Sá, er allt helgar . . .

Sá, er allt helgar . . .

Þessi dagur – þessi stund sem við eigum hér saman – gefur okkur öllum tilefni til að líta tilbaka, horfa yfir farin veg og hugsa í bæn og þakkargjörð til allra þeirra sem okkur eru horfnir. En þessi dagur býður okkur einnig að horfa fram á veginn af þeirri sömu gleði og þeir, sem við höfum þurft að skiljast við, skildu eftir sig og vígðu lífi okkar með tilveru sinni og liðnum samverustundum, sem búa í minningunum stórum og smáum.
fullname - andlitsmynd Gunnar Jóhannesson
06. nóvember 2005
Flokkar

Þegar hann sá mannfjöldann, gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann, og lærisveinar hans komu til hans. Þá lauk hann upp munni sínum, kenndi þeim og sagði: Sælir eru fátækir í anda, því að þeirra er himnaríki. Sælir eru sorgbitnir, því að þeir munu huggaðir verða. Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa. Sælir eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því að þeir munu saddir verða. Sælir eru miskunnsamir, því að þeim mun miskunnað verða. Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá. Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða. Sælir eru þeir, sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir, því að þeirra er himnaríki. Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina, sem voru á undan yður. Mt 5. 1-12

Nú helgar hátíð þessa fyrst að upphafi, sá er allt helgar, það er heilagt verður, Drottinn vór Jesús Kristur.

Þessi orð, sem ég var að lesa eru um það bil áttahundruð ára gömul. Þau er að finna í fornri íslenskri stólræðu sem flutt var á þessum sama messudegi, á Allra heilagra messu. Sá dagur var til forna á meðal helgustu messudaga kirkjunnar.

Og hann er það enn með sínum hætti.

Þessi fornu orð, sem enn eru svo auðskilin, miðla þeirri trú sem er ný á hverjum tíma og gild:

Sá sem allt helgar er Drottinn vor Jesús Kristur.

Hann er sá sem tengir hið liðna og hið yfirstandandi, það sem horfið er í tímans straumi og hitt sem fæðist að nýju á hverjum degi; það sem var og það sem er, hið gamla og hið nýja. Allt helgast í honum sem er upphafið og endirinn, alfa og ómega.

Þessi orð eru trúarjátning.

Í þeim er fólgin sú vissa og það traust sem hafið er yfir öll tímanleg og mannleg mæri; trúartraust sem aldrei fellur úr gildi né í gleymskunnar dá.

Og þessi gömlu orð munu heldur ekki gleymast vegna þess að í þeim er fólginn sannleikur.

Sá sannleikur er Jesús Kristur.

Hann er vegurinn, sannleikur og lífið.

Þessi orð voru á vörum fólks fyrir öllum þessum hundruðum árum síðan, löngu fyrir þann tíma raunar, og þau hafa verið það allt fram til þessa dags. Og þau verða það áfram.

Allra heilagra messa miðlar þessari trú. Þeirri trú að Jesús Kristir er öllum nálægur. Hann er með í för frá upphafi lífs til loka þess.

Þessi dagur – þessi stund sem við eigum hér saman – gefur okkur öllum tilefni til að líta tilbaka, horfa yfir farin veg og hugsa í bæn og þakkargjörð til allra þeirra sem okkur eru horfnir.

En þessi dagur býður okkur einnig að horfa fram á veginn af þeirri sömu gleði og þeir, sem við höfum þurft að skiljast við, skildu eftir sig og vígðu lífi okkar með tilveru sinni og liðnum samverustundum, sem búa í minningunum stórum og smáum.

Gleði og sorg, bæn og þakkargjörð, fortíð og framtíð.

Í honum mætist allt sem skynjun okkar nær til. Allt fer það í gegnum Jesú Krist sem vakir yfir okkur öllum með blessandi nærveru sinni og lífgefandi kærleika. Að eiga hann er sú sæla sem upphefur lífið til þeirrar hamingju sem mesta er hægt að eignast í þessum heimi.

Já, sælir eru þeir . . .

Hann var nærri þegar þú greipst andann fyrst á lofti sem ósjálfbjarga barn. Þá tók hann á móti þér. Þá fékkst þú að hvíla í faðmi hans. Hvert barn sem fæðist er undur hans skapandi máttar, sem allstaðar er að verki og öllum nálægur. Hann gafst þér við skírn þína, helgaði líf þitt með náð sinni og kallaði þig með nafni. Og hann sagði við þig: Óttast þú ekki, ég er hjá þér. Þú ert minn. Hjá þér vil ég vera, vígja þér mitt hjarta og láta ljósið mitt bjarta leiða þig og blessa og gæta á öllum þínum vegum.

Og það segir hann hér í dag.

Við þig og við mig.

Hann horfir í augu litla barnsins sem hér var borið að skírnarlaug sinni. Hann mun ekki líta af því. Það er hans og mun ávallt vera hans.

Og kall hans er eilíflega nýtt á hverjum degi. Það mun aldrei dvína. Hann sleppir ekki höndinni sinni af okkur eitt andartak.

Sú trú og það bænarákall sem helgar hið nýfædda barn við upphaf lífs þess er hið sama og fullkomnar burtför þess sem kveður þetta líf. Bæði fá að líta geisla þeirrar sömu sólar sem er Jesús Kristur, sem kemur að með frið sinn og kærleika, þann kærleika sem ummyndar og endurnýjar alla hluti.

Og einnig þá er kall hans óbreytt og hið sama:

Óttast þú ekki, ég er hjá þér. Þú ert minn.

Sú bæn sem við berum þá í brjósti breytist ekki enda getur hún ekki verið önnur:

Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, sem eftir mikilli miskunn sinni hefur endurfætt oss til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum.

Og nú megum við á þessari stundu biðja bæna í krafti þeirrar trúar. Kveða niður allar hugsanir og fagna yfir því lífi sem Drottinn hefur gefið okkur.

Nú mátt þú hugsa svo í hjarta þínu, er þú lítur á ósjálfbjarga barnið þitt sem Drottinn hefur lagt í faðm þinn, og þakka Guði þínum fyrir lífið sem hann gefur.

Og við megum einnig hugsa til þeirra sem Guð hefur tekið til sín með þakklæti í hjarta, til allra þeirra sem okkur eru hjartfólgnir. Þá áttum við okkur á því að við eigum allt okkar fólgið í náð Guðs, sem er almáttugur og kærleiksríkur. Og þá fyrst kynnumst við þeirri fátækt hjartans sem ein rúmar þá auðlegð sem er sæla hins sanna lífs í Jesú Kristi, honum sem allt helgar, það er heilagt verður.

Sælir eru fátækir í anda, því að þeirra er himnaríkið, ríkið hans, hann sjálfur.

Lofaðu honum að helga hjarta þitt á þessari stundu, á þessari allra heilagra messu. Þar vill hann ríkja. Hjartað hans stendur þér opið, og hverjum þeim, sem biður af heilum hug. Kærleikurinn hans bíður þín, og hverjum þeim, sem opnar hjarta sitt fyrir nálægð hans.

Hann er að tala til þín á þessari stundu.

Já, lofaður sé hann. Hans er ríkið, mátturinn og dýrðin. Að eilífu. Amen.