Fairtrade er framtíðarverkefni

Fairtrade er framtíðarverkefni

Fjölmargar kirkjur í Evrópu hafa styrkt Fairtrade - sanngjörn viðskipti - undanfarna áratugi. Stuðningurinn felst aðallega í því að bjóða upp á Fairtrade-merktar vörur í safnaðarstarfinu. En hver meðalstór söfnuður kaupir árlega töluvert magn af kaffi, tei, sykri, kexi og marmelaði.
fullname - andlitsmynd Bjarni Þór Bjarnason
15. janúar 2007

Fjölmargar kirkjur í Evrópu hafa styrkt Fairtrade - sanngjörn viðskipti - undanfarna áratugi. Stuðningurinn felst aðallega í því að bjóða upp á Fairtrade-merktar vörur í safnaðarstarfinu. En hver meðalstór söfnuður kaupir árlega töluvert magn af kaffi, tei, sykri, kexi, marmelaði o. s. frv.

Allar þessar vörur (ásamt mörgum öðrum) er hægt að kaupa núorðið í íslenskum verslunum. En þær eru merktar Fairtrade-merkinu, framleiddar og seldar eftir stöðlum sanngjarnra viðskipta.

Rökin á bak við sanngjörn viðskipti eru:

  1. Að framleiðendur og bændur fái sanngjörn laun fyrir vinnu sína og vörur.
  2. Að draga úr barnaþrælkun.
  3. Að lífræn ræktun nái frekari útbreiðslu.
  4. Að styrkja réttinn til félagafrelsis og stuðla að lýðræðisþróun.
  5. Að draga úr misrétti í heiminum.
Í ofanálag fær maður gæðavöru. Þannig hagnast allir. Fairtrade er ekki góðgerðastarf. Fairtrade þýðir gott verð fyrir góða vöru.

Grafarvogskirkja er "Fairtrade kirkja". Sóknarnefnd hefur samþykkt að vera eingöngu með Fairtrade-merktar vörur í safnaðarstarfi sínu, þegar því verður við komið. Innan skamms á að stofna sérstakan "Fairtrade-hóp" innan safnaðarins. Þessi hópur verður eingöngu skipaður leikmönnum. Hann mun m.a. sjá um lítið söluborð í anddyri kirkjunnar, þar sem boðið verður upp á Fairtrade-merktar vörur. Þessi litla verslun verður opin eftir messur í kirkjunni. Með þessu móti viljum við gera Fairtrade sýnilegra meðal safnaðarfólks.

Þetta starf er svo sannarlega í anda Krists og stuðlar að betri heimi.