Kirkjan, húmanisminn og Siðmennt

Kirkjan, húmanisminn og Siðmennt

Kristin kirkja vinnur með lífinu og þjónar því með mannúð og virðingu að leiðarljósi og hefur fyrir augum sér Jesú Krist sem leiðtoga og fyrirmynd. En hún getur ekki samið um það að láta ýta sér upp á fjall og verða rykug og raddlaus.
fullname - andlitsmynd Jóna Hrönn Bolladóttir
02. desember 2007
Meðhöfundar:
Bjarni Karlsson
Flokkar

Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage við Olíufjallið sendi Jesús tvo lærisveina og sagði við þá: „Farið í þorpið hér fram undan ykkur og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér. Ef einhver hefur orð um, þá svarið: Drottinn þarf þeirra við, og mun hann jafnskjótt senda þau.“ Þetta varð svo að rættist það sem spámaðurinn sagði fyrir um: Segið dótturinni Síon: Konungur þinn kemur til þín, hógvær er hann og ríður asna, fola undan áburðargrip. Lærisveinarnir fóru og gerðu sem Jesús hafði boðið þeim, komu með ösnuna og folann og lögðu á þau klæði sín en Jesús steig á bak. Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn en aðrir hjuggu greinar af trjánum og lögðu á veginn. Og múgur sá sem á undan fór og eftir fylgdi hrópaði: „Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum!“

Matt. 21. 1-9

Í guðspjalli dagsins er mikill húmor og mikil gleði en svo greinir það líka frá stríðum ótta og sterkri reiði. Frásögnin er tilfinningalega flókin og þar eru átök ólíkra hópa.

Jesús kemur ríðandi á asnanum inn í Jerúsalem og ögrar öllum viðteknum hugmyndum um vald er hann leyfir fólkinu að hylla sig sem konung fyrir framan veraldlega og andlega leiðtoga þess undir vökulu augnaráði Rómverskra hermanna sem gæta borgarhliðsins. Er inn í musterið er komið tekur hann sér fyrir hendur að reka út alla sem þar eru ekki í helgum erindum, “hann hratt um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna og mælti við þá: “Ritað er: Hús mitt á að vera bænahús en þið gerið það að ræningjabæli.”

Í beinu framhald streymir að honum fatlað fólk, sum eru blind önnur hreyfihömluð, og hann læknar þau. Þá segir svo: “Æðstu prestarnir og fræðimennirnir sáu dásemdarverkin sem hann gerði og heyrðu börnin hrópa í helgidóminum: “Hósanna syni Davíðs!” Þeir urðu gramir við og sögðu við Jesú: “Heyrir þú hvað þau segja?” Jesús varaði þeim: “Já, hafði þið aldrei lesið þetta: “Af munni barna og brjóstmylkinga býr þú þér lof?” - Það eru ekki ný tíðindi að menn hafi áhyggjur af því að börn kunni að skaddast af því að hitta Jesú.

Í Lúkasarguðspjalli er greint frá þessum atburði og þá er sagt frá áhyggjum Farísea yfir því er mannfjöldinn hyllti Jesú: “Meistari, hasta þú á lærisveina þína!” sögðu þeir. Og við skulum ekki efast um að áhyggjur þeirra voru líka bornar uppi af ábyrgðarkennd. Uppreisn gegn valdi Rómverja var iðulega mætt með blóðbaði á götum borgarinnar. E.t.v. óttuðust þeir eitthvað slíkt, að hér yrði pólitísk ögrun sem kveikti ófriðarbál. En Jesús hvatti ekki til uppþota heldur laðaði hann fram fegurð og frið sem nú skein af andlitum fólksins. Í stað þess að hrópa vígorð og kasta grjóti tók fólk pálmagreinar og sínar eigin yfirhafnir og lagði á veginn þar sem Jesú fór um, og söngurinn sem ómaði var söngur friðar og gleði. “Hasta þú á lærisveina þína!” mæltu Farísearnir. Jesús svaraði þeim stillilega og ég held að hann hafi brosað þegar hann talaði: “Ég segi ykkur, ef þeir þegja munu steinarnir hrópa!” Líkast til hafa orð hans vakið almennan hlátur af því þau voru óvænt og húmorísk. Og hugsanlega hafa farísearnir ekki getað varist því að brosa í kampinn því eina ferðina enn hafði hann gert þá orðlausa án þess að niðurlægja þá. Farísearnir og fræðimennirnir voru valdsmenn samtíma síns og þeir kunnu að halda völdum og þagga niður í öllu sem ögraði stöðu þeirra. En tökum eftir því að Jesús efaðist aldrei um rétt þeirra til að vera það sem þeir voru. “Á stóli Móse sitja fræðimenn og farísear. Því skulið gera allt sem þeir segja ykkur.” Segir hann nokkru seinna í guðspjallinu. (Matt. 23.2) Jesús amaðist ekki við tilveru farísea og fræðimanna, tökum eftir því og tökum mark á því. Né heldur amaðist hann við valdi Pílatusar landsstjóra eða annarra yfirvalda. Hann réðist hvorki að valdahöfum samtímans né tíðarandanum, heldur ögraði hann hvoru tveggja með þeim hætti að allt vald varð afstætt í nærveru hans og tíðarandinn hitti sjálfan sig fyrir í verkum hans og dæmisögum. Þannig fór hann að. Það var ekki stefna Jesú að yfirtaka þjóðfélagið, í hans augum átti þjóðfélagið sinn eigin tilverurétt sem Guðs góða sköpun. Og samfélagsgerðin með kostum sínum og löstum var vettvangur þeirra kærleiksverka sem hann vann.

Í dag er spurt að stöðu kristinnar kirkju í mannfélaginu. Hvar á kirkjan að vera? Sömu spurningar voru uppi í lífi Krists og frumkirkjunnar. Í æðstaprestsbæn Jesú sem skráð er í 17. kafla Jóhannesarguðspjalls biður Jesús fyrir kirkju sinni og útskýrir að hún sé í heiminum þótt hún sé ekki af honum. Kirkja Jesú á engan stað nema veröldina til þess að lifa, þjóna og starfa. Og á sama hátt og Jesús tók við hverjum sem til hans leitaði og tók mannlegar aðstæður fullkomlega alvarlega, þannig tekur kirkja hans aðstæður veraldarinnar alvarlega og lætur sig varða um hagnýtar aðstæður fólks, hvort heldur félagslegar, heislufarslegar, fjárhagslegar eða hvað annað. Kristin kirkja boðar því mannhyggju, hún er húmanísk og setur sig einfaldlega við hliðina á öllu fólki sem vill mönnum vel og styður þau samfélagsöfl sem virða mannréttindi.

Við lifum sérkennilegan tíma í íslensku samfélagi þessa daga þar sem hópur fólks hefur í nafni húmanisma gert harða atlögu að stöðu kirkunnar í íslensku samfélagi og má ekki til þess hugsa að kirkjan starfi á hinu opinbera sviði. Siðmennt kennir sig við veraldlega mannhyggju. - Kristin kirkja hefur ekkert við veraldlega mannhyggju að athuga. Hún styður alla mannhyggju hvort sem hún er reist á rökum sem fengin eru með efnisheiminn einan til hliðsjónar eða byggð á opinberun af einhverju tagi. Á sama hátt og Kristur viðurkenndi vald og tíðaranda samtíma síns viðurkennir kristin kirkja að samfélagið lýtur sínum lögmálum og álítur ekki eftirsóknarvert að lifa í einhverskonar guðveldisþjóðfélagi. Ítrekað er frá því greint í guðspjöllunum að menn vildu taka Jesú og gera hann að konungi, en hann snéri sig markvisst út úr því. En hitt er annað að kirkja Jesú getur ekkert farið. Hún getur ekki vikið af hinu opinbera sviði, vegna þess að hún á hvergi annarsstaðar heima.

- Hann fékk þessa óborganlegu hugmynd hann Pétur lærisveinn uppi á fjalli ummyndunarinnar þegar Jesús opinberaðist þar í dýrð, munið þið eftir því? Þar stóð Jesús á tali við Móse og Elía og það skein af honum ósegjanleg birta. “Gott er að við erum hér.” Sagði Pétur þá. “Ef þú vilt skal ég gera tjaldbúð, þér eina, Móse eina og Elía eina.” En Guðspjallið tekur fram að hann vissi ekki hvað hann var að segja. Þá kom ský og skyggði yfir þá og rödd úr skýinu sagði: ‘Þessi er minn elskaði sonur. Hlýðið á hann.’ Er þeir opnuðu augun sáu þeir engan nema Jesú einan. Og hvert haldið þið að Jesús hafi leitt þá? Beina leið niður af fjallinu, og fyrsti einstaklingurinn sem þeir mættu var faðir með veikan son sem bað um hjálp!

Við fyrstu tilhugsun virðist það kannski ekki svo fráleitt að kirkjan eigi bara að vera uppi á fjalli eða inni í þar til gerðum húsum við sína tilbeiðslu og trúboð. En Jesús hafnar því algerlega. Hann á bara erindi við mannlífið en hvorki við fjöll eða hús og hann getur ekki aðgreint sig frá heiminum. Það er kjarni kristinnar trúar að Guð hefur tekið heiminn í sátt og sjálfur gerst hluti af honum með því að fæðast inn í hann. Með fæðingu Guðs sonar voru mannlegar þarfir og aðstæður settar á dagskrá í eitt skipti fyrir öll. Sjálf jólin útskýra þannig að kristin siðahugsun er mannhyggja, húmanismi. Hvernig á slík kirkja að loka sig af frá heiminum og sætta sig við að tilheyra ekki hinu opinbera sviði, vera ekki þar sem börn eru að alast upp eða þar sem sjúkdómar eru meðhöndlaðir eða þar sem föngum haldið? Kirkja Jesú helst ekki við uppi á fjallinu eða inni í kirkjuskipinu vegna þess að hún er knúin af anda Jesú. Hún getur ekki setið kyrr, hún getur ekki þagað og getur ekki látið sem ekkert sé í veröld sem full er af þjáningu, einangrun og ranglæti.

En á sama hátt og Jesús virti tíðaranda samtíma síns og valdið sem þá var við lýði og ætlaðist ekki til þess að vera einn um hituna í deiglu mannlífsins, þannig stefnir kirkja hans ekki að því að ýta út af taflborði hversdagsins þeim öflum sem jafnframt móta samfélagið á hverjum tíma. Við sjáum Guð að verki í allri heiðarlegri sannleiksleit. Allri heimspeki og trúariðkun þar sem mannsandinn leitar hins sanna og góða. Sjálfsmynd kirkjunnar byggir á því að hún er sett til að vera salt og ljós. Eins og saltið varðveitir matvæli frá eyðileggingu, þannig er kirkjan send út í veröldina til þess að varðveita heiminn frá skemmd af því að hið veraldlega svið er viðfang Guðs ástar. Og eins og ljósið á stikunni gerir það að verkum að það verður ratljóst í húsinu, þannig er kirkjan send til að vera ljós svo menn geti ratað af sjálfsdáðum í eigin tilveru. Þess vegna segir kirkjan börnum og fullorðnum sögur af Jesú. Og hún syngur lofsöngva um hann, bendir burt frá sjálfri sér til Jesú með öllu sínu verki, hvar sem hún er að störfum um víða veröld.

Kirkjan meðhöndlar ekki vald heldur þjónar hún mannlegum þörfum.

Kirkjan vinnur ekki að því að viðhalda sjálfri sér heldur þráir hún að mannlífið fái að vaxa og dafna því hún trúir því að guðsmyndin búi í hverjum manni og sér Guð að verki í framvindu lífsins.

Á tímum þegar vaxandi fjöldi ungmenna sér engin hlutverk önnur en að vera þátttakendur í neyslunni, og tilgangsleysið herjar á sjálfsmynd þeirra, finnur kristin kirkjan sig knúna til að ganga inn í tómarúmið og hefja samtal um lífsgildi. Hún gerir það vegna þess að hún er húmanísk hreyfing sem vill vinna með öllum sem láta sig mannleg kjör varða af umhuggju og virðingu. Hún vill vinna með skátum og múslimum, Siðmenntarmönnum og stjórnmálamönnum, með sundfélögum og verkalýsðhreyfingum, heilbrigðisstofnunum og fangelsum, skólum og lögreglu, björgunarsveitum, klúbbum og félögum af öllum toga, kórum og fyrirtækjum. Kristin kirkja vinnur með lífinu og þjónar því með mannúð og virðingu að leiðarljósi og hefur fyrir augum sér Jesú Krist sem leiðtoga og fyrirmynd. En hún getur ekki samið um það að láta ýta sér upp á fjall og verða rykug og raddlaus.