Sóknargjaldið er ekki framlag ríkisins

Sóknargjaldið er ekki framlag ríkisins

Því er oft haldið fram að trúfélögin, og þá sérstaklega Þjóðkirkjan, njóti forréttinda með því að ríkið sjái um innheimtu félagsgjaldanna. En svo er alls ekki. Ríkið innheimtir fjölmörg gjöld fyrir frjálsar félagahreyfingar og engum manni dettur í hug að telja þær ríkisvæddar vegna þess.
fullname - andlitsmynd Gunnlaugur S Stefánsson
05. október 2010

Mynt

Þeir sem kynna sér sögu og tilurð sóknargjaldsins, sem trúfélögin byggja starfsemi sína á, sjá að það er ekki framlag ríkisins, heldur innheimta á sérstöku gjaldi sem ríkinu ber að skila til trúfélaganna. Til hagræðis fyrir ríkið var ákveðið árið 1988 að gjaldinu skyldi bætt við tekjuskattinn, en áður hafði það verið sérstaklega tilgreint á innheimtuseðli.

Í fjárlagafrumvarpi hefur öll upphæð trúfélagsgjalda verið tilreiknuð Þjóðkirkjunni, þó reyndin sé að gjaldið skiptist á milli trúfélaga samkvæmt meðlimafjölda. Það gefur ekki nákvæm skilaboð um fjármál Þjóðkirkjunnar. Þá hefur Alþingi á s.l. árum tekið af trúfélagsgjöldunum væna sneið, eða allt að fimmtu hverja krónu, í ríkissjóð og boðar nú að taka enn meira. Sóknargjaldið rennur til safnaðanna til að standa undir starfinu og þjónustunni í heimabyggð, þannig að úrsögn úr Þjóðkirkjunni bitnar á því.

Því er oft haldið fram að trúfélögin, og þá sérstaklega Þjóðkirkjan, njóti forréttinda með því að ríkið sjái um innheimtu félagsgjaldanna. En svo er alls ekki. Ríkið innheimtir fjölmörg gjöld fyrir frjálsar félagahreyfingar og engum manni dettur í hug að telja þær ríkisvæddar vegna þess. Nærtækt er að benda á innheimtu stéttarfélaga- og lífeyrisiðgjalda ríkisstarfsmanna. Þá hefur ríkið innheimt ýmiss skyldugjöld eins og búnaðarmálagjald af bændum fyrir Bændasamtökin til að fjármagna rekstur sinn, jöfnunargjald alþjónustu fyrir fjarskiptafyrirtæki, markaðsgjald fyrir Útflutningsráð Íslands og iðnaðarmálagjald til að standa undir rekstri frjálsra félagasamtaka iðnaðarins. Þá eru í gildi margvísleg lög um opinbera innheimtu sérstakra skyldugjalda fyrir viðskiptalífið eins og olíudreifingargjald og fiskræktarsjóðsgjald svo dæmi séu tekin.

Það sem greinir ofangreind skyldugjöld frá trúfélagsgjöldunum er, að ekkert eða mjög takmarkað valfrelsi er fyrir greiðandann um hvert þau renna og Alþingi hefur ekki tekið af þeim sneið í ríkissjóð. En fólki er frjálst að velja sér trúfélag þangað sem félagsgjaldið rennur eða standa utan trúfélaga og greiðir þá sitt trúfélagsgjald í ríkissjóð.

Umræður um fjármál Þjóðkirkjunnar eru oft á villugötum þar sem ónákvæmum upplýsingum er beitt í blekkingaskyni, sérstaklega til að rökstyðja að Þjóðkirkjan sé ríkisvædd stofnun. En þeir sem kynna sér málin komast að raun um, að kirkjan er sjálfstætt trúfélag að lögum og aðskilin frá ríkinu, en með samninga við ríkið á ýmsum sviðum eins og gildir um mörg frjáls félagasamtök í landinu.