Í ljósi þess að breytingar á trúfélagsskráningu hafa áhrif fyrsta desember á ári hverju er rétt að vekja athygli á því hvað þjóðkirkjufólk í Nessókn fær fyrir aurana sína. Pistill þessi tekur mið af aðstæðum í þeirri sókn, en vitaskuld eiga þau sjónarmið sem hér eru viðruð, við um aðra söfnuði þjóðkirkjunnar.
1. Einstakar byggingar
Byrjum á því augljósasta, húsnæðinu. Nessókn stendur straum af öllu viðhaldi og rekstri á Neskirkju. Byggingin markar tímamót í reykvískum arktektúr. Hún er fyrsta móderníska kirkjan á Íslandi, ytra byrðið er friðað og fellur vel að umhverfi sínu, Hagatorgi, þar sem aðrar sambærilegar perlur er að finna, þ.e. Melaskóla, Hótel Sögu og Háskólabíó. Í kirkjuskipinu er að finna ein síðustu verk Gerðar Helgadóttur listakonu og þar er einnig veglegt Noack orgel. Tugir viðburða af margvíslegum toga, fara fram í þessu húsnæði í hverri viku, allt árið um kring og útheimtir það mikla vinnu og alúð að sjá til þess að umgjörð slíkra viðburða sé með þeim hætti að sómi sé að. Þetta á einnig við um önnur kirkjuhús, sem eru oftar en ekki meðal þess fegursta sem upphugsað hefur verið, teiknað og byggt í sínu nærumhverfi.
2. Lýðræði
Næsta atriðið er kannske ekki eins augljóst, lýðræðislegt fyrirkomulag. Skipulag í söfnuði er grasrótarstarf. Sóknarnefndarfólk er kjörið á aðalsafnaðarfundi til fjögurra ára í senn og ber það ábyrgð á þeim fjármunum sem sóknargjöldin skila. Sú hugmynd að fólkið stýri málum í söfnuði á sér djúpar rætur í þjóðkirkjunni. Í raun nær hún allt aftur til siðaskiptanna. Sóknarfólk getur því haft virk áhrif á störfin í gegnum þátttöku í sóknarnefnd og prestar og starfsfólk eru með opin eyru og augu fyrir tillögum og hugmyndum. Ýmsar lýðræðisumbætur hafa orðið út frá þessari hugsjón og mörg mannúðarsamtök eiga rætur að rekja til safnaðarstarfs. Má þar nefna Amnesty International, Save the Children, Greenpeace ofl.
3. Starfið
Svo er það starfið sem sóknargjöldin fjármagna. Nessókn, eins og aðrar sóknir þjóðkirkjunnar, býður upp á starf fyrir alla aldurshópa, allt frá frumbernsku yfir á efri ár. Langt mál væri að telja það allt upp, en innan safnaðarstarfsins rúmast fjölbreytt listsköpun, þjálfun, leiðtogasýn, mannrækt og samtal auk helgihalds. Allt safnaðarstarf er ókeypis og ekki er spurt að þjóðkirkjuaðild eða trúarafstöðu. Nessókn tekur virkan þátt í samtali ólíkra trúarhópa og nú um daginn var hér húsfyllir á Ashura-hátíð þar sem við fögnuðum fjölbreytninni.
4. Aðstaða fyrir fjölmarga
Í kirkjunni eiga fjölmargir hópar sem ekki falla undir safnaðarstarfið, afdrep og aðstöðu. Kórar, félagasamtök, góðgerðarfélög og mörg önnur samfélög falla í þennan flokk. Sóknin leggur metnað sinn í að veita slíkum félögum góða þjónustu enda skipta þau miklu máli fyrir félagsauðinn og bætt samfélag.
5. Kæru grannar!
Að lokum: kæru grannar! Neskirkja er torg í Vesturbænum og þar gefst kostur á að setjast niður t.d. eftir messu, á kóræfingu, foreldramorgni, í barnastarfi osfrv. osfrv., hitta mann og annan og rækta nærsamfélagið. Svoleiðis spjall hefur margsannað gildi sitt til þess að bæta einstaklinga og hópa.