Kirkja og skóli á forsendum barnsins

Kirkja og skóli á forsendum barnsins

Umræðan um kirkju og skóla byggir um sumt á misskilningi. Talað hefur verið um tillögu mannréttindaráðs Reykjavíkur sem „bann við trúboði" eins og trúboð á vegum kirkjunnar sé þar iðkað í stórum stíl. Það er stefna kirkjunnar að eiga samstarf við skólann á þeirri forsendu hans að fræða um trú en ekki boða hana.
fullname - andlitsmynd Halldór Reynisson
30. október 2010

Umræðan um kirkju og skóla byggir um sumt á misskilningi. Talað hefur verið um tillögu mannréttindaráðs Reykjavíkur sem „bann við trúboði" eins og trúboð á vegum kirkjunnar sé þar iðkað í stórum stíl. Það er stefna kirkjunnar að eiga samstarf við skólann á þeirri forsendu hans að fræða um trú en ekki boða hana.

Þá hefur verið látið að því liggja að tillögur mannréttindaráðs byggi á tillögum menntasviðs borgarinnar frá 2007 og að fulltrúi kirkjunnar hafi „blessað" þær. Ég er sá blessaði maður og vil leiðrétta þann misskilning. Í fimmta lið tillagna mannréttindaráðs segir „Kirkjuferðir skulu ekki farnar á starfstíma…". Í 2007 skýrslunni segir: „Varðandi börn og nemendur getur samstarf falist í vettvangsheimsóknum … fá kynningu á hátíðum og athöfnum er tengjast lífshlaupi mannsins."

Tillaga mannréttindaráðs gengur því í þveröfuga átt.

Í sjötta lið tillagna mannréttindaráðs segir „…að tryggt sé að fagaðilar komi að sálrænum áföllum í stað þess að leitað sé til trúar- og lífsskoðunarfélaga". Í 2007 skýrslunni segir: „Samstarf getur einnig falið í sér að kennarar í leik- og grunnskólum leiti aðstoðar hjá fulltrúum trúar- og lífsskoðunarhópa vegna áfalla sem tengjast nemendum og kennurum skólanna."

Tillaga mannréttindaráðs gengur í þveröfuga átt.

Varðandi umfjöllun um fermingarfræðslu Þjóðkirkjunnar þá er hugmyndin í tillögunum að banna skólum að veita leyfi til fermingarferða. Í árslok 2007 áréttaði menntamálaráðuneytið að ekki stæði til að banna skólastjórnendum að veita slík leyfi en foreldrar skyldu sækja um en ekki kirkjurnar.

Í rauninni held ég að allir séu sammála um að skólinn sé ekki vettvangur trúboðs. Deilan snýst um hvað kallað er trúboð. Er það að prestur gengur inn í skóla trúboð? Eru englamyndir á litlu jólunum trúboð? Forðumst öfgar, höfum þá siðfræði Aristótelesar að leiðarljósi að dygðin sé fólgin í meðalhófi en lestir í öfgunum.

Loks þetta. Í skólamálaumræðunni er sjónarmið barnsins sjálfs og náms þess nú í brennidepli en ekki hagsmunir kennarans, hvað þá kirkjunnar eða siðmenntar. Hverjir eru hagsmunir barnsins? Hvað nærir það og þroskar? Hvað styður þegar áföll dynja yfir? Hvernig hjálpum við því að auðga sitt andlega líf, hvort sem það er kristið eða trúlaust?