Það verður mikið um dýrðir í Þýskalandi þegar heimsmeistarakeppnin í fótbolta fer þar fram í sumar. Allt er undirbúið af hálfu gestgjafanna, vellir og áhorfendapallar skrúbbaðir og gerðir upp, gisting fundin fyrir 31 landslið og undirbúin fyrir fjölda áhorfenda. En það er ekki gestrisni að flytja inn konur og neyða þær til að þjóna gestum sem vændiskonur. Þýska kirkjan hefur verið framarlega í flokki að mótmæla því.
Vændi er vissulega löglegur atvinnuvegur í Þýskalandi og fólk sem stundar vændi, er skráð og greiðir tilskilin gjöld og tryggingar til hins opinbera. En mansal, nauðung og misnotkun er ekki löglegt og að því beinist gagnrýnin.
Barist gegn mansali
Þýska kirkjustjórnin hefur tekið höndum saman við fjölda kirkjulegra samtaka til að berjast gegn mansali og misnotkun í tengslum við HM. Annars vegar er reynt að koma upplýsingum á framfæri til þeirra landa þar sem algengt er að hórmangarar og þrælasalar lokki stúlkur til Evrópu með fölskum atvinnutilboðum. Hins vegar verður á ýmsan hátt reynt að ná til stúlkna sem hafa verið neyddar í vændi með upplýsingum á fjölda tungumála um aðstoð, líkamlega og andlega. Einnig verður spjótum beint að körlum sem eru hvattir til að axla ábyrgð og láta vita ef þeir hafa grun um vændi þar sem nauðung er beitt. Boðið verður upp á númer og staði þar sem hægt er að tilkynna slíkt.
Boltinn í kirkjunni
Þýsku kirkjurnar láta hins vegar ekki staðar numið við skuggahliðar HM. Fótboltakeppni er spennandi og jákvæður atburður og hefur bæði skemmti- og forvarnargildi. Kirkjan hefur gert sóknum kleift að sýna leikina opinberlega í söfnuðunum með kaupum á sýningarrétti. Hátt í 2000 söfnuðir hafa sótt um slíkt leyfi. Sumir þeirra ætla að halda mikla hátíð í samvinnu við íþróttafélög, aðrir skipuleggja sýningar fyrir æskulýðsstarf, stundum í samstarfi við skólana, enn aðrir sýna leikina í smærri hópum og hafa umræður um réttlátan leik (fair – play) og guðfræði réttlætisins (theology of justice). Margir hafa skipulagt fótboltaleiki í tengslum við sýningarnar og verða þar notaðir boltar sem keyptir eru í gegnum svokallað fair-trade kerfi, þar sem vinnuaðstæður þeirra er gera boltana eru manneskjulegar og þeir fá sómasamleg laun.
Að sjálfsögðu er HM líka tækifæri til að lofa Guð í samfélagi þjóðanna, með gestum alls staðar að úr heiminum. Það verður gert í söfnuðunum og einni í guðsþjónustu sem haldin í München þann 9. júní, skömmu áður en fyrsti leikur keppninnar hefst.
Heimild: Vefsíða Evangelísk Lúthersku kirknanna í Þýskalandi.