Ljósið sem kom í myrkrið

Ljósið sem kom í myrkrið

Af þessu er ljóst að það var einmitt í myrkrið sem ljósið kom. Það kom ekki í veisluna, ekki í gleðina heldur í sorgina, í kvíðann, í einsemdina og fátæktina. Hann fæddist í fátæka fjölskyldu, hann upplifði missi og einsemd. Hann var ljós í myrkrinu dökka. Því eru jólin aldrei merkingarríkari en einmitt í myrkri og erfiðleikum. Því barnið sem lagt var í jötu varð góði hirðirinn og hann gætir okkar.
fullname - andlitsmynd Óskar Ingi Ingason
25. desember 2011
Flokkar

25. desember 2011.  Jóladagur.

Staðarfellskirkja.

Jóhannesarguðspjall 1:1-14.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.  Amen.

Gleðileg jól, kæru bræður og systur í Kristi!  Nú eru heilög jól, fæðingarhátíð frelsarans.  Hátíð ljóss og friðar.  Við höfum fagnað fæðingu frelsarans á jólanótt og áttum vonandi öll góðar stundir á jóladag, mörg í faðmi fjölskyldunnar.  Önnur langt frá ástvinum.

Jólin eru sérstakur tími.  Tími friðar og fjölskyldu.  Tími gjafmildi og fagnaðar.  En það eru ekki allir sem upplifa slíkt á jólum.  Sumir upplifa að þeir séu einir, ófriður og drykkja, fátækt þeirra er aldrei sýnilegri, myrkrið aldrei meira.  Þess vegna hlakka sumir til jóla, en aðrir kvíða jólum.

Það gleymist oft í fagurskreyttum og uppljómuðum jólum að hin fyrst jól voru hvorki skreytt né uppljómuð.  Helgisagan um jólin kallast á við jólaguðspjall Jóhannesar þar sem sagt er frá komu Krists í heiminn á þennan hátt: „Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna.“ Og áfram: „Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því…… Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki….. Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.

Af þessu er ljóst að það var einmitt í myrkrið sem ljósið kom.  Það kom ekki í veisluna, ekki í gleðina heldur í sorgina, í kvíðann, í einsemdina og fátæktina.  Hann fæddist í fátæka fjölskyldu, hann upplifði missi og einsemd.  Hann var ljós í myrkrinu dökka.  Því eru jólin aldrei merkingarríkari en einmitt í myrkri og erfiðleikum.  Því barnið sem lagt var í jötu varð góði hirðirinn og hann gætir okkar.

Við getum verið blind fyrir ljósi kærleikans, fyrir ljósinu sem kom í heiminn.  Að heyra um það getur minnt okkur á fátækt okkar.  En er það svo slæmt?

Þá er gott að hafa í huga söguna um Sönginn á jólanótt:

Á aðfangadag árið 1875 ferðaðist hinn frægi vakningasöngvari, Sankey, með stóru gufuskipi upp Delawarefljótið í Ameríku. Það var farið að skyggja og stjörnurnar tindruðu á heiðum himninum. Margt fólk var samankomið uppi á þiljum.

— Syngið nú eitthvað fyrir okkur, sögðu ýmsir við Sankey.

Hann tók strax vel í það. Hann stóð við skorsteininn á skipinu. Áður en hann hóf raust sína, leit hann upp í stjörnubjartan himininn og lyfti hjarta sínu í bæn til Guðs. Hann ætlaði sér að syngja jólasálm, en eitthvert undarlegt afl knúði hann til að syngja „Hirðissálminn".

Djúp kyrrð ríkti á meðal áheyrenda. Tónarnir bárust skærir og hrífandi út yfir skipið og kyrrt fljótið.

Er söngnum var lokið, kom maður hörkulegur og veðurbarinn, til Sankeys og spurði:

— Hafið þér einhvern tíma verið í Norðurhernum?

— Já, svaraði Sankey, ég gekk í hann vorið 1860.

— Minntist þér þess, að hafa staðið sem útvörður bjarta tunglskinsnótt árið 1862?

— Já, svaraði Sankey undrandi.

— Það gerði ég líka, sagði ókunni maðurinn, en ég var í Suðurhernum. Er ég sá yður á verðinum, hugsaði ég: Þessi skal nú ekki sleppa lifandi. Ég lyfti byssunni og miðaði á yður. Eg hafði falið mig í skugga, en tunglið skein á yður. í sama bili lyftuð þér höfði yðar og horfðuð til himins, alveg eins og þér gerðuð áðan. Síðan fóruð þér að syngja. Söngur og tónlist hefur alltaf haft undarleg áhrif á mig. Ég sleppti gikknum á byssunni.

— Það er bezt að lofa honum að syngja sönginn til enda, hugsaði ég með mér. Ég get alveg eins skotið hann á eftir. Hann gengur mér hvort eð er ekki úr greipum. En söngurinn, sem þér sunguð, var sami söngurinn og þér sunguð áðan. Ég heyrði greinilega orðaskil í söngnum: Þinn er mátturinn, leiddu oss við hönd þér í neyð og stríði.

— Þessi orð vöktu svo margar minningar hjá mér. Ég fór að hugsa um bernsku mína og guðhrædda móður mína. Hún hafði svo oft sungið þennan söng fyrir mig. En hún dó svo snemma, annars hefði vafalaust margt farið öðru vísi fyrir mér, bætti hann við í angurblíðum róm.

Eftir þennan söng átti ég ómögulegt með að miða á yður aftur. Eg hugsaði sem svo: Sá Drottinn, sem getur bjargað manni frá bráðum bana, er áreiðanlega mikill og máttugur, — og ég lét byssuna síga. Síðan þetta gerðist hefi ég flækzt víða um, en þegar ég sá yður áðan standa og lyfta augunum til himins í bæn eins og forðum, þekkti ég yður aftur. Þá talaði Guð til hjarta míns, en nú bið ég yður um að hjálpa mér til að eignast frið við Guð.

Mjög hrærður í huga tók Sankey þennan fyrrverandi óvin sinn í faðm sér, og þessa jólanótt komu þeir báðir að jötunni í Betlehem. Þar fann þessi ókunni maður frelsara sinn, góða hirðinn, sem leitar að týnda lambinu sínu unz hann finnur það. Er hann hefur fundið það, leggur hann það glaður á herðar sér og ber það heim.

Við getum verið blind fyrir ljósi kærleikans, fyrir ljósinu sem kom í heiminn, fyrir hirði okkar.  Að finna fyrir ljósinu getur minnt okkur á fátækt okkar.  En er það svo slæmt?  Er ekki viðurkenning fátæktar í anda okkur nauðsynleg?  Kristur sagði í fjallræðunni: „Sælir eru fátækir í anda því að þeirra er himnaríki.  Sælir eru syrgjendur því að þeir munu huggaðir verða.“  Himnaríki er þeirra sem eru fátækir í anda, ekki annarra.  Huggunin mun verða þeirra sem syrgja, ekki hinna.

Því þótt heimurinn dæmi og hafni, þó myrkrið umljúki, að þá er kærleikur Guðs til þín ekki minni.  Hjálpin er ekki fjarri.

Já, goðsagan um jólin er sönn.  Orðið kom í heiminn.  Ljós kærleika Guðs og það er ljós sem vil umvefja þig líka í þínu myrkri, hrekja burt myrkrið.  Því myrkur okkar getur jafnt verið í uppljómuðu falsljósi heimsins, sem í skúmaskoti þess sem heimurinn hafnar og vill ekki kannast við.  Myrkrið getur blindað okkur fyrir sjálfu sér eða blindað okkur fyrir hjálpinni.  En hjálpin er Guðs.

Við skulum nú á jóladegi opna augu okkar fyrir að við þurfum á ljósinu að halda.  Að barnið kom til okkar og gaf okkur, trú, von og kærleika.  Okkar er að annast um að trúin vaxi, vonin bifist ekki og kærleikurinn starfi áfram.  Að efla ljósið öðrum.  Þannig eflist það í okkur.  Frú Guðrún Guðmundsdóttir frá Melgerði orðað boðskap jólanna vel er hún segir í jólakvæði sínu um jólaengilinn:

Hann kemur eins og forðum með friðarboðskap sinn,

hann flytja vil þér gleðina, jólaengilinn.

Hann hvíslar þér í eyra að frelsarinn sé fæddur,

hann flytur þér þann boðskap að vera skalt óhræddur.

Hann kemur með sinn boðskap í hreysi og í höll,

því hann fer jafnt um byggðir og snæviþakin fjöll.

Hann kemur og vill tendra þér kærleiks ljós í hjarta,

hann kemur til að hrekja brott raunamyrkrið svarta.

Og til þín, er nú grætur, hann boðskapinn sinn ber,

hann bendir á, að Frelsarinn sjálfur kominn er.

Og hann er allra vinur og hann á ótal ráðinn,

frá honum streymir gleðin og friðurinn og náðin.

Engillinn hans lítur nú inn til þín og mín,

því okkur vill hann flytja öll kærleiksorðin sín.

Og nú skulum við gleðjast og gleyma sárum hörmum,

því Guð oss býður skjólið í Jesú náðarörmum.

Það er ekkert að óttast.  Því er hátíð.  Ljósið er komið í heiminn.  Það eru jól í myrkrinu.  Barnið í jötunni gaf okkur þá mestu gjöf, ljós af ljósi í lífi okkar.  Það er ekkert að óttast.

Guð gefi okkur öllum áfram gleðileg jól og sönn.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda.  Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.  Amen.