Kolsvart myrkur - lífsins ljós

Kolsvart myrkur - lífsins ljós

Það einkennir aðventuna að ljós eru kveikt út um allt. Mér finnst svo ánægjulegt að fara í bíltúr með fjölskylduna og horfa á allar ljósaseríurnar og skreytingar sem fólk hefur sett upp. Mikil og mörg ljós eru sannarlega góð í skammdeginu.
fullname - andlitsmynd Ragnhildur Ásgeirsdóttir
16. desember 2013

Fyrir nokkrum árum sagði ég fólkinu mínu í kirkjustarfi eldri borgara í Fella- og Hólakirkju frá eftirminnilegu ferðalagi sem ég fór í til Afríku sumarið 1994. Ég sagði þeim frá dýralífinu, náttúrunni, lyktinni, fólkinu, kofunum og kristniboðsstarfinu. Þá var einn þátttakandi sem spurði mig hvað hefði nú verið verið eftirminnilegast  í þessari ferð og án þess að hugsa mig um þá svaraði ég ,,myrkrið”. Ég hef aldrei á ævinni upplifað eins kolsvart myrkur eins og í Afríku. Þarna voru engin götuljós eða auglýsingaskilti og ég upplifði þá staðreynd að ég þekkti ekki myrkur. Ég sá ekki neitt, myrkrið var eins og veggur. Það fólk sem ólst upp í sveit þekkir sjálfsagt  svona kolsvart myrkur en ég sem er borgarbarn hafði aldrei reynt nokkuð þessu líkt.

Þessi tilfinning að sjá ekkert var alls ekki góð. Ég reyndi að rýna út í myrkrið, reyndi að láta augu mín venjast myrkrinu en það gekk ekki. Ég vissi að þarna gátu verið slöngur, hættuleg skordýr og mér fannst ég afskaplega hjálparvana. Ég gleymi aldrei þessari tilfinningu að mig vantaði birtuna, helst bara ljósastaura til að lýsa upp umhverfið.

Ljósið er nauðsynlegt fyrir okkur. Og þess vegna þykir mér ákaflega vænt um þá líkingu sem fjallað er um í Biblíunni þegar Jesús sagði: „Ég er ljós heimsins, sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins“ og orðin í Jóhannesarguðspjalli, „Hið sanna ljós sem upplýsir hvern mann kom nú í heiminn".

Það einkennir aðventuna að ljós eru kveikt út um allt. Mér finnst svo ánægjulegt að fara í bíltúr með fjölskylduna og horfa á allar ljósaseríurnar og skreytingar sem fólk hefur sett upp. Mikil og mörg ljós eru sannarlega góð í skammdeginu.    

Aðventan þýðir koma og aðventan bendir á komu Jesú, hvernig Guð sjálfur nálgaðist okkur manneskjurnar á einstakan hátt í syni sínum Jesú Kristi. Aðventukransinn er eitt af augljósustu merkjum þess að aðventan er gengin í garð. Logandi kertin merkja komu Krists, á komu ljóssins, sem aldrei slokknar. Ljósið sem getur tekið sér bústað í lífi okkar, í hjörtum okkar og lýst upp tilveru okkar. Með því að gleðja okkur, blessa, uppörva, styrkja, hugga og leiðbeina.

Það er sérstakt með jólin og aðventuna að hugurinn hvarflar oftar en ekki til bernskujólanna og þess sem við upplifðum sem börn. Það er ekki nokkur vafi á því að bernskujólin eru sterk í minningu okkar allra og þau leggja ákveðinn grunn að jólunum í hugum okkar.

Jólaundirbúningurinn á bernskuheimilinu og  þær hefðir og þeir siðir sem honum fylgdi hafa haft áhrif á hvernig við síðar meir höfum hagað þeim sama undirbúningi á okkar heimilum og hvernig við höfum haldið jól.

Ég hef alltaf hlakkað mikið til jólanna.  Þegar ég var lítil var aðventan skemmtilegur undirbúningstími og jólahátíðin var hápunktur ársins.  Ég get þess vegna sagt að ég sé sannkallað jólabarn í hjarta mínu. Minningar um jólin eru yndislegar, jólin í bernsku minni eru sveipuð ákveðnum ljóma. Jólin voru helg stund þar sem ég upplifði eitthvað guðdómlegt ,eitthvað sem ekki var hægt að festa hönd á en það lýsti sér í gleði og einstakri vellíðan hið innra. Ég man þegar ég fór til kirkju með fjölskyldu minni á aðfangadagskvöld, full eftirvæntingar. Allir voru brosandi og fínir og ég fann innra með mér að jólin voru gengin í garð. Það var helgi yfir öllu, það var friður. Ég man í kirkjunni þegar presturinn sagði okkur söguna um Jesúbarnið sem fæddist í fjárhúsi og var lagt í jötu, því ekki var hægt að fá gistingu í gistihúsi. Ég man fallegu jólasálmana sem ég söng og yljuðu mér hið innra. Ég man þegar ég var minnt á að stærsta jólagjöfin til mín væri Jesúbarnið sjálft. Jesúbarnið sem gengi við hlið mér allt lífið mitt og gæfi mér af nærveru sinni. Ég fékk sem lítil hnáta að taka við þessum boðskap og tileinka mér hann í lífi mínu. Og ég er innilega þakklát fyrir það. 

Á aðventunni erum við minnt á að gleðja aðra. Við erum hvött til að gleðja hvert annað með gjöfum á jólunum, við erum hvött til að gefa fátækum og styrkja góð málefni. Það er gott.

Það er mikilvægt að við búum okkur undir komu jólanna ekki eingöngu með þrifum og innkaupum heldur einnig með því að gefa okkur tíma til að vera saman, sinna þeim sem í kringum okkur eru og hlúa að okkur sjálfum. Þess vegna er aðventan kærkomin tími til að umvefja boðskapinn um frið og kærleika og nýta tímann til að taka á móti því góða inn í líf okkar.

Jólin benda á ljós heimsins,  ljósið sem gefur líf , ljósið sem gefur birtu og yl, ljósið sem stendur allt myrkur af sér og lætur ekkert ógna sér.  Ljós sem lýsir sama á hverju gengur og ekkert fær því grandað.  Það slokknar ekki á því ljósi og þó okkur finnist við vart sjá nema litla týru eða skimu þá megum við treysta því að ljósið  er á sínum stað og hopar hvergi. Ljósið sem skín í myrkrinu  er Jesús Kristur, ljósið frá Guði sem er ætlað okkur öllum. 

Guð hefur gefið okkur ljósið til að lýsa í hjörtum okkar, hið innra með okkur, óháð því hvernig við erum stemmd eða hvernig tilfinningar okkar eru.  Guð hefur gefið okkur ljósið til að lýsa yfir og allt um kring.