"Þennan silfurkross tók ég."

"Þennan silfurkross tók ég."

fullname - andlitsmynd Bolli Pétur Bollason
24. júlí 2012
Flokkar

Fyrir fáeinum árum ákvað ég að bregða mér á tónleika með Bob Dylan í Laugardalshöll. Þá var ég að hlusta töluvert á tónlistina hans og texta og var áhugasamur. Ég neita því ekki að í mér bjó sterk eftirvænting þegar á staðinn var komið og andrúmsloftið dró alls ekki úr því, áhugi skein úr hverju andliti enda er nafn Dylan fremur stórt í tónlistarheiminum sem og ljóðaheiminum og ófáir aðrir heimskunnir listamenn hafa t.a.m. heiðrað hann með því að flytja verkin hans með miklum ágætum. Einhver í andyri hallarinnar hafði að orði að maðurinn væri goðsögn. Ég stóð fremur langt frá sviðinu, en sá engu að síður eldri mann með hatt sitja við hljómborð, munnharpa bar við munninn, gítarinn ekki langt frá, lífið og tíminn búin að rista nokkrar djúpar rákir í andlitið. Ég var vafalaust ekki einn um það að bíða eftir gömlu góðu lögunum, Blowin in the Wind, Tambourine man, Lay Lady lay. En ekkert af þessum lögum hljómuðu nema þá Blowin in the Wind í lokin og það undir öðru lagi og þá sá ég marga undrandi svipi í kringum mig. Raunveruleikinn var sá að Dylan lék nýleg lög, sem færri en fleiri könnuðust við. Ég naut samt sem áður tónleikana, karlinn var með góða hljóðfæraleikara með sér enda vilja sennilegast flestir fá að spila með honum. Ég kvartaði eilítið að tónleikum loknum, hefði viljað heyra fleiri smelli eins og það er víst kallað, en hugleiddi svo málið í því ljósi að alvöru listamenn vilja koma list sinni og boðskap á framfæri án þess að vera endalaust að þóknast neytendum. Ætli það geti ekki verið að dægurflugur sem berjast stöðugt við að halda vinsældum og þóknast fjöldanum nái sjaldnast löngu flugi, hvað þá einhverri þróun að ráði, flögra á endanum í burtu og falla í gleymskunnar dá? En það á ekki við um Bob Dylan, hann virðist ódrepandi enda syngur hann ekki bara um það að vera að eilífu ungur, Forever Young, heldur hefur hann í eina 5 áratugi haldið ríkulega á lofti friðar- og mannréttindaskilaboðum í kveðskap sínum, þannig að ýmsar sterkar hreyfingar á því sviði hafa gert lögin hans að baráttusöngvum. Ég ætla ekki að fara að líkja Dylan við stórar heimssögupersónur á borð við Gandhi ellegar Móður Teresu, þess þarf heldur ekki, en hann á það þó sammerkt með þeim að hann er manneskja með öllum sínum dyggðum og löstum, hefur marga fjöruna sopið, sem virðist samt sem áður ekki hafa dregið úr áhuga hans á friði og mannréttindum, þvert á móti. Svona í framhjáhlaupi vil ég nefna það hér að nú er hugtakið mannréttindi notað mikið og allt að því misnotað á köflum um hitt og þetta, í því sambandi verður að varast það að þvæla því ekki þannig að grundvöllur þess riðlist þ.e.a.s. þetta að fólk fái hreinlega að vera fólk og fái tækifæri til að njóta þeirra lífsgæða, sem viðurkennd eru í þessari veröld okkar eða eins og sagt er orðrétt í fyrstu grein mannréttindayfirlýsingar sameinuðu þjóðanna: Allir eru bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum. Allir eru gæddir skynsemi og samvisku, og ber að breyta bróðurlega hverjum við annan. Þrátt fyrir að Dylan hafi ekki alltaf fetað veginn þrönga, þá verður það ekki af honum tekið að hann hefur stutt ríkulega við mannréttindayfirlýsingar í listsköpun sinni og það kemur ekki síst til vegna þess að hann hefur verið óþreytandi við þá iðju að spyrja Guð og sig sjálfan trúar-og tilvistarspurninga og leitast við að finna svör við þeim rétt eins og þessum, „á hvað leið er ég og hvernig kemur mér til með að líða?“ Í texta við lag er ber titilinn Senor og er á plötunni Street Legal segir hann að lokum eins og sannkristinn maður: „-I just gotta pick myself up off the floor I´m ready when you are, Senor.-„ Með þessu hugarfari hefur hann haft sterk áhrif á heiminn og íbúa hans. Þó ég sé enginn sérstakur áhangandi orðuveitinga, þá verður ekki hjá því komist að geta þess að nýlega veitti forseti Bandaríkjanna Dylan Frelsisorðuna, sem er æðsti heiður er óbreyttum borgurum getur veist þar í landi og er víst ekki bara bundið við þá sem hafa bandarískan ríkisborgararétt. Obama forseti sagði við það tækifæri að hann hafi alltaf hrifist af þeirri þörf Dylan að leita stöðugt sannleikans. Sú hrifning er ekki bara úr lausu lofti gripin og margir verða til að minnast þess er Dylan mótmælti frelsissviptingu hnefaleikakappans dökka Rubin „Hurricane“ Carter, sem var hafður fyrir rangri sök, kærður og fangelsaður fyrir rán og morð og þótti ljóst að öll sú málsmeðferð, sem kappinn fékk var lituð kynþáttafordómum. „Hurricane“ Carter hélt ætíð fram sakleysi sínu, Dylan heimsótti hann í fangelsið, heyrði sögu hans, bæði frá honum sjálfum og málsvörum hans, og skrifaði í framhaldi texta, þar sem hann rekur þá sögu við lagið „Hurricane“ og má finna á plötunni Desire. Dylan stóð svo fyrir tónleikahaldi til styrktar Carter og fékk til liðs við sig aðra tónlistarmenn. Hann trúði statt og stöðugt á sakleysi hnefaleikakappans. Mál hans var síðan tekið fyrir á ný, gekk hins vegar fremur brösulega, það var ekki fyrr en að rúmum 20 árum liðnum frá því hann var fangelsaður að dómari nokkur í New Jersey komst að þeirri niðurstöðu að Rubin Carter hefði ekki fengið sanngjörn réttarhöld á sínum tíma og í framhaldi af því var hann leystur úr haldi. Í síðasta erindi þessarar sögu, sem Dylan flutti segir hann: „Now all the criminals in their coats and their ties Are free to drink martinis and watch the sun rise While Rubin sits like Buddha in a ten-foot cell An innocent man in a living hell That's the story of the Hurricane But it won't be over till they clear his name And give him back the time he's done Put him in a prison cell but one time he could-a been The champion of the world.“ Dylan er af gyðingaættum, raunverulegt nafn hans er Robert Allen Zimmerman. Sá uppruni rennir vissum stoðum undir trúaráhuga hans og ekki er til ein plata eftir hann, og eru þær nú margar, sem er án tilvísunar í Biblíuna. Sumar plötur hans eru reyndar ein allsherjar boðun út í gegn sbr. Slow Train coming, þar sem einvörðungu er um trúarsöngva að ræða. Dylan fór í biblíuskóla og þrátt fyrir fyrrnefndan uppruna gerðist hann kristinn, Jesús varð leiðtogi hans og frelsari. Á tónleikum í San Diego í nóvember 1978 sagði Dylan: „Ég spilaði hér á þessum sama stað fyrir ári síðan. Þegar leið að lokum þeirra henti einhver silfurkrossi uppá sviðið til mín. Einhver sem vissi að mér leið ekki vel. Venjulega tek ég ekki upp hluti sem er hent til mín. Ég leit á krossinn og sagði við sjálfan mig, þetta verð ég að taka upp. Sem ég og gerði og setti hann í vasann. Þennan silfurkross tók ég með mér til næstu borgar sem var í Arisóna. Mig minnir að það hafi verið Phoenix og mér leið jafnvel enn verr þar en í San Diego. Ég sagði við sjálfan mig, ég þarfnast einhvers í kvöld, sem ég hef ekki prófað áður, ég veit ekki hvað það er. Ég fór í vasann og fann þennan silfurkross og ef manneskjan sem henti honum til mín er stödd hér í kvöld vil ég þakka fyrir mig.“ Á plötunni John Wesley Harding er biblían sömuleiðis alltumlykjandi. Yrkisefnið í titillagi plötunnar er Kristur krossfestur og upprisinn, en hann er persónugerður í manninum John Wesley Harding, sem er vinur fátæka mannsins, ferðast um landið vopnaður, en skaðar samt ekki nokkurn mann. Hann opnar margar dyr og má greina þar vísun í 14. kafla Jóhannesarguðspjalls, þar sem Kristur kveður lærisveina sína og segir m.a. „Í húsi föður míns eru margar vistarverur.“ Þá reyndu ófáir að koma sökum á þennan John, en höfðu ekki erindi sem erfiði þar sem ekkert var hægt að sanna á hann, hann hafði ekki nein illskuverk framið. Á þessari plötu er lagið kunna All along the Watchtower og er þar fjallað um krossfestinguna og áhersla lögð á ræningjana tvo, sem krossfestir voru með Kristi, og samræður þeirra, þeir eru kallaðir the Joker and the Thieve. "No reason to get excited," The thief, he kindly spoke "There are many here among us Who feel that life is but a joke But you and I, we've been through that And this is not our fate So let us not talk falsely now, the hour is getting late" Dylan er alþýðusöngvari og alþýðlegur textasmiður, sem nær augljóslega til fólks og ekki hefur barátta hans fyrir réttindum þess skemmt þar fyrir, það eitt og sér er í raun ljómandi prédikun og viðleitni í þá átt að fylgja Kristi, sem með Orði sínu og atferli kennir grundvöll mannréttinda og hvetur hið mannlega eðli, bæði með bænum og þakkargjörð, til að virða þann grundvöll. Kristur er ekki einvörðungu að færa fólkinu brauð og fisk, sinna þeim grunnþörfum fólksins í óbyggðunum eins og við heyrðum lesið héðan frá altarinu áðan. Það er sömuleiðis bjargföst trú mín að hann sé með þessu kraftaverki að segja það að þegar hugur þinn og lífsástand verður eins og eyðilegar óbyggðir, þar sem þú finnur engan veg, engan tilgang, engin réttindi né skyldur, bara ótta, þá vill hann rétta fram þá næringu, sem þú þarft á að halda til þess að þú upplifir sömu tilfinningu og fjallgöngumaður, er hefur villst af leið en er kominn aftur á grónar slóðir og getur gengið meðfram ánni til byggða. Ég lít ekki á það sem tilviljun eina að helstu svokallaðir mannréttindafrömuðir veraldarinnar vitni gjarnan í heilaga ritningu, höfunda hennar, Skaparann og Krist. Sumir velja það reyndar að sjá ekkert mannréttindaskylt í Biblíunni, telja þar bara óhroða og lygi að finna, þar sem brotið er helst á manneskjunni og takmörkuðu fóðri að henni rétt. Þar er víst um litskrúðugan hrylling að ræða, bæði í Gt. og Nt., og það er enginn nýr sannleikur, en hryllingurinn sá undirstrikar óbyggðirnar og hversu mikilvægt það er að finna leið út úr þeim, þiggja áttavitann, þiggja næringuna, þiggja Krist, og finna þau áhrif sem hann hefur haft á menningu aldanna og menningarisa jarðarkringlunnar, ég leyfi mér alveg að gera Bob Dylan að slíkum risa þó ekki sé hann hár í loftinu í líkamlegum skilningi. Og aftur kem ég að þeirri hugsun, sem sótti á mig er ég gekk út að tónleikum loknum forðum daga, að hann var ekki þarna til þess að gera sig vinsælan, hann var ekki upptekin af því að taka allar perlurnar, heldur undirstrikuðu þessir tónleikar hans það að textarnir og boðskapurinn voru til fyrir tónlistina, en ekki öfugt. Það var dýptin en ekki yfirborðið og þegar við leggjum meiri áherslu á hið fyrrnefnda, þá erum við engan veginn bundin að því að þóknast einhverju vinsældakapphlaupi. Sú hugsun hefur líka án nokkurs vafa verið fjarri Kristi í óbyggðunum, því þegar það er spurningin um að komast af, sinna grunnþörfunum, þá kynnumst við venjulegast þeim veruleika, sem spyr ekki um það hvort eigi að takmarka útbreiðslu trúar í samfélagi, heldur hvernig við eigum að koma henni á framfæri svo allir geti þegið og notið og móttekið tímaleysið, sem í trúnni felst eins og því þegar þú hvílir á grænu engi, horfir upp í himininn og býrð til stiga til stjarnanna í hugskoti þínu. „May God bless and keep you always May your wishes all come true May you always do for others And let others do for you May you build a ladder to the stars And climb on every rung May you stay forever young Forever young, forever young May you stay forever young. „ Í Jesú nafni. Amen.