkur stundum til mikilla trafala og koma í veg fyrir að við sýnum okkar réttu og sönnu hliðar.

Í því samhengi eru jólin okkur svo holl, því þau minna okkur á sakleysi og hreinleika barnsins, sem kemur inn í þessa veröld, sem við erum alltaf að brynja okkur fyrir, og er þar í orðsins fyllstu merkingu nakið og varnarlaust í alla staði.  Þannig hefjum við öll lífsgöngu okkar og þannig komum við enn og aftur að þeirri áherslu að jólaguðspjallið vill tala til okkar allra.

Síðasti dagur jóla og við göngum aftur inn í hið daglega amstur, öll þau ólíku verkefni sem við gegnum. Við höfum vonandi öll heyrt jólaboðskapinn, meðtekið hann saman, og þegar við snúum aftur til hversdagsleikans megum við geyma hann í brjósti og biðja þess að hann örvi trú í hjarta. Vonandi höfum við öll sýnt fórnarhug þessi jól í orði sem á borði.

Við lok jóla verður manni litið til vitringanna er þeir snéru síðan aftur til síns heima eftir hátíðlega og stórmerkilega upplifun í Betlehem. Þeir voru búnir að koma gjöfunum til skila og engu þurftu þeir að skila, nema þá helst kjarnyrtum kærleiksboðskap til þeirra sem biðu þeirra fyrir austan.

Kærleiksboðskapurinn barst ekki til hallar Heródesar, hann sveigði framhjá með þeim Kaspar, Melkíor og Baltasar. Eins og það var mikið pláss í þeirri höll, að þá var ekki rúm fyrir kærleiksboðskapinn þar og ekki er það eðli kærleikans að þröngva sér upp á aðra.  Hann stendur okkur hins vegar til boða, og það er sameiginlegt verkefni okkar allra, sem viljum leita, sem viljum finna, að miðla honum og gefa til komandi kynslóða. 

“Af öllum gjöfum, sem gefnar eru, þá eru þessar hvað viturlegastar. Þær eru það allsstaðar. Þær eru vitringarnir.”