Vitni óskast

Vitni óskast

Hann lýsti því hvernig hann hefði sjálfur valið að skilja við maka sinn þar sem hann hefði talið að hjónaband þeirra komið á endastöð og engum greiði gerður með því að viðhalda því formsins vegna. Svo bætti hann við þessum orðum: En núna heyrir enginn hvort ég anda á nóttunni. Það er enginn vitni að líf mínu.

Sum samtöl sem maður á við fólk sitja í manni og vilja ekki fara. Sum orð eru þannig að þau neita að halda áfram inn í fortíðina fyrr en þau hafa unnið sitt verk, komið sínu til leiðar. Maður veit ekki endilega þegar orðin falla að þar séu slík orð á ferð. Máttarorð geta verið lítil viðskotssetning í löngu samtali, þau geta hortið af vörum barns eða yfir borðið hjá fiskikaupmanninum, en svo vaknar þú e.t.v. að morgni og finnur þungann.

Máttarorð eru þunguð orð, þau vaxa innra með þér og eignast sitt sjálfstæða líf og þurfa að fá að fæðast. Ég átti svona samtal um daginn. Orðin féllu í góðum hópi sem var að spjalla saman og ég tók ekki sérstaklega eftir þeim innan um allt hitt sem verið var að ræða eins og gerist þegar margt skapandi fólk talar saman. En ein stutt athugasemd sem féll þetta kvöld hefur ekki yfirgefið mig og ég fékk leyfi hjá manninum sem þar talaði til þess að vitna í orð hans. Við vorum að ræða um hjónaskilnaði og þessi maður gekk út úr hjónabandi sínu fyrir nokkrum árum. Þetta er einbeittur og sterkur einstaklingur og maður skynjar fljótt að þar fer persóna sem kann fótum sínum forráð í lífinu og e.t.v. er það einmitt þess vegna sem hann megnar að vera í tengslum við sársaukann í eigin tilveru og setja á hann orð. Hann lýsti því hvernig hann hefði sjálfur valið að skilja við maka sinn þar sem hann hefði talið að hjónaband þeirra komið á endastöð og engum greiði gerður með því að viðhalda því formsins vegna. Svo bætti hann við þessum orðum: En núna heyrir enginn hvort ég anda á nóttunni. Það er enginn vitni að líf mínu.

Ein jólabókin í ár verður frá honum Hugleiki Dagssyni sem um árabil hefur skemmt þjóðinni með því að bregða fyrir hana vægðarlausu skopi. Í nýju bókinni sinni skopast hann með Biblíuna. Það má. Það skal mega hæðast að Biblíunni. Réttilega lét hann þess getið í blaðaviðtali að Biblían sér líka alvega sjálf um að hæðast að sér, svo full sem hún er af mótsögnum og innri togstreitu. Biblían er svo lifandi orð, svo magnaður og þungaður veruleiki að hún fæðir af sér nýjar hugsanir og nýtt samhengi á hverri tíð. Hún er samtal sem ekki verður þaggað. Máttarorð Guðs í þessum heimi verður ekki þaggað, það er ekki hægt að drepa það, því þegar þú vaknar finnur þú þungann og veist að þú ert á valdi Orðsins sem á sitt sjálfstæða líf og krefst þess að fá að fæðast.

Einhvern tímann fyrir mörgum árum fengum við hjónin Jón Gnarr til að koma í kirkju til okkar og hitta stóran hóp af unglingum. Þetta var á árum Fóstbræðra- og Tvíhöfðaþáttanna og íslensk fyndni hafði tekið mikilvægt skref fram á við fyrir tilverknað þessara snillinga. - Má gera grín að Jesú? Var spurt úr sal. - Já, endilega. Sagði Gnarrinn. - Það er gott að grínast með Jesú því hann var lík maður og fólk er það fyndnasta af öllu fyndnu. Eina fólkið sem ég geri ekki grín að eru prestar, bætti hann við. En það er vegna þess að ég nenni því ekki, það væri eitthvað svo fyrirsjáanlegt. En það á endilega að gera grín að prestum og kirkju og Biblíunni og að Guði - öllu sem til er... - öllu nema einu. Hvað er það spurðu krakkarnir. - Það má ekki gera grín að heilögum anda. Svo brosti hann sínu óræða ljúfkreista þjáningarbrosi. - En það má gera grín að fólki sem heldur að það sé fullt af heilögum anda. Það er mjög gaman að grínast með það!

Það fyndnasta af öllu fyndnu er fólk. Og það alfyndnasta varðandi trúmálaumræðu okkar íslenska nútíma er sú staða að henni hefur um skeið verið uppi haldið af bókstafstrúarmönnum sem trúa því að því sé trúað að Biblían sé Guðs orð þótt þeir vilji einmitt alls ekki trúa því sjálfir. Og til verður alls konar grín og alls konar tröllasögur um bókasafnið Biblíuna og heil kynslóð er á góðri leið með að fara á mis við töfra hennar... eða hvað? Fræg er sagan af Frakkakóngi sem vildi tryggja að þjóðin borðaði kartöflur svo hann gaf út þá tilskipun að það væri með öllu bannað að rækta kartöflur. Þá hóf almenningur óðara að sýsla með kartöflur og þessi ódýra en ágæta næring varð almenningseign í ríkinu.

Orð Guðs er þungað orð. Það er í heiminum og heimurinn er orðinn til fyrir það þótt hann þekki það ekki, hæðist að því og reyni í sífellu að úthýsa því. „Nálægt þér er orðið, í munni þínum, í hjarta þínu.“ Það er: Orð trúarinnar sem við prédikum.” segir Páll í bréfinu til Rómverja. (Róm 10.8) Nei, Biblían er ekki Guðs orð. Hún ber vitni um Guðs orð. Hún er samtal um orðið, hún er átakavettvangur, bergmál radda, byggingarsvæði. Og það ferlega við þetta rit er sú staðreynd að þú þarft að vera mjög stropaður í sálinni til þess að komast hjá áhrifum af lestri þess. Það er eitthvað sem gerist þegar maður sest niður með Biblíuna eða grípur hana af náttborðinu. Og það sem gerist er oftast eftir á.

„Sjá, ég skapa nýjan himin og nýja jörð” segir í lexíu dagsins sem við heyrðum áðan. Guð er að tala: „Sjá, ég skapa nýjan himin og nýja jörð og hins fyrra verður ekki minnst framar og það skal engum í hug koma. Gleðjist og fagnið ævinlega yfir því sem ég skapa því sjá, ég geri Jerúsalem að fögnuði og íbúa hennar að gleði. Ég mun gleðjast yfir Jerúsalem og fagna yfir þjóð minni, þar mun aldrei framar heyrast grátur og kvein.” (Jes 65.17-19) Ósjálfrátt leitar hugurinn til þeirra grimmu afla sem nú ráða ríkjum í Jerúsalem og fyrir botni Miðjarðarhafs og þeim ójafna hildarleik sem þar er háður í fullkominni vanvirðu við lífið, fyrst og síðast á kostnað Palestínsks almennings. Gömul saga og ný, og enn hörmulegri í ljósi þess sögulega og andlega hlutverks sem Gyðingar hafa haft og hafa í veröldinni. En heyrir þú Orðið í þessum texta? Höfuðeinkenni Orðsins er fögnuður. Þetta er svo einkennandi að það er alþekkt að menn tala gjarnan bara um fagnaðarerindið eða góðu fréttirnar þegar þeir eiga við Orðið. Orð Guðs í heiminum er fagnaðarfrétt og ég er alltaf að hitta fólk sem er undir áhrifum þeirrar vitneskju sem þar er á ferð. E.t.v. hafa þessi 2700 ára gömlu orð í lexíu dagsins sjaldan verið jafn þungað Guðs Orð og einmitt núna: “Gleðjist og fagnið ævinlega yfir því sem ég skapa” segir Guð „því sjá, ég geri Jerúsalem að fögnuði og íbúa hennar að gleði. Ég mun gleðjast yfir Jerúsalem og fagna yfir þjóð minni, þar mun aldrei framar heyrast grátur og kvein.” - Núna heyrir enginn hvort ég anda á nóttunni, sagði maðurinn. Það er enginn vitni að líf mínu. Góður Guð er vitni að lífi þínu, segir Orðið. Ég mun gleðjast yfir Jerúsalem og fagna yfir þjóð minni. Ég skapa nýjan himinn og nýja jörð. Heyrir þú Orðið í þessu? Finnur þú þungann? „Við vitum að öll sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa.” Segir í pistli dagsins. „Og ekki það eitt, heldur stynjum við sem eigum frumgróða andans einnig með sjálfum okkur meðan við bíðum þeirrar stöðu Guðs barna sem í vændum er. [...] Í þessari von erum við hólpin. Von, sem menn sjá fram komna, er ekki von. Hver vonar það sem hann sér? En ef við vonum það sem við sjáum ekki bíðum við þess með þolinmæði.” Heyrir þú Orðið í þessu? Heyrir þú samhengi þitt við alla sköpunina? Heyrir þú að Guð er vitni að lífi þínu í samhengi við allt sem hann hefur skapað og að hann heyrir stunur alls sem andar og þjáist? Heyrir þú vonina, fögnuðinn að allt muni fara vel vegna þess að Guð sér? Ég hef kynnst fólki sem á bara þetta. Fólki sem hafði ekki neinu öðru að treysta en þessari von. Og ég segi þér alveg hreinskilnislega að ég vona að ég vilji frekar deyja en að hæðast að þeirri von. Það er vonin sem býr í nýfæddum hvítvoðungi sem leitar að brjósti móður sinnar. Vonin í augum foreldra sem horfa á barn sitt æfa fyrstu skrefin. Vonin í lömuðu augnaráði hjóna sem horfast í augu og vita ekki nema hjónabandi þeirra sé lokið. Vonin í þúsundum augna sem nú skima upp í himininn yfir Palestínu.

Þetta er það sem menn meina þegar staðhæft er að ekki megi hæðast að heilögum anda. Syndin sem ekki er fyrirgefin er sú að deyða orð vonarinnar, leyfa því ekki að eignast líf og fæðast svo að við verðum vitni að lífi hvers annars.

„Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið.” Mælti Jesús í þessu samhengi. (Matt. 12. 31) Og það er í þessu samhengi sem við eigum að skilja guðspjall dagsins og orðin þungu: „Hungraður var ég en þið gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég en þið gáfuð mér ekki að drekka, gestur var ég en þið hýstuð mig ekki, nakinn en þið klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi en ekki vitjuðuð þið mín. Þá munu þeir svara: Drottinn, hvenær sáum við þig hungraðan eða þyrstan, gestkominn eða nakinn, sjúkan eða í fangelsi og hjálpuðum þér ekki? Hann mun þá svara þeim: Sannlega segi ég ykkur: Allt sem þið gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra, það hafið þið ekki heldur gert mér. Og þeir munu fara til eilífrar refsingar en hinir réttlátu til eilífs lífs.“

Syndin gegn andanum, syndin sem ekki er fyrirgefin er sú að deyða Orðið, slökkva vonina í augum náungans og neita því að vera vitni að lífi samferðamanna sinna. Eftirlátum bókstafstrúarmönnum, reiðipostulum og öðrum brandarakörlum að rífast um útfærslu refsingarinnar en tökum við alvöru Orðsins og deyðum það ekki kviði okkar. Vitni óskast.

Amen.

Textar dagsins: Jes 65.17-19 Róm 8.18-25 Matt 25.31-46